Sesam, Sesam, opnast þú

Lauffok
Allt í einu er orðið haustlegt um að litast. Ég er einn á gangi um mannlausar göturnar og halla mér í vindinn. Hann er allhvass af norðaustri og gengur á með slyddu.

Ég stanza og horfi á nokkur lauf fjúka úr skrúðgarði yfir þvert Hafnarstrætið, síðan greikka ég sporið. Mér hefur flogið í hug að heimsækja vin minn, Marthinus Simson ljósmyndara. Mig hefur lengi langað til að skrifa eitthvað um hann. Nú finnst mér, að ég verði að láta eftir þessari löngun minni, kannski fyrir það, að jörðin hefur skipt um svip og laufið fýkur – ef til vill. Simson varð fyrstur allra Ísfirðinga til þess að töfra fram ilmblóm og trjágróður í nágrenni kaupstaðarins.

Eftir stutta stund ber ég að dyrum hjá þessum kunningja mínum. Hann lýkur sjálfur upp fyrir mér, klæðir mig úr frakkanum og segir mér síðan að gera svo vel og setjast inn í hlýjuna.

Að vörmu spori hef ég hreiðrað um mig í þægilegum armstól og kveikt mér í vindlingi. Simson hefur gert slíkt hið sama. Um stund er þögn, og ég virði Simson fyrir mér. Hann er góður meðalmaður á hæð, grannvaxinn, ekki smáfríður, en svipmildur, augun björt og fjörleg. Þetta eru augu ungs manns, en ei að síður hefur þessi vinur minn bráðum fyllt sjöunda tuginn. Hann spjallar jafnan við mann um alla heima og geima og virðist hafa áhuga fyrir flestu, sem má verða til nytsemdar og fegurðarauka. Við erum búnir að þekkjast lengi. Ég aðstoðaði hann við byggingu ljósmyndastofunnar, þá strákur innan við fermingaraldur. Og Simson sagði mér skopsögur um talandi páfagauka og greiddi mér verkalaunin með lítilli kvikmyndasýningarvél. Þetta var ævintýr. Það gerast jafnan ævintýr, þar sem Simson er. Jæja, ég segi honum erindi mitt. Hann brosir og segir:

– Svo þú vilt endilega skrifa um mig – núna. Hvað kemur til?

– Áðan sá ég laufið fjúka úr garði lyfsalans – og þú ert blómakonungurinn hérna á mölinni.

Simson tekur þessa skýringu góða og gilda, hlær smálega, stendur á fætur, lyftir plötunni ofan af skjalaskápnum sínum, en hún er líka skrifborðið hans, og leggur hana ofan á armana á stólnum, sem ég sit á.

– Nú ertu setztur við skrifborðið mitt, segir hann. – Við þetta borð hef ég skrifað í mörg ár.

– Þetta er prýðilegasta skrifborð, anza ég. – En ég verð víst að sníkja hjá þér pappír, hef ekkert annað meðferðis en pennann minn.

Simson greiðir fljótt og vel úr pappírsvandræðunum. Nú var allt fengið, sem með þurfti. Og hér birti ég margt af því, sem Simson sagði mér.

Skógurinn minn
Eins og þér er kunnugt, þá er ég danskur að ætt og uppruna. Ég er fæddur og uppalinn í miðjum stærsta skógi á Jótlandi, í Vendsyssel. Þar bjó pabbi minn og hafði nokkrar kýr og annan búpening. Pabbi var ekki handverksmaður að menntun, en honum var fleygt niður á allt, hafði lag á að vinna flest, sem að höndum bar. Hann var þúsund-þjala-smiður, og það er alls ekki ofmælt.

Jörðin okkar var einhver allra fegursti bletturinn á öllu Norður-Jótlandi. Grænt engið var umkringt skógi á alla vegu, og þarna var svipfagur útsýnishóll. Þar sátu ekki ósjaldan listmálarar við vinnu sína. Skógræktarstjórinn var næsti nábúi okkar, og unnum við flest systkinin, níu talsins, að skógræktinni undir hans handleiðslu. Ég ólst upp við þetta starf, og ef til vill er það þess vegna, sem ég hef alla tíð haft mikinn áhuga fyrir skógrækt og gróðrarstarfsemi yfirleitt. Í skóginum mínum voru fjórir mjög stórir gróðurreitir, og vann þar öllum stundum fjöldi fólks, líka hópur af börnum. Ég var ekki nema sex ára, þegar ég eignaðist gróðurreit heima og annaðist hann að öllu leyti sjálfur. Þegar ég hóf skólagöngu, seldi ég skólabræðrum mínum talsvert af plöntum, fékk einn eyri fyrir hverjar hundrað plöntur – og þótti gott. Margir af þessum strákum plöntuðu heima hjá sér. Í dag getur þar sums staðar að líta fagra skóga – vegna byrjunarstarfs skólabræðra minna.

Í skóginum mínum var fjölþætt og fjörugt dýralíf. Þar voru tófur, dádýr, slöngur, mikið af hérum og dásamlegt fuglalíf. Ég hafði hæfileika til að eftirlíkja raddir dýranna og gat ævinlega fengið þau til að svar mér. Mjög hafði ég gaman af krákunum. Þótt ég æpti og hrópaði að þeim, skiptu þær sér ekki hið minnsta af mér, létu bara eins og ég væri ekki til, en strax og ég hermdi eftir þeim, lögðu þær samstundis lafhræddar á flótta. Ég varð þess fljótlega vís, að hræðsla þeirra stafaði af því einu, að ég gat ekki eftirapað rödd þeirra nákvæmlega . . . Svo voru það höggormarnir. Það var urmullinn allur af þeim í skóginum. Stundum sýndu þeir sig á heimili okkar. Eitt kvöldið, þegar ég ætlaði að hátta og lyfti upp yfirsænginni, – lá þá ekki höggormur hvæsandi í rúminu. Ég greip hinn rólegasti eldtöngina hjá ofninum, tók orminn með henni í hnakkadrambið og vippaði honum út um gluggann – og þótti mér þetta ekki neinn sérstakur viðburður.

Skógurinn var eign Scaveniusar, eiganda Vaargaards, stærsta herragarðs á Jótlandi. Þar voru sex hundruð kýr. Scavenius á Vaargaard efndi stundum til veiðiferða í skóginum, einkum á haustin. Með honum var frítt föruneyti, barónar, greifar og ýmis önnur stórmenni. Öllum var þessum mönnum það sameiginlegt að hafa mikla ánægju af að drepa saklaus dýr. – Þarna var svo smalað saman á annað hundrað strákum, hvorki meira né minna. Við vorum kallaðir klapparar. Okkur var raðað upp langs með skógarjaðrinum með örstuttu millibili. Okkar hlutverk í veiðiferðinni var það, að við áttum að ganga í gegnum skóginn í reglulegri röð, og reka dýrin á undan okkur með því að æpa og klappa saman lófunum. Fyrir þetta var okkur gefið kenninafnið klapparar. Hinum megin skógarins og til beggja hliða stóðu svo hinir gunnreifu veiðimenn tilbúnir að taka á móti bráðinni með skotárás. Þetta fór ekki alltaf að óskum. Þegar við klappararnir vorum komnir hér um bil í gegnum skóginn og skothríðin hófst, þá trylltust dýrin. Tófan sneri þá oft í móti okkur klöppurunum og sýndi okkur kjaft og klær. Við áttum ekki ævinlega djörfung í okkur til að snúa þeim aftur, svo að margar þeirra sluppu hæglega á milli okkar, og var þar með borgið. Sum af dádýrunum stukku líkt og í leik á flóttanum yfir raðir okkar klapparanna og voru því úr allri hættu um stund. – En oft tókst okkur líka mætavel upp. Ég man eftir því, að í einni veiðiferðinni, en þessi leikur stóð jafnan yfir daglangt, voru drepin fleiri hundruð dýr og fuglar. Við klappararnir fengum 75 aura hver í verklaun, og þótti okkur það stórkostleg upphæð, en þeir, sem stjórnuðu okkur, fengu langt á aðra krónu fyrir sína vinnu.

Einkennileg þótti mér lágfóta oft og einatt og furðulega skemmtileg í ýmsum tiltektum sínum. Yrðlingarnir komu oftsinnis út úr skóginum til þess að leika sér í grasinu, en ef maður nálgaðist tófubörnin, þá lét mamma gamla jafnan til sín heyra, þótt hún sæist aldrei. Hún var bara að hóta okkur . . . Hér er svo saga um mjög skoplegt fyrirbæri: Skógarhöggsmaður nokkur, sem líka var úrsmiður, sá einu sinni sjö yrðlinga að leik. Hann flýtti sér að byrgja grenið og var svo heppinn að ná í fjóra af yrðlingunum. En þar sem hann hafði ekkert við höndina til að geyma þá í, þá tekur hann það ráð að fara úr buxunum og geymir síðan yrðlingana í þeim. Að svo búnu fer hann að leita hinna þriggja. Á meðan kemur mamma gamla, rífur upp grenið og dregur buxurnar með ungunum niður í það. Úrsmiðurinn náði aldrei í neinn yrðlinginn, en varð að fara tómhentur heim – buxnalaus í þokkabót. Var hann upp frá þessu aldrei kallaður annað en buxnalausi úrsmiðurinn.

Já, margs er að minnast úr skóginum mínum; þar lifði ég og lærði flest fegurstu ævintýrin, sem ég kann.

Á hringleikasviðinu
Ég mun hafa verið um níu ára gamall, þegar ég var sendur að heiman til þess að sjá fyrir mér að öllu leyti sjálfur. Þá voru gerðar sömu kröfur til unglinga, hvað vinnuafköst snerti, og fullorðinna karlmanna. Það hljómar ekki sennilega, en samt er það satt, að ég stóðst þessa raun það vel, að ekki var fundið að við mig. Árslaunin voru tíu krónur. Ég var svo í vinnumennsku, þar til ég náði sautján ára aldri, en þá sá ég í fyrsta skipti cirkus, trúðleikaflokk. Ég varð mikið hugfanginn af hinum margvíslegu listum, sem ég sá þetta fólk leika –, og réð mig þegar sem hjálparpilt hjá cirkuseigandanum. Eftir nokkurra vikna starf bað ég um kaupið mitt. Herrann vildi ekki borga, en launaði mér þjónustuna með því að vísa mér tafarlaust frá störfum. Næst fékk ég starf hjá fyrirtæki, sem sýndi vaxmyndir af mönnum og dýrum og hinum margvíslegustu hlutum; eftirlíkingar af sögufrægum pyndingartækjum, svo eitthvað sé nefnt. Litlu seinna gerðist ég lærlingur hjá fámennum og fátækum trúðleikaflokki. Við sýndum um þvert og endilangt landið; á sumrum í tjöldum, en á vetrum í samkomuhúsum. Þetta voru erfiðir tímar. Ég fékk eina krónu og tuttugu aura í kaup fyrsta veturinn og lítið og lélegt að borða. Ég átti aðeins ein nærföt, og þegar ég þvoði þau, neyddist ég til að þurrka þau á sjálfum mér. Við ferðuðumst í lokuðum hestvagni, sem var sex sinnum fimm álnir –, og urðum við lærisveinarnir oft að sofa undir vagninum í snjó og kulda.

Mér tókst fljótt að nema ýmis konar listir, og eftir tvö ár var ég orðinn fullgildur trúðleikari. Ég framkvæmdi meðal annars svonefndar tannaflraunir. Til dæmis fór ég í reipdrátt við sjö menn, hélt í minn enda með tönnunum einum saman, og gat ævinlega með sérstöku bragði dregið sjömenningana um koll. Seinna var þjálfun mín í þessari list orðin það mikil, að ég lyfti smávöxnum íslenzkum hesti, sem vó 435 pund, og gat gert þetta án þess að svindla, en þarna er hægt að koma brögðum við, eins og áður er sagt.

Þá var ég einn af hinum svonefndu slöngumönnum. List þessi er í því fólgin, að líkami trúðleikarans virðist eins sveigjanlegur og líkami sjálfrar slöngunnar. Nokkur dæmi til skýringar: Ég sat á venjulegu ölglasi með fæturna krækta fyrir aftan hnakkann, – stóð þétt upp við staur og lét annan fótinn liggja fast upp með staurnum, – sat á sérstökum stól með fæturna fyrir aftan hnakka, lét mann leggjast á hæla mér og lágu þá fæturnir beint aftur af stólnum, þótt ég sæti með hnakkann mót stólbakinu.

Og enn fleiri listir lærði ég og sýndi; hugsanalestur og missýningar ýmiss konar og allfurðulegar, sem of langt yrði upp að telja . . . Sem trúðleikari starfaði ég í tíu ár, bæði við smáa og stóra leikflokka. Cirkuslífið er í senn hrottafengið og einkar aðlaðandi. Aðdráttarafl kringlótta leiksviðsins í cirkus, með saggólfinu, er að mínum dómi miklu voldugra en leiksviðs í venjulegu leikhúsi. Hér vil ég geta þess, að aðalatriðið er ekki, að maður sé duglegur trúður, heldur eigi hæfileika til að leysa þrautirnar þannig af hendi, að fólkið hrífist með og gleymi öllu öðru en því, sem gerist á leiksviðinu. Þetta er list, sem ekki er hægt að læra. Þetta verður að vera meðfætt vegna þess, að hér er ekki um verklegan dugnað að ræða eingöngu, heldur miklu frekar andleg áhrif, eins konar fjöldasefjun, að ég held. Ég komst fljótt að raun um, að galdurinn var helzt fólginn í því að hugsa hlýtt og fordómalaust til áhorfendanna. Mér tókst það ævinlega. Strax og ég kom inn á leiksviðið og horfðist í augu við áhorfendur mína, sem sátu þarna allt um kring, komst ég í óútskýranlegt sálarástand, þannig að ég gat ekki annað en haft djúptæk áhrif á fólkið, jafnvel með hinu einfaldasta töfrabragði. Ég átti þessa eiginleika í svo ríkum mæli, að stundum þótti mér alveg nóg um. Ég gerði svo mikla lukku á leiksviðinu, að ég fann beinlínis til óþæginda af því að vera of dáður, og ekki hvað sízt af kvenþjóðinni. Á þessum árum var ég blátt áfram umsetinn af kornungum blómarósum, hvar sem ég kom og fór. Þarna fékk ég ríkulegt tækifæri til þess að rannsaka sálarlífið í gegnum ástalífið, ef ég mætti orða það þannig. Þessi reynsla kom mér að miklum notum síðar á lífsleiðinni, þegar ég fór að fást við sjálfstæðar heimspekilegar rannsóknir.

Hið hrottafengna við cirkuslífið er einkum fólgið í því, að það er aldrei hugsað um hættuna, – já, þá miklu lífshættu, sem svona störf hafa óhjákvæmilega í för með sér fyrir trúðinn. Lífið er túðleikaranum einskis virði, ef áhorfendur hans eru ekki ánægðir með frammistöðu hans á leiksviðinu. Ég kenndi aldrei dauðahrolls, hversu mjög sem ég stofnaði lífi mínu og limum í hættu. Ég get ekki sagt, að nokkur skuggi hafi hvílt yfir trúðleikaferli mínum, nema þá helzt öfund starfsbræðra minna, en þeir öfunduðu mig óspart af öllu meðlætinu. Einu sinni reyndu þeir að fá nokkra stráka til að öskra mig út. En þar sem ég var eins konar afguð strákanna, þá komu þeir sér saman um að klappa mér lof í lófa, en öskra starfsbræður mína út af sviðinu. Daginn eftir sögðu strákarnir mér frá þessu. Ég bauð þeim þá á sýninguna og bað þá að klappa fyrir okkur öllum, sem þeir gerðu ósvikið. Þetta hreif. Eftirleiðis varð ég ekki fyrir nærri því eins miklum óþægindum af hálfu starfsbræðra minna og alltaf áður.

Líf mikilhæfs trúðleikara er slungið marglitri töfrabirtu, en sannur trúðleikari lifir ei að síður fögru og reglusömu lífi. Ef hann gerir það ekki, mundi honum fljótlega glötun búin sem listamanni . . . Meðan ég fékkst við þessi störf, lagði ég einnig stund á tónlist og lék jöfnum höndum á básúnu, gítar og mandólín. Í tómstundum fékkst ég talsvert við málaralist og seldi myndirnar jafnharðan við vægu verði. Þá lét ég prenta litaða mynd af sjálfum mér, póstkort, sem ég svo seldi áhorfendum. Ég jós út 45 þúsund kortum á fimm árum.

Árið 1913 saumaði ég mér tjald, sem tók sex hundruð áhorfendur. Og nú stjórnaði ég eigin trúðleikaflokki um tveggja ára skeið. Síðan seldi ég tjaldið og fór til Íslands. Samtímis bauðst mér tækifæri til að fara bæði til Nýja Sjálands og Ameríku sem trúðleikari. En af einhverjum mér lítt skiljanlegum ástæðum vildi ég endilega út til Íslands, þótt ég hefði engar spurnir haft af landi og þjóð aðrar en þær, að þar væri eilífur kuldi og bláfátækt.

Nú er það alkunna, að mikill munur er á hugsunarhætti Dana og Íslendinga. En ég hafði ekki dvalizt lengi á Íslandi eð haft mikil kynni af þjóðinni, þegar mér varð það ljóst, að ég hafði ávallt verið Íslendingur í hugsunarhætti. Ég var því í rauninni kominn heim – fyrst nú – en ekki farinn að heiman.

Maðurinn getur allt, sem hann vill
Ég ferðaðist um landið í tvö ár samfleytt og sýndi listir mínar. Síðan settist ég að á Ísafirði, lærði þar ljósmyndaiðn, stofnsetti eigin ljósmyndastofu og hef upp frá því stundað ljósmyndagerð sem aðalatvinnuveg.

Nú er það þannig með mig, að ég hef ævinlega átt fjölmörg áhugamál. Ég þykist geta sannað, að máltækið – manninum er ekkert ómáttugt – sé sannleikanum samkvæmt. Mun ég nú leitast við að rökstyðja þetta með dæmum úr eigin lífi, auk þess sem áður er sagt og styður þessa kenningu. Annars er það almenn staðreynd, að ef þú leggur þig allan fram, sýnir stöðuga viðleitni og baráttuþrek til að ná því marki, sem þú keppir að, þá nærðu því.

Sesam, Sesam, opnist þú. Og undrahellirinn lýkst upp. Þar glóir á það gull, sem þú hefur keppt eftir, hvers eðlis sem það er, gott eða illt, allt eftir upplagi þínu, vilja og ásetningi. –

Strax eftir heimsstyrjöldina fyrri hófust tilraunir með útvarp. Ég reyndi að afla mér allra fáanlegra bóka, sem fjölluðu um þetta efni – og varð ég annar maður á Íslandi, sem smíðaði mér viðtæki; sá, sem var á undan mér, er Snorri Arnar í Reykjavík. Allir hlutir til slíkrar smíði, sem hér um ræðir, voru þá ófáanlegir með öllu nema lamparnir, og varð ég því sjálfur að smíða þessa hluti. Eins og gefur að skilja var það miklum örðugleikum bundið, eins og til dæmis að búa til spennubreyti með 30 þúsund vafningum. Nú, mér tókst þetta samt framar öllum vonum. Þá var aðeins hægt að hlusta á eina útvarpsstöð. Hlustunarskilyrðin voru harla misjöfn, og sum kvöldin heyrðist stöðin alls ekki, enda tækin frumstæði í frekara lagi. Fólkið á Ísafirði varð strax forvitið og áhugasamt fyrir þessari nýjung. Ég kom því viðtækinu fyrir í ljósmyndastofunni og seldi aðgang á eina krónu, þegar eitthvað heyrðist. Nú hittist svo kynlega á, að Sigfús gamli Daníelsson hjá Ásgeirsverzlun kom þrjú kvöld í röð án þess hann fengi nokkuð að heyra. Hann sagði þess vegna, að hér væri um tómt svindl að ræða og enginn skyldi fá hann til að leggja trúnað á, að svona nokkuð væri hægt. – Og Sigfús gamli lét sig ekki, kom ekki aftur, trúði ekki á undrið, þótt margir segðu honum, að þeir hefðu heyrt hjá mér í tækinu kvöld eftir kvöld.

Eftir því sem frá leið, fór að verða auðveldara að fá ýmsa hluti í móttakarann. Brátt komst ég líka það langt í þekkingu á hringrás, sveiflum og fleiru, sem ég man ekki eftir að nefna í svipinn, að mér lánaðist að setja upp alveg sérstakt diagram, sem gaf mjög góðan árangur. Og nú smíðaði ég og seldi í allar áttir ein fimmtíu tæki, sem reyndust það vel, að sum þeirra eru við lýði enn þann dag í dag, þótt þau séu vissulega mikið á eftir tímanum . . . Ég kenndi radíótækni við Gagnfræðaskóla Ísafjarðar í tvo vetur, þar að auki hafði ég eitt námskeið heima hjá mér, og tóku þátt í því átján nemendur. Að lokum pantaði ég móttökutækin beint frá útlöndum og verzlaði með þau, þar til ríkiseinkasala á slíkum vörum tók til starfa í landinu, en þá hætti ég öllum afskiptum af útvarpstækni. –

Hvað eigum við að tala um næst? Jú, þú kallar mig blómakonung. Slíkt tignarheiti hef ég ekki hlotið af annarra vörum en þínum . . . Simson hlær, og raunar hverfur brosið aldrei úr svip hans. Hann heldur áfram: Hvað sem þessari nafngift þinni líður, þá fékk ég land til afnota í Tungudal við Skutulsfjörð sumarið 1925. Byggði ég þar sumarhús og hóf þar tilraunir með garðrækt og skógrækt. Ég hef nú í garðinum mínum trjáplöntur, sem skipta hundruðum, og rækta allar þær trjátegundir með góðum árangri, sem náð hafa fótfestu á Íslandi. Þessi starfsemi hefur staðið óslitið og sífellt verið að færast út, síðan ég hóf hana. Fyrir nokkrum árum var stofnað Skógræktarfélag Ísafjarðar, hef ég setið í stjórn þess frá upphafi, einnig farið utan í kynnisferð um skógrækt. Og eitt enn um þetta: Ég hef búið svo um hnútana, að garðurinn minn verður uppeldisstöð fyrir skógrækt Ísfirðinga í framtíðinni. Skógræktin er annað höfuðáhugamál mitt, og finnst mér, að aldrei hafi ég getað unnið þessu máli eins vel og ég hef óskað.

Þá er að geta þess, að þegar ég hóf ljósmyndastörfin, lagði ég að mestu niður glingur mitt við málaralistina, en fékkst um sinn lítils háttar við að gera svartkrítarmyndir. Næst sneri ég mér að líkneskjasmíði. Fyrst gerði ég eftirlíkingu í fullri líkamsstærð af mynd Thorvaldsens – Bergmálið. Þennan grip hef ég síðan haft í garðinum mínum í Tungudal. Ýmsir urðu til að impra á því við mig, hvort myndin væri úr gifsi, en reyndar smíðaði ég stúlkuna úr kassafjölum, þannig, að ég negldi fjöl ofan á fjöl, fyllti síðan og málaði vandlega með hvítum farfa, svo daman sýndist vera úr gifsi. Á seinni árum hef ég mjög lagt mig eftir líkneskjasmíði og haft lifandi fyrirmyndir. Árangurinn af þessari viðleitni minni er meðal annars sundkonan og sundmaðurinn, sem standa á stalli framan við Sundhöll Ísafjarðar.

Já, maðurinn getur allt, sem hann vill. Það heyrir undir þessi orð að geta um þá örðugleika, sem ég átti við að stríða sökum heilsubrests. Síðan ég var nokkuð á fertugsaldri, hef ég verið mjög þjáður af meltingarkvillum og króniskum bronchitis. Ég lá iðulega rúmfastur mikinn hlusta ársins, og nemur sá veikindatími að líkindum tíu árum ævi minnar. Fimmtíu og sjö ára var ég dæmdur dauðvona. Læknisfræðin gafst alveg upp við mig. Af tilviljun komst ég þá yfir bókina Matur og næring eftir Jónas Kristjánsson. Hætti ég þá algjörlega að borða kjöt, fisk og egg. Við þetta skipti alveg um heilsufar mitt. Síðan hef ég lifað af jurtafæði eingöngu, og aldrei verið heilsuhraustari en síðustu árin. Þetta er bara eitt af mörgum þúsund dæmum, sem sanna, svo ekki verður um deilt, að jurtafæðan er og hefur ávallt verið hin eina og rétta fæðutegund mannanna. Ef allir nærðust eingöngu af heilbrigðum jurtum og forðuðust allt annað í mataræði, þá er það skoðun mín, að engin þörf væri fyrir helminginn af þeim sjúkrahúsum, sem nú eru fyrir í heiminum – hvað þá heldur, að stórkostlegur sjúkrahússkortur plagaði mannkindina eins og dæmin sanna.

Óður lífsins
Þá er ég loks kominn að mínu mesta og stærsta áhugamáli: heimspekilegum iðkunum mínum, skoðunum mínum á tilverunni, sem nú eru orðnar að lífsskilningi fyrir mig.

Í síðastliðin tuttugu og fimm ár hef ég ávallt og stöðugt hugsað um lífið og tilveruna út frá sjónarmiði sjálfstæðrar íhugunar, og jafnframt ritað talsvert um þessi mál, þar á meðal bókina Óður lífsins, sem kom út í tveim bindum (1945-46). Bókin hefur kostað mig meiri vinnu – ég var tuttugu ár að semja hana – en almenningur getur gert sér í hugarlund. Enda veit ég, að verkalaunin verða aldrei greidd mér í peningum. Samt sem áður hef ég stórgrætt á samningu bókarinnar. Fyrir þetta starf hef ég öðlast traustan lífsskilning.

Og hver er svo þessi lífsskilningur minn? Hvernig skynja ég lífið og tilveruna?

Nú skaltu setja þankastrik eða marga punkta. Hér er hvorki staður né stund til að skilgreina skoðanir mínar á því, sem venjulega er kallað hinstu rök tilverunnar. Þeim fáu, sem hafa áhuga fyrir slíku, vísa ég til bókar minnar. – Þið skuluð ekki hætta að lesa hérna. Ég ætla ekki að bjóða upp á neitt strembið, hvað þá heldur að ég vogi mér út á þá hálu braut að sýna viðleitni til að afhjúpa sjálfa lífsgátuna í fáeinum setningum.

En fyrst ég er farinn að tala um lífsgátuna, þá vil ég rétt minna á það, að lífsskilningur í víðustu merkingu getur aldrei orðið skilgreindur í orðum, heldur aðeins fyrir persónulega lífsreynslu hvers og eins einstaklings. Það, sem er sannleikur fyrir mig, þarf ekki og er ekki sannleikur fyrir þig, nema þú skynjir frá sama sjónarmiði og ég. Sannleikans um lífið og tilveruna verður hver og einn að afla sér sjálfur. Sannleikurinn er sérgrein þess, sem höndlar hann.

Hér gæti ég ósköp vel hætt. Þó grunar mig, að almenningur hafi kannski örlítinn áhuga fyrir að vita, hvað ég álíti um stöðu mannsins í heiminum í dag, einkum ef ég verð ekki langorður. Fólk hefur svo takmarkaðan tíma á vélaöld til að hugsa um andleg efni. Svoleiðis verður það helzt að fá í smáskömmtum, að öðrum kosti verður það leitt og hlutar ekki á mann. Það segir bara sem svo: Hann er eitthvað skrýtinn, þessi . . . Jæja, staða mannsins í dag í sigurverki heimsins:

Það er skoðun mín, að nútímamaðurinn sé úrkynjað dýr,en ófullkominn maður á leið til hins sanna mannríkis. Lögmál dýraríkisins, þar sem maðurinn er staddur í dag, er vald – eigingirni. En lögmál mannríkisins, sem óhjákvæmilega verður um síðir framtíðarríki mannkynsins, lögmál þess er óeigingirni – alkærleikur. Og mannríkið er ef til vill ekki eins óralangt undan og ætla mætti í fljótu bragði. Þá tilgátu má styðja með ýmsum dæmum úr nútíðinni. Það er óumdeilanlega vaxandi samvinna og samhjálp þjóða í milli. Þar ber hæst starfsemi Sameinuðu þjóðanna. Þá má nefna meiri mannúð við sjúka og örkumla en fyrr á öldum og stórum vaxandi viðreisnar- og menningarstarf með svo að segja hverri þjóð, sem greitt er úr sameiginlegum sjóði borgaranna. En þyngst á metunum fyrir hið komandi mannríki mun þó vera sú lamandi stríðsþreyta, sem nú leggst með æ meiri þunga á allar þjóðir heims, þrátt fyrir sífelldar skærur hér og þar, einkum á eystri helft jarðar. Og samfara stríðsþreytunni verður krafan um algjöran frið og afvopnun æ háværari með öllum þjóðum, og jafnt hjá þeim, sem hvað harðast berja stríðstrumbuna, – Þetta, auk margs annars, bendir til þess, að mannkynið er nú í brennidepli dýraríkisins. Það er sem óðast að afklæðast dýrshaminum. Raunar stendur það hálfnakið, því ennþá hefur það ekki öðlazt purpurakápu mannríkisins.

Sterkar rætur
Dagurinn er fyrir löngu genginn veg allrar veraldar, þegar við Simson höfum loks talað okkur metta. Svo hefur hann ekki fyrr losað mig við skrifborðið, plötuna af skjalaskápnum, og komið henni á sinn stað en honum verður að orði:

– Áðan sagðirðu, að þú hefðir séð laufið fjúka.

– Jú, víst gat ég ekki annað en tekið eftir því. Það minnir mann á það, að haustið er í nánd.

Snöggvast bregður fyrir skarpri íhygli í svip Simsons, en það er þetta ósjálfráða bros í augunum, þegar hann segir:

– Laufið fýkur og trén verða svört og nakin. En ræturnar eru sterkar. Þær leynast djúpt í moldu og deyja ekki þrátt fyrir langvarandi vetur og frostbruna, lifa, enda þótt greinarnar brotni og brestir komi í stofnana, lifa og næra trén, bera þau fram til nýs vors. Og með nýju vori klæðist skógurinn nýju laufskrúði. Þetta er nákvæm líking af þróunarsögu mannsandans; lífsskilningur minn í hnotskurn. Mannsandinn lifir nú svartasta fimbulvetur, þar sem styrjaldir, hatur og umburðarleysi er frostið í niðamyrkri dýraríkisins. En hvað heldur þú, að margir skilji, að þessi ragnarök séu nauðsynleg, svo mannandinn fái numið andstæðnalögmálið – gott og illt – til fullnustu, og uppskorið vor og dásamlegt sumar; fæðzt inn í nýjan heim á jörðu hér, – hið sanna mannríki?

  • Heim á aðalsíðu . . .