Óskar Aðalsteinn

Þeir brennandi brunnar

Skáldsaga

 

 

Unuhúsi
Garðastræti 15-17, Reykjavík, 1947

Copyright ©1947
All rights reserved


Hrollaheimar


K ristrún Benediktsdóttir: Fyrir skömmu kom hún til Reykjavíkur með áætlunarbíl vestan úr Dölum.

Hún hafði ekki komið til borgarinnar nema einu sinni áður. Þá var hún 14 ára. Hún hafði verið um kyrrt í nokkra daga og næstum strax kynnzt stúlku, sem var á svipuðu reki og hún sjálf. Á kvöldin létu þær berast með fólksstraumnum um göturnar í miðbænum. Þær gengu í hring, alltaf sama hringinn, stundum klukkutíma eftir klukkutíma.

Þetta var stórkostlegt.

Í fyrstunni þóttist hún aldrei sjá sömu manneskjunni bregða fyrir aftur, og hún hafði haldið, að hún yrði ekki að neinu innan um alla þessa fólksmergð. Svo varð þetta alveg öfugt. Hún hafði einmitt fyrst lært að finna dálítið til sín, eftir að hún kom til Reykjavíkur. Já, fljótlega fannst henni, að flest allir sem urðu á vegi hennar, tækju eftir henni, sérstaklega ungu mennirnir. Og hún þóttist sjá það á þeim, að þeim þætti meira en lítið til hennar koma. Og það vissi guð, að hún gæti haldið áfram að ganga svona alla nóttina án þess að verða leið á því eða finna til þreytu.

Stundum gengu þær mjög hægt, þorðu ekki að segja neitt lengi vel, varla að þær þyrðu að draga andann.

– Þetta eru þeir, hvíslaði loks sú reykvíska.

– Við tölum ekki við þá, anzaði aðkomustúlkan.

– Mikið eru þeir vitlausir, hvíslaði sú reykvíska.

– Halló, stelpur?

Þær stönzuðu.


Í aðalsíðu