22.
Húsmóðirin . . .
Hún gekk í djúpri lausamjöllinni. Hún var ber niður á brjóst – og handleggirnir naktir. Svo var hún berfætt í skónum. Snjórinn hjúfraði sig í kyrrlátri þögn að líkama hennar, bráðnaði á beru brjóstinu, varð að köldum vatnsdropum, sem runnu niður eftir heitum líkamanum. Júlía bar tvær skolpfötur. Hún brosti . . . Dimmt él kom æðandi yfir bæinn.
Húsmóðirin hvarf í hringiðudans snjókornanna. Hún var komin niður í grýtta fjöruna. Þar hellti hún skolpinu og hélt svo af stað heim á leið með sömu hægðinni og vanalega, þó að hún væri hálfnakin úti í hringiðudansi mjallarinnar. Hún var að hugsa um bækilinn. Hann var orðinn faðir. Barnið var drengur. Júlía hafði fært honum þessar fréttir snemma í morgunn. Í fyrstu hafði hann ekki orðið glaður. Það hafði sært Júlíu. Hann hafði víst ekki trúað henni. En mikið hafði hann orðið glaður, þegar hann sá barnið. Hann hafði beygt sig niður að því og horft lengi á það.
– Hann er svo fallegur, hafði hann sagt. Og Júlía hafði séð tár læðast niður fölan vangann. Og barnsmóðirin hafði brosað svo innilega við drengnum sínum. Júlía hafði fundið sárt til með þessari konu síðan í fyrra, að hún hafði fætt barnið sitt andvana. En nú aumkaðist Júlía ekki yfir hana lengur. Hún var orðin móðir.
– Heldur þú, að hann verði dugandi? hafði bækillinn spurt húsmóðurina, svona dálítið áfjáður – eins og hans var vandi.
– Ég er viss um, að hann verður mesti myndar piltur, hafði hún þá sagt. Og hún hafði virt bækilinn fyrir sér, og það hafði verið svo glaðlegt og bjart yfir honum. Hún hafði ekki séð hann svona hamingjusaman í langan tíma.
Allt í einu hafði hann orðið mjög alvarlegur á svipinn, en Júlía hafði ekki hræðst það minnstu vitund, því að birtan hafði stöðugt verið að aukast í andliti hans, og augun höfðu tindrað eins og stjörnur á himninum, – þessi augu, sem svo lengi höfðu verið barmafull af myrkri og heift. Eftir langa þögn hafði hann sagt:
– Það er erfitt að verða gæfumaður, en ég vona, að drengnum mínum takist það samt.
Aldrei mundi Júlía gleyma þessum orðum; það hafði verið svo fallegur hljómur í þeim. Henni varð hugsað til Solveigar, sem nú bjó á himnum. Júlía var sannfærð um, að hún mundi alltaf minnast vina sinna á jörð niðri, og að Solveig væri nú innilega glöð yfir hamingju drengsins síns.
Júlía leit til himins: Mergð af hvítum, köldum kornum í sífelldri hringiðu. En bráðum mundu kornin hætta að sáldrast niður. Bráðum kæmu heitir, læknandi sólargeislar. Þeir mundu skína á rúmið hennar Guggu; þeir myndu gefa henni nýja krafta.
Júlía stóð í kjallaradyrunum og hristi af sér snjóinn. Henni var ekki kalt. Hún var vön kulda. Hann hafði svo lengi verið förunautur hennar í lífinu.
Húsmóðirin færði telpunni sinni dálítið af volgri mjólk í blárri könnu.
– Drekktu þennan sopa.
Og Gugga drakk sopann.
– Þú ert svo góð, mamma, sagði telpan og tók um háls Júlíu.
Húsmóðirin sagði ekkert, bara horfði djúpum, heitum augum á telpuna sína.
– Mér heyrist veðrið vera að lægja, sagði telpan. – Það getur vel verið, að það verði komið gott veður á morgun. Eftir þrjá daga er sumardagurinn fyrsti.
– Já, eftir þrjá daga er sumardagurinn fyrsti, sagði Júlía. – Það er gott að hugsa til þess, að sumarið sé að koma.
Gugga hló af gleði.
– Ég veit, að mér batnar í sumar, sagði hún. – Ég þakka guði fyrir sólskinið á hverjum degi.
Júlía kyssti telpuna sína.
Húsmóðirin hafði þráð svo innilega að eignast góða og sanna lífsförunauta, og sú ósk hennar hafði hlotið ríkulega uppfyllingu. Hér voru henni þökkuð störf sín, ekki með því að rétta henni peninga, snúa svo við henni bakinu og gleyma því, að hún væri til, eins og henni hafði verið þakkað, meðan hún var einstæðingur. Nei, hér var henni þakkað af blekkingarlausri alúð, af hug og hjarta. Líf hennar var hér viðurkennt; hér átti það sér tilverurétt. Áður hafði verið litið niður á hana og hún oftsinnis svívirt. Almenningsálitið hafði dæmt hana lauslætiskvendi, – lifandi eftirmynd móður sinnar. Júlía hafði alltaf átt í stöðugri fátækt og vöntun. Henni datt ekki í hug, að lífið gæti orðið henni nokkuð annað.
Hún vissi, að sumir menn áttu mikla peninga. Hún hafði unnið hjá slíkum mönnum. Hún hafði oft virt þá fyrir sér, en alltaf reynt að fjarlægjast þá, ef þeir nálguðust hana. Eiginlega hafði hún óttast þá – óttast það líf, sem þeir lifðu. Hún hafði aldrei getað hugsað sér að lifa svipuðu lífi og þeir; slíkt kynni hún víst aldrei að meta. Hún hafði alltaf unað sér bezt við fábreytta lífshætti. Það var skoðun hennar, að alltaf yrðu einhverjir að vera fátækir, og hún var hamingjusöm í fátækt sinni. Vinna og strita eins og hún átti krafta til – já, þjóna fólkinu sínu eftir sinni beztu getu, það var hennar hjartans gleði. Í því fann hún uppfyllingu allra óska sinna og vona.
Húsmóðirin hafði umborið það, sem hafði verið að gerast að undanförnu, með sömu stillingunni og allt annað. Hún hafði bara fundið sárt til þess, hvað fólkið hennar hafði þurft að líða mikinn skort, og að telpan hennar hafði mikið til orðið að vera án mjólkur. En nú hafði Júlía aftur fengið dálítið til að miðla fólkinu sínu og víst flestir aðrir, sem áttu í þessum vandræðum. Þrátt fyrir það fann húsmóðirin svo vel til þess, að dökkir skuggar svifu yfir lífinu í þessum litla bæ. Hún gat ekki almennilega gert sér grein fyrir því, sem í raun og veru var að gerast. Hún vara vissi ekki til þess, að slík sundrung hefði átt sér stað hér í bænum fyrr en nú. Júlía átti samt bjartar vonir um, að skuggarnir hyrfu bráðlega á brott, – fólkið mundi sættast, taka höndum saman í lífsbaráttunni og allt yrði eins og fyrr. Á morgun stóð víst eitthvað mikið til. Húsmóðirin bar ekki ótta eða kvíða gagnvart því. Hún var sannfærð um, að drengirnir hennar gerðu ekkert ljótt eða skaðlegt af sér.
Júlía Hansdóttir brosti án áhyggna.
23.
Nýr dagur.
Blátt loft. Sól á fönnum.
Bærinn var óvenju vökull þennan góðviðrismorgun. Þorlákur Þorláksson var kominn á fætur um fimmleytið; þá voru um tuttugu karlar, svona þrír og fjórir saman, á rangli um vinnusvæðið, og þeir óðu elginn, eins og þeir ættu lífið að leysa. Flestir voru heitir verkalýðssinnar. Þeir lýstu því yfir, að Gestur Jónsson fengi ekki að hreyfa við neinu í húsunum, ekki að láta vinna handtak, ekki einu sinni að skipa upp úr þessum tveimur fleytum, fyrr en hann hefði skrifað undir samningana. Þetta sæi Gestur Jónsson svart á hvítu á pappírnum, en sá góði maður héldi víst, að hér fylgdi ekki hugur máli, en hann skyldi nú bara fá að smakka á því. Svo bölvuðu þeir framkvæmdastjóranum. Ef einhver maldaði í móinn, talaði um yfirgang og ósvífni, þá vildu þeim verða æði laus höndin, svo að stundum stóð undir slagsmálum.
Geislar vorsólarinnar dönsuðu á andliti, hálsi og brjósti Þorláks Þorlákssonar. Verkamaðurinn hafði sannarlega gaman af málandanum í körlunum. Það var móður í mönnum núna. En hver vissi, nema það yrði tekizt betur á, áður en lyki? Gestur Jónsson hafði látið fólk sitt byrja innpakk í gær. Að öllum líkindum mundi fisktökuskipið verða hér seinni partinn á morgun. Honum reið því mikið á, karlinum, að hafa vinnufrið núna. Ekki svo vitlaust tilfundið há samtakamönnum að velja einmitt þennan dag, hvað sem yrði nú úr þeim, þegar á vígsvöllinn kæmi. Það var kominn hálfgerður galsi í verkamanninn.
Fólk dreif nú að sem óðast. Klukkan var fast að því sex, og vinna átti að fara að hefjast. Aldrei hafði verkafólk þessa bæjar beðið eftir því með meiri eftirvæntingu en nú, að húsin yrðu opnuð. Og þarna voru raunar margir fleiri en þeir, sem að staðaldri unnu hér. Karlarnir af fleytunum voru hér mættir með verkalýðssinnum. Gamlar kerlingar stóðu hér suðandi. Þær voru löngu hættar allri vinnu nema yfir hásumarið, ef þær fengu að vera í breiðslu. Þarna voru líka smástelpur og strákar, hálfskjálfandi og með stírur í augum. Það var ekkert gaman enn, það var ekkert farið að gerast. Strákarnir kváðu þó upp úr öðru hverju:
– Slagur! Slagur!
Brátt rann upp hin langþráða stund. Húsin voru opnuð. Nokkrir Gests Jónssonar menn ætluðu að varna þess, að aðrir færu inn en þeir, sem áttu að vinna, en þeir voru brátt ofurliði bornir af margmenninu.
Þegar inn kom, sló allt í einu þögn á hópinn. Verkalýðssinnar stóðu þétt á vagnbrautinni og horfðu rólegir á fylgismenn Gests Jónssonar hlaða þurrfiski á vagna. Þorlákur Þorláksson var utarlega í mannþrönginni og horfði vökulum augum á það, sem fram fór: Ætluðu þeir að guggna, helvízk vesalmennin? Þeir hefðu átt að láta svolítið minna í morgun. Nú stóðu þeir þarna á brautinni eins og álfar út úr hól og góndu aðgerðarlausir á mennina hlaða vagnana! Eða – átti þetta að vera herbragð. Voru þeir kannske búnir að taka sig saman um allt?
Verkamaðurinn brosti í kampinn. Hann var að horfa á Gest Jónsson, glæsimennið, sem var hærri og meiri að vallarsýn en allir aðrir, sem þarna voru. Framkvæmdastjórinn fylgdist gaumgæfilega með hverri hreyfingu manna sinna við vinnuna, var sýnilega umhugað um, að fiskurinn kæmist sem fyrst í strigann, þrátt fyrir hið lága verð. Bros verkamannsins varð meinlegt.
Vögnunum var nú rennt af stað.
– Frá! sagði Gestur Jónsson og blakaði hefðarlega með hendinni.
Verkalýðssinnar hreyfðust ekki frekar en þeir væru blágrýtisklettar úr fjallinu. Þeir töldu sig hafa fulla heimild til að segja: frá! alveg eins og framkvæmdastjórinn.
– Frá! sagði Gestur Jónsson í annað sinn, mjög kurteislega og með sömu fögru handahreyfingunni og áður. En skipun hans var ekki hlýtt.
Verkamaðurinn olnbogaði sig nær. Hann sá meðalmann, holgrannan, langleitan, með hvassa höku, skollitað yfirvaraskegg og frjálslegan í öllu fasi, ganga fram fyrir skjöldu verkalýðssinna. Þetta var Sigurður Fjalldal.
– Við leyfum yður ekki að hefja vinnu, fyrr en þér hafið skrifað undir samninga, sagði hann.
Framhald . . . ?
Grjót og gróður 24. – 25.
Til baka