Óskar Aðalsteinn

L Í F S O R R U S T A N

Skáldsaga

 

 

Iðunn
Reykjavík, 1964

Copyright ©1964
All rights reserved


ANNAR HLUTI


XV.

(bls.178)
Snjóbíllinn lét áreiðanlega ekki standa upp á sig um morguninn. Og hver tekur eftir því, sem ferðast í slíku farartæki, þótt varla taki úr á milli élja?

Hvað tjóaði að tala svo. Ég hafði ekki lagt mörg fjöll að baki, þegar ég fékk ákveðinn grun um það, að ég færi villur vegar. Og þar kom, að mér þótti sem snjóþoturnar færu í gegnum mig –, og umheimurinn á herðum mínum, fyrir löngu hafði hann sagt til sín, og tók hugann til sín meira en villan, meira en snjóþoturnar, sem fóru í gegnum mig. Umheimurinn, hann óx og óx eftir því, sem ég gekk lengur undir honum, hann þandist út, ekki af einhverju fisléttu, heldur blýþungu. Ég sá sjálfan mig í huganum eins og dverg með fjall á herðunum. Dvergurinn ber ekki fjallið, nema í ævintýrum. Þetta var ekki ævintýri. Ég hlaut að leggja fjallið af mér. Allt mundi ganga betur ef ég færi laus og liðugur . . . Ég kippti í ólarnar, án þess þó að slíta af mér byrðina. Nú rödd talaði til mín: Þú býrð þér til þessa mynd, sagði röddin. Þú ættir heldur að búa þér til aðra mynd, þar sem umheimurinn minnkar stöðugt á herðum þínum, þar til hann er orðinn að hæfilegum bagga, sem þægilegt er að bera. Og snjóþoturnar, þær fara ekki í gegnum þig, þær ráðast að vísu að þér, en þú hefur í fullu tré við þær, ef þú vilt. Og þú ferð ekki villur vegar. Þú gengur beint á stormstrenginn. Það er rétta áttin. Í réttan tíma verður þú kominn heim, aðeins ef þú vilt það . . .

Eitthvað var þessi rödd öðru vísi en hún átti að vera, eitthvað var í henni, sem ekki var hægt að treysta. Brátt var eingin rödd meir. En drápsklyfjarnar á herðum mér, þær voru, og öskrandi bylurinn var uppstyttulaus, og snjóþoturnar, þær stungust í gegnum mig eins og lagvopn. Ég var niðri í nornakatli, og sneri ýmist upp eða niður, hraktist undan sveljandanum, fékk ekki lengur brotizt gegn honum.

Svo breyttist allt.

Það var meiri kyrrð en ég fékk skilið undir eins. Brátt skildist mér þó, að ég hreyfðist ekki lengur, en lá afvelta þar sem ég var kominn. Einhver varð til að leggja yfir mig mjallarábreiðuna. Þannig var breitt yfir alla frægustu illviðriskónga í íslenzkum hrakningasögum. Ég var kominn á bak við veðrahaminn og spurði sjálfan mig hljóðlega, hvort þetta væru endalokin. Það var enginn sársauki eða þykkja í þessari spurningu, nánast ljúf tilfinning. Ég sagði við mig, að þannig væri dauðinn, óttalaus og engin ósk lengur, enginn knýjandi spurn . . . Síðan sagði ég ekki neitt og vissi ekki neitt. Var það lengi eða stutt? Ég veit það ekki. Breytingin kom snögglega.

Ég hófst á loft.

Þannig var það, ég hófst á loft í einni svipan. Hlíf og Garðar og Ragna og litli Vörður, þau réttu mér öll hönd, það var ein styrk hönd: Já, hvers vegna kúrði ég þarna í snjóskafli, eins og andvaralaus fugl, bráðum kominn heim, rétt ókominn heim? Von þau brostu. Ég brosti líka. Það var máttug hönd, sem lyfti mér upp. Ég var fisléttur og umheimurinn fisléttur á herðum mér. Snjóþoturnar fóru í gegnum mig. Það var bara gott. Ég datt og stóð á fætur í það óendanlega. Það var líka gott. Þetta óendanlega var hvorki langt né þreytandi lengur, heldur stöðugt að taka enda og byrja upp á nýtt í nýjum tilbrigðum, sem héldu athyglinni vökulli. Ég fór ýmist á fótunum, höfðinu eða hliðinni. Og það var vaxandi ferð, það var óstöðvandi ferð. Ég valt um fjöllin og þau um mig . . . Eitt sinn þegar ég braut út úr snjóhengju sá ég fjallshyrnu í sortanum – og þekkti hana.

Þetta var Kálfavíkurhyrnan.

Það þýddi, að ég var tveim víkum fyrir austan vitann og átti aðeins ófarin fjögur fjöll af þúsund. Og örstutt heim í Kálfavík til hennar Gunnu. Í fornum kvæðum og sögum er Kálfavíkur-Gunna mikil seiðkona. Hún flýgur um í loftinu, gengur um á hafsbotni, veiðir fiska með augunum, heyjar á eggsléttum engjum inni í fjallinu, þegar votviðrasamt er í mannheimum, gerir óvinum sínum sendingar, stefnir til sín mönnum af fjarlægum landshornum og byrlar þeim drykki, svo þeir vilja hvergi vera nema í Kálfavík.

Og ég er kominn í bæinn og sat á rúmi húsfreyjunnar. Hún starði í augu mér og sagði:

– Á, ert það þú?

– Svo mun vara.

– Vörður Þorgilsson?

– Sá er maðurinn.

Hún var roskinleg ásýndum, en snögglega skipti hún um ham, var nú sem ein gullbúin hirðdama og mælti:

– Senn hættir þú útskagarallinu.

– Heldurðu það?

– Þú ferð á kaupstaðarskrall.

– Ætli það?

– Hugurinn stefnir burt frá fjöllunum, fæturnir hlaupa á eftir.

– Er mér nokkur alvara?

– Það er alvara, sem innst býr.

– Verður það mikið rall?

– Það mun hæfa illviðriskónginum . . . Hún hló og rétti að mér vínbikar fullan á barma. Drykkurinn hafði ljóma bjartra júlínátta. Ég spratt upp af fletinu, hratt bikarnum úr hendi hennar og þaut á dyr.

 

Ferð mín var ekki með öllu tíðindalaus, þótt skildi með okkur Gunnu. Aftur sá ég sömu fjallshyrnuna. En nú var þetta ekki lengur Kálfavíkurhyrna. Það var fjallið yfir vitanum. Kálfavíur-Gunna hafði villt um fyrir mér. Hafi hún samt þökk fyrir góðar viðtökur. Einn forveri minn af eyðiskaganum kom út úr moldviðrinu með mikla byrði á herðum sér, gekk beinn, fór geyst og sagði um leið og hann hvarf í bylnum:

– Enn mun finnast óbrotin krús í Kálfavík.

Ég fór jafnvel með meiri hraða en þessi forveri minn, flaug frekar en gekk síðustu skrefin heim. Svo hafði Hlíf ekki fyrr hjálpað mér úr illviðrishamnum, en hún vildi að ég færi í rúmið. Ég hló og sagði:

– Ég er ekki hvíldarþurfi.

– Vörður, hvíslaði hún.

– Á ég að segja þér, Hlíf, ég gæti farið suður yfir um hæl, ef á þyrfti að halda. Hvað er klukkan?

– Hún er fimm að morgni.

– Fimm að morgni, hafði ég hægt upp eftir henni. – Hef ég verið svona lengi á leiðinni?

– Já, hvíslaði hún.

– Einhvers staðar hef ég týnt niður tíma.

– Hugsaðu ekki um það, reyndu að hvíla þig.

– Það skefldi yfir mig, áður en ég komst á heimafjallið.

– Talaðu ekki um það núna, sagði hún og dró mig að sér. – Lof mér að hafa þig alveg hjá mér.

– Þú ert alveg hjá mér, Hlíf. Hvernig gaztu beðið svona lengi eftir mér?

– Ég var ósköp lítilfjörleg.

– Í fyrrakvöld fórstu í fjósið með börnin, og þú sagðir þeim sögur.

– Hvernig veistu það?

Ég sagði henni frá kirkjunni.

– Það var eins og þú hugsaðir í kirkjunni.

– En í nótt, Hlíf?

– Ó, ég var aldrei alveg ein, vinur minn.

Ég bar hana í rúmið. Þegar ég vaknaði, hvíldi hún enn við brjóst mér. Illviðrið þaut fyrir utan. Þó var undursamlega kyrrt. Hún losaði svefninn og hvíslaði:

– Ég lofaði börnunum, að pabbi yrði kominn heim, þegar þau vöknuðu.

Ég tók hana í faðm mér og sagði:

– Þú ætlar ekki að svíkja þau um vitakarlinn.

 

Svo kom dagurinn, þegar fyrst sá til sólar á vetrinum. Dálítil sólskinsstund, titrandi geisli. Börnin horfðu hýreyg á sólskinið. Þegar það fór, greip Garðar blað og blýant og krotaði á blaðið. Ég gægðist yfir öxl hans. Hann hafði teiknað stóra sól og örlítinn hest, leit upp á mig og sagði:

– Himnaríki er orðið blátt, pabbi minn, og hann Mósi er fallegastur í glaða sólskini.

Ég horfði á þessa mynd í kyrrlátri þögn. Einn síðsumardag í fyrra felldi ég Mósa. Síðustu dagana hafði hann dregist áfram eins og skuggi af sjálfum sér. Hjartað hafði bilað hann. Fyrst eftir þennan atburð vék Garðar úr vegi fyrir mér, yrti ekki á mig að fyrra bragði, fór einförum og grét.

Við áttum helming töðunnar óhirtan, þegar Mósi féll. Ég bar heyin á sjálfum mér. Mósi hafði borið tvær sátur í hverri ferð. Ég bar eina. Mósi hafði farið sér heldur hægt, en verið drjúgvirkur. Ég fór hratt, þótti samt sem hvorki gengi né ræki fyrir mér. Við höfðum ekki undan að koma þurrheyinu í hlöðu, það rigndi og verkaðist illa. Þegar þannig vannst mundum við Mósa eins vel og vert var. Og Ragna og Garðar stráðu blómum og stráum á hauginn hans í hvert sinn, sem þau áttu leið framhjá.

Síðustu heyskaparvikuna lengdist burðurinn til muna. Ein og ein sáta tíndist með strjálingi inn um baggagatið. Ég kunni ekki að ganga í sporin hans Mósa . . . Dag nokkurn þóttumst við sjá fram á einmuna þurrk. Hvert strá var breitt. Svo kom hellidemba. Síbreiða af heyi lá undir rigningunni. Hlíf var farin heim. Ég stóð einn eftir í sjóvotum flekknum. Þetta var tilgangslaust. Hér var ekkert hæft að gera. Þá kom Garðar. Það var í fyrsta sinn, sem hann kom til mín af sjálfsdáðum, eftir að ég felldi Mósa. Hann var alveg eins og hann átti að sér, léttur, leikandi glaðlegur og sagði:

– Nú leiðist heyinu, pabbi minn.

– Heldurðu það? sagði ég og tók drenginn snöggvast upp að brjóstinu á mér.

– Já, dálítið, sagði hann. – Svo hlær það aftur strax og rigningin fer. Þú ert búinn að bera mikið hey, pabbi minn.

– Hver segir það?

– Hann Mósi. Hann sér það í öllu sólskininu, sem hann er í hjá guði . . . Drengurinn grét hljóðlega.

– Svo þú ert að gráta, kútur minn.

– Ónei, ég er hættur að gráta hann Mósa. Það er svo sárt, ég get ekki grátið hann meir.

. . . Og í dag sást fyrst til sólar á vetrinum. Garðar teiknaði mynd af sólinni og Mósa. Himnaríki var blátt. Og bráðum heyrðist lindarhljóð í haga.

 

XVI

 

Einn vordaginn var hin langa einangrun endanlega rofin. Nýju vitavarðarhjónin komu ríðandi norðan úr vík með lausan hest í taumi. Maður að nafni Arnþór hafði talað við mig fyrir stuttu, kvaðst vera ráðinn til að taka við af mér, en vissi ekki, hvenær hann gæti flutt á staðinn. Nú var hann kominn. Hestarnir voru ungir og stríðaldir gæðingar, tveir brúnir, einn fannhvítur, sá sem frúin sat. Arnþór var maður um þrítugt, liðlega vaxinn, svartur á hár og skegg, augun gráblá og glettin. Hann tók þétt í hönd mína, talaði eins og við værum gamlir kunningjar, hló stutt í snöggklippt skeggið við flestu, sem sagt var, og þó einkum að eigin orðum. Jóna, konan hans, var kornung stúlka, ljós og lagleg, aðkenning af styggð í augnaráðinu. Arnþór rétti henni hönd um leið og hún fór af baki, svo gekk hann til hestanna, hvers fyrir sig, og gældi við þá.

– – –


Lífsorrustan – XV. (16) –