Bókaútgáfan Norðri
Akureyri – Prentverk Odds Björssonar h/f – 1950
Pabbi fær vinnu
Högni litli hnipraði sig saman inni í dimmu húsasundi. Hann var eitthvað miður sín þessa stundina . . . Högni litli! Högni var alls ekkert lítill. Hann var tólf ára og elztur af systkinunum. En Baldur bróðir var lítill; hann var svo agnarlítill, að Högni þorði ekki að koma við hann. Hann var í vöggu og svaf næstum allan sólarhringinn, vaknaði bara stöku sinnum til þess að drekka og gráta. Og Magga systir – hún var líka ósköp lítil, þótt hún væri raunar komin langt á fimmta árið . . . Lítill – hann Högni. Hann hélt nú ekki. Hann vissi sitt hvað, sem lítil börn höfðu enga hugmynd um – til dæmis það, að pabbi var búinn að ganga atvinnulaus langt á þriðja mánuð. Samt var pabbi oftast á harða hlaupum um allan kaupstaðinn í von um vinnu. En enginn vildi láta hann fá vinnustund. Þó var hann rífandi duglegur til allra verka. Það sögðu allir . . .Pabbi var oft mjög þögull. Mamma sagði, að hann hefði þungar áhyggjur vegna atvinnuleysisins. Högni gat vel skilið það. Hann hafði sjálfur þó nokkrar áhyggjur. Það var hann, sem var sendur eftir mjólkinni á hverjum morgni – í Ólafshús. Konan, sem mældi honum mjólkina, hún hét Björg, leit fast á hann, í hvert skipti sem hann kom og sagði:
– Ertu með borgunina?
– Nei, sagði Högni.
Og Björg sagði . . . Æi-nei, Högni ætlaði ekki að rifja það allt saman upp fyrir sér. Hann óttaðist þó ekki Björgu svo mjög þessa stundina, en hann kveið fyrir að koma heim. Mamma mundi sjálfsagt senda hann út í Pálsbúð til þess að taka út í reikninginn. Og Páll mundi segja nokkuð hastarlega eins og hans var vandi:
– Ertu með borgunina, strákur?
Högna vöknaði um augu. En hann var nú ekkert smábarn lengur, og það var því hálf vesældarlegt af honum að brynna músum, þótt allt léti ekki að óskum. Hann ákvað líka strax að láta ekki tilhugsunina um væntanlega sendiferð beygja sig allt of mikið. Gat honum ekki komið eitthvað skemmtilegt í hug? Henni mömmu hlaut alltaf að vera að detta eitthvað bráðskemmtilegt í hug. Hún var aldrei þögul eins og pabbi, heldur alltaf síkát og talandi. – Og eins og það væri ekki gaman að koma heim, þótt mamma bæði mann að skreppa út í Pálsbúð? Vissulega. Og vildi maður ekki verða að liði? Hann hélt nú það. Jæja, þá var víst ekki mikið að lengur. En hvers vegna hafði hann verið að þrengja sér inn í þetta dimma húsasund? Af hverju lét hann ekki sólina skína á sig? Hann var í hverfu. Já, það var líka alveg satt. Og fyrir augnabliki hafði hann heyrt Bensa Gumma kalla:
– Gefið þið hó! Gefið þið hó!
Högni hafði ekki hóað. Nú hóaði hann svo að um munaði. Hann heyrði hratt fótatak nálgast, hóaði aftur og hljóp svo samstundis út í sólskinið.
– Fundinn! var hrópað rétt við eyrað á Högna. Þar var kominn Bensi Gummi, stærðar rummungur með rauðan hárlubba, kónganef og digrar kinnar.
– Já, ég er fundinn, og ég er líka farinn, sagði Högni og tók sprettinn.
– Ég mana þig í hanaslag! orgaði Bensi Gummi á eftir Högna. En þegar Högni lét orð hans sem vind um eyrun þjóta – öskraði Bensi Gummi sýnu hærra en fyrr. – Raggeit!
Högni leit ekki einu sinni við á hlaupunum, þóttist þurfa að ná heim, áður en búðum yrði lokað. Þetta var snemma í júní og sólin nýgengin undir. – Högni hljóp í einum fleng út alla götu, heyrði bíl nálgast og vék til vinstri, án þess þó að gefa gaum að umferðinni. Hann var ekki hár í lofti, en liðlega vaxinn og snöfurlegur í öllum viðbrigðum, – og herti nú enn á hlaupunum. Húsið, sem hann átti heima í, stóð við endann á götunni. Íbúðin var eitt kjallaraherbergi. Í fyrra hafði fjölskyldan búið á þakhæð í fimm hæða trékumbalda. Þar hafði sólarinnar gætt dálítið á kvöldin. Nú bjuggu þau sama sem niðri í jörðinni, og það var enginn sól nema rétt sem snöggvast fyrst á morgnana.
– Ósköp hefur þér nú legið á, sagði mamma skærum, glaðlegum rómi, þegar Högni kom inn.
– Nú, ég hélt, að ég ætti að skreppa út í búð, og það er alveg komið að lokunartíma.
Mamma hló. Hárið hennar var bjart eins og sólargeislarnir. Pabbi leit upp og brosti. Högni brosti líka.
– Af hverju eruð þið bæði svona kúnstug? spurði hann svo.
Þá sagði pabbi; hann var bara eðlilega glaður og einhvern veginn allt öðruvísi en að undanförnu:
– Þú sleppur alveg við sendiferðina að þessu sinni, ég var að koma frá honum Páli.
Högni var satt að segja ekki lítið undrandi. Hvað höfðu þau pabbi og mamma verið að tala um, sem olli þeim allri þessari ánægju? Hafði pabbi hreppt góða vinnu? Högni sagði án þess að hugsa sig um:
– Pabbi, þú hefur fengið vinnu . . . Högni varð strax niðurlútur, eftir að hann hafði gloprað þessu út úr sér. Honum datt í hug, að pabbi yrði fjúkandi illur. Pabbi varð oft mikið reiður, ef talað var um vinnu.
– Ég . . . ég . . . ég, stamaði Högni vandræðalega.
En í stað þess að reiðast hóf pabbi Högna á loft og horfði brosandi í augu hans, hélt honum nokkur augnablik yfir höfði sér, sleppti síðan af honum höndum. Högni kom mjúkleg niður á fæturna.
– Kannt bærilega að standa á eigin fótum, lagsmaður, sagði pabbi kíminn og bætti við: – En þú þarft ekki endilega að líta út eins og rotaður selur.
Við þetta varð Högni öllu borubrattari. Hann sagði – og var nú ekki með neitt hik lengur:
– Ég veit bara fyrir víst, að þú hefur fengið vinnu. Hvað ferðu að gera?
Framhald . . . ?
Í aðalsíðu