7. Handtakan
Það var kominn nýr sóldagur og Gulli svaf enn. Annars varhann mjög árrisull, einkum þegar veðrið var fagurt og sólin ljómaði landið eins og nú. Þetta var meiri svefninn. Þvílíkt og annað eins hafði Gulli aldrei sofið fyrr. Hann hafði líka lagt á sig miklar vökur að undanförnu, og nú hvíldi hann sig bæði vel og lengi. Sólin skein inn til hans, og litfögur fiðrildi sveimuðu umhverfis hann. Hann vaknaði við það, að einhver var að kitla hann í nefið, og hló lágum, þýðum hlátri, um leið og hann lauk upp augunum. Og það fyrsta, sem hann sá þennan sólskinsmorgun, voru gulbrún og silfurlit fiðrildi.
Í glaðasólskini og góðviðri eins og nú, hafði garðurinn yfirleitt ómað af hænsnasöng, og Rauður var forsöngvarinn. Nú var hænsnahópurinn hljóður, og yfir honum hvíldi sérstakur hátíðarbragur. Rauður gekk um virðulegur í fasi við hlið gömlu Doppu, sem var háttprúð eins og hennar var vandi, en þó alveg blátt áfram í allri framgöngu.Gulli kinkaði kolli til hænsnanna, um leið og hann gekk yfir hlaðið og inn í húsið. Gluggarnir stóðu opnir, og þarna heyrðist ekki fluga anda. Sængurfötin höfðu verið tekin úr rúminu hennar fóstru. Sjálf lá hún þarna nár á fjölum, hjúpuð í hvítt lín og með hvítan dúk yfir andlitinu. En sál hennar var flogin burt með englinum. Fóstra var farin eitthvað langt burt. Hún hlaut að vera á fegursta staðnum í landi himinsins, um það var Gulli alveg sannfærður, því hjartað hennar var úr skíragulli.
Gulli flýtti sér aftur út í sólskinið. Nú þótti honum sem rökkur fyllti stofuna hennar fóstru, og að ilmurinn að utan kæmist ekki þangað inn. Hann gekk að hliðinu, sem var vendilega læst. Já, þarna hélt stóri lásinn vörð. Hreppstjórinn og slátrarinn ætluðu honum sjálfsagt að gæta alls, sem þarna var: Það má treysta honum þessum, hugsuðu þeir. Hér verða grísinn og hænsnin að dúsa, þar til við komum og sækjum þau.
– Svo þið haldið það, karlarnir, sagði Gulli í hálfum hljóðum við sjálfan sig, leyndardómsfullur á svip, en með bros í augum: Að vörmu spori hafði hann smeygt sér inn í stikilsberjarunnann. Þaðan horfði hann lengi út um leynidyrnar, og honum flaug sitthvað í hug:
Þarna voru dyrnar, og ekkert var í sjálfu sér auðveldara en að leggja land undir fót. Og ef hann legði sig nú dálítið fram, þá gæti hann eflaust talað um fyrir hænsnunum og fengið þau til þess að taka þátt í flóttanum með sér.
En Gulli var einasta að leika sér að þessum hugsunum. Hann vissi, að enginn tryggði hamingju sína með því að flýja af hólmi. Það var því aðeins eitt, sem honum bar að gera. Hann átti að berjast til sigurs.
Í þessu heyrði hann að hliðinu var hrundið upp, og brá þegar skjótt við, læddist með fram húsgaflinum og sá þaðan, hvar tveir menn gengu heim að húsinu. Annar þeirra var kraftalegur sláni með svartan og úfinn hárlubba, og var þar kominn slátrarinn. Hinn maðurinn var frekar lágur vexti en gildur og með gullborðalagða húfu á höfði, og var þar kominn sjálfur hreppstjórinn. Gulli skauzt þegar inn í runnann,til þess að verða ekki á vegi valdsmannanna, sem hröðuðu sér inn í húsið. En ekki voru þeir fyrr komnir inn en Gulli læddist á eftir þeim og hlustaði við opnar útidyrnar.
Hann heyrði að valdsmennirnir gengu um í stofunni með hátíðlegum ræskingum. Þeir gengu þarna um gólf góða stund, sögðu ekkert, bara ræsktu sig. Það var ekki fyrr en þeir komu aftur fram í eldhúsið, að losnaði um málbeinið á þeim. Og Gulli hafði ekki hlýtt lengi á viðræður þeirra, þegar hann hafði heyrt nægju sina og vel það: Slátrarinn var kominn hingað gagngert til þess að sækja hann, seinna í dag kæmi hann svo eftir hænsnunum.
Gulli tók viðbragð, og aftur stóð hann við leynidyrnar. Og nú heyrðist honum einhver ókunnugleg rödd hvísla þessum orðum í eyra sér:
– Hugsaðu ekki um annað en að koma þér undan, það eitt bjargar þér.
– Reyndu að horfast í augu við örðugleikana og berjast til þrautar, sagði önnur og öllu ákveðnari rödd í hans eigin barmi.
Þessari rödd hlýddi hann og gekk til síns heima. Þegar hannkom inn í stofuna, var Doppa gamla þar fyrir. Hún hafði hreiðrað um sig í sama horninu og þegar hún heimsótti hann fyrst.
Svipur hennar og yfirbragð var alveg eins og þá, og hún horfði á hann með sama stillilega augnaráðinu.
Gulli hóf fyrst máls. Hann sagði Doppu frá því með fáum og óbrotnum orðum, hvað borið hafði fyrir hann, síðan þau töluðust við seinast; hvernig hann hafði fundið móður sína og systkini, hvað fóstra hafði sagt við hann, áður en hún kvaddi heiminn og fór burt með englinum, síðast vék hann að viðræðum valdsmannanna tveggja og fyrirætlunum þeirra. Svo sagði hann, og talaði eins og roskinn maður:
– Ég veit að við höfum öll tækifæri til þess að flýja, en ég og ungu hænurnar, við höfum ekkert upp úr því nema skömmina.
Doppa leit fast á hann og sagði:
– Af hverju undanskilurðu mig?
– Vegna þess að málið horfir öðru vísi við, hvað þig snertir. Mér var að detta í hug, að þú gætir farið huldu höfði um stund.
Doppa var alvarleg á svipinn, en þó var kátlegt bros í augum hennar, þegar hún sagði:
– Já, tala þú bara. Hvað á ég svo að taka til bragðs eftir að ég hef verið í felum um sinn?
– Þá gætir þú blandað þér inn í einhvern hænsnahópinn í þorpinu. Ég er viss um að það verður ekki amazt við þér.
– Ég veit, að á bak við þessi orð þín býr góður og einlægur hugur, Gulli litli. Þú veizt, hvað bíður mín hjá slátraranum, við vitum það bæði. En nú er mér ekkert að vanbúnaði lengur, frekar en henni fóstru þinni sálugu, eða gömlu vinkonunum mínum, sem kvöddu um daginn.
Doppa sagði þetta svo æðrulaust, að Gulla hálfbrá. Svo var eins og létti af honum þungu fargi, og hann sagði glaðlega:
– Þú ert nú meiri herjans kerlingin, Doppa. Svo viljasterk og ákveðin, og það er kannski það allra bezta. En blessuð segðu mér nú eitthvað af þinni fjölskyldu.
Doppa varð nú öllu glaðlegri á svipinn og sagði:
– Það er þá fyrst hann Rauður minn, ég þekki hann ekki fyrir sama ungling, síðan Surtur fór.
– Surtur mátti vist missa sig, herjans karlinn sá, sagði Gulli.
– Já, þú sást fyrir honum, Gulli litli. Það var þá, sem ég fékk verulegt álit á þér.
– Og ungu dömurnar, Doppa mín? Við megum ekki gleyma þeim.
– Þessum trítlum, sagði Doppa og brosti á sinn hógværa hátt. – Já, þær eru mestu trítlur, eins og allt heilbrigt ungviði á þeirra reki.
– Þær eru fallegar, sagði Gulli.
– Já, snotrar eru þær, greyin litlu, satt er það. Og svo eru þær fullar af eftirvæntingu, eins og þú getur nærri að sýna sig og sjá aðra í nýju vistinni.
Nú heyrðist mannamál og fótatak fyrir utan, og einhver skellti hliðgrindinni. Svo var allt hljótt stutta stund, síðan heyrðist fótatak á ný, sem nú færðist nær og nær, og einhver sönglaði hásum rómi.
Hið hógláta bros var nú horfið af andlitinu á Doppu, hún leit sinum smáu en trúverðugu augum á Gulla og hvíslaði:
– Þakka þér fyrir, Doppa mín, hvíslaði Gulli.
Dökkur skuggi féll yfir þau bæði. Slátrarinn steig inn til þeirra. Hann rak fyrst augun í Doppu, horfði á hana orðlaus og yggldur drykklanga stund, hratt síðan fólskulega við henni með fætinum og sagði hranalega:
– Svo þarna er þá eitt gamla ræksnið ennþá.
Doppa gaf ekki frá sér hljóð, og svipur hennar var jafn rólyndislegur og áður. Slátrarinn skipti sér ekki frekar af henni, en sneri sér þegar að Gulla og sagði í ískrandi kaldhæðnistón:
– Jæja, elskulegur, þá hefur þú loks fengið þann húsbónda, sem hentar þér bezt. En komdu nú með krangann. Hér er snaran, he, he, he! Og slátrarinn smeygði digru snæri um svírann á grísnum og kippti rösklega í endann.
Sem snöggvast þótti Gulla sem hjartað í brjósti sér stanzaði. En hjartsláttur hans varð á samri stundu eðlilegur aftur, honum var bjart fyrir augum, og hann gekk hröðum og þróttmiklum skrefum á eftir slátraranum.
Í næsti kafla . . .
Í efnisyfirlit