Óskar Aðalsteinn

Hlauparinn frá Malareyri

Skáldsaga

 

 

Bókaútgáfan Vestri
Ísafjörður 1952

Copyright ©1952
All rights reserved


Fyrsta bók

Fyrsti kafli
I.


Loksins var Bergþór verkstjóri kominn á kreik . . . Um þetta töluðu nær því allir tómthúsmenn á Malareyri. Hvað kom til? Hafði Bergþór þessi legið þungt haldinn upp á síðkastið og enginn ætlað honum líf? Nei, það var nú ekkert líkt því. Bergþór var við tröllaheilsu. Hvað þá? Það var einfaldlega þetta.

Bergþór verkstjóri lét blátt áfram ekki sjá sig úti við þegar enga vinnu var að fá. Í atvinnuleysi lá hann að staðaldri í skræðum, þótt eineygður væri og sæi ekki á skruddu nema með því að bera hana fast upp að auganu. Þannig hafði hann stundum lokað sig inni í fyrrasumar, og stanzlaust frá því lögnu fyrir áramót og þar til nú í marzlok, nema rétt á meðan farnar voru nokkrar sjóferðir fyrir skömmu.

Fyrir mögum árum hafði Bergþór gengt verkstjórastörfum vestur á Þarafirði. Þar var hann tukthúsaður nóttina sem svartholið brann til ösku, og bjargaðist nauðuglega úr eldinum. Enn þann dag í dag bar hann glögg einkenni eftir þá bálför. Hann var samanskroppinn í herðum, krepptur um hnésbætur og andlitið eins og hraunstorka. EN það var ekki tekið eftir þessu. Karlinn var einu sinni svo skrambi skemmtilega snöggur upp á lagið og hnittinorður, þegar hann annars lét eitthvað út úr sér.

Já, Bergþór verkstjóri var kominn á kreik. Og það var einhver sá öruggasti fyrirboði um vinnu, sem tómthúsmenn gátu í svipinn kosið sér. Ja, mikill assskoti, loksins átti maður að fá eitthvað að gera. Það mátti heldur ekki dragast deginum lengur úr því sem komið var. Menn voru þegar farnir að safna skuldum hjá verzluninni. Þarna var dauðinn vís ef útgerðin stöðvaðist eitthvað að ráði. Á Malareyri var aðeins um eina atvinnugrein að ræða, – útveginn.

Eyrarfjörðurinn, en svo hét fjörðurinn er Malareyrin stóð við, lá fyrir opnu hafi, umkringdur tindóttum fjöllum á þrjá vegu. Þetta voru há og svipmikil fjöll, en snauð af gróðri og því æði berangursleg. En rétt fyrir utan landsteinana voru einhver beztu fiskimið heimsins. Við þessi fiskimið var öll lífsvon fólksins tengd.

Tómthúsmennirnir stóðu í smáhópum hér og þar á þorpsstígunum og hugleiddu vandamál sín. Veður var kyrrt, ládeyða innfjarðar, en til hafs sást víða hvítna í báru; skafrenningur í miðjum hlíðum, snjóský kembdu um hæstu tinda, en bjart var í háloftinu . . .  Nei, það var ekki eins einsýnt sjóveður í dag og að undanförnu, en oft hafði nú samt verið róið í verra veðurútliti en þetta, og allt gegnið skaplega. Og eins og nokkur af formönnunum mundi víla fyrir sér að róa í sama, bara ef þeir fengju því ráðið fyrir verzlunarstjóranum og oddvitanum, Kristóbert Partan . . .

Tómthúsmönnunum varð æði tíðlitið til bátanna fimm, bjargvættanna, en þeir lágu við festar fyrir innan eyraroddann. Þessir bátar voru að vísu komnir til ára sinna og sumir nefndu þá manndrápsbolla. En hver hugsaði um það eins og á stóð? Var ekki aðalatriðið að komast á sjó, sækja sér og sínum björg? Og var það ekki hörmungin mesta að horfa á skipin fram á legunni dag eftir dag í þessari einmuna blíðu?

Það leið að kvöldi. Ekkert nýrra bar til tíðinda. Tómthúsmennirnir voru ekki lengur beinlínis vonglaðir á svipinn. Þetta voru grettnir og harðneskjulegir menn. Hvað var nú orðið af vinnuvoninni frá í morgun? Því er til að svara, að þarna gat ekki verið um neina vinnu að ræða ef ekki yrði farið á sjó. En nú var kominn norðaustan kaldi og sjór orðinn úfinn til hafsins. Menn höfðu fundið á sér veðrabrigðin strax í morgun, en ekki viljað gefa þeim gaum, vegna þess að Bergþór verkstjóri var kominn á kreik. Þeir höfðu gripið í hálmstráið. Þeir höfðu hugsað eins og hálfbjánar. Nei, hvað voru þeir að gaspra. Því ekki að sækja sjóinn – einmitt þegar hann var allur að ganga upp til hafsins. Það var sjálfsagt tilkostnaðarminnst, að senda bátana í róður þegar það var nokkurn veginn víst, að þeir myndu ekki skila sér allir að landi aftur . . .

Jæja, að líkindum hafði barnakennarinn, Falgeir, lög að mæla. Þegar í fyrravor hafði hann varað menn við alltof mikilli bjartsýni. Hann hafði talað um yfirvofandi kreppu og skorað á menn að snúa bökum saman, slá skjaldborg um Erfiðismannafélagið, og berjast fyrir réttarbótum sér og sínum til handa. En í fyrravor var næg vinna, og menn höfðu ekki haft tíma til að hugsa um annað en vinnuna. Nú var kreppan skollin á. Stórir stabbar af saltfiski biðu óseldir í geymsluhúsinu. Útlöndin voru í sárum eftir stríðið og gátu ekki keypt fisk. Þetta var kreppan.

Það var komið brúnamyrkur. Samt héldu tómthúsmennirnir áfram að standa í smáhópum hér og þar á þorpsstígnum, líkt og þeir byggjust við að eitthvað mundi ske þrátt fyrir allt. Og víða stóðu konur í dyrum þurrabúðanna og horfðu hugsandi út í myrkrið. Þurrabúðarkotin voru í rauninni engir mannabústaðir. Þetta voru gisnir og skældir kofar, sem að líkindum mundu hrynja í rúst ef ekki væri búið í þeim. Það var beinlínis eins og þeir væru að streitast við að standa á grunni, til þess að fyrirbyggja slys á íbúunum. Og kirkjuhúsið bar hin sömu hrörnunareinkenni og þurrabúðarkotin. Þetta drottinshús stóð á háum hól spölkorn fyrir innan þorpið og teygði halla og veimiltítulega turnspíru til himins. Það rambaði á grunni í hvassviðrum eins og þurrabúðirnar, – og dæmi voru til þess, að kirkjuklukkurnar hringdu sér sjálfar í mestu aftaka veðrum . . .  Í þessu þorpi fyrirfannst í rauninni ekki nema eitt hús. Það var sjálft verzlunarhúsið. Þetta hús var stærðar höll með mikið og bratt ris, stóð eitt sér á miðri eyrinni, gnæfði eins og fjall yfir þurrabúðirnar, sem hnöppuðu sig umhverfis það í tilhlýðilegri fjarlægð.

II.

Það fór aldrei svo, að ekki drægi til nokkurra tíðinda á Malareyri þetta kvöld. Allt í einu varð mikill mannsöfnuður á auða svæðinu fyrir framan verzlunarhúsið. Tómthúsmenn hópuðust þarna um Ásta snilling. Þessi snillingur hafði sezt að á Malareyri fyrir liðlega áratug. Þá var hann fullur með ofstopa, sem hann kallaði hina einu sönnu guðrækni. Ásti hafði talað af brennandi mælsku um illa anda, sem mannssálirnar væru ofurseldar, – bjargráðið væri einasta í því fólgið að ákalla guð og heilaga þrenningu og vitna um hjálpræðið í guði. Allur annar þenkimáti væri af hinu illa og leiddi beint til helvítis. Hvert orð biblíunnar væri heilagt og innblásið. Og þeir sem tryðu í sannleika á guð í orðinu, þeir einir hæfust yfir helvítisbálið á dómsdegi, svifu til himna og sætu þar veizlu frá eilífð til eilífðar. Fáeinar veiklundaðar konur höfðu fallið fyrir mælsku og innblæstri snillingsins. Og um nokkurt skeið hafði hann haldið uppi trúflokk, sem hann kenndi við upprisu mannkynslausnarans. En ekki hafði Falgeir fyrr gerst barnakennari á þessari möl og stofnað Erfiðismannafélagið, það varð nokkurn veginn samtímis, en þau undur og býsn skeðu, að snillingurinn kastaði hinni heilögu bók, hafði guðsorðið í flimtingum, og gerðist eldheitur forsvarsmaður þeirra kenninga er barnakennarinn hélt hvað fastast að mönnum. Þá varð snillingurinn einnig altekinn af eftirhermuhneigð, og eftirapaði bæði menn og skepnur af þeirri snilli að einsdæmi mátti heita.

Þetta gerðist fyrir sex árum síðan. Þá hafði Kristján heitinn Ólafsson riddari veitt verzluninni forstöðu. Hann var þá orðinn heilsuveill og oftast við rúmið. Enda fengu þeir Falgeir og snillingurinn að fara sínu fram svo til óáreittir af gamla manninum. En þingmaður þessa kjördæmis, Hafsteinn Hermann, stórútgerðarmaður syðra og eigandi verzlunarinnar á Malareyri, sá maður hafði víst aldrei dregið í efa til höfuðs hverjum Barnakennarafélagið, eins og sumir nefndu það, var sett. Hafsteinn Hermann hafði heldur ekki verið myrkur í máli um þennan félagsskap, þá sjaldan hann ómakaði sig til að þinga á Malareyri.

Framhald . . .


Í aðalsíðu