Skuggsjá
1969
Fyrsti kapítuli
1
Trúlofun –Um þetta snýst hugur minn líkt og vígahnöttur, sem varpar frá sér marglitum logastungum. Það er þó ekki ég, stráklingurinn, sem ætla að opinbera. Eldri bróðir minn, Þórir, þreytir leikinn. Ég veit ekki með vissu, hver sú útvalda er. Þórir segir ekki neitt, foreldrar mínir og Mundi bróðir segja ekki neitt. En iðulega koma konur í heimsókn, helzt barnmargar konur, sem mamma saumar fyrir. Þessar konur hvíslast á um Þóristrúlofunina, nefna tvö nöfn:
Anna í Rómaborg – Anna í Pétursborg.
Tvær Önnur. Hver skilur svona tal? . . . Loksins kemur laugardagur. Þórir er í landi, en hann er nýorðinn stýrimaður á Gissuri hvíta. Og nú grunar mig að dragi til úrslita í meyjarmálunum. Þórir býr sig uppá um nónleytið og hverfur að heiman. Mamma hefur prýtt allt innan dyra líkt og fyrir stórhátíð. Hengilampinn í stofunni með sínu rósaflúri úr kopar og breiðum hvítum kúpli, er nýfægður og gljáandi.
Önnurnar tvær. Það er víst lítandi á þær, eins og sagt er. Þórir býður þeim báðum á böll. Og hann dansar hnífjafnt við þær báðar. Það þarf ekki að þýða, að Þórir sé hálfvolgur í ástamálum. Það þarf ekki að þýða neitt sérstakt. Hann sézt tæplega heima; hefur ekki sagt mér sögu lengi, annar eins sagnasjór og hann er . . . Ég er mikið á ferðinni núna, fæ helzt hvergi stöðvað mig. Í þessu lít ég inn í stofuna.
Þar er Anna í Pétursborg.
Þetta gerir mér gramt í geði. Þessi Anna . . . , nei, því skal ég aldrei trúa á Þóri. Anna spyr mig brosglöð, hvort mér finnist nýi kjóllinn hennar ekki fallegur? Hún er að máta nýjan kjól. Ég tauta einhver hrósyrði. Svo fer Anna. Nú erum við mamma ein. Ég sé hana í huganum, þó ég horfi ekki á hana; grannan og fínlegan vöxtinn, hægar mjúkar hreyfingarnar, svört björt augun – og veit, að hún sér jafnan í hug mér. Það þykir mér gott, líka núna, og segi blátt áfram.
– Anna í Bjarnaborg, nei, mamma, það er ekki hún.
– Hringur . . . Mamma nefnir nafnið mitt og hlær smálega.
Æjá, ég er svo lítill fyrir mér í Sjafnarmálum. Mér léttir við glettni móður minnar, verð allur svo léttur og segi:
– Nú tek ég flesta nýja kjóla fyrir trúlofunarkjóla.
Mamma handfjatlar fínlegt efni á saumaborðinu sínu og segir:
– Vertu ekki að grufla út í þetta, það ruglar þig í höfðinu.
– Já, mamma. En hefur þú líka saumað trúlofunarkjól fyrir Önnu í Rómaborg?
– Hún vinnur á klæðskeraverkstæðinu, segir mamma. – Hún verður ekki í neinum vandræðum með trúlofunarkjólinn sinn.
Ég sendist á dyr.
Það er kafald . . . Af hverju er ég ótuktarlegur við Önnu í Pétursborg? Ég þekki hana ekkert. Af hverju ef ég dálæti á Önnu í Rómaborg? Ég þekki hana heldur ekki neitt. Eins og ég reyni að svara svona spurningum. Ég er glaður. Þá er ég bara tilfinningin í brjóstinu, eins og þegar ég er dapur . . . Kafaldið – hvað það er mikið flug í þessu kafaldi. Vetur að ganga í garð. Alveg nýtt að vera úti í svona miklu kafaldi. Samt fer ég strax heim aftur, líkt og eitthvað sérstakt bíði mín þar. Fyrst gríp ég í tómt. Engin sála í eldhúsinu eða stofunni. Kannski er einhver uppi. Bræðraherbergið er á fremra loftinu. Ég deili innra loftinu með foreldrum mínum. Pabbi smíðaði húsið þegar hann festi ráð sitt. Í miklum veðrum gengur særokið yfir húsið, en ymur hljóðlega í viðum þess . . . Ég horfi á ljóstýru eldhúslampans, sem dregið hefur verið niður í. Mér finnst húsið vefjast um mig eins og tryggt faðmlag. Ég er kyrr litla stund, svo fer ég upp á fremra loftið.
Þórir.
Hann situr sparibúinn á rúminu sínu. Við yrðumst á. Ég tek lítið eftir orðum okkar. Þórir –, hjartað í honum titrar hægt. Ég finn þetta örugglega. Svona titringur, ég vissi ekki að hann væri til – og fæ tár í augun. Þessi titringur. Að titra svona hægt. Ef hjartað í mér titraði svona hægt. Bara andartak. Það hlýtur að vera hamingjan mesta . . . Nú heyrist gamalkunn rödd í eldhúsinu, og ég hleyp niður stigann.
Dóra í Krók er komin.
Ég hef séð Dóru taka margs konar hamskiptum. Hún getur verið tröllsleg og allt þar á milli. Stundum fær hún málæðisköst. Þá ber hún slúðursögur hús úr húsi. Munnurinn á henni skekkist í málæðinu, hún mjókkar öll og gengur í sjálfa sig. Venjulega er Dóra meðalkvenmaður á vöxt og heldur fáskiptin, þung á svip og þung í vöfum. Nú er Dóra kvik og rennileg og íbyggin. Hún er með blóm. Það eru rósir og önnur skrautblóm. Dóra réttir mömmu nokkur blóm í senn – og ískrar glaðlega í henni. Mamma raðar blómunum jafnharðan í skál á borðinu. Þegar allt er til tínt verður Dóru að orði:
– Ekki stal ég þeim. Það má víst finna rétta ilminn af þeim, Árný mín góð.
– Þú hefur fengið þau hjá Sigrúnu í Hebron, segir mamma.
– Rétt er. Og sú var ekki smágjöful á dýrðina. Líka af nógu að taka í blómahöllinni Hebron . . . Dóra lækkaði sig. – O, Sigrún vissi til hvers ég ætlaði blómin. Gott ef blómálfarnir hafa ekki hvíslað því að henni . . . Dóra hækkar sig. – Og hvar er sjálfur hamingjuhrólfurinn? Hér eru blóm til hans frá ónefndri heilladís. Ég skora á hann að gefa sig fram, ef hann heyrir til mín og þorir að sýna sig.
Þórir lætur ekki brýna sig lengi. Hann kemur strax niður, grannur og beinvaxinn, fjaðurmagnaður í hreyfingum. Dóra lækkar og breikkar nokkuð við komu Þóris. Röddin sækir í sig dýpri tón þegar hún segir:
– Nú ertu ekki í rosabullum eða sjóstakk, Þórir Sverrisson, ekki aldeilis. En loksins komstu þér að því að velja réttu Önnuna.
Anna, segir Dóra bara. Af hverju ekki líka – í Róm eða Pétursborg? Það eru lífleg hughrif og orðaskipti í kringum mig. Þórir segir:
– Þú ert stríðskempa, Dóra í Krók. Ég á þér dýra skuld að gjalda. Og ekki bara þessi blóm úr Hebron. Nei, þær eru gulls ígildi sögurnar, sem þú segir um mig í hvers manns eyru.
– Gull, segirðu. Það er tungunni tamast . . . Nei, þegiðu nú munnur.
– Það stoppar síðast í þér talverkið, Dóra í Krók . . . Þórir hlær dátt. – Þú ert búin að eigna mér flestar ógiftar meyjar hér á Fjarðareyri. Ég hefði orðið þakklátur fyrir minna.
– Ekki vantar lítillætið, stýrimaður góður . . . Dóra hristist af innibyrgðum hlátri. – En í þessum efnum þarf ekki að hjálpa upp á ykkur karlmennina. Þetta er líka það eina sem þið getið hjálparlaust, forfært ungar og óreyndar stúlkukindur.
Nú heyrðist rödd Munda bróður. Hann er smiður eins og pabbi, og að koma heim úr byggingavinnunni.
– Þú mátt fráskrifa mig að sinni í þessum sökum, Dóra, segir hann.
Dóra pundar þessu á Munda:
– Jæja, strákkvölin. Er ekkert ætilegt eftir handa þér, fyrst Þórir hefur hremmt þá, sem honum þykir bezt?
Mundi situr sem næst eldavélinni og bakar sig. Er lágur, þrekvaxinn og þeldökkur yfirlitum. Hann hvetur rakvélarblað á lófa sér, kímir við hugsun sinni og segir nokkuð seinmæltur að vanda:
– Þú átt sjö dætur, Dóra í Krók. Þú ert búin að gifta þær allar, nema Línu, sem ekki er ennþá fullsprottin. En þú hefðir nú kannski getað boðið mér eina af þessum sex. Ónei, takk. Þá hefur þú deilt út fleiri en þínum dætrum án þess að líta til mín. Og hvað með Adda, þennan eina son þinn? Finnst þér ekki tími til kominn að trúlofa hann. Í svona málum verður fátt aðhafst í þessu kauptúni, nema þín ráð komi til.
Dóra hlær djúpt niðri í sér. Öllum verður okkur litið á Munda. Hann er ekki vanur að hafa mörg orð um hlutina. En þetta er líka sérstakur dagur. Þarna standa rósirnar og skrautblómin í vatnsskál á eldhúsborðinu. Ó, þessi yndislegu Hebronblóm. Þórir, oft verður honum litið á blómin, og stiklar hratt um gólf. Nú stanzar hann í spori með hönd á lofti og segir:
– Ég býð ykkur til veizlu í kvöld, og engum skal líðast að afrækja boð mitt.
Mamma hefur krosslagt hendurnar á brjóstinu, vottur af dreymni í svip hennar. Pabbi kemur inn í því, Þórir býður til veizlunnar. Pabba og Munda svipar saman. Og mömmu og Þóri svipar saman. Yfir pabba hvílir jafnan alvörugefinn svipur en bros leikur í augunum.
– Þetta grunaði mig, að hér yrði hátíð í kvöld, svarar pabbi orðum Þóris.
– Húsið er mitt í kvöld, segir Þórir. – Og þér, Dóra í Krók, býð ég alveg sérstaklega að vera gestur okkar Önnu. Þarf ekki að segja þér tilefnið. Það veizt þú eins vel og ég sjálfur . . . Þórir tekur upp vasapela og lætur hann ganga.
Dóra fær sér drjúgan vínsopa, og segir um leið og hún réttir pabba glasið:
– Guð fyrirgefi mér að snerta þennan andskota. Eins og þetta ætlar að fara með skrákkrílið mitt, hann Adda. En góður er sopinn þeim, sem kunna að njóta hans. Þann flokk fyllir karlinn minn, Baldi sjódraugur. Í fjörutíu ár hefur hann róið á horninu sínu. Er einn, vill vera einn. Ég kalla það ekki þó Addi fljóti stundum með. Einn á Sæljóninu í öll þessi ár. Og aldrei komist í klamarí, þótt sagðar séu af honum tröllasögur.
Pabbi fær mömmu vínfleyginn. Hún lætur nokkra eldvatnsdropa drjúpa á tungu sína, réttir síðan Munda guðaveigarnar. Pabbi segir við Dóru, og bros breiðist yfir andlitið:
– Baldi þinn slær nú öll sín gömlu met. Hann tvírær flesta daga og mokaflar. Sæljónið hefur líka fengið nýtt nafn.
– Jæja, gellur í Dóru. – Nægir þeim ekki lengur að kalla það herskipið.
– Nei, það þykir ekki við hæfi lengur. Nú heitir Sæljónið kafbáturinn.
– Þeir hafa fyrr tekið upp í sig, landkrabbarnir . . . Þetta segir Dóra um leið og hún fer inn í stofuna með foreldrum mínum. Að vörmu spori kemur hún ein fram í eldhúsið. Hún er með smá pakka, eitthvað sem mamma hefur saumað fyrir hana á barnabörnin. Dóra heldur pakkanum fast upp að brjóstinu. Á í mörg horn að líta þótt aðeins tvær dætranna séu búsettar í kauptúninu. Hún hugsar ekki minna um þau barnabörn, sem hún hefur ekki augum litið. Og segir við Þóri um leið og hún strunsar á dyr:
– Í kvöld verð ég rallandi full út á þína lukku.
Þórir hefur hlaupið upp í miðjan stiga. Hann kemur strax niður aftur, vippar sér á tám og segir:
– Ég hélt mig hafa gleymt dálitlu uppi. Það er vitleysa. Ég gleymdi engu.
Mundi er búinn að raka sig. Hann strýkur hægt með tveim fingrum um gljáandi kjalkana og segir kímileitur:
– Standið á þér, bróðir, hahaha. Þú stígur ekki oftar á fljótandi fjöl.
– Satt er. Því er öllu lokið. Maður fær ekki oftar salta gusu framan í sig . . . Þórir fer út með þetta.
Mundi kímir inn í rakspegilinn og segir:
– Anna í Rómaborg, veri hún velkomin í fjölskylduna.
Ég gleymi að brosa og segi af hjartans einlægni:
– Enginn hefur sagt mér neitt. Ég vissi samt, að það er hún – Anna í Rómaborg.
Framhald . . .
Í aðalsíðu