Iðunn
Reykjavík, 1964
Það var hátíð í menningarklúbbnum í Indíuhöll sama kvöldið og efnt var til fagnaðarins fyrir Inga Jónsson heima í Kistu. Börnin voru langsamlega í meirihluta hjá okkur, og héldu sína veizlu hvar helzt, sem þau gátu fundið sér afdrep. Allir mættu á tilsettum tíma, nema Þura og Ingi. Stórir kökuhraukar og tertur skörtuðu á borðinu. Utan úr eldhúsinu barst súkkulaðiilmurinn. Flóra leit leiftrandi hlátursaugum á tvo auða stóla fyrir öðrum borðsendanum og sagði:– Þetta er eftir honum, hann ætlar að láta okkur messa yfir tómum stólum, karlhlunkurinn.
– Heiðursgestirnir koma ævinlega síðastir, svaraði Hlíf fyrir Inga.
Enok:
– Hún Þura þarf kannski að ge-gera lítinn hlut áður en hún ke-kemur.
Flóra:
– Láttu ekki eins og fífl, Enok. Þura stendur sig. Það er fjandinn hann Ingi, nú hefur einhver tiktúran fokið í hann. Þetta er svo dyntótt . . . Flóra þagnaði í miðri ræðu. Það var gengið um niðri. Mörgum varð litið fram á skörina. Afmælisbarnið gekk undan konu sinni upp brakandi stigann og heyrðist segja þungum rómi:
– Reyndu að létta á þér, manneskja.
– Ég geri það, sagði konan værðarlega.
– Jú, þú gerir víst slag í því, stundi Ingi. – Þvílíkt andskotans heljarbjarg, sem þú ert.
– Láttu mig þá niður.
– Niður, ekki aldeilis, upp skaltu, þó svo að þú merjir mig í klessu.
Sem betur fór urðu engin slys á heiðursgestunum. Allir voru boðnir og búnir að létta byrðinni af Inga og rétta Þuru hönd. Hún gerði næstum að fylla út í loftsgatið. Þegar upp kom, var henni strax vísað til sætis. Ingi stanzaði frammi við dyr, þögull og þungbrýnn.
– Þar kom að því, að kjaftakvörnin á þér stóð á sér, sagði Flóra.
Enginn hló, varla að nokkrum stykki bros, allir horfðu á Inga, ungir og gamlir, nema Þura, hún horfði á börnin hjartnæm á svip.
– Haldið þið, að ég sé að sýta út af engu? kom loks frá Inga. – Þetta í stiganum var smáræði hjá öllum þeim hrellingum, sem ég hef orðið að þola í kvöld. Ég hef verið eins og útspýtt hundsskinn út um allan bæ eftir bíl fyrir kerlinguna.
Hlátur.
– Já, kvíið þið bara . . . Ingi reif sig upp fyrir hláturinn. – Einu sinni á ævinni, þegar maður ætlar að vera reglulega flott og aka í fínum bíl, þá eru helvítis kerrurnar allar uppteknar.
– Nú lýgur þú, hló Flóra.
– Þá er það líka helber lygi, að ég er sextugur í dag. Þeir eru að aka hyskinu í menningarklúbbinn, smala þessu saman eins og fé til slátrunar úr bænum, Firðinum, Hrífudal, og hver veit hvaðan.
Flóra:
– Ég sá ekki betur en þú kæmir á öskutroginu.
Það hlakkaði í Inga:
– Ónei, kelli mín, það var annað skrapatólið til og ekki betra. Spænski skrattinn hefði fyrr látið líftóruna en að aka mér hingað.
Flóra ýtti við Inga.
– Svona, stattu ekki þarna sígjammandi, sagði hún. – Taktu sönsum, seztu. Ef þú manst það ekki, þá skal ég hjálpa upp á minnið og láta þig vita, að þú ert heillakarlinn og uppáhaldið í kvöld.
Ingi horfði á veizluborðið, líkt og hann væri að sjá það fyrst nú, samstundis birti verulega yfir honum, og hann sagði skrollandi:
– Nú hlýt ég að vera dauður, og þið að drekka erfið mitt.
Mikil glaðværð.
– Hér er snafs-snafsinn . . . Enok rétti vínflösku yfir borðið til afmælisbarnsins.
Leópold kom með aðra vínflösku og lét þessi orð fylgja henni:
– Njóttu heill guðaveiganna og vertu hundrað ár í öskunni.
Ingi horfði hrifnæmum svip á sínar fríðu flöskur og sagði:
– Kóngavín, skál í botn, bræður.
Það var mikil og almenn gleði fram eftir kvöldi. Um miðnætti, í veizlulokin, reyndist auðvelt að fá glæsibíl undir heiðurshjónin. Svo fylgdi ég þeim Enok og Leópold heim til þeirra, og þeir fylgdu mér heim í Kistu. Á þessu gekk um stund, en þar kom að lokum, að ég varð einn eftir á götunni. Fyrr en varði bar mig að upplýstum Indíuglugganum. Þá þóttist ég vita, að hér biði mín nýr fagnaður.