HULDUMÁL

 – komir þú í Katla á kyrru sumarkvöldi



VIÐ EIGUM marga Hulduhvamma, Álfhóla, Tröllaborgir og Dvergasteina. Álagablettir munu vera margfalt fleiri á Íslandi en byggð ból, þótt flestir séu þeir nú gleymdir. Í eina tíð átti svo að segja hver maður sína fylgju, og þannig mætti lengi telja.

   Þessi litla gróðurtorfa, landið umhverfis Galtarvitann, var álitin ein af meiri háttar álfabyggðum landsins. Hér hefur enginn búið, án þess að hafa orðið var við álfaþjóðina. Sögur af slíkum atburðum eru flestar fallnar í gleymsku. Hér er ein, eins og hún er skrásett af Kristjáni G. Þorvaldssyni á Suðureyri:

   "Einu sinni var Guðný Magnúsdóttir að leita kinda, og lá leið hennar um Katla, sem eru vestast í Keflavík. Þegar hún var að koma þangað, sá hún þar konu vera að mjólka kú, og stóð hjá henni maður með hendur í vösum. Hún þóttist vita, að fólk þetta væri aðkomandi, og ætlaði að hafa tal af því. Hún fór því beint þangað, og þegar nær kom, sá hún það mjög greinilega. Kýrin var fönguleg og falleg, með blönduðum litum, fjórlit, sem kallað var. Guðný sá á bak konunnar, sem var að mjólka. Var það þrekin kona í peysufötum, og féllu miklar og þykkar fléttur niður herðar hennar.

   Guðný stefndi beint á fólkið og hafði ekki af því augun, en þegar hún var rétt komin að því og ætlaði að fara að rétta manninum höndina til að heilsa honum, þá skrikaði henni fótur, svo að hún leit niður fyrir sig, en þegar hún leit upp aftur, var allt horfið."    Þetta gerðist í Kötlunum fyrir löngu. Þessi blettur er eins og skapaður fyrir huldufólk. Þarna eru djúpir grasbollar, hólar og hæðir og stórgrýti, sem hrunið hefur úr Geltinum.

   – Komir þú í Katla á kyrru sumarkvöldi og hafir þú hljótt um þig, þá munt þú máski heyra skrjáf í klæðum og óm af strengleik. Stundum finnst mér allt þarna iða af lífi í kringum mig, einkum þegar ég er þar einn. –

   Stúlkan sem hvarf


Sumarið 1888 gerðist furðulegur atburður hér á staðnum. Þriggja ára stúlkubarn týndist, og sást ekki til hennar aftur fyrr en á þriðja degi, frá því hún hvarf. Þá fann móðirin telpuna sína á kvíabólinu ofanvert við Heimatúnið. Gerð hafði verið þrautaleit að barninu, en án nokkurs árangurs. Svo var telpan þarna allt í einu, og alveg eins og hún átti að sér að vera, líkt og hún hefði aldrei horfið út umsjá móðurinnar. Fólkið á bænum trúði því, að barnið hefði búið með álfum, meðan það var týnt. Það trúði því, að barnlaus álfkona hefði lagt ofurást á telpuna og ekki staðizt þá freistingu að taka hana til sín. En þegar svo huldukonan hafði séð afleiðingar gerða sinna, hræðsluna, sem greip fólkið við hvarf telpunnar og harm móðurinnar, þá . . .

   Já, álfkonan skilaði barninu aftur, af því hún var raungóð og heiðarleg hulda . . . En telpan, hvað sagði hún? Ekki neitt. Hún vissi ekkert af sér þann tíma, sem hennar var saknað.

   Svo er það álfkonan, sem í eina tíð bjó í Stefnishlíð upp af Norðurtúni. Þessi álfkona vitjaði stundum húsfreyjunnar í draumi, einkum ef hún var ein heima með börnin, og bóndinn stundaði sjóróðra frá Súgandafirði. Þegar veðráttan var stríðlynd, og hríðin geisaði dögum saman, olli einveran og öryggisleysið bóndakonunni þungum raunum og kvíða. Þá þótti henni óendanlega langt til næstu mannabyggða og heimkomudagur bónda síns ótryggur.

   Það var eina slíka hríðarnótt. Húsfreyja ein í kotinu með börnin. Lengi barðist hún við andvökuna. Loks fékk hún fest blund. Samstundis varð kotið að höll: Álfkonan í Stefnishlíð stóð við rúm hennar; heiðríkja sólnáttanna í svip henni, vor í augum.

   Draumurinn var bóndakonunni sem veruleikinn sjálfur. Í svip álfkonunnar sá hún, að ótti hennar var ástæðulaus. Ekkert ólán mundi henda bónda hennar. Senn kæmi hann heim heill á húfi með björg í bú.

   Sama illviðrið þrumdi yfir bænum næstu dægrin. En bóndakonan lét ekki bugast. Djörf og vonglöð gekk hún að störfum sínum. Álfkonan í Stefnishlíð hafði aldrei brugðizt henni. Hún gerði það ekki heldur í þetta sinn. – Daginn sem veðrinu slotaði, sást til bóndans fyrir myrkur úti á Galtarfjörum. Hann gekk við broddstaf og hafði byrði í bak og fyrir. Það voru stjörnuljós á himninum og mikil gleði í kotinu.

   Álfatrumba


Hér í kringum okkur á Galtarvita hafa verið álagablettir svo að segja við hvert fótmál. Nú er ekki vitað um nema fáa eina. Einn þeirra er Álfatrumba. Hún á að var bustmynduð þúfa í Heimatúninu, þar sem hallar niður í Árdalinn. Enginn getur bent þér á þennan stað með neinni vissu. Bóndi, sem hér bjó á síðasta tug nítjándu aldar, lét freistast til að slá Álfatrumbu. Huldufólkið hegndi honum með því að drepa fyrir honum einu kúna, sem hann átti. Eða eigum við heldur að segja, að kýrin hafi drepist úr einhverri pest, sem fólk kunni þá engin skil á? – Fyrsti vitavörðurinn, sem hér sat, sló álagablett í Stefnishlíð. Hann missti þrjátíu kindur árið eftir, og huldufólkinu var kennt um fjárskaðann.

   Við skulum leiða hugann frá þessu. Einhvern veginn finnst mér, að hér búi aðeins gott og listrænt huldufólk. Áðan sagði ég þér frá strengleik í Kötlum. En veiztu bara; það er sinfóníuhljómsveit í Keflavíkurhól. Eitt kyrrlátt síðkvöld lá ég á hólnum sem oftar. Þá uppgötvaði ég hljómsveitina. Það var mikill hljómgaldur í hólnum. Slíka tóna hef ég aldrei heyrt fyrr. Þetta voru ekki tónar frá venjulegum hljóðfærum. Þeir minntu helzt á útnesjaþeyinn á vorin.

   Ég vildi fá að heyra meira, og lagðist aftur á hólinn einhverja næstu nótt. Þá var engin hljómlist. Síðan hefur ekkert spilverk verið í hólnum, svo ég viti. En kannski hitti ég einhvern tíma aftur á réttu stundina. Ég sit oft á hólnum, ekki til að hlusta eftir hljómum, ekki til að hugsa, ekki til að gera neitt –, nema að horfa á grasið dansa í andvaranum og ljósið yfir landinu og svif sjávarfuglanna, sem stöðugt fljúga hjá.

   Álagablettir


Víst var í mér hræðsluskjálfti, þegar ég í fyrsta sinn sló álagablett. En skrambinn hafði það; ekkert misjafnt kom fyrir. Ég gerðist djarfari, sló fleiri álagabletti. Og viti menn, ef eitthvað skeði, þá jókst nytin heldur í beljunum. Já, álfarnir voru mér einkar vinveittir. Þeir létu sig ekki muna um þessi fáu strá ofan í beljurnar. Og nú fór ég að færa mig heldur betur upp á skaftið, sló bannhelgasta blett staðarins, Efra-Katlatúnið. Þetta var skorpusláttur. Undir niðri þótti mér sem ég væri á flótta undan einhverri yfirvofandi hættu og að allt væri undir því komið, að ég kæmi þessu sem allra fyrst af. Brann kannski jörðin undir fótum mér? Dauðans vitleysa. Að sjálfsögðu kom ekkert misjafnt fyrir.

   Hæhæhæ, allt í lukkunnar velstandi.

   Heyið þornaði eftir hendinni. Svo kom að heimkeyrslunni; þá dundi ólánið yfir. Ég hafði ekki farið nema eina ferð, þegar ég féll af heyvagninum með þeim afleiðingum, að ég skaðmeiddist á vinstri handlegg. Tvo daga var ég rúmliggjandi, og viku frá vinnu, nema hvað ég bar við að skrifa mér til afþreyingar . . . En Efra-Katlatúnið, þar skal ekki borinn ljár í gras, meðan ég ræð einhverju á Galtarvita – – –

   Stundum hef ég orðið fyrir undursamlegum áhrifum yfir orfinu. Ég verð laufléttur og glaður, svo sem eins og alveg að tilefnislausu. Það er eins og ég hafi öðlazt hamingjukennd, sem ekki verði frá mér tekin. Það er sama tilfinningin og þá sjaldan ég skrifa eitthvað, sem ekki eru bara orð. Maður skrifar og skrifar, og það eru einasta orð og aftur orð. Svo gerist það örsjaldan, að orðin eru eitthvað meira en dauðir bókstafir. Þau hafa þessa óútreiknanlegu hreyfingu í sér fólgna, sem lifir í brjóstinu, löngu eftir að öll orð eru gleymd. – Þegar þessi elskulegheit grípa mig á teignum, þá er orfið ekki lengur þungt og klunnalegt amboð. Þá er ljárinn ekki lengur bitlaus og dauður eins og oft vill verða. Þá leikur orfið svo léttilega í höndum mér, að – já, það er alveg áreiðanlegt; einhver ósýnilegur reiðir ljáinn, þótt ég sé með í leiknum.

   Einu sinni þegar ég er í þessu upphafna sæluástandi, þá sé ég allt í einu hvar minnsti snáðinn minn situr í slægjunni skammt frá mér, horfir á mig hýrglaður og segir:

    – Sérðu nokkuð?

    – Hvað á ég að sjá?

   Minnsti maðurinn svarar ekki, er þotinn á fætur og horfin á bak við stóran stein. Honum dvelst þar stundarkorn, svo kemur hann aftur til mín; fimm ára hnokki, gullinhærður, kvikur í hreyfingum og síbrosandi.

    – Áttu eitthvað þarna hjá steininum? spyr ég.

    – Nei, pabbi minn, svarar hann tvístígandi og bætir við: – Áðan sá ég þar eitt blóm.

    – Eru þar ekki alltaf blóm?

    – Ekki svona blóm.

    – Hvernig blóm?     Minnsta manninum er svarafátt; nú segir hann ekkert.

    – Hvernig blóm? spyr ég aftur.

    Nú stendur ekki á svarinu:

    – Það eru vara öðruvísi blóm og aldrei eins. Það er alveg hvítt og alveg rautt stundum, líka blátt, grænt og gult, og stundum líka gullblóm og silfurblóm.

    – Var svona blóm hjá mér áðan?

    – Nei, nei.

    – Hvað var þá hjá mér? Þú spurðir mig, hvort ég sæi nokkuð.

   Minnsti maðurinn hlær, svo létt svo glaðlega, eins og hans er vandi.

    – Var það ekki neitt? spyr ég.

    – Það veit ég nú ekki vel, pabbi minn. En það var eins og maður að slá hjá þér.

    – Jæja.

    – Já, en hann fór strax.

    – Eru nú viss um það?

    – Já, já, það kom eins og þoka, og þá sá ég hann ekki meir.

    – Sérðu oft huldumenn?

    – Nei, nei, þá kemur allaf svona einhver þoka og tekur þá burt, þó það sé sólskin.

  Svefngengill


– Og hér er önnur saga um minnsta manninn og hulduþjóðina. – Nei, ég ætla að lúra á þessari sögu. Maður verður að eiga eitthvað fyrir sjálfan sig. En hér kemur enn önnur saga, og hún er um mig:

    Það er kominn vetur. Myrkrið er dottið á. Ég sit og skrifa. Skyndilega finnst mér sem sviðið verði autt og tómt. Ég heyri rödd hið innra með mér, sem segir:

    – Þú hefur gleymt að kveikja á vitanum.

    Þetta er bláköld staðreynd. Ekkert ljós á vitanum í kolsvartamyrkri, og bara fyrir gleymsku. Meiri afglöp getur vitavörður naumast framið í starfi sínu.

    Ég rýk út á hlað, snöggklæddur og á inniskóm. Og hvað er þetta, hver býsn eru þetta?

   Það er búið að kveikja á vitanum.

   Ég segi þetta aftur. Það er búið að kveikja á vitanum . . .

   Konan mín er uppi á lofti að kenna drengjunum; þeir eru þrír, sá elzti níu ára. Ég er sannfærður um, að ekkert okkar hefur farið út úr húsi, síðan myrkrið datt á. Hér hefur því gerzt undursamlegt atvik: Einhver ósýnileg hönd hefur tendrað ljósið á vitanum.

    Blessað huldufólkið ætlar ekki að gera það endasleppt við mig. Það gleður mig með dýrlegri sönglist og hljóðfæraslætti, hvíslar skáldlegum hugmyndum að undirvitund minni, grípur jafnvel í orfið, þegar sá gállinn er á því. Og nú hefur það hjálpað upp á mig með vitavörzluna, af því ég gleymdi mér við ritstörfin.

   Ég er innilega glaður og þakklátur hulduþjóðinni. En þessi hughrif urðu því miður skammvinn. Ég er ekki fyrr seztur við skrifborðið aftur en efasýkin tekur að naga í mér hjartað. Já, gat nú ekki verið, að konan mín eða einhver drengjanna hafi kveikt á vitanum, þótt ég yrði þess ekki var?

   Efasýkin rekur mig upp á loft. Þar er ég leiddur í allan sannleikann: Í rökkurbyrjun höfðu bæði konan og drengirnir séð til mín ganga út í vitann til að kveikja. Elzti strákurinn fullyrðir, að ég hafi haldið á pennanum í hendinni. Honum þótti það dálítið skrýtið. Hann veit ekki til þess, að ég fáist við ritstörf úti í vita.

   Þannig var þetta; ég hafði gengið eins og svefngengill frá skrifborðinu og upp í ljóshúsið til að kveikja. Þetta þarf ekki frekari skýringa við. En þarna fór falleg huldusaga fyrir lítið. Svona fara þær víst margar nú til dags.