Óskar Aðalsteinn Guðjónsson


Grjót og gróður


Skáldsaga



 

Prentstofan Ísrún
Ísafjörður, 1941
Copyright ©1941
All rights reserved

 


12.


 

Bækillinn . . .

Það var eins og sál hans hefði endurfæðst – losnað úr álögum. Nú fannst honum lífið svo bjart, svo bjart. Hann grét af gleði yfir því að vera til . . . Hið hrafnsvarta, gljáandi verkfæri með silfurskínandi skrúfum – ævinlega hafði það eins og svifið fyrir innri sjónum hans, beint hlaupi sínu, ísköldu og voldugu, að enni hans. Svo hafði hann séð þúsundir af hvítum stjörnum, sem ljómuðu í hreinleika sínum. Var ferðalagið mikla að byrja? . . . En nú sá hann þetta verkfæri ekki lengur. Þrá hans til ókunna landsins var slokknuð. Það var engin sorg lengur til í sál hans. Þar var bara birta og gleði. Hann elskaði unga stúlku.

Bækillinn horfði út um kjallaragluggann, út á þögula götuna og krapann á götunni. Hann horfði á fólkið ganga fyrir. Stundum sá hann bara fætur þess . . . Nú féll skuggi á rúðuna. Hjarta hans fór að slá örara. Svo brosti hann, og hjartslátturinn varð eðlilegur. Þetta voru bara ærslafullir barnafætur, sem slettu krapi á rúðuna.

Bækillinn sat lengi við gluggann og beið hennar. Hann vissi, að hún mundi koma. Hún hafði oft gengið fyrir gluggann. Hann hafði aldrei séð nema fætur hennar, en hann þráði stöðugt að sjá hana alla. Hún hlaut að vera fögur og hrein, viðkvæm og tilfinninganæm eins og blómin. Því hljóp hann ekki til móts við hana og fagnaði henni? Hvers vegna sat hann hér við gluggann og beið aðeins eftir að líta fætur hennar? . . .  Það var ein hugsun, sem hélt aftur af honum: Gat svo sem ekki verið, að gleði hans yrði drepin um leið og hann liti í augu stúlkunnar? Ef til vill sæi hann þar aðeins fyrirlitningu eða meðaumkun, eins og í augum flestra annarra? Og var ekki líklegt, að henni fyndist hann ljótur, ljótari en allir aðrir ungir menn, sem hún hafði fyrirhitt? – Fjarstæða, fjarstæða! hrópaði ástarhamingjan í hjarta hans. Hann vildi bara njóta þess lengur að hlakka til að mæta augnaráði hennar. Það var svo gott að hlakka til.

Nú féll skuggi á rúðuna. Það var skugginn hennar. Hún hafði frekar mjóa fætur. Bæklinum fannst stafa frá þeim vermandi viðkvæmni. Honum fannst göngulag hennar þrungið af fegurð og yndisþokka. Hún gekk hægt og rólega fyrir gluggann, og krapið þrýsti sér þögult inn með skósólunum og lagðist mjúkt að fæti hennar . . . Bara að hann væri sjálfur orðinn að krapi, sem fengi að kyssa fót þessarar ungu stúlku.

Daginn eftir var bækillinn snemma á fótum.
– Nú skal það ske, sagði hann karlmannlegri röddu . . .  Um það leyti, sem stúlkan var vön að ganga fyrir kjallaragluggann, var hann kominn á ról fyrir utan húsið. Svo kom hún. Honum fannst þetta helg stund. Stúlkan var lág vexti, andlit hennar einkennilega smágert. Hún var í stuttri kápu, sem féll fast að holdgrönnum líkamanum. Kannski voru margar stúlkur ríkari en hún af fljótséðri fegurð. En í hreyfingum hennar hafði bækillinn fundið tryllt, fossandi líf, svo ungt, svo saklaust og ósnortið. Þetta voru töfrar, sem hann hafði ekki fundið hjá nokkurri annarri stúlku, og ef til vill var hann ástfanginn af henni eingöngu vegna þeirra . . .  Hún brosti til hans. Ósjálfrátt brosti hann á móti. Um stund horfðust þau í augu. Í tilliti hennar fann hann í senn hrifningu og sakleysi. Hver hafði áður litið þannig í augu hans? . . . Hann réð sér ekki fyrir gleði. Hún fyrirleit hann ekki, hún hæddist ekki að honum, henni fannst hann ekki ljótur. Mátti honum þá ekki vera sama um dóm allra annarra? Jú, sannarlega . . .  Bækillinn fann kraft gleðinnar streyma um sig allan. Hann var sterkur. Hann ætlaði að bera þessa ungu stúlku á örmum sér í gegnum lífið. Hann hryllti ekki lengur við ljótleika sjálfs sín. Hið unga, öra líf hennar mundi varpa á alla framtíð hans björtum ljóma. Það var köllun hans og hamingja að lifa sem þjónn hennar.

 

. . . Húsfaðirinn var einn í eldhúsinu, þegar bækillinn kom inn.

– Ég vil segja þér, hvað mér liggur á hjarta, sagði yngri bróðirinn.

– Nú?  sagði Þorlákur eins og í spurn. Það var nýjung, að þessi vesalingur færi að trúa honum fyrir hugðarefnum sínum, enda áttu þeir víst fátt sameiginlegt.

– Já, ég sé eftir því, hvernig ég hef lifað. Ég kann ekkert að vinna, er enn eins og óharðnaður unglingur; þó á ég að heita fulltíða karlmaður.

Húsfaðirinn rak upp stór augu. Var strákófétið að gera tilraun til að hafa hann fyrir ginningafífl – eða hafði þessi aumingi drukkið sig fullan?

– Já, ég er staðráðinn í því að breyta um líferni. Ég vil verða maður, eignast heimili og vinna fyrir því eins vel og þú hefur unnið fyrir þínu heimili.

– Nei, nú dámar mér alveg, ha . . . ha . . .  ha!

Þorláki var skemmt.

– Þú hlærð, hélt bækillinn áfram. – Og er ekki von, að þú hlæir? Var hægt að búast við nokkru öðru af mér en vaxandi aumingjaskap? Nei, auðvitað halda allir, að ég verði alltaf vesalmenni, ómagi með allt upp á aðra kominn. En nú er ég ekki lengur blindur á vesaldóm minn. Og ég finn, að ég á krafta til að bjóða honum birginn og sigrast á honum. Ég finn ekki lengur neina fullnægingu í sjúkum draumum. Ég vil heilbrigt líf, karlmannlegt líf!

– Svona, svona, talaðu ögn lægra, drengbjálfi; maður heyrir til þín, þótt þú öskrir ekki eins og blótneyti.

– Þú hefur alltaf sýnt mér svo mikla art, bróðir minn. Ég finn það svo vel, að þú ert góður, alltof góður. Það hefði ábyggilega orðið betra fyrir mig, ef þú hefðir rekið mig burt af heimili þínu. Þá hefði ég kannske fyrr orðið að manni. Bækillinn grét.

– Vertu ekki að vola, skinnið mitt; það tekur því ekki. Þorlákur þurrkaði tárin af kinnum bróður síns.

– En ég skal verða maður til að launa þér alla hjálpina. Það var aftur kominn styrkur í rödd bækilsins.

– Já, við getum alltaf talað um það. Okkur tekst einhvern veginn að jafna það með okkur; þú þarft engan kvíðboga að bera fyrir því . . . Þorláki tókst von bráðar að eyða þessu. Satt að segja var hann orðinn hálfhræddur um, að bækillinn hefði sturlazt. Samt reyndi hann að hugga sig við, að þetta væri bar eins og hver annar geðofsi, sem hlyti að lægja bráðlega. Hann var feginn því, að Solveig var ekki heima.

 

 

. . . Bækillinn naut sumarsins og sólarinnar af innileik. Hugur hans var hreinn og bjartur eins og berglindin. Oftsinnis gekk hann til móts við ungu stúlkuna. Þau hlógu hvort við öðru og leituðu sér hælis meðal blóma og hoppandi lækja. Grasið hafði fengið sinn djúpa ilm. Sumarið var komið.

Hún sagði við hann:

– Ég heiti Sóley.

Hann hafði ímyndað sér, að hún héti Sumardís, en nú gleymdi hann því nafni. Sóleyjan var eitt fegursta djásn Íslands.

Hin björtu sumarkvöld liðu hjá eins og draumsýnir . . .  Pilturinn og stúlkan sátu í grænu grasi, og það voru silkimjúk ský á himninum og töfrandi litir yfir fjöllum og dölum.

– Sóley.

– Já, vinur minn.

– Sólargeislarnir eru að leika sér í hárinu þínu.

Hún rétti honum hönd sína. Hann lokaði augunum og gleymdi öllu nema þessari ungu stúlku. Djúpt í sál hans logaði eldheit þrá eftir hvítum, mjúkum brjóstum. En það mátti ekki snerta þau. Þau voru heilagur dómur.

 

– Sóley, sagði móðirin.

– Já, anzaði sonurinn.

– Hún er á böllum á nóttunni. Móðirin sagði þetta hægt, en með þunga í röddinni.

Það var eins og svart ský félli yfir hinn bjarta svip sonarins. Hann horfði undrandi á móðurina. Hann langaði til að rjúka á hana og berja hana. En hann svalaði reiði sinni með því að rjúka á dyr og skella hurðum . . .  Fyrir hvað átti hann að lifa, ef ástin var blekking? . . . Seint og síðar meir hitti hann ungu stúlkuna. Hann spurði án þess að líta upp:

– Ferðu á böll?

– Bara stundum, sagði hún sakleysislega.

Hann talaði ört og með veikleikatilfinningu í hljómblæ titrandi raddar:

– Ertu stundum úti á nóttunni?

– Nei, aldrei, ég dansa bara svolítið.

– Þekkirðu marga karlmenn?

– Nokkra, svaraði hún hugsunarlaust.

– Af hverju ertu þá að tala við mig?

– Mér þykir það dálítið gaman, sagði hún og vissi ekki, hvað hann meinti með öllum þessum einkennilegu og nærgöngulu spurningum.

– Ég hélt að þú værir góð stúlka, sagði hann, og það glitruðu tár á vöngum hans.

– Ég er kannski ekki eins vond og þú heldur. Og það komu líka tár í hennar augu.

– Hefur þú kysst marga?

– Ég veit að ekki. Hún laut niður fyrir sig, kærði sig ekki um að skrökva.

– Ég hélt, að þú værir ekki flenna, sagði hann og titraði af bræði.

– Ég er ekki flenna, sagði hún með styrk í röddinni.

– Mér þótti vænt um þig, en nú hata ég þig. Ég vil aldrei oftar halda í hönd þína. Þú ert bæði fölsk og ljót . . . Hann kreppti hvítu, fíngerðu hendurnar sínar og hrópaði: – Farðu !

– Já, ég get ósköp vel farið. Ég kæri mig ekkert um að vera með þeim, sem ekki vilja vera með mér. Ég aumkast yfir þig. Þú kannt ekki að lifa hamingjusömu lífi . . . Hún hló til hans í kveðjuskyni.

– Þú átt ekki skilið að heita Sóley! hrópaði bækillinn á eftir ungu stúlkunni, en hann heyrði lífsglaðan hlátur hennar um leið og hann sagði þetta.

Hann háttaði strax og hann kom heim, enda var komið langt fram á kvöld . . . Hvaða mynd var að smá skýrast í myrkum huga hans? – Verkfærið! Það óx, óx, óx í sífellu, varð voldugt í sínum hrafnsvarta gljáa, sem minnti á úfinn hausthimin, þegar allra veðra er von. Og hinar silfurskínandi skrúfur þess lýstu upp myrkrið á víðáttumiklum svæðum, eins og stórar, ljósbláar vakir í skýjasorta . . . Og nú kom eitthvað á óstöðvandi þeysingi fram í huga bækilsins. Hvað var það? Jörðin! Bækillinn hló hlakkandi. Verkfærið spjó eldi og ólyfjan yfir jörðina. Hún klofnaði í milljónir parta, sem tvístruðust hver í sína áttina, – hurfu út í myrkrið: Öllu var tortímt. Það þurfti enginn að kveljast lengur í þessum djöflaheimi. Bækillinn hló tryllingslega.

– Reyndu að hafa lágt um þig, drengbjálfi!  sagði húsfaðirinn.

Bækillinn hætti hlátrinum. Allt í einu hafði gripið hann ótti – hræðsla. Þannig hafði hann aldrei hlegið fyrr, aldrei hugsað þvílíka voða hugsun.

Allir sváfu, nema húsfaðirinn og bækillinn . . .

Þorlákur var við öllu búinn af þessum vesaling. Hann var orðinn sannkallaður húskross. En verkamaðurinn hafði ekki geð í sér til að segja hinu opinbera að hirða hann. Þetta var nú einu sinni bróðir hans. Svo vissi hann, að Solveig gæti ekki afborið að sjá af honum . . .

Bræðurnir lágu vakandi fram undir morgun.

 


13.


 

Það var nóg atvinna.

Allir fengu vinnu hjá þingmanninum, bæjarfulltrúanum og framkvæmdastjóranum, Gesti Jónssyni. Það höfðu nýlega staðið yfir kosningar til bæjarstjórnar, og Gestur Jónsson var svo hamingjusamur með úrslitin. Þorlákur Þorláksson var líka sérlega ánægður, en ekki vegna kosninganna. Það, sem hann gladdist yfir, var að fá að vinna myrkrana á milli og oft fram á rauða nótt.

Húsmóðirin, Júlía, rétti verkamanninum svolítinn mórauðan bréfmiða. Hann var allur krypplaður og útpáraður klaufalegri rithönd. Þorlákur las og hló upp úr lestrinum.

– Það mætti nú vera meira af kaffinu og sykrinum, að minnsta kosti tvö pundin af hvoru, og hann krotaði tvo í staðinn fyrir einn.

– Svona, nú er þetta ágætt. Þú sendir drenginn með miðann. Mér er næst að halda, að hann verði ekki rekinn með hann til baka. Maður skuldar ekki á þessum tímum.

Þau kímdu bæði.

Þorláki varð hugsað til þess, að það var ekki ýkja langt síðan, að ekkert þýddi fyrir hann að senda með miða út í búð. Samt hafði hann sjaldnast volað út af atvinnuleysi. Hann hafði bara alltaf sagt, að það væri ekki mönnum sæmandi að ganga iðjulausir; það væri þó aldrei svo svart, að ekki væri eitthvað hægt að nota hendurnar, og það hlyti þó alltaf að gefa mönnum svolítið að lifa af. Að minnsta kosti var það hans reynsla. Honum þótti náttúrlega andskoti hart að þurfa að horfa upp á aðra menn vinna og kýla vömb, þegar hann hafði lítið sem ekkert við að vera. En auðvitað stafaði þetta af þeirri einföldu ástæðu, að lukka lífsins hossaði þessum mönnum þetta hærra en honum. Hvað annað var þá að gera en að drífa sig? Hvað annað en að leggja sig þá allan fram? Menn máttu ekki láta örðugleikana vaxa sér um of í augum. Menn yrðu að vera ósérhlífnir, fastir á meiningu sinni og láta engan vaða yfir höfuð sér . . . Þessi lög hafði reynsla lífsins skrifað í hug og hjarta Þorláks Þorlákssonar.

Drengurinn kom rogandi með fullt fangið af matvöru. Það hafði ekki staðið á að fá þetta. Nei, mikil ósköp.

– Blessaður maturinn, sagði húsmóðirin. Hún var rjóð og heit, svo örugg og glöð, og hún fyllti mörg box og kirnur af matvöru . . .  Þessi hamingjusama móðir og eiginkona sá aðeins einn skugga bera fyrir í lífi sínu, og hann kom frá Solveigu. Og þó hafði Solveig gefið heimilinu hennar alla krafta sína. Hver gat gefið meira? Þessi hjálp Solveigar hafði að vísu sjaldnast komið beint fram við Júlíu, en í óeigingjörnu starfi og ást til barnanna hennar. Solveig gat víst aldrei litið á Júlíu sem dóttur sína. Og húsmóðirin fann svo greinilega, að sökin var hennar sjálfrar. Hún hafði aldrei getað sýnt Solveigu verulega hlýju nema í hugsun. Það særði Júlíu. Ef til vill stafaði þetta fálæti hennar mest af því, að hún hafði verið svo lengi einstæðingur og mætt svo miklum kulda.

Smátt og smátt höfðu árin færzt yfir þessa konu. Kjartan Ingi, drengurinn, sem hafði gefið henni móðurtilfinningar, var nú orðinn stærðar piltur. Hann var einrænn og fór sínar götur. Það voru allt aðrar götur, en Júlía hafði gengið um ævina. Hún hafði aldrei hugsað neitt verulega um það, að hann yrði stór og fullorðinslegur; breytingarnar höfðu líka komið smátt og smátt, og því hafði henni ekki þótt neitt undarlegt við þær. Svo hafði Gugga tekið við af Kjartani Inga. Hún var hæglát telpa. Hún hjúfraði sig oft upp að móður sinni og sagði henni allt, sem henni bjó í brjósti. Þó var hún að eðlisfari dul og viðkvæm. Kári litli var yngstur. Móðirin sat oft með hann í keltu sinni og hvíslaði að honum fallegum orðum. Hún átti undur létt með að segja hlý orð við börnin sín. Þau voru líka líf af hennar lífi.

Júlía Hansdóttir var örugg um framtíðina. Hún kveið aldrei neinu. Hún treysti á manninn, sem hafði tekið hana til sín í einstæðingsskap hennar og gert hana að konunni sinni. Hún var nægjusöm og gladdist yfir litlu. Hún var alltaf hin sama. Hún lagði sig óskipta fram í þágu heimilisins og leið þetta áfram með hægð og stillingu, en mýktin í fasi hennar var þó næstum horfin. Hún hafði breikkað um lendarnar; annars var hún grönn eins og fyrr. Það var farið að votta fyrir holum í kinnum hennar, og svörtu augun voru búin að missa mesta gljáann – en hún fann ekki til þess. Hér hafði hún auðgazt svo mikið. Henni fannst það svo smátt, sem hún átti til að fórna í staðinn.

. . . Já, nú áraði vel. Júlía saumaði sér nýjan kjól. Hún var hálffeimin í honum. Hún hafði svo sjaldan verið í nýju.

Verkamaðurinn kleip ósköp lítið í handlegg hennar. Hún roðnaði svolítið.

– Aldrei má maður gera að gamni sínu við þetta kvenfólk, sagði hann í gáska.

Svo fengu krakkarnir nýtt utan á sig.

– Þú mátt ekki spæna þetta strax utan af þér, strákur, sagði húsfaðirinn og hló.

Húsmóðirin brosti í hrifningu.

– Hérna, móðir, sagði svo Þorlákur við Solveigu. Hann rétti henni glas með dökkum vökva.

Birtan í andliti Solveigar var svo undur mild.

– Já, þetta er víst hjartastyrkjandi, sagði sonurinn. – Þér er oft svo illt fyrir hjartanu. Það er bezt þú reynir þetta.

Móðirin, Solveig, sagði ekki neitt; hún stóð bara hugsi með glasið í hendinni . . .  Hann átti innilegar tilfinningar, þessi sonur hennar, en það var klaki utan um þær – og var það ekki gott?

Solveig stóð enn í sömu sporum, og það var eins og birta andlitsins kólnaði. – Heimurinn. . . . Nei, hún hugsaði ekki meira um þetta; það hafði víst enga þýðingu. Hún var fátæk, óbreytt alþýðukona. Það var víst tilgangslaust fyrir hana að fálma út í svona nokkuð.

 

Þorlákur Þorláksson tók í nefið.

– Þetta gerir maður nú ekki nema í góðæri, sagði hann. Svo gaf hann öðrum í nefið.

– Rrrrrrrrr-e-hu ! Svo var dæst.

– Þeir ætla að stofna hér verkalýðsfélag, eins og kvað vera í höfuðstaðnum og flestum stærri bæjum landsins, sagði maður, sem litið hafði inn til fjölskyldunnar og þegið í nefið.

– Svoleiðis er ekki mér viðkomandi, anzaði Þorlákur. – Fáðu þér meira, vertu ekki að spara.

Svo fengu þeir sér báðir meira og fóru að tala um eitthvað gamansamt.

 


Grjót og gróður 14. – 15.
Til baka