Skuggsjá
Alþýðuprentsmiðjan h.f. 1971
Fyrsti kapítuli
1
Edda –Ég vil gefa henni skærustu stjörnuna á næturhimninum. Og hvað er það sem ungur maður getur ekki gert fyrir stúlkuna sína. Ég er líka tæplega með sjálfum mér, ef ég sé hana ekki daglega. Hún vinnur í París. Ég vil sjá hana núna og hleyp úr smíðavinnunni. Svo sé ég bara Bíu, sem líka afgreiðir í París. Hún er ófríð, en lagleg samt, lipur og glaðleg.
– Hvar er Edda? spyr ég.
– Hó, Hringur, syngur í Bíu. – Ég skal ekki draga þig á svarinu. Hún er í sparisjóðnum, að hjálpa Steindóri með bókhaldið.
Ég fer.
Himinn og jörð ganga úr skorðum í hvert sinn sem ég verð af að sjá Eddu.
Hún og ég.
Þetta er söngur. Og byrjaði að hljóma fyrir stuttu. Mörg spor eigum við saman – og bros og orð sem koma við hjartað.
Ó, Parísarbakdyr.
Við höfum staðið þar í öllum veðrum og gleymt að kveðjast. Og stundum hefur hún hætt sér með mér upp alla stigana í Pétursborg. Í fyrsta sinn, sem hún kemur að herbergisdyrum mínum, segir hún:
– Ég ætla bara . . .
– Nú erum við alveg komin, gríp ég fram í fyrir henni.
– Já, en ég ætla bara rétt að líta inn.
Það er koldimm haustnótt, nóttin okkar; ég hvísla:
– Myrkrið er undursamlegt ljós.
– Ég skil mig ekki, svarar hún í gleði sinni.
– Það er bezti skilningurinn, hvísla ég.
Stóri-Björn húsasmiður skipar mér að halda mig betur að verki. Ég svara í glaðlegum tón. Það er líka liðið fast að hádegi. Ég er í mötuneyti á Norðurpólnum. Þaðan fer ég beint í París.
Edda.
Hún er verzlunarmær núna og dálítið til með sig. Tyllir sér á tá, af því hún er heldur smávaxin. Og hún er svo smáfríð og hárið smálokkað og kastaníubrúnt. Og stundum koma svo fínofnir fegurðardrættir í andlit henni, að ég kenni til. Ég fæ verk fyrir brjóstið þegar hún kemur til mín og segir:
– Ertu búinn að líta yfir hlutverkið þitt?
– Ég hef aldrei komið á leiksvið. Svo velur þú mig í þennan herra Hans, vonlausan angurgapa.
– Ég bind miklar vonir við þig sem herra Hans. Leikurinn er bráðskemmtilegur og nafnið ágætt, Ástarþjófurinn.
Hún hlær. Hvað hún kvelur mig yndislega. Það heyrist á rödd minni:
– Við höfum ekki verið saman í mörg kvöld.
– Það er mikið að gera hér í París, segir hún þægilegum rómi. – Steindór ætlaði ekki að leyfa mér að vara með í leiknum. Gerði það að lokum vegna þess að við leikum til ágóða fyrir nýja sjúkrahúsið. Það vita allir, að þetta nýja stórhýsi hefði ekki komist undir þak í haust, nema af því Bolli læknir dreif það í gegn. Það er nú meiri dugnaðurinn í þeim manni.
Ég er á öðru bylgjusviði en hún og endurtek.
– Við höfum ekki verið saman lengi.
Hún svarar ekki, en segir:
– Það á að ljúka æfingunum sem fyrst.
Steindór í París.
Hann kemur fram í skrifstofudyrnar. Meðalmaður á vöxt, gervilegur, en svifaseinn í hreyfingum. Djúpir drættir eru komnir í breitt andlitið. Hann horfir á hvorugt okkar, en segir:
– Edda, ég hef verk að vinna fyrir þig.
Hún í gamantón:
– Þú geriðir mér bilt við, Steindór, með þessum digra karlarómi.
Steindór fer þegjandi inn í skrifstofuna. Að vonum lítur hann á okkur Eddu eins og krakka. Við erum bæði nítján ára, en hann kominn á fjórða tuginn.
– Jæja, skyldan kallar . . . Með þessum orðum fer Edda inn til Steindórs.
Svo er Bía undir eins komin til mín, svona líka falleg þó hún sé ljót.
– Nú eru það ensku verzlunarbréfin, máttu vita. Edda er næstum of góð fyrir þig. Þarna flaug hún í gegnum verzlunarskólann á tveim vetrum, með hjálp Silvu læknisfrúar, að sjálfsögðu. Svo er hún strax orðin allt í öllu hér í París.
– Auðvitað verður þú í Ástarþjófinum, Bía, og Helgi kennari. Hann er leikstjórinn, og hann er alls staðar þar sem þú ert.
– Það er gamall vani. Og hann er oftast með í leiksýningum. Frú Silva ætlaði að hjálpa okkur með leikstjórnina, en getur það ekki sökum heilsuleysis. Ég vona að Helgi spjari sig . . . Hún hlær. – Þú verður smávegis skotinn í mér á fjölunum. Það er betra en ekkert.
Nú fjölgar í París. Ég fer.
Þetta kvöld byrjar ástarþjófurinn.
Og það er ástarþjófnaður kvöld eftir kvöld. Herra Hans er sá eini í þessu leikspili, sem þjáist, en er ekki að leika sér. Hinar persónurnar gera ekki annað en skemmta sér leikinn á enda.
Kona herra Hans, frú Thea – Edda, er hin sígilda, sviksama eiginkona skopleikarans, ráðkæn og fljót í vendingum, bjargar sér bezt þegar vandinn er mestur. Ég dáist að því, hversu fljótt Edda áttar sig á Theu og hvað hún getur verið útsmoginn . . . Max læknir – Helgi kennari, er friðillinn, margreyndur kvennaflagari, glaðlegur og háttvís í framkomu . . . Pía – Bía, er í hlutverki hinnar ómissandi stofustúlku. Flögrandi fiðrildi á þönum eftir ævintýrum. Og það eru margar aukapersónur í leiknum, sem magna gleðilætin.
Hvar er Edda?
Við fylgjumst ekki að eftir æfingar. Hún slæst í hópinn með hinum stúlkunum. En í kvöld sýni ég snarræði. Kræki í Eddu með lagni – út úr kvennafansinum. Allt í einu erum við ein, og ég segi:
– Þetta er fallegt kvöld. Tilvalið að fá sér skemmtigöngu.
– Ég þakka gott boð, anzar hún. – Þarf að vinna í skrifstofunni vegna útgerðarinnar.
– Láttu það eiga sig. Sjáðu stjörnurnar. Sjáðu hvíta fannbreiðuna. Við skulum ganga í þessu hvíta og gullna ljósi. Okkur gefst eitthvað undursamlegt, eitthvað sem aðeins við tvö getum átt.
Hún horfir á mig eins og ung, hamingjusöm stúlka horfir á piltinn sinn, en segir:
– Það er þér líkt að tala svona . . . Hún gengur í átt til Parísar.
– Þetta er ekki rétta leiðin, svara ég. – Þú ert að villast.
– Alls ekki. Annars sé ég ekki eftir vinnunni.
– Hvað er það þá?
– Ég veit það ekki.
– Jú, þú veizt það.
– Nei, ég veit það ekki. Nema við erum of ung eða of gömul til að lesa í stjörnurnar. Hefur þú ekki sagt þetta við mig?
– Getur verið, en þá hefur legið illa á mér . . . Ég legg arminn yfir herðar henni. – Þá hef ég ekki haldið þér fast upp að mér eins og núna. Við göngum langt burt, út á sporlausa fannbreiðuna. Þar verðum við alein og hlustum á óminn frá stjörnuborgunum.
Hún svarar ekki, jú, augu hennar brosa, og ég segi:
– Edda, ég er að tala um gleði okkar.
Hún býður góða nótt og hverfur inn í París.
Það skyggir ekki í huga mínum. Guð veit það, ég veit það, að hún er að koma til mín þó hún fari burt.
2
Hans – herra Hans er vellríkur erfingi. En auðurinn megnar ekki að gera honum lífið bærilegt. Tvær plágur herja hann jöfnum höndum, afbrýðisemin og gigtarflogin. Ef einhver er hjálparþurfi, þá er þessi mannvera. Ef einhver getur staðið á eigin fótum, þá þessi sama mannvera. Er slíkt mannfyrirbrigði til?Ójú, allt er til.
Það sem gerir Hans ógleymanlegan er barnsleg einlægni hans og fullkomið skilningsleysi gagnvart vonzku heimsins. Sjálfur á hann enga grimmd á móti. Hamslaus ótti og viðkvæm vongleði vegast á í huga hans leikinn á enda.
Grínleikur.
Samt er herra Hans orðinn mér nátengdari en nokkur annar. Edda talar ekki við mig öðruvísi en frú Thea.
Nú er frumsýningin að byrja.
Salurinn troðfullur af eftirvæntingarfullum áhorfendum. Leikararnir hafa klæðzt gervum sínum. Herra Hans er nauðasköllóttur, með loðnar, upptypptar augabrúnir, eplaroða í kinnum og brennivínsnef, klæddur lafafrakka og gráköflóttum buxum.
Fortjaldinu er lyft.
Hans (hann er einn á sviðinu og segir fram í salinn): Konan mín er guðdómleg vera (ætlar að lyfta hægri handleggnum, en fær gigtarkast og emjar).
Hlátur í salnum.
Hans: Æi, gigtin . . . gigtin. Ég ætlaði að sverja með uppréttri hendi, að konan mín hefði aldrei verið mér ótrú. Og ég skal . . . ég skal sverja (lyftir vinstri handleggnum með harmkvælum). Já, sjáið þið þessa uppréttu hönd. Hún titrar. Hún er ófölsk. Hún ber sannleikanum vitni. Ég sver við allt sem mér er heilagt, að konan mín . . .
Pía (kemur inn dansandi í spori og lýkur við setninguna fyrir Hans): . . . er í baði.
Allir hlæja í kór í salnum.
Hans: Bað . . . núna, á þessum tíma dags?
Pía: Náðugri frúnni þóknaðist að fara í bað.
Hans (glápir á Píu með barnslegum furðusvip): Bað . . . bað . . . er klukkan ekki tvö að degi til?
Pía: Nákvæmlega tvö að degi til, herra minn.
Hans: Bað . . . af hverju ertu að ljúga þessu að mér, Pía? (Kreppir hnefana að Píu). Konan mín – Max læknir.
Pía (uppmálað sakleysið): Max læknir kemur eins og venjulega, klukkan fjögur.
Stöðugur hlátrakliður í salnum.
Hans: Max læknir er stundvís. Það er hræðilega stundvís læknir, sem kemur tveim tímum of fljótt. Hann er núna hjá konunni minni. Hann spyr hana út úr um heilsufar hennar. Hún hefur aldrei kennt sér meins. Hann . . . hann er að fletta konuna mína klæðum.
Áhorfendur öskra af hlátri.
Tíminn er ekki til lengur. Sami hræðilegi, guðdómlegi skjálftinn gagntekur mig leikinn á enda.
(Hans hrindir upp hurðinni vinstra megin. Thea og Max standa í faðmlögum við stóran glugga á baksviðinu. Á augabragði hverfur Max á bak við þykk gluggatjöldin).
Áhorfendur veina af hlátri.
Hans (grípur um kverkar sér, segir með andþrengslum): Ég sá hann í örmum þínum. Ég hangi í snörunni. Ó, Drottinn minn, hann hefur hengt mig!
Thea (ísmeygilega): Hver?
Hans: Ó, hversu oft er hann ekki búinn að hengja mig!
Thea (sviptir tjöldunum frá glugganum): Hér er enginn maður. Þú mundir hafa heyrt marrið í glugganum, hefði einhver opnað hann. Þú ert farinn að sjá þennan mann, þó hann sé hvergi nálægur. Ég krefst þess, að þú látir sálgreina þig.
Hans: Ónei, elskan mín. Þú hefur þegar læknað mig. Ég ligg andvaka á nóttunni og hugsa um þig. Ég ásaka sjálfan mig harðlega fyrir, hvernig ég kem fram við þig.
Thea (lokkandi): En ef það skyldi nú vera einhver annar en Max læknir.
Hans (yfirkominn): Hlífðu mér. Dragðu mig ekki sundur og saman í háði. Murkaðu ekki úr mér líftóruna.
Thea: Finnst þér þú eigir betra skilið?
Hans: Nei-nei, en hjarta þitt er svo stórt.
Thea (blíðróma): Nú hugsar þú ekki lengur um Max, heldur þennan annan.
Hans: Já-já, þessi annar. Nú hugsa ég um hann, þó hann sé ekki til. Af hverju fórstu að finna upp á þessu? Ég var orðinn svo hamingjusamur. Ég elska þig, Edda.
Andartak finnst mér ég rjúfa leikinn með þessu hrópi. Edda, sagði ég. Þetta fer fram hjá öllum nema mér og henni. Úr svip hennar les ég ásökun, sem á ekki skylt við leik. Andartak talar hugur hennar beint til mín og segir:
– Kallaðu mig ekki Eddu. Þú ert viti þínu fjær, ef þú gerir það aftur. Við yrðum hrópuð niður og höfð að háði og spotti.
Undir eins gleymir hún þessu, við bæði. Hún er aftur frú Thea – ég herra Hans. Við nálgumst óðfluga brennidepil grínleiksins. Leikurinn fer ekki lengur fram á leiksviðinu einu saman. Það er leikið frammi í sal, allt fram að útidyrum. Allir eru með í leiknum. Allt er leikur. Svo brýzt fram mikið lófaklapp, kemur í löngum lotum aftur og aftur.
3
Leikur – leiknum er lokið. Tjaldið er fallið í síðasta sinn eftir síendurtekin framíköll. Það verður svart af fólki í kringum mig á leiksviðinu. Framréttar hendur. Ennþá er fólkið að þakka mér fyrir herra Hans og leiktjöldin, þau eru mitt verk. En nú vil ég losna við hans-gervið og fara til Eddu.Ég kemst burt fyrr en ég þorði að vona. Edda er þó farin á undan mér. Ég flýti mér heim í París, hleyp þar upp alla stiga. Edda hefur herbergi á þakhæðinni. Ég hef ekki fyrr gerzt svo djarfur að heimsækja hana. Nú get ég ekki beðið eina mínútu og hrindi upp hurðinni án þess að berja að dyrum.
Edda.
Hún dregur sokk á hægri fót sér – alveg upp. Lætur sér ekki bregða þó ég komi, en segir glaðlega:
– Ég hélt þetta væri Bía, hún hefur herbergi hérna við hliðina.
Edda stendur á fætur. Brosið horfið úr svip henni. Ég svara duldri spurn hennar þessum orðum:
– Ég gat ekki annað en komið til þín.
Hún horfir fram hjá mér og segir:
– Ég er að fara í brúðkaupsveizlu.
– Brúðkaupsveizlu? hef ég upp eftir henni.
– Já, Þorsteinn frændi minn og Helga Brandsdóttir giftu sig í dag.
– Kemurðu ekki nokkuð seint í veizluna?
– Ekki svo mjög. Nóg er nóttin . . . Þorsteinn, það er maður sem kann að koma sér áfram, vélaverkstæðið hans gengur sérstaklega vel . . . Hún festi á mig augun, röddin kólnar. – Við tvö eigum ekkert, ekki neitt.
Augnaráð hennar er óbreytt, en ég horfi á móti og svara:
– Við eigum okkur sjálf, og allt annað kemur af sjálfu sér.
– Nei, við skulum ekki spá í stjörnurnar núna, Hringur . . . Hún hlær smálega. – En mér er ljúft að viðurkenna leikhæfileika þína. Mér þykir gaman að leika á móti þér.
– Ég er enginn leikari. Við tölum ekki saman upp úr einhverjum leikhlutverkum.
– Ekki það . . . ? Ekki að tala eins og leikarar. Hvað hefur þú sagt við mig annað en það, sem minnir á leik?
– Ég hef komið fram við þig eins og ég er.
– Þú hefur aldrei sagt orð um sjálfan þig í mín eyru. Það litla, sem ég veit um þig og þína, hef ég frá móður minni.
Hún stingur mig djúpt með þessum orðum. Fátt er mér fjær skapi en að líta aftur. Faðir minn dó vorið eftir að ég fermdist. Mamma seldi húsið okkar ári seinna. Peningarnir runnu allir til mín. Móðir mín sendi mig í tveggja vetra héraðsskóla. Sjálf gerðist hún sauma- og þvottakona í sjúkrahúsinu. Þar lézt hún fyrir tveim árum. Ó, hversu hræðilega innantóm verða ekki orðin, þegar maður vill ekkert segja . . .
– Nú ertu þögull, segir Edda.
– Alls ekki. Mér finnst ekki að ég þurfi að spyrja þig um neitt sem er liðið.
Þögn.
Hvað er að gerast? Hvernig erum við? Af hverju störum við hvort á annað? Hún segir:
– Ég verð að biðja þig að koma ekki aftur.
– Er þetta ekki þitt herbergi?
– Að vísu. En Þorkatla, móðir Steindórs, er hrein plága á þeim sem búa í húsinu?
– Hefur hún móðgað þig?
– Ég læt sem hún sé ekki til. En ég ætla ekki að gefa henni höggstað á mér.
– Ég kem ekki oftar. Þú þarft ekki að óttast það. Hvers vegna fórstu að heiman?
Það blossar upp í rödd hennar eitthvað, sem ég veit ekki hvað er.
– Við mamma eigum ekki skap saman. Þetta herbergi var laust í haust, þegar ég byrjaði að vinna hjá Steindóri. Ég fékk það með góðum kjörum . . . Jæja, nú verð ég að biðja þig að fara.
– Getum við ekki orðið samferða?
– Ég þarf að hafa kjólaskipti. Vertu sæll.
Ég kinka kolli og snarast á dyr. Æi, ég er alltof viðkvæmur fyrir smámunum. Mér dettur í hug að fara aftur inn til hennar. Þá heyri ég söng. Bía er að syngja. Hún er sísyngjandi. Af hverju ekki að banka upp á hjá Bíu. Ég geri það.
– Halló, syngur hún.
Bía er líka að hafa sig til – grönn og gneistandi af lífshungri. Gæti allt eins verið Pía, þó hún segi:
– Þú ferð dyravillt. Nú lýg ég ekki að þér eins og í Þjófinum.
– Jú, þú lýgur ósjálfrátt, Bía mín. Edda er sama sem komin í brúðkaupsveizluna.
Bía talar í gegnum hálfgreitt hárið.
– Og hún er líka sama sem gengin í brúðarsængina með þér.
– Hefur hún sagt það við þig?
– Oft og mörgum sinnum. En ég hef ekki beðið hana að sverja slíka eiða í mín eyru.
– Maður þarf að þola sitthvað af vinum sínum, Bía mín.
Bía bítur í óþægan hárlokk, lygnir aftur augunum og segir í hláturrómi:
– Hún verður galin, ef þú segir henni þetta eftir mér.
Helgi kennari, hann kemur inn í þessu og er leikandi léttur í máli:
– Hvað er þetta, stelpa, ekki ennþá komin í ballkjólinn? Þeir loka eftir hálftíma.
Bía:
– Þú veizt, að ég læt ekki loka mig úti, þegar ég ætla á ball.
Helgi snýr sér að mér. Hann er allt of langleitur, þá sjaldan hann gleymir að brosa, og allt of útlimalangur, þá sjaldan hann gleymir að hreyfa sig. En hann er síbrosandi og á sífelldri hreyfingu. Nú skeiðar hann frammi fyrir mér og segir:
– Þessi Hans þinn, í kvöld langaði mig til að knékrjúpa honum. Mér varð allt í einu ljóst, að með leik þínum klæðir þú vesaldóm karlmannsins purpurakápu hetjunnar.
Bía verður fyrir svörum:
– Helga þykir fjandi gaman að stela Eddu frá þér á fjölunum. Lengra nær það ekki hjá honum ennþá.
Helgi setur upp breitt leyndardómsbros.
– Hvað er nú? spyr ég.
Bía:
– Taktu ekki mark á honum. Hann þykist alltaf luma á einhverju gómsætu. En þegar það loksins kemur, þá er það ekki neitt.
Helgi er orðinn bústinn í andliti af brosi. Hann smjattar á orðunum:
– Steindór í París er nýfarinn suður að festa ráð sitt.
Smellur.
Bía rekur Helga kröftugan kinnhest. Hún er kafrjóð, hún er öskuvond.
– Ég trúði þér fyrir þessu, þusar hún. – Þú lofaðir að þegja. Ég komst að þessu fyrir tilviljun. Þú mátt vita að Þorkatla kennir mér um, ef slúðrað verður um Steindór.
Helgi strýkur sér fagurlega um vangann og segir með kátínubrag:
– Steindór kemur fljótlega heim með sína heittelskuðu. Hún heitir Sigþrúður, forrík kaupkona, eitthvað á milli fertugs og fimmtugs. Ekki umtalsverður aldur á hjónaefnum. Það er samt skiljanlegt að Bía sé grimm. Hún veit, að Þorkatla kærir sig ekki um að hafa tvær blómarósir í húsinu.
Nú er Bía kát og segir hlæjandi rómi: – Þetta er allt í sómanum. Ég flyt inn á Helga og Edda inn á Hring.
Við hlægjum. Svo er farið á ball. Ég ætla ekki á ball. Samt fer ég.
Dísir draum minna - framhald
Í aðalsíðu