Óskar Aðalsteinn

Þeir brennandi brunnar

Skáldsaga

 

 

Unuhúsi
Garðastræti 15-17, Reykjavík, 1947

Copyright ©1947
All rights reserved


Tár


Það var myrkur í herberginu, en aðeins nokkur augnablik, svo iðuðu heiðhvítir geislar á þunnum gluggatjöldunum.

Stúlkan horfði á þetta um stund, síðan vék hún að glugganum, krækti honum upp og skyggndist út: Tungl óð í skýjum, lék biljónir af silfurperlum á firðinum, kastaði skjannhvítum geislum á svört fjöllin og á húsin á mölinni. Tunglið sýndist fara hratt yfir. Stundum óð það alveg fram úr skýjaþykkninu. Þá bálaði allt umhverfið í köldu skjannhvítu ljósi. Hin háu fjöll báðum megin fjarðarins, klædd hvítum snjóserk allt frá efstu brún og niður undir flæðarmál; húsin á mölinni voru hjúpuð dúnmjúkri mjöll, og hinir þröngu, krókóttu gangstígar þorpsins lágu nú djúpt grafnir undir þessu ullarmjúka mjallarbrimi.

En myrkrið skall yfir næstum jafnskjótt og það hvarf, og hinir hvítu geislar tóku aftur að leika sitt töfraspil.

Maður, einn síns liðs, tróð mhöllina niður við flæðarmálið. Þetta var dauði Gvendur.

Stúlkan sá manninum bregða fyrir. Hún tók samt ekki sérstaklega eftir honum. Það var þungur niður til hafsins. Hún var að hlusta á þennan nið. Það var eins og að koma út í sólskin. Kannski fannst henni þetta af því, að það var allt svo gott. Hér gat hún verið alveg útaf fyrir sig með barnið. Hér þekkti hún enga nema gömlu kaupmannshjónin, sem hún vann hjá. Hingað hafði hún komið frá Reykjavík fyrir nokkrum vikum síðan. Héðan ætlaði hún aldrei að fara. Hún var viss um, að það væri ekki til betri staður í heiminum.

Um stund hafði hún ekki gefið vöggunni auga. Hún hafði verið að geyma sér það. Nú gat hún ekki geymt sér það lengur. Eftir litla stund átti barnið að fá brjóstið.

Barnið hafði opin augun, kyrr, steingrá augu. Þetta var hin alfullkomna mynd sakleysisins.

– Egill, hvíslaði móðirin. Barnið hvíldi við barm hennar og nærðist. Nú kom þetta dásamlega. Hvað? Kannski vissi maður ekki hvað það var. Það skipti heldur engu máli: Dásamlegt, – það var allt.

Tárið.

Það titraði á hvarmi hennar.

Hún söng um tárið.

Mamma hafði kennt henni þetta ljóð. Þá var stúlkan lítil telpa. Hún hafði lært það í hugsunarleysi – og gleymt því. Nú var það eitt með hinu dásamlega:

Þú sæla heimsins svalalind,

ó, silfurskæra tár . . .

Meðan hún söng, þótti henni sem hún væri að segja drengnum sínum frá öllu, er þau varðaði – þau tvö.:

Hjarta, það var svo skrítið, þegar mamma sá þig í fyrsta sinn. Henni stóð víst alveg á sama um þig þá. Seinna varstu svo látinn í rúmið til mömmu. Þá fór mamma að gráta. Henni fannst hún vera svo skelfilega mikill vesalingur. En þú hjálpaðir mömmu. Já, næstum strax varð allt svo gott. Þá áttir þú engan afa og enga ömmu. Svo komum við hingað. Og hér eignaðist þú bæði afa og ömmu. Það eru gömlu hjónin, sem mamma vinnur hjá. Þau eiga ekkert barn. Þau hafa heldur aldrei haft hjá sér barn fyrr en nú. Þau vilja allt fyrir okkur gera. Og við ætlum aldrei að fara frá þeim. Amma heitir Matthildur og afi heitir Gísli. Þau komu bæði niður á bryggju til að taka á móti okkur. Amma var í víðri loðskinnskápu og hafði hatt á höfði, skreyttan stórum marglitum fjöðrum. Afi var á fallegum, svörtum klæðisfrakka, og hann var með stærðar skinnhúfu á höfðinu. Svo gekk hann við silfurbúinn stokk. Afi fékk þennan stokk, þegar hann var sextugur, vinur hans, gullsmiðurinn, hafði gefið honum stokkinn í afmælisgjöf.

– Með leyfi, heitið þér Kristrún Benediktsdóttir? . . .


Í aðalsíðu