Heimskringla
Reykjavík, MCMLVIII
Aðalumboð erl.: E. Munksgaards forlag - Khöfn
Fyrsti kapítuli
Það var kosningavor. Og í gær útnefndu nokkrir ágætir ráðamenn Dalgeir Daðason, skólastjóra á Mjóeyri, sem þingmannsefni alþýðunnar í Víkursýslu, eins og það var orðað í eyru fólksins. Síminn skólastjórans hafði ekki látið af að hringja allan daginn. Ýmsir landskunnir stjórnmálagarpar, sem elskuðu smælingjann heitar en lífið í eigin brjósi, höfðu skyndilega fundið hvöt hjá sér til að slá Dalgeiri Daðasyni gullhamra.Og það var morgunn hins fyrsta dags í lífi Dalgeirs Daðasonar. Og nóttin nýliðna varð honum dýrðlegur dagur. En skömmu áður en sól rann upp fleygði Dalgeir sér í öllum fötum á legubekkinn í skrifstofu sinni og naut brátt sinna ljúfustu dagdrauma í svefninum:
Hann var orðinn þingmaður Víkverja. Þetta hafði gengið eins og í beztu lygasögu. Annars var blátt áfram ofboðslegt að horfa upp á harmkvæli mótframbjóðandans, Höskulds Skaftasonar. Hann grét með háum hrinum þegar atkvæðatalningunni lauk og tilkynnt var, að Dalgeir Daðason væri réttkjörinn þingmaður Víkverja. En Dalgeir gekk fram á svalir samkomuhússins á Mjóeyri – þær voru raunar engar í veruleikanum – til að taka á móti heillaóskum fjöldans. Og hann sá ekki betur en að Eyrargatan væri orðin að stórborgarstræti með iðandi manngrúa, sem fórnaði höndum upp til lukkuriddarans og hrópaði aftur og aftur:
– Lifi Dalgeir Daðason. Lifi Dalgeir Daðason.
– Já, verði hann allra karla elztur, hrópaði Dalgeir til aðdáenda sinna, var síðan glaðvaknaður og þótti draumurinn góður, sem vonlegt var, en brosti þó að honum í öðru, minntist líka ævintýra næturinnar með óblandinni ánægju. En Dalgeir vildi helzt vera á ferð og flugi, þá sjaldan hann skvetti sér upp. Og í gærkvöldi hafði hann leigt bíl frá Strandfirði, sem var stór staður í annarri sýslu, og eytt þar nóttinni í góðra vina fagnaði.
Nú spratt Dalgeir á fætur eftir fuglsblund, úthvíldur og í skapi til að gera stóra hluti.
Í aðalsíðu