Almenna bókafélagið
Reykjavík – 1965
Fimmti kapítuli
Næsta vor gerðist saga, sem virkilega var saga til næsta bæjar. Ræktunarfélagið í Firðinum fékk um sinn umráð yfir einum þeim stórvirkustu jarðyrkjutækjum, sem þekktust á Íslandi. Það þurfti að sjálfsögðu ekki lítinn lærdóm til að fara með slíkar maskínur, enda fylgdu þeim tveir spenglærðir meistarar. Og það var göldrum líkast, hverju þeir gátu áorkað í löndum Fjarðarbænda á örskömmum tíma.Ekki fengu allir að njóta vélana, sem vildu. Viðkvæðið var, að Sigmundur í Fjarðarbæ og aðrir ámóta stórbokkar hrifsuðu til sína allt, sem héti styrkur við landbúnaðinn. Jónatan í Ytridal neitaði þessu ekki, síður en svo. Samt setti hann von sína á stóru vélarnar. Og það jafnt þótt Ræktunarfélagið hefði ekki tekið Ytridalinn með í nýju ræktunaráætlunina. Ytridælingar voru víst búnir að fá meira en nóg í bili, að áliti framámanna. Þarna höfðu þeir veginn. Svo var komin talstöð í Bæ. Jónatan talaði í allar áttir eins og hann ók í allar áttir, þegar honum bauð svo við að horfa Þetta hét að vera í sambandi við þjóðlífið í öllum skilningi. En guð minn góður, það varð að vera framhald á framvindunni í Ytridal sem annars staðar. Stórátak, ekkert minna dugði. Meistararnir út í Ytridal með töframaskínurnar – já, ekkert minna!
Jónatan unni sér engrar hvíldar, vann að málinu nótt sem nýtan dag. Hann tók ráðamennina í Ræktunarfélaginu tali, einn og einn í senn. Allir voru þeir í bændastétt. Jónatan hafði þegar unnið tveim þeirra dyggilega sem dýralæknir. Við annan þeirra sagði hann:
– Hann Skjóni þinn er svolítið víxlaður á vinstra framfæti eftir meiðslin.
– Maður reynir að umbera það, var svarið. – Ég trúði því ekki, að þú kæmir honum á lappirnar aftur, svo ég þakka fyrir að hafa hann eins og hann er nú.
– Það má fá í hann betri gang, sagði Jónatan.
– Heldurðu það?
– Efast ekki um það. Þetta er uppáhalds reiðhesturinn þinn. Hann þarf að fá sérstaka meðferð. Ég skal bjarga þessu við.
Við annan ráðamann sagði Jónatan:
– Ber nokkuð á júgurbólgu í henni Huppu þinni?
Maðurinn hrökk ónotalega við og sagði:
– Þeim skratta! Nei, sem betur fer gerir hún ekki lengur vart við sig.
– Þá ertu heppinn, sagði Jónatan. – Svona getur verið þrálátt og tekið sig upp aftur og aftur. Þú veizt hvar mig er að finna, ef þú þarft á mér að halda.
Við aðra Ræktunarfélagsfrömuði talaði Jónatan í svipuðum dúr, þegar hann bað þá liðsinnis í sínum málum, og sagði jafnan að lokum:
– Ég er tilbúinn að gera ykkur allan þann greiða, sem ég má, og hvort heldur er á nóttu eða degi.
Þegar Jónatan þóttist nokkurn veginn viss með sigurinn í viðureigninni við Ræktunarfélagið, brá hann sér til gamans á fund Eyjólfs gamla Eyjólfssonar. Það var ævinlega stormandi ánægjulegt, fannst honum, að hitta gamla kónginn að máli. Sjónlaus sá hann – og heyrnarlaus heyrði hann það, sem hann vildi sjá og heyra. Enn sem fyrr var öll Fjarðardriftin á hans nafni. Ekkert hæft að gera, nema fyrst heyrðist í kónganefinu forna. Og ekki drundi óskemmtilega í þessu ágæta nefi, þegar karl sá, hvað Jónatan hafði meðferðis: fleyg af Ytridalsfjómanum. Nú var bæði ár og dagur síðan Jónatan hafði bugað slíku hnossgæti að Eyjólfi. Hann tók við tveim höndum, drakk mikinn í einum teyg, dæsti síðan lengi og hressilega. Jónatan sagði hýruglaður:
– Ég færi þér þetta, svo þú gætir drukkið mína velgengnisskál.
Þá sagði Eyjólfur:
– Það skal enginn ætla, Jónatan í Ytridal, að ég hafi nokkru sinni drukkið annað en mína eigin velgengnisskál, og svo er enn.
– Ég skil þetta eins og við á, Eyjólfur sæll . . . Jónatan hló upp á karlinn og bætti við. – Það veit ég, að þú rekur meirarana út eftir til mín með stórmaskínurnar.
Eyjólfur drakk Ytridalsrjómann, – svo sagði hann:
– Trúðu mér til, það stendur ekki steinn yfir steini í Ytridal að nokkrum árum liðnum.
Snöggvast datt brosið af Jónatan. Svo kom gleðin yfir hann á ný, og hann sagði:
– Illspá getur allt eins orðið góðspá.
Gamli Eyjólfur anzaði þessu engu. Hann starði í hug sinn um stund, var stjarfur og eins og víðs fjarri. Svo drakk hann dreggjarnar úr fleygnum og glotti með þessum orðum:
– Heldur vildi ég hafa svona glas með mér í gröfina en sálmabók.
– Sem betur fer þarf ég ekki að hugsa fyrir þeim rjómafleyg fyrst um sinn.
Jónatan mælti þessi orð heils hugar. En góð orð hafa enga stoð, þegar örlögin vilja annað. Síðla sumars var Eyjólfur allur. Hann varð bráðkvaddur í svefni. Í huganum lagði Jónatan rjómafleyginn í kistuna gamla Fjarðarkóngsins. Það varð að nægja. Annars gafst Jónatan tæpast tóm til að vera við útförina.
Meistararnir voru komnir að Bæ með töframaskínurnar.
Allt varð nýtt með komu þeirra. Sjálf næturkyrrðin þrungin nýjum ómum og hljómum. Herferðin gegn óræktinni í fullum gangi. Allt var á hreyfingu. Ekkert var eins stundinni lengur, þar sem meistarnir fóru yfir með vélar sínar. Jónatan girti stóra landspildu til ræktunar. Ragnar var heima um sinn og gekk að verki með föður sínum. Umbyltingin lét hann síður en svo ósnortinn. Barði kom hvergi nálægt þessu. Hann lét sig alveg vanta.
– Vélarnar gera allt, og yfir hverju er þá að hanga? sagði Agnes stutt í spuna. Svo birti yfir svip hennar, þegar á sannaðist, að full þörf var fyrir vinnu hennar í nýræktunarflögunum.
Meistararnir, Hrólfur og Valdi, héldu til í Bæ. Þeir voru liðlega tvítugir, þreklegir og vel að manni, Hrólfur þó öllu kraftalegri en Valdi. Báðir voru þeir afar hressilegir í bragði og virtust jafnóþreyttir að kvöldi og morgni. Jeppa höfðu þeir til eigin afnota og þutu eitthvað út í buskann að skemmta sér á hverju kvöldi. Oft fór Stella með þeim.
– Valdi er svo ægilega fyndinn og góður að svar fyrir sig, sagði hún.
Solla Karsten hafði ekki lengi sézt heima á Barði. Nú gekk hún þar eins og grár köttur; æi-nei, – svartur köttur, því kolsvört var hún á brún og brá. Já, nú kom hún heim og tók upp stöðugt næturgöltur með meisturunum.
– Þarna erum við sjálf lifandi komin, Agnes mín, værum við á þeirra aldri, sagði Jónatan.
Hún sagði ekkert. Hann hélt áfram eftir nokkra þögn:
– Ætli Stella sé alveg búin að gleyma Heimi?
Agnes þoldi önn fyrir Jónatan, þegar hann talaði svona, anzaði honum helzt engu, en nú sagði hún:
– Góði Jonni, þú talar eins og krakki um krakka. Um svona þýðir ekki að mala. Það verður, sem verða vill.
Hann smáhló. Fyrir stuttu kom Heimir að Bæ með Stellu. Heimir, – glaðlegi pilturinn með ljósa hárið og bláu augun. Og vék ekki frá Stellu, sá ekki sólina fyrir henni, sólin, hún var Stella, og engin önnur sól. Og nú lét stelpan svona. Flæktist út um öll foldarból með meisturunum og Sollu Karsten. Solla var Lísa lifandi komin, þegar Lísa var stelpa. Kannski hafði hún eitthvað frá Karsten líka. Kapteinn Karsten, – sá hlaut að hafa verið kræfur.
Birrrr! drundi í vélunum.
Meistarnir voru að. Þegar smástanz varð, gekk Jónatan til þeirra og sagði við Valda:
– Heyrðu, vinur, hefurðu tínt trúlofunarhringnum þínum?
Valda varð snögglitið á hægri hönd sér.
– Hringurinn hefur kannski sært þig, sagði Jónatan ósköp sakleysislega.
Valdi stakk upp í sig löngutöng hægri handar og saug fast.
– Þú ert með vitlausan fingur upp í þér, sagði Hrólfur og hló dátt.
– Hvað, ég marði mig smávegis, sagði Valdi. – Hringurinn, mér er alveg sama um hann, hann var alveg þýðingarlaus.
Jónatan:
– Þetta veit ég, ykkar hringir þýða ekki neitt, þótt þeir séu úr skíragulli.
Meistararnir kímdu hvor við öðrum, og Hrólfur sagði, um leið og hann setti vélina á hreyfingu:
– Það hleypur gantalegur tryllingur í stelpurnar, þegar maður setur upp svona plathringi.
O, þessar hamfarir: Jörðin titraði og kveinkaði sér undan átökum vélanna. Já, miklir meistarar voru þeir, Hrólfur og Valdi. Fóru samt ekki með öllu í kringum Jónatan. Ekkert var vísara en að þeir væru báðir harðgiftir í sínu heimahéraði. Svá áttu þeir skyndikærustur, hvar sem þeir komu, bráðkvikar og skemmtilegar stelpur. En Stella . . . Æ, Valdi skyldi gá að sér, – óvænt vonbrigði gátu orðið skrambi sár. Stella var vör um sig. Hún var enginn blindur kettlingur. Hún kunni að slá frá sér, ef þess þurfti með.
Jónatan kenndi ljúfra geðbrigða. Vélarnar þrumuðu, jörðin titraði. Hann fikraði sig hægt burtu, stefndi heima að Skál. Þar titraði ekki jörðin. Engar nýjar fréttir af Bárði gamla. Ekki hafði hann ennþá minnzt einu orði á veginn við Jónatan, hvað þá heldur jeppann eða talstöðina. Aldrei þurfti hann að nota þess konar apparat. Nú lét hann sem meistararnir væru ekki til. Að minnsta kosti kom hann ekki að Bæ.
Skálarbóndinn knúði hverfisteininn. Hann dró á með þeirri leikandi list, sem fyrst lærist, þegar maður er orðinn gamall. Svona vinnubrögð vöktu unað í brjósti Jónatans, og honum varð að orði.
– Það skal ég játa, Bárður, að á vissan hátt saknar maður þess gamla, þótt ekki tjói að halda í það, sem gengið hefur sér til húðar.
Bárður knúði steininn líkt og hann væri þarna einn. Augun skinu við ljáblaðinu, djúpt undan svörtum loðbrúnum.
Jónatan hló upp úr þögninni og sagði:
– Já, skrambakornið sem ég segi það ekki satt, maður saknar jafnvel þúfnaskrattanna, þegar maður sér þig skafa þær utan.
Bárður steig léttilega af hverfisteininum, rétti Jónatan höndina og sagði:
– Þú fyrirgefur, hvað ég er seinn til að heilsa þér, en deigt járn er seinbrýnt.
– Þarna erum við sammála, Bárður. Það er skelfing mikill seinagangur á öllu með gamla laginu. Og svo ég nefnið erindið: Ræktunarfélagsstjórinn vill gjarnan fá að heyra frá þér, hvort þú ætlir þér ekki einhver afnot af vélunum . . . Og bætti við, þegar Bárður anzaði engu: – Það megum við báðir vita, að svona tækifæri býðst ekki alveg á næstunni.
Bárður hló lítinn, svo sagði hann blátt áfram:
– Ég ætla mér ekki að keppa við ykkur, ungu mennina. Það er því heillavænlegast að vélarnar fari að Barði.
– Barðið, – það hefur enn ekkert verið ákveðið með Barðið, ekki það ég veit . . . Jónatan þagði andartak, svo dró niður í honum. – Hefur þú talað máli Geira, – ja, ég spyr bara svona?
– Mér skilst, að menn hafi gleymt þeim orðum, hafi þau einhver verið, sagði Bárður.
– Þeir hafa engu gleymt, Bárður. Hinu þykir þeim leitt að trúa, að ekkert verið gert í Skál.
Bárður svaraði þessu engu. Þeir kvöddust við svo búið. Bárður gekk ofan túnið, þangað sem orfið hans lá í slægjunni. En þarna kom Sigríður með hrífuna sína. Hún var ekki mikil fyrir mann að sjá: lítil og visnunarleg var hún. Samt var hún eins og Bárður. Sama var sinnið, samur var hugurinn. Og frísklegur var rómurinn þegar hún heilsaði Jónatan með þessum orðum:
– Vonandi líður öllum bærilega hjá þér, Jónatan?
– Já, þakka þér fyrir, Sigríður mín.
– Það er nú samt þessi dómadags hávaði í kringum ykkur.
– Það eru vélaranr, þær kunna betur við að láta heyra til sín.
Bros fór yfir skorpið andlit gömlu konunnar.
– Það er og, já, sagði hún. – Ójá, nú man ég það, að einu sinni í mínu ungdæmi var óvenjumikil hundaþvaga í Bæ. Þá heyrðust þessi óhljóð þaðan sýknt og heilagt, alveg eins og núna. Jæja, Jónatan góður, þú fyrirgefur gamalli kerlingu vitleysuna.
Jónatan hló og sagði eitthvað í glaðlegum tón við gömlu konuna, um leið og hann fór. Þau meintu hvorugt neitt misjafnt, Skálarhjónin, þóttist Jónatan vita – nú orðið. Gamli tíminn átti heima í Skál – og enginn annar tími. Það var öll sagan. Bárður leiddi nýja tímann hjá sér, líkt og hann væri ekki til. Nú jæja, er nokkuð til, fyrr en það hefur runnið manni í merg og blóð? . . . Jónatan staldraði við og hlustaði, þegar hann nálgaðist eigin landamerki. Alveg rétt hjá Sigríði í Skál, hugsaði hann. Já, víst var gelt og gjammað í Bæjarlandi. Unga fólkið hóf sönginn, þegar vélarnar þögnuðu, hló og kallaðist á. Valdi kallaði á Stellu, Hrólfur á Sollu. Jónatan horfði á nýræktina. Þaðan sem hann stóð, sá ekki út yfir flögin. Honum var sem svört moldin lykist um hann eins og ástríkt faðmlag. Og enn var unga fólkið að gantast. Nú vantaði ekkert nema Litla-Jonna. Hann hafði ekki sézt heima, síðan snemma í vor. Lísa sagði ýmist, að hann væri hjá frænku sinni í Firðinum eð systur sinni í Djúpafirði. Og stundum sagði Lísa:
– Ég veit ekkert um hann. Það er allt betra fyrir hann en að kúldast heima . . .
En nú átti Jónatan erindi fram að Barði. Þóttist hafa góðar fréttir að flytja í bæinn – og var þangað kominn eftir litla stund. Lísa þóttist ekkert heyra. En Geiri varð mjög glaður við tíðindin og sagði:
– Ég á þetta Bárði að þakka. Hefði hann ekki lagt mér liðsinni, yrði ekki hreyft við neinu hér á Barði.
Eftir stutta stund voru þau Jónatan og Lísa ein í stofunni. Lísa stóð við gluggann og sneri baki við Jónatan. Skyndilega sneri hún sér að honum og sagði blíðum rómi:
– Ég drep þig, Jonni, ef þú ert að ljúga þessu upp.
Þetta þótti honum gott að heyra og sagði:
– Þá skaltu bara kála mér strax, Lísa mín.
Hún gekk alveg að honum, feit og subbuleg, kankvísi og gáski í röddinni:
– Hvenær koma þeir hingað, strákarnir?
– Alveg á næstunni, það máttu reiða þig á.
– Eiga þeir að vera hér til húsa?
– Að sjálfsögðu, þú verður að hýsa þá, – fæða og klæða, eins og þar stendur.
– Ég hef nú aldrei heyrt það betra, Jonni. Hér er ekkert til að éta. Á ég að gefa þeim roð og ugga?
– Þér leggst eitthvað til.
– Þú segir það. En guð minn góður, hvernig allt er í kringum mann. Aumingja strákarnir flýja kofann strax fyrstu nóttina.
Þau hlógu bæði. Geiri kom inn í hláturinn. Og Lísa sagði ósköp gæðalega:
– Geiri minn, alltaf þarft þú að koma, þegar verst stendur á fyrir manni.
Geiri bara hló.
Og brátt var ekki lítið um að vera á Barði. Meistararnir voru komnir þangað með nýja tímann. Lísa, – augun í henni voru hreint alveg silfurskær, full af glaðbeittri glettni. Já, Jónatan lét ekkert fara fram hjá sér. Lísa strengdi sig svo kirfilega, að hún sýndist beinlínis grönn. Svo var hún til skiptis í beztu kjólunum sínum og málaði sig ekki ókræsilega. Og fleiri höfðu kannski opin augu en Jónatan. Hrólfur meistari glápti á Lísu, þegar Solla var af bæ. Og Geiri – nú var hann brattur og skalf þó. Jónatan hafði ekki séð hann brattari. Eitt sinn hvíslaði hann að Geira:
– Lísa býr vel að meisturunum, það má sjá minna.
Geiri hvíslaði á móti og skríkti við:
– Þetta er veikleiki kvenfólksins – að þurfa jafnan að hafa einhvern til að dá sig, glápa á sig, maður.
Lyftingin í Geira dugði honum til að verða sér úti um bíldruslu. Lísa hló og hló. Og Lísa hlassaði sér niður við stýrið og þóttist geta ekið. Hrólfur sat við hlið henni og forðaði slysum. Hróflur var svo liðlegur og hjálpsamur, einkum þau kvöld, sem Solla Karsten var hvergi nærri. Það var ekki Hrólfs sök, þótt Lísa gæti ekki lært að aka að gagni. Segin saga, að Lísa bramlaði trogið, ef hún hætti sér smávegis ein á því. Hrólfur gerði við. Geiri var snjall bílstjóri. Lísa valdi þann kostinn að hafa Geira við stýrðið, þegar Hrólfur var ekki viðlátinn. Hún þurfti oft að fara í Fjörðinn, síðan hún komst yfir kerruna, stundum daglega. Kom fyrir, að hún gleymdi að elda ofan í meistarana. Þeir létu það gott heita, einkum Hrólfur.
Svo var landbrotinu á Barði hætt í miðjum klíðum. Engir peningar til, var sagt á hærri stöðum. Meistararnir fengu skipun um að pakka niður hjá sér og halda til síns heima. Lísa bölvaði ráðamönnunum hátt og í hljóði. Enginn habítur í henni samt. Það átti að halda meisturunum kveðjuball í Firðinum. Lísa talaði ekki lítið um ballið. Hún sagði við Geira, að hann skyldi eiga sig á fæti, ef bíllinn gengi ekki eins og klukka balldaginn. Geiri var seigur. Hann kunni orðið að gera við flestar bilanir – og skalf ekki á meðan. Hann hafði ekki til einskis glápt á meistara Hrólf.
Meistaraballið var næsta laugardagskvöld. Jónatan og Agnes fóru til gleðinnar. Þau komu um miðjan dag í Fjörðinn. Jónatan hissaði sig sem snarast í Bjartmarsdressið og lakkskóna. Hann rakaði sig í snyrtiherberginu, kreisti úr ilmdollum framan í sig og í hárið. Svo ætlaði hann strax að rjúka á dyr, en rakst á Agnesi í forstofunni. Hún var að koma frá að verzla.
– Agnes, þetta líkar mér, þú ert bara klyfjuð pökkum, sagði hann.
Hún horfði á hann rannsóknaraugum. Hann flýtti sér að segja:
– Þú verður í nýjum rósakjól í kvöld, Agnes. Ég hlakka til að sjá þig.
– Þú ert kannski að hugsa um það núna?
– Já, það máttu reiða þig á. Ég hlakka til eins og ungur strákur, sem fer í fyrsta sinn á ball með kærustuna.
– Hvað ertu að fara – svona fínn?
Jónatan með breiðu brosi:
– Ég á smáerindi í hótelið, elskan mín, það er allt og sumt.
Agnes föstum rómi:
– Þér ætlar seint að leiðast buslugangurinn í kringum þessa Gunnhildi.
– Það er orðið langt síðan þú strokkaðir fyrstu smjörskökuna, Agnes mín, sagði hann. – En mér hefur jafnan síðan reynzt ábatasamt að vera bæði framleiðandi og seljandi, þegar því hefur orðið við komið.
Þetta skildi Agnes. Svona þurfti ekki að útskýra fyrir henni.
– En þú hefur ekkert að selja núna, maður, sagði hún.
Hann hikaði ekki agnarögn við svarið:
– Við eigum bráðfeitan kvígukálf í haganum, ólum hann á nýmjólk og undanrennu, þar til hann komst á græn grös. Hugsaðu þér hvítt og mjúkt kjötið. Ætli aðrir hafi upp á betra að bjóða?
Agnes hló.
Hann hraðaði sér fram hjá henni út á götuna. Gamla andaktin kom yfir hann, þegar hann nálgaðist hótelið. Hann hafði ekki séð drottninguna lengi. Nú fékk hann að sjá hana svo um munaði. Hann hitti hana eina í skrifstofunni. Hún var í hátíðarbúningi. Hafði hún klætt sig upp fyrir meistaraballið?
Framhald . . .
Í aðalsíðu