Það er runnið talsvert vatn til sjávar, síðan ég fyrst ympraði á því við Gísla Gíslason, að mér léki mikill hugur á að rita endurminningar hans, enda eru ýmis æviatriði hans svipmikil og sérstæð. Gísli tók þessari málaleitan minni engan veginn illa. Og loks er bókarkornið komið.
Hér er ekki um ýtarlega ævisögu að ræða. Gísli stiklar á stærstu steinunum í frásögn sinni, en hleypur yfir smávölurnar, nennir ekki að eltast við þær. Þá vill hann sem fæst láta hafa eftir sér um menn og málefni, eins og það er orðað. Telur sér það ofviða, og lætur því kyrrt liggja.
Ég vil svo þakka sguhetjunni fyrir ánægjulega samvinnu og skemmtilegar og lífgandi samverustundir. Fáa þekki ég hressilegri en Gísla, þegar hann kemst í reglulegt frásagnarskap. Oft hló hann hjartanlega upp úr miðri sögu. Og eitt sinn varð honum að orði:
– Ýmsir munu nú sjálfsagt segja, að svona stykki hafi aldrei existerazt.
Ísafirði, 12. nóvember 1951
Óskar Aðalsteinn
Kippkorn fyrir innan eyrina, sem Ísafjarðarkaupstaður stendur á, við Seljalandsveg, er lítið hús eitt sér. Þetta er íbúðarhús Gísla Brimnes: Héðinshöfði. Þarna er hin ákjósanlegasta útsýn yfir Pollinn, hina sjálfgerðu höfn við Ísafjörð, og inn til dalanna fyrir botni Skutulsfjarðar.
Að Héðinshöfða hefur Gísli búið í tuttugu og átta ár, þegar þetta er ritað (1951). Lengst af var fjölskyldan á Héðanshöfða mjög fjölmenn. Sjálf áttu hjónin sjö börn, þá tóku þau þrjú börn til fósturs af börnum sínum, fjölskyldumeðlimirnir voru því tólf talsins, meðan allra fjölmennast var á heimilinu. En þrátt fyrir talsverða fátækt framan af, þá auðnaðist þeim hjónum að koma öllum þessum börnum til manns og setja þau öll til einhverrar frekari menntunar en barnaskólanáms.
Börn þeirra Gísla og Kristínar voru þessi: Sigríður, búsett í Reykjavík, Axel, búsettur í Hafnarfirði, Guðný, búsett á Ísafirði, Lára og Þóra, búsettar í Danmörku, Áslaug, búsett í Reykjavík, og Ólafur, en hann drukknaði árið 1941. Þessi voru fósturbörnin: Óskar, Petersen, búsettur í Reykjavík, Axel, nú í Vestmannaeyjum og Agnete Simson, búsett í Reykjavík.
Með árunum fóru börnin að smátínast í burtu, stofna til heimilis og vinna sjálfum sér, eins og gengur og gerist.
Og nú er svo komið, að Gísli er einni í kotinu ásamt dóttur sinni, Guðnýju. Guðný hefur staðið fyrir heimili hans í ellefu ár, eða síðan Gísli missti konu sína, en hún lézt árið 1940. Kristín varð 74 ára gömul. Hún var alla tíð mikil starfskona og lét ekki mikið á sjá, þótt öðru hverju blési í móti og gæfi á fjölskyldufleyið. Hún hafði kannski hvað minnst um sig í augum annarra, þegar mest á reyndi. Hún tók vandamálin jafnan hægum, föstum tökum, og því fastari, sem þau voru stærri, enda kunni hún ekki að gefast upp.
Guðný, eina barnið, sem ekki hefur flogið úr hreiðrinu, ber um margt talsverðan svip af föður sínum. Er allt með miklum myndarbrag hjá húsfreyjunni á Héðinshöfða.
Gísli Brimnes hefur nú fjögur ár um áttrætt. Glíma hans við Elli kerlingu hefur því nú þegar staðið alllengi, en í þeirri orrahríð, eins og svo margri annarri, hefur Gísli verið sigursæll til þessa. Segist Gísla svo sjálfum frá, að kerling þessi hin forna hafi ekki ásótt sig svo mjög honum til ama. Er það reynsla hans, að vel megi lynda við kerlinguna, að vísu þurfi stundum að búa henni smá bellibrögð, til þess að halda henni í hæfilegri fjarlægð, enda sé sá maður vonlaus, sem ekkert kunni fyrir sér.
– Að öllu gamni slepptu, það er það mála sannast um Gísla, að hann er ennþá, í vissum skilningi, ungur bæði í sjón og raun. Hann er alhvítur orðinn fyrir hærum, en hárið er mikið og mjúklegt, augun hvöss sem fyrr og skýtur öðru hverju upp í þeim björtum blikum, svipurinn hefur mildazt með árunum, en grunnt er á hörkudráttunum, þegar Gísli verður fyrir snöggum geðbrigðum. Skapgerðin sú sama og alltaf, þrátt fyrir áttatíu árin og fjórum betur, mótuð af þróttmiklu lífsfjöri og glöðu ákaflyndi. Gísli gengur enn svo til réttur og er snar í snúningum og léttur á fæti. Og þrátt fyrir hinn óvenjulanga vinnudag, þá er sá dagur ekki ennþá liðinn að kvöldi, því að enn sem fyrr sýslar Gílsi við kindur sínar, og það oftar í hjáverkum en hitt, þar sem hann gengur enn þann dag í dag að allri almennri vinnu.
Mörg undanfarin sumur hefur Gísli verið bæjarvinnuverkamaður, eins og það er nefnt; unnið við færslu á stórgrýti, gatnagerð, grjótnám, leyst af hendi girðingavinnu og fleira og fleira. – Já, girðingarvinnan. Gísli var talsvert við þennan starfa á síðastliðnu sumri. Þar var, eins og venjulega við slíka vinnu, grafið allrækilega fyrir horn- og hliðarstaurum. Víða var skriða undir jarðlaginu, enda sums staðar ekki nema tæp skóflustunga niður á urðina.
Einna dag, við nefnda girðingarvinnu, sá Gísli, hvar tveir piltar voru að glíma við að ná upp steini, sem ekki virtist vera mjög lítill né liggja laus fyrir. Piltarnir voru báðir vopnaðir járnkörlum í viðureign sinni við bjargið, og báru sig heldur vígamannlega til þess að byrja með. Gísli hafði gaman af þessu, gekk til piltanna og sagði:
– Ætlar hann að verða ykkur eitthvað erfiður, þessi?
– Ætli það, anzaði annar pilturinn.
Gísli þagði drykklanga stund og aðgætti vel, hvernig piltar þessir beittu vopnum sínum, síðan varð honum að orði:
– Ekki lízt mér svo á, að þið hafið mikið fengizt við grjót, drengir mínir.
Sá sami varð fyrir svörum:
– Nei, en maður verður að vera í þessu heldur en að gera ekki neitt.
Gísli gekk til sinna verka og gaf sig ekki frekar að piltunum um stund. Nokkru seinna leit hann þó á hjá þeim og sá, að hvorki hafði gengið né rekið með steininn, enda voru nú piltarnir ekki líkt því eins borubrattir og fyrst. Þeir höfðu lagt frá sér vopnin og kveikt sér í sígarettum.
Gísla rann í skap við þessa sjón og sagði höstugur í máli:
– Þið verðið eitthvað að taka á járnunum, strákar, ef þið ætlið ykkur á annað borð að hafa steininn upp.
Piltarnir brostu, og enn varð sá sami fyrir svörum.
– Eins og við séum ekki að, maður, – eða ertu nokkur yfirmaður hérna?
Gísli hafði nú engin orð, en hratt strákunum til hliðar, stökk niður í holuna, tætti mold, jarðtægjur og lausagrjót frá bjarginu, leitaði síðan að handfestu á því, fann hana skjótlega, hleypti í herðarnar og hóf steininn upp af handafli.
Þetta gerðist í svo skjótri svipan, að piltarnir vissu ekki fyrr til, en steinninn stóð á bakkanum við fætur þeirra, þar sem þeir studdust fram á járnkarlana. Sáu þeir strax, að steinn þessi var enginn "amlóði", og að víst mundi þurfa talsvert átak til þess að lyfta honum frá jörðu. Eftir að piltarnir höfðu mælt steininn út með augunum, litu þeir hvor á annan í þögn, svo varð þeim litið á Gísla, sem hafði tyllt sér niður. Hann skalf talsvert af völdum áreynslunnar við steininn, en aðeins nokkur augnablik, svo varð hann samur og áður.
– Það er þá engin lygi, sem haft er á orði um þig, Gísli, sagði sá pilturinn, sem fyrr hafði talað.
Gísli lyfti krepptum hnefum til hálfs, var enn nokkuð ör eftir átökin við bjargið. – Ekki veit ég um það, sagði hann. – En eitt er víst, að mér leiðist allt hangs og silagangur. Svoleiðis er ekki til á mínu korti og hefur aldrei verið þar, og það er þó áreiðanlega engin lygi.
– Nei, anzaði sá sami líkt og annars hugar, síðan leit hann allt að því með alvörusvip á Gísla og sagði breyttri röddu. – En blessaður, þú verður að ætla þér af, orðinn þetta gamall. Já, svona sviptingar geta hæglega farið með þig.
Gísli hló, hló hressilegum smitandi hlátri, enda hlógu piltarnir alveg ósvikið líka. Síðan sagði Gísli í hressilegum tón, eins og honum var lagið:
– Þú ert tekinn að eldast. Ætlaðu þér af . . . Já, ég væri ekki á nástrái, ef ég ætti eins margar krónur og þetta hefur oft verið sagt við mig í seinni tíð. En ég segi bara það, að maður er fyrst orðinn verulega gamall og sjálfum sér og öðrum til ama, þegar maður hefur hvorki vilja né þor til að neyta þeirra krafta, sem með manni kunna að búa . . . Gísli stóð nú hvatlega á fætur og gekk til sinna verka, líkt og endurnærður eftir átökin við bjargið.
Þú ert tekinn að eldast. Ætlaðu þér af . . . Varúðarorð, mælt af heilum hug við hina öldnu hetju á Héðinshöfða. – Þeir, sem þekkja Gísla bezt, munu vera sannfærðir um það, að burtför hans af þessum heimi muni ekki eiga sér langan aðdraganda, heldur bera að snöggt og óvænt. Sem dæmi hér uppá er þetta til frásagnar:
Sumarið 1949 var lokið vegagerð bæði til Bolungavíkur og Súðavíkur, og um svipað leyti var einnig lokið við að gera viðbótarvatnsveitu fyrir Ísafjarðarkaupstað. Nú var það að ráði með forráðamönnum allra þessara framkvæmda, að halda þeim verkamönnum gildi, sem lengst höfðu unnið að framkvæmdunum, og fara jafnframt með þá í skemmtiferð, bæði til Súðavíkur og Bolungavíkur.
Gísli var einn meðal þeirra, sem boðinn var þátttaka í þessari skemmtan, enda hafði hann unnið mikið að vatnsveituframkvæmdum. Ferðalagið átti að fara fram á sunnudegi og hófið þá um kvöldið.
Á laugardagskvöldið töluðu þau lítilega um þetta, Gísli og Guðný dóttir hans. Guðný vildi gjarnan, að pabbi sinn færi þetta sér til upplyftingar.
– Ég held ég hafi ekkert með það, sagði Gísli. – Það má kannski finna sér eitthvað til dundurs heima við á morgun, og hafa af því eins mikla skemmtun og bílferðinni.
– Jæja, pabbi minn, sagði Guðný og hló við. – Þú hefur þetta eins og þú vilt.Ég þekki þig það vel, að þér verður ekki ekið þangað, sem þú villt ekki fara.
Svo var ekki meira um þetta talað. En á sunnudagsmorgun, bráðsnemma, fór Guðný að heiman til þess að vinna eitthvað fyrir kunningjakonu sína. Þegar hún svo kom heim aftur um hádegið, þá brá henni heldur en ekki í brún. Þarna var þá allt með sömu ummerkjum og þegar hún fór um morguninn.
Hafði eitthvað orðið að gamla manninum? Hann hafði aldrei, svo dóttir hans vissi til, slórt í rúminu fram á miðjan dag.
Guðný snaraðist nú að herbergisdyrum föður síns og ætlaði að rjúka inn til hans, en kom að harðlæstum dyrum. Og nú efaðist hún ekki lengur um það, að faðir hennar hefði orðið bráðkvaddur í rúminu.
Guðný lét sér ekki fallast hendur við þessa tilhugsun en fór þegar í næsta hús og fékk þar mannhjálp til þess að brjóta upp hurðina að herbergi Gísla.
Þetta var fljótgert. En innbrotsmennirnir gripu í tómt. Þarna var Gísla karlinn hvergi að finna. Enginn lét sér til hugar koma, að karl hefði tekið hatt sinn og staf og brugðið sér á leik með starfsbræðrum sínum. En sú var nú samt raunin, því að um morguninn hafði Gísli verið drifinn út í bifreið til þess að taka þátt í skemmtiferð verkamanna. Vildu menn ekki heyra annað en að Gísli yrði með, og nennti hann þá ekki að standa í móti því.
Þessi "skrítla", eins og Gísli orðar það, er skýrt dæmi uppá það, að vinir hans og venzlamenn hafa þá bjargföstu trú, að fjör hans og ákaflyndi muni haldast óskert – þar til allt í einu, að hann dettur af stalli. Slík leiðarlok yrðu honum líka bezt að skapi.
Og hér ljúkum vð þessari frásögn.
Ísafjörður – Prentstofan Ísrún h.f. – 1951