Iðunn
Reykjavík, 1964
Einn dag gerði á mig svartakafald á sjónum með stinningskalda af hafi. Ég átti styttra norður í vík en heim og setti þar á land, gekk eins tryggilega frá bátnum og ég kunni og hugðist sækja hann við fyrsta tækifæri. Hvítt snælín yfir grænni jörðinni, allt var hvítt, hvert sem litið var. Vetur genginn í garð, hans tími kominn, og lét ekki standa upp á sig.– Vertu sæll, sagði gamla konan.
Og sæll var ég, kom fannbarinn í bæ eins og um hávetur. En ekkert er göldróttara en sólarljósið. Aftur kom ylhýr sól, sólskin í öllum litum, og landið reis nýtt upp úr mjallarbriminu, sumarland, blátt og rautt og grænt. Sumar um vetur. Það kom af sjálfu sér, að aftur var hafizt handa við heyskapinn. Lengi mátti finna sér blett til að slá. Það snöggdimmdi á kvöldin og snöggbirti um miðjan morgun. Við vöktum í sólargeislanum og sváfum tryggilega í myrkrinu.
Einn bjartasta sóldaginn reið Garðar að okkur Hlíf á Mósa, renndi sér af baki, fleygði sér í slægjuna, jós yfir sig heyviskum og hló. Skyndilega sat hann kyrr og virtist horfa bergnuminn á eitthvað í grasinu. Þannig leið lítil stund, síðan kom líkt og snögg eftirsjá í svip drengsins, svo brosti hann glaðlega og sagði:
– Sáuð þið huldufólkið?
– Sást þú huldufólk? spurðum við samtímis.
– Já, já, það var að dansa, og dansaði mest í kringum pabba.
– Var það í bláum og rauðum fötum? spurði Hlíf.
– Já, og líka í gulum og grænum.
– Er það farið núna? spurði hún.
– Já, það kom þoka. Þá fer það, og það kemur alltaf svona þoka.
– Sérðu það oft? spurði hún.
– Bara þegar er mikil sól. Er það ekki sólskinið í augunum á mér, mamma. Þú sagðir það einu sinni.
– Það er fallegt sólskin, allt þetta prúðbúna huldufólk að dansa í kringum hann pabba þinn, sagði hún.
Garðar gleymdi að svara, var þotinn burt á Mósa. Við reyndum ekki að finna neina skýringu á því, sem gerzt hafði. Kannski fá svona hlutir gildi sitt af því að vera óskýrðir, en ég gat ekki stillt mig um að segja við Hlíf:
– Þú stóðst fjær drengnum en ég, það var ekki að marka, þó hann sæi ekki margt dansandi fólk í kringum þig.
– Þakka þér fyrir hugulsemina, sagði hún. – Á ég að segja þér beztu huldusöguna, sem ég kann?
– Já, gerðu það.
– Einu sinni sem oftar sat ég úti í góða veðrinu, sagði hún. – Sól skein í heiði og ekki bærðist hár á höfði. Þá kom Ragna til mín og rétti fram höndina eins og hún vildi sýna mér eitthvað. Ég get ekki séð neitt í lófa þínum, barn, sagði ég. Jú, blóm, sagði hún og lét blómið í lófa minn. Ekkert blóm á grundinni var eins fallegt og þetta. Ég komst við af fegurð þess, þó hef ég aldrei litið það augum.
Og enn reið vetur í garð sínum hvíta færleik – og sneri ekki aftur. Hlíf var ferðbúin. Enginn vissi um burtfarardaginn. Honum réð óviss skipskoma, veður og vindar. Um sinn var tvíátta, af landi og hafi með snöggum umskiptum. Það voru útsynningsél og stríð vindbára, þegar við fréttum af vitaskipinu. Það yrði við vitann klukkan þrjú í nótt. Þeir ætluðu að freista þess að ná konunni og börnunum. Börnin vissu, hvað til stóð og áttu örðugt með að festa svefn um kvöldið, einkum Garðar. Hann var síspyrjandi um skipið og bátinn, sem kæmi í land.
Um tvöleytið fór ég í fjöru að líta á sjólagið. Það var óbreytt frá í gærkvöldi, þó hafði vindurinn heldur aukizt. En vel mannaður bátur . . . ? Þeir mundu koma, þeir gætu lent . . . Þegar heim kom, varð mér að orði:
– Þetta er ekki of gott.
– Það þarf ekki að vera eins slæmt og það sýnist, anzaði hún.
Þögn, nema klukkan tifaði. Hlíf gekk frá smádóti. Ég hjálpaði henni, nei, ég tafði einasta fyrir. Fingur okkar fléttuðust saman, og hún var hjá mér og hvíslaði:
– Ég kem fljótt aftur, Vörður.
Ég hugsaði, að landtakan yrði þeim ekki auðveld, en að þeir mundu klára það með prýði, heyrði orð hennar í gegnum hugsanir mínar og hafði þau yfir hægt og hljóðlega:
– Já, þú kemur fljótt aftur, Hlíf.
Við færðum okkur að stöðinni. Fyrst barst þaðan ekkert hljóð, nema veðurdynurinn, svo heyrðist rödd skipstjórans greinilega. Þeir voru beint framundan vitanum og mjög nærri landi. Við áttum að tygja okkur til ferðar og höfðum hraðan á. Börnin losuðu vart svefninn fyrr en þau komu útí hríðina. Garðar var óvenju kyrrlátur, Ragna grét af óyndi, en blundaði þess á milli í fangi mínu, meðan við biðum í fjörunni. Lágir en hraðfara sjóir brotnuðu á urðinni. Það eygði í dauf skipsljósin úti í kafaldinu. Báturinn sást ekki fyrr en rétt áður en hann lenti. Nokkrir vitaskipsmenn tíndust upp í fjöruna með varning, sem þeir lögðu frá sér undir Hamrana. Ég gleymdi að kveðja Rögnu, stóð kyrr, meðan báturinn fjarlægðist, svo flýtti ég mér til bæjar og kallaði á vitaskipið.
Ekkert svar.
Þeir hlutu að hafa opna stöð. Ég kallaði aftur. Sama þögnin. Enn kallaði ég, og loksins svaraði rödd skipstjórans:
– Þetta gekk vel, Vörður, við biðjum að heilsa þér.
Ég þakkaði kveðjurnar og slökkti á stöðinni. Köld stroka fór upp eftir bakinu á mér. Mér hafði láðst að loka útidyrahurðinni. Vindurinn næddi í gegnum húsið.
– – –