Óskar Aðalsteinn Guðjónsson


Ljósið í kotinu


Skáldsaga



 

Prentstofan Ísrún
Ísafjörður, MCMXXXIX
Copyright ©1939
All rights reserved

 


Í þoku


1.


Það snjóaði.

Kafaldsflygsurnar komu hægt og hljóðlaust, þær þyrluðust niður í fljúgandi hringiðu, ein og ein, tvær og tvær, alltaf hraðar og hraðar; þær kysstu kalda jörðina, mjúkt og hljóðlátlega, sléttuðu yfir lautir og dældir, en mynduðu skafla eða snjódyngjur á hæðum. Með morgninum gerði uppstyttu. Hin þungu og fyrirferðarmiklu svörtu ský leystust upp í gráar slæður, sem smá hvítnuðu og hurfu síðan.

Í gegnum birtu morgunsins fór að móta fyrir háum og hrikalegum fjöllum. Efst í hlíðum þeirra gnæfðu klettar. Fyrir neðan tóku við langir hryggir, skriður, sem hlaupið höfðu fram fyrir langa löngu. Fætur þeirra náðu niður undir kauptúnið, sem stóð á lágri og bugðóttri eyri innst við fjarðarbotninn.

Húsin á Eyrinni:

Sum stóðu á fjörugrjótinu niðri við flæðarmálið, og báran féll næstum upp að þröskuldinum.

 

Kotið:

Það stóð eitt sér neðan til á eyraroddanum; það var hrörlegt og skakkt. Vindarnir og vetrarharkan höfðu leikið um þetta hreysi marga mannsaldra. Elztu menn í þessu byggðarlagi mundu eftir þessu si svona. Já, si svona hafði það verið meðan hann Jóhann og hún Petrína bjuggu þar.

– Já, þau höfðu líka alltaf verð svo skelfing fátæk, þau höfðu líka eignast svo skelfing mörg börn.

Í þessu hreysi höfðu alltaf búið fátæklingar, fólk, sem ekkert átti nema sinn eigin líkama.

Nú var vetrarmorgunn. Það var dálítill vindgjóla af norðri. Nýfallinn snjór á jörðinni. Frost.

Það var dauðahljótt í þessu byggðarlagi. Fólkið, sem kúrði hér undir hálffúnum við og ryðguðu járni, við léleg sængurföt, – hafði gleymt öllu andstreymi dagsins. Það svaf vært. Svo kom hreyfing á þessa líkama; þeir nudduðu stírurnar úr augunum, settust fram á stokk, skulfu svolítið í kulda vetrarins og smeygðu sér í fataleppana. Sumt af þessu fólki átti svo léleg föt, það næddi svo í gegnum þau, en það var svo vant því, það fann ekki til þess. Karlmennirnir fóru til vinnu sinnar, þeir fóru niður á Eyri til þess að vinna við fiskinn hans Lárusar kaupmanns og útgerðarmanns; sumir fóru líka út á hafið að sækja fisk. Konurnar fóru að ylja upp í hreysunum, svo þurftu þær að koma krakkaskömmunum á fætur. Krakkarnir grétu stundum mikið, það var svo kalt, svo fengu þau ekki kringlu með kaffinu eins og í gær.

– Mamma, því fáum við ekki líka kringlu núna? segja þau og gráta.

Svo líður dagurinn, og kvöldið kemur. Fólkið kemur heim frá vinnu sinni.

 

Feðgarnir í kotinu:

Faðirinn Þorfinnur.

Hann var lágur og þrekinn, boginn í baki. Það voru djúpar hrukkur í enninu. Það voru líka fastir drættir í kringum munninn.

Sonurinn Hreinn.

Hann var lágur vexti og gildur eins og faðirinn. Andlitið var vel lagað og smágert, yfir því lá sakleysisblær, sem sjaldan hvarf af því.

Þorfinnur gamli settist að kvöldverðinum eins og hann var vanur, án þess að taka af sér húfuna eða snerta sápu. Hann seildist með hægri hendi eftir mjólkurbollanum og hellti úr honum út á grautinn; síðan handlék hann skeiðina nokkrum sinnum milli stórra og klunnalegra fingranna, sem voru orðnir beygðir af stöðugu erfiði og áreynslu.

 

Hreinn Þorfinnsson.

Hann sat þarna á móti honum föður sínum. Hann var líka að borða hafragraut. Hann borðaði hægt og rólega. Stundum sat hann hreyfingarlaus með skeiðina í hendinni. Hann var niðurlútur. Það var eitthvað draumkennt í svip hans, eitthvað einkennandi í öllu fasi hans og háttalagi, utan við allt hversdagslegt. Þessi maður sat oft tímunum saman upp á loftherberginu. Hann lokaði að sér og sat þar aleinn. Þá var hann að mála. Hann málaði nokkrar vatnslitamyndir. Sumar þeirra hafði hann hengt upp á þil til að prýða með stofukytruna, aðrar lokaði hann niðri í koffortinu sínu.

– Það eru hugmyndir, sagði hann við fólkið. – Þið hafið ekki gaman af að sjá þær.

Í kvöld var hann að hugsa um eitthvað, sem var í fjarlægð. Hann minntist líka á það við föður sinn. Hann talaði hægt og dreymandi.

– Krossgilin, sagði hann . . . – Stundum hefur þú sagt mér frá þeim. Þú sagðir, að stundum hafi sólin verð að hverfa bak við Grænadalsfjall, þegar þú varst að fara niður í gilin. Þá hafi skuggarnir teygt sig upp eftir hamraveggjunum? Hann hætti að tala og horfði á föðurinn. – Hvernig voru þessir skuggar? Orðin köfnuðu á vörum hans, þau bárust aldrei til eyrna föðurins.

Sonurinn hneigði höfuðið.

Spyrja? Það þýddi ekkert, ekki svona spurninga. Hann varð að ímynda sér það, bara ímynda sér það, – þetta fólk skildi ekki hans tilfinningar, hans þarfir, þær voru svo ólíkar þeirra þörfum. Hann varð að berjast áfram einn með sínar hugsanir og þrár, enginn skildi þær. Hann dreymdi svo fallega drauma. Fyrst trúði hann fólkinu fyrir þeim. Það bara hló og sagði:

– En sú vitleysa!

Hann hætti að trúa fólkinu fyrir hugsunum sínum og draumum. Hann var eitthvað svo óskyldur þessu fólki í hugsunum . . .  Svo var lífið svo kalt. Dagarnir liðu í erfiði . . .  Þessir dagar voru svo ömurlegir. Honum fannst þeir anda köldu á drauma sína. Stundum var hann ánægður og glaður. Þá var hann að mála draumana. Það kom fyrir, að þeir brutu sér farveg út úr huga hans og urðu að lokum að sérstöku málverki, sem bar það með sér, að þar höfðu hæfileikar listamannsins verið að verki.

Sonurinn stóð upp frá borðinu. Hann gekk nokkur skref eftir gólfinu. Hann gekk hægt og klaufalega. Það var eitthvað stirt og kalt í fasi hans. Hann gekk upp stigann, sem lá upp í loftherbergið. Það leið tími, og það var ekkert talað niðri. Það heyrðist heldur ekkert uppi.

Svo kom skerandi barnsgrátur.

Faðirinn stóð á fætur. Hann gekk inn í stofuna. – Pabbi, var sagt skýrri barnsrödd, um leið og hann lagði hurðina að stöfum.

 

Húsfreyjan Hávarðína:

Hún var þriðja manneskjan, sem hafði setið þarna í eldhúskytrunni í Kotinu þetta kvöld. Hún hafði, strax og hún var búin að koma matnum á borðið, gripið til sokks og farið að prjóna, varla litið upp, horfði eitthvað svo raunalega niður á prjónana, sem tifuðu þetta með jöfnum hraða.

Líkami hennar var feitur og fyrirferðarmikill. Hún skalf oft og titraði. Hún var alltaf svo armædd, – stundum grét hún. Hana hafði svo lengi langað til að eignast telpu, en guð hafði aldrei viljað gefa henni telpu. Fyrir sjö árum hafði hún eignast dreng, þá grét hún mikið. Hún hafði ekki sofið nema stutta stund margar nætur á eftir. Þó þráði hún svo heitt að sofa og gleyma. Lítil, falleg telpa, það hafði verið hennar lífsósk, hennar lífsdraumur, en hann rættist ekki. . . . Sumir draumar rætast aldrei.

Líkami hennar fór að titra, og brjóst hennar, stór og íbjúg, lyftust óeðlilega ört, – það komu líka tár fram í augun. Það var myrkur, og vindurinn gnauðaði svo ömurlega. Brimið söng undir dimmri röddu. Hún grét í myrkri næturinnar.

Hún fór að hugsa um börnin sín. Henni létti svolítið. Þessi kona bar heitar, ástríðufullar tilfinningar til barnanna sinna, þó að í þvargi dagsins yrði hún oft köld og fáskiptin við þau.

Hreinn var elzti sonurinn. Hann hafði alltaf verið henni svo einstaklega góður og fórnfús, en hún skildi ekki sál hans né tilfinningar, og henni fannst þetta myndavesen hans svo fáránlegt, – hún hálf hræddist hann stundum . . .   hann gerði sig stundum svo einkennilegan. Stundum sagði hann líka svo einkennileg orð, stundum þagði hann marga daga eins og hann væri mállaus.

Móðirin hafði oft grátið út af þessum syni sínum, vakað marga nóttina, kvíðandi um líf hans, – hann gat ekki verið með öllu heilbrigður, blessaður drengurinn.

Hávarðína dró andann djúpt niður í lungun. Svo blés hún honum frá sér með þungum stunum.

Já, hún vissi ekki hvar þetta mundi lenda með hann að síðustu.

Svo var það hann Anton. Það var ábyggilegt: Hann átti innilegar og góðar tilfinningar, það hafði móðir hans oft fundið, en þær fengu bara svo sjaldan að njóta sín. Hann var svo leikfullur og fljótfærinn, en það gat elzt af honum. Hún hélt líka, að hann ætlaði að verða nokkuð áhrifagjarn; eitthvað var hann farinn að hanga aftan í stelpunum – og í þessu fótasparki var hann með þeim fram eftir öllum nóttum. Hún sá hann sjaldan, þennan son sinn. Hann var oftast á sjónum, blessaður drengurinn.

Aftur rann út í fyrir þessari armæddu konu. Hún réri fram í gráðið. Svo hætti hún að hreyfa sig og starði eldheitum augum inn í myrkur vetrarins. Hún sat þannig nokkra stund og hlustaði á söng brimsins; hún hafði stundum setið svona og hlustað. Hvert ólagið á fætur öðru kom æðandi upp í fjörugrjótið og dó þar með miklum stunum og bægslagangi. Dauðabrölt sjóanna við hrjúft fjörugrjótið skar í hjarta móðurinnar, – henni heyrðust deyjandi raddir hrópa í öskri brimsins.

– Drengirnir mínir, sagði hún grátandi – blessaðir drengirnir mínir. Hún gekk út að glugganum og horfði á öldurnar brotna, hún starði út á hið ólgandi haf í tröllaátökum þess. Það hafði slitið frá henni tvö líf, sem hún elskaði svo heitt.

Hún studdi sig við fúna gluggakistuna og starði og starði. Hún sá ekki lengur út á hafið. Tár hennar höfðu fyllt augun.

 

Maðurinn í loftherberginu var sofnaður. Hann var svo hamingjusamur, hann hafði gleymt hinum hversdagslega ömurleika. Sál hans hafði flogið inn í óskalöndin. Hann sá með sínum eigin augum skugga giljanna. Það lá bros yfir andliti hans, og það sást rifa í augun. Hann ætlaði að mála þessa sýn og loka hana svo niður í koffortið sitt. Fólkið mundi ekki hafa gaman af að sjá hana. Það mundi brosa spyrjandi.


2.


Steinn:

Sjö ára drenghnokki.

Hann hafði svarta hárlokka, sem hrundu fram á hátt og hvelft ennið, – stundum huldu þeir líka blá djúp augun. Það bjó eldheit þrá í þessum augum, þrá eftir einhverju ókunnu, leit að einhverju sem stóð fyrir utan hið sýnilega.

Stundum kúrði þessi drengur við hlið föður síns; hann þrýsti sér svo innilega upp að hinum hrörlega og slitna líkama gamla mannsins. Það var rökkur í herberginu, og stundum féllu regndropar á ryðgað járnið, hægt og hægt, einn og einn, stundum var líka algjör þögn, stundum talaði gamli maðurinn; hann talaði slitrótt og lágt. Drengurinn, sem lá við hlið hans, hlustaði, hann hlustaði af öllum mætti sálar sinnar, hann hlustaði með öllum líkamanum.

Í gegnum orð föðurins skynjaði drengurinn nýjan heim, – heim, sem var að baki þess sýnilega. Þessi heimur var fullur af ókunnu fólki. Sumt var stórt eins og klettarnir í fjallinu fyrir ofan Eyrina. Það óð jörðina upp í hné, kraftar þess voru ómælanlegir. Í hendi þess lágu vindar himinsins, regn sumarsins, snjór vetrarins og öldur hafsins. Þessir voða manngervingar stóðu að baki náttúruaflanna, – í höndum þessara ógurlegu jötna var allt líf fólksins. Svo voru líka til menn og konur svo ósköp smá – eins og lítil börn. Þetta fólk átti heima í blágrýtissteinunum í hlíðinni, sumt átti líka heima í holum og hellisskútum. Þetta fólk smíðaði töfragripi. Sumir þessara töfragripa áttu eins mikinn mátt og jötnarnir.

 

Klettaborgir:

Hann horfði oft hrifinn á hina gnæfandi kletta, hann lá stundum tímunum saman fast upp við þá og hlustaði. Honum heyrðist stundum sungið. Það var líka til fólk, sem átti heima í klettaborgum. Það var fallegt fólk, helmingi fallegra en mennska fólkið, – svo átti það helmingi fallegri föt, – svo var það ábyggilega helmingi betra fólk.

Hann horfði oft hrifinn á frosnar íshellurnar, sem lágu yfir díkjum og pollum. Það var mánaskin. Hann sá fólkið fallega, góða og velklædda í mánaskininu út á eggsléttu svellinu. Hann horfði á hreyfingar þess, svo mjúkar og fullar yndisþokka, líkama þess svo fagurlega limaða og viðkvæma. Fegurð, – það var svo gott að vera þar sem fegurðin var.

 

Sveitabær:

Það var eitthvað æðra hinu hversdagslega við þessa mannabústaði. Hann hafði stundum horft lengi á sveitabæ. Það var gras á þakinu, það var líka gras á veggjunum – og það angaði úr því eins og grasi jarðarinnar. Bærinn hlaut að vera lifandi eins og jörðin . . .  Stundum var einkennilegt fólk í þessum híbýlum. Bærinn titraði stundum allur og skalf. Það var óferskja á sumum bæjum, sem smó í gegnum heilt, andlit hennar var nábleikt, augun gljákennd og starandi, andardrátturinn kaldur og sogandi, röddin eins og upp úr opinni gröf.

– Ó, guð hjálpi mér! hrópar vinnukonan og missir niður mjólkurfötuna.

Ófreskjan stendur glottandi yfir henni og skrumskælir nábleika ásjónuna . . .

 

Faðirinn hafði sýnt honum inn í þennan heim. Þetta var líka hans heimur. Hann elskaði þennan heim, en hann var líka orðinn hluti af hugsviði drengsins.

Þeir feðgarnir hjúfruðu sig svo innilega hvor upp að öðrum og héldust í hendur. Það var myrkur, og regnið féll hægt og draumlyndislega, einn og einn dropi, svo kom þögn, – svo féll annar dropi.

Hvað eru bækur?

Eitthvað dularfullt, sem drengurinn skildi ekki.

– Pabbi, sagði hann. – Hvað er gert með bækur?

– Það er lesið í þeim, sagði faðirinn.

– Hvað er að lesa? spurði drengurinn með áfergju.

– Stafirnir í bókinni segja manni sögur.

Hann starði undrandi á föðurinn.

– Hvernig geta stafirnir það?

– Með því að við lærum að þekkja þá, svaraði faðirinn.

– Ég vil læra að þekkja stafi, sagði drengurinn áfjáður.

Faðirinn sýndi honum stundum staf og staf. Drengurinn glímdi oft lengi við þessar einkennilegu rúnir, sem fylltu út allar síður bókarinnar. Hann glímdi við þær margar klukkustundir, stundum sofnaði hann úrvinda af þreytu, með svita á enni og bókina ofna á sér.

Smám saman lærðist honum að skynja sögur í gegnum þessar einkennilegu rúnir. Hann las margar bækur, – hann las allar bækur, sem hann gat náð í. Hann hljóp sig oft þreyttan eftir fljúgandi bréfsneplum. Á þessum bréfsneplum voru stafir; þeir sögðu honum ýmislegt.

 

Skólinn:

Þar voru líka lesnar bækur. Sumar þeirra voru svo þurrar og leiðinlegar, svo ólíkar hinu lifandi síkvika lífi. Þær færðu honum svo lítið nýtt, þessar bækur, – svo þurfti hann að þylja þær svo oft. Hann var oft leiður í skólanum. Hann kepptist heldur ekkert mjög mikið við lærdóminn. Hugur hans var alltaf í einhverju öðru.

 

Krakkarnir:

Honum fannst þeir leiðinlegir. Sumir voru svo ærslasamir, svo hugsuðu sumir svo lítið, sumir töluðu líka ljót orð.

Hann átti engan vin. Þó þráði hann stundum svo innilega að eiga vin, – vin, sem hann gæti hvíslað að sögunum sínum, – vin, sem gæti elskað þær eins og hann.

Einu sinni hafði hann ætlað að eignast vin.

– Við skulum ganga inn með fjörunni, sagði hann.

– Því? sagði vinurinn.

Þeir gengu inn með fjörunni. Steinn lagði hönd sína yfir um háls vinar síns. Svo fór hann að tala við hann um sín áhugamál.

– Jörðin er lifandi, sagði hann.

– Ha? sagði vinurinn.

Þeir gengu framhjá Hólsbænum. Það var gamall sveitabær.

– Þetta hús er samvaxið jörðinni.

– Ha? sagði vinurinn.

– Bærinn er lifandi eins og jörðin. Svo talaði Steinn lengi um bæinn og jörðina.

– Við skulum fá lánaðan bát og færi, sagði vinurinn. – Svo getum við stolið beitu hjá honum Júlla í Byttunni.

Steinn horfði þögull á vininn.

– Þú ert ekki vinur minn, sagði hann og gekk á burt.

Hann var hættur að leita að vini.

 

Hann gekk einn meðal steinanna í hlíðinni. Stundum starði hann lengi á þá. Þeir hlutu að vera lifandi. Hann hvíslaði að þeim sögum sínum.

Stundum sat hann lengi við að skrifa. Hann skrifaði langar sögur. Honum var það svo mikil nautn að láta ímyndunaraflið fljúga. Þá gleymdi hann hinu sýnilega umhverfi.

– Ég held þú sért genginn af vitinu. Það var festa í þessum orðum. Það heyrðust líka þungur andardráttur.

Drengurinn hrökk í kút. Það var eins og gripið væri um hjarta hans. Móðirin Hávarðína brýndi raustina:

– Þú átt að lesa lærdómsbækurnar þínar.

Svo kom önnur skipun:

– Hættu undir eins þessu ónytjungspári.

– Já, sagði hann.

– Já, bar undir eins, sagði hún hærra. – Ég veit ekki, hvar þetta lendir með þig, drengur. Þér má þykja gott og þakka þínum sæla, ef einhverntíma verður hægt að klína á þig fermingunni. Já, ég gæti bara sagt það við hvern sem er, að engin af mínum börnum hafa vanrækt skólann eins og þú og hann Hreinn, ég tala nú ekki um hann Anton, jæja greyið. Hann var þó í mörgu skárri en þið, alltaf var hann kátur og skemmtilegur, drengurinn, þótt hann væri stundum nokkuð ófyrirleitinn. Svo varð þögn.

Feitt brjóstið lyftist óeðlilega ótt og títt eins og skip í stórsjó. Hávarðína var bara að sækja í sig veðrið. Svo sagði hún: – Það er engu líkara, en að þið séuð einhverjir spekingar, sem ekki geti hugsað né talað um annað en einhverja bölvaða vitleysu, en þú ert ungur, greyið, og máski hægt að venja þig af svoleiðis háttalagi. Hávarðína stóð þögul yfir syni sínum nokkra stund. Ekkert heyrðist nema þungur andardráttur hennar. Feitt höfuðið hristist og viprurnar í kringum munnvikin voru á sífelldu iði. Það var ólga í skapinu. – Hana, sagði hún og hrifsaði blöðin hans, reif þau í sundur og kastaði þeim í gólfið. – Hafðu þetta fyrir stífnina. Það marraði í gömlu gólfinu. Hurðinni var skellt hranalega að stöfum.

Drengurinn horfði á rifin blöðin, sem lágu í hrúgu á gólfinu. Það voru tár í augunum og kergja í svipnum.

. . . Rifin blöð, sundurtætt af höndum armæddrar konu, – þetta voru hans fallegustu hugsanir, – þær höfðu verið rifnar niður og kastað á forugt gólfið.