Um vetrarsólhvörf (2)

Kristófer sagði allan hug sinn í hverju því máli, sem hann ræddi og ritaði um. Hann réðst með dirfsku á stöðnunina og sinnuleysið, sem ríkti í andlegum málum þjóðarinnar. Kirkjan hefðu kannski aldrei átt einlægari vin en Kristófer, þótt hann segði hanni óspart til syndanna. Hann vildi hrista rykið af þessari gömlu virðulegu stofnun, hvatti hana lögeggjan til að koma til móts við hina nýju strauma í andlegum málum. Eldur logaði í orðum hans. Eldur lætur engan ósnortinn. Funi kveikist af funa. Það urðu deilur og átök um það, sem Kristófer sagði og skrifaði. Kristófer átti sinn þátt í því, að andleg mál urðu um sinn meiri og virkari þáttur í lífi þjóðarinnar en bæði fyrr og síðar. Og hann kunni þá list að eiga mótstöðumenn sína að vinum. Í gegnum starf sitt eignaðist hann fjölda marga vini, bæði innlenda og erlenda. Hann varð fljótt landskunnur og virtur rithöfundur. Margir sóttust eftir að eiga við hann einkaviðræður um andleg málefni. Þeir voru ekki heldur fáir, sem sóttu til hans ráð og styrk í þrengingum sínum. Menn gleymdu því gjarnan, þegar þeir voru í návist Kristófers, að þar væri sjúkur maður. Handvana, fótvana, nær dauða en lífi, stráði hann í kringum sig fegurstu ilmblómum, sem ekki geta dáið. –

Tvö eru þau ritverk, sem lengst munu halda á lofti nafni Sigurðar Kristófers Péturssonar sem rithöfundar. Fyrst ber að nefna bók hans, Hrynjandi íslenzkrar tungu. Í þessari bók setur Kristófer fram þá kenningu sína, að til séu viss lögmál, sem ráða um fagurt ritmál í íslenzku og þá að sjálfsögðu í öðrum málum líka. Þessar kenningar hans eru bornar fram af rökfimi, lærdómi og víðsýni. Hitt er svo annað mál, að töfrar tungunnar verða seint fullráðnir. En góð leiðsögn mun þessi bók hverjum þeim manni, sem vill rita fagurt og hreint mál. Bókina má hiklaust telja merkilegt framlag til íslenzkra málvísinda, þótt hljóðara hafi verið um hana en skyldi. Annað merkisrit frá hendi Kristófers, sem hér verður nefnt, er þýðing hans á einni víðkunnustu helgidrápu veraldar, Bhagavad-gita. Óvíða er mál Kristófers meitlaðra og tiginbornara í öllu látleysi sínu en á þessu verki. Þýðinguna gerði hann úr ensku, að mestu eftir fjórðu útgáfu af þýðingu dr. Annie Besants. Drápan, Hávamál Indlands, svo sem Kristófer nefnir verkið í útleggingu sinni, var gefið út árið 1924, eða árinu áður en hann lézt. Þetta verk mun því vera eitt af því síðasta, sem kom fyrir almenningssjónir frá hans hendi.

– – –

Kristófer dvaldist í Laugarnesspítala í 27 ár samfleytt, eða frá því hann var 16 ára unglingur, og þar til hann kvaddi þennan heim, 19. ágúst 1925, þá 43 ára að aldri. Honum þótti raunar, eins og flestum miklum starfsmönnum, að hann ætti flest ógert, þegar sjúkdómurinn gerði honum ókleift að fást lengur við ritstörf og aðrar bóklegar iðkanir. Eftir að hann lagðist banaleguna, fékk hann enn að prófa þá reglu, og nú til þrautar, að jafnan er hægt að lifa fögru lífi, meðan sálarsjónin er óskert, hverjar sem sem ytri kringumstæðurnar eru. Við banabeð hans varð aldrei dauðahljótt eða dimmt af nóttu. Þar var vorkliður og birtugleði frá rísandi sól. Allt til loka sá Kristófer lífið í miklum ljóma og fegurð. Slíkt megnar enginn einn og óstuddur. Hún vina hans, Harriet Kjær, bar með honum ljósastikuna, frá því fyrst þau sáust, og þar til leiðir skildu á banadægri hans. Þegar hann vissi, að hann myndi deyja, bað hann Harriet Kjær að bera nokkrum vinum sínum, sem hann tiltók, kveðju sína. Síðan sagði hann:

– Nei, mér er ómögulegt að telja þá alla upp, sem ég þyrfti að biðja yður að bera kveðju mína og þakklæti. Ég er einnig í þakkarskuld við mótstöðumenn mína. Þeir hafa meðal annars kennt mér, að hlutirnir missa ekki gildi sitt, þótt þeir séu skoðaðir frá ýmsum ólíkum sjónarmiðum.

– – –

Deilt er um allar kenningar. Guðspekin, sem Kristófer hafði að leiðarljósi, er þar að sjálfsögðu engin undantekning. En í meginatriðum verðum við að vera honum sammála; að öflugt andlegt líf, grundvallað á réttlæti og mannkærleika, sé lífæð vaxandi menningar; að ef skorið sé á þessa lífæð, þá sé hnignunin vís og menningin í upplausn.

Við Íslendingar þjótum nú með eldflaugarhraða í sókn okkar eftir veraldargæðum, en gætum þess ekki sem skyldi, "að hið andlega eðli mannsins getur setið í svelti, þar sem borðin svigna undir dýrindis réttum og hvers kyns kræsingum." Þjóðinni er því fátt hollara, svo sem nú horfir, en að muna þá menn vel, sem varpað hafa skíðum á hinn andlega logann, svo að upp hefur gosið mikið bál og fagurt.

  • Greinar og viðtöl