Óskar Aðalsteinn Guðjónsson


Ljósið í kotinu


Skáldsaga



 

Prentstofan Ísrún
Ísafjörður, MCMXXXIX
Copyright ©1939
All rights reserved

 


Í þoku


8.


Öldugangur mótlætisins dundi hástöfum fyrir eyrum Steins Þorfinnssonar, og útsogið, þungt, magnmikið og beljandi, ætlaði að rífa hann með sér undan brekkunni, ofan í hyldýpi myrkursins.

En innra með honum ríkir sérstætt jafnvægisástand. Hugtakið, sem felst í orðinu líf, er fyrir hann sálarsjónum keðja orsaka og afleiðinga. Hann er einn hinna þöglu, djúpt hugsandi sálna, einn af þeim, sem dregur hugsanakerfi sitt út úr hringiðu lífsins og virðir það fyrir sér, þar sem víðsýnið er mest. Sál hans brosir góðlátlega, næstum fallega, við árekstrunum eða því, sem fólkið kallar örðugleika lífsins. Það sézt í föstu yfirbragði andlitsins og djúpum, kyrrum augunum: innri löðun að dularfullum tilgangi í lífinu, þessu einkennilega síkvika og margbreytilega ástandi, sem sífellt er að skipta um myndir, litblæ og útlit. Lífið er jafn margbreytilegt og útsærinn. En þeir, sem heyra óm brimsins í fjarska og eru þess viðbúnir að óveður skelli á, þeir eru hólpnir. En það er ekki alltaf, sem vitund Steins getur höggvið af sér bönd hins daglega. Sál hans er eins og allar aðrar sálir að því leyti til, að hún er tengd stöðugri hringiðu hins ytra lífs.

Sífelldir árekstrar voru innan fjölskyldunnar. Hann fann ósamræmið bæði hið ytra og innar meðal þessa fáa fólks, og inn í þetta ófust svo óvæntir, en þó ekki neitt einkennilegir atburðir, sem beint uxu upp úr sjálfsögðum afleiðingum orsakanna.

Eins og þetta óvænta, eins og fólkið orðaði það, sem kom fyrir föður hans. Hann hafði verið í saltfiskvosi morguntíma og ekki þolað bleytuna og kuldann. Hann hafði allt í einu hvítnað upp, og grágular, kolbrenndar tennurnar skollið svo ótt og títt saman. Honum fannst eins og ísköldu vatni hellt ofan eftir bakinu á sér – og eins og eitthvað hart, kalt og stingandi stæði gegnum brjóstið . . .

Steinn hafði svo leitt föður sinn heim.

Það var nú svo komið, að Steinn erfiðaði svo að segja einn fyrir heimilinu. Hann fann til sárrar meðaumkunar með Antoni bróður sínum. Hann hafði aldrei séð herfilegri mynd af spillingu heimsins en í þessu magra, rauðflekkótta, útgrafna andliti. Hann hafði oft séð eins og lýsa fyrir gullkornum hins tilfinningaríka manneðlis í þessum bróður sínum, en nú var hann alltaf að sökkva dýpra og dýpra í kolsvartan hyl nautnanna. Það var hryggðarefni að sjá þennan mann slangra um göturnar, rifinn og tættan, sígrenjandi klámyrði á eftir stelpunum, rámri og hásri rödd, sökkvandi sér lengra og lengra í foræði og stefnulausan hringlanda þessa lífs. Steinn Þorfinnsson vissi til þess, að Anton var búinn að leiða óhamingju yfir marga stúlkuna. Meðan hann var flott, eins og fólkið kallaði það, þá höfðu stúlkurnar verið honum vinveittar, þær höfðu líka sumar gefið lystisemdum sínum lausan taum. Tvær, ef því miður ekki þrjár, gengu nú með líf undir svuntum sínum. Það yrði sjálfsagt hlutskipti þessara barna að verða olnbogabörn, meira eða minna útundan í lífinu, og mæðurnar, já, aumingja, óhamingjusömu mæðurnar. Lífið mundi verða þeim erfitt, hlífðarlaust strit, basl og bardagi við að reyna að forðast sveitina. Það var þeim algerlega um megn að hugsa til þess, að barnið sitt yrði sveitarómagi . . .

Hreinn Þorfinnsson var eins og skuggi á lífsleið Steins. Hann minnti hann á rústir lífsins, rústir, sem aldrei í þessum heimi væri hægt að byggja upp aftur.

Hreinn sagði aldrei neitt, en rjálaði um eirðarlaust. Hreyfingar hans voru nú enn rólegri en fyrr. Það var engu líkara en hann læddist áfram í einhverri leiðslu. Hendurnar voru knýttar saman á bakinu, og svo var hann alltaf svo niðurlútur. Þannig ráfaði hann til og frá. Stundum fór hann niður á Eyri og byrjaði að vinna með fólkinu, en það var aldrei lengi í einu, bara nokkrir tímar; svo hvarf hann í burtu og hélt áfram þessu eirðarlausa rjátli. Stundum gat komið fyrir, að hann væri burtu allan daginn. Það var þegar hann gekk inn á heiðina. Hún hafði eitthvert sterkt aðdráttarafl, sem sífellt leiddi þennan mann til sín – og svo ranglaði hann þaðan aftur eins og óvita barn, sem ekki veit hvert það er að fara. Þannig var þessi maður orðinn óskyldur allri gleði og leikandi lífi. Hann gekk í myrkri vonleysisins. Ljós vona hans hafði slokknað í kuldanæðingum lífsins.

Þorfinnur – faðirinn!

En skaut hinni þyrnumstráðu lífsbraut þessa manns upp úr umróti hugsana sonarins, og brá fyrir í vitund hans.

Faðirinn er hetja, ósigrandi hetja, sem ekkert afl getur sigfast á nema dauðinn. Hið óbrúandi stórfljót óhamingjunnar hafði hrifið allar vonirnar út hjarta gamla mannsins, rifið þær í sundur og mulið þær í ósýnilegar agnir. Og þó . . .

En í öllu þessu öfugstreymi lífsins fann hið unga skáld til unaðar og lífsgleði.

Innan úr innstu fylgsnum sálar hans streymdi eitthvert ljóskennt afl, sem setti sinn svip á allt, bæði dautt og lifandi.

Hann fann til þess, að í öllu þessu hlífðarlausa striti og erfiði hlyti að liggja hulinn tilgangur, sem sál hans skynjaði þó ekki að fullu. Hann sökkti sér niður í þung viðfangsefni. Hugmyndir hans og hugsanagangur var nú á mjög annan veg en í fyrstu. Samt voru hugsanirnar lítt mótaðar og hálfgert í molum, sífellt fálm eftir sannri, fullkominni þekkingu á lífinu og tilgangi þess. Hann var bjartsýnn og hugmyndaríkur.

Hann hugsaði mikið um fólkið á Eyrinni, fólkið, sem hann hafði alist upp með, fólkið, sem hann hafði gengið með í gegnum örðugleika, andstreymi og gleði þessa lífs. Hann hafði reynslu fyrir, að þetta var flest allt gott fólk. Honum fannst það líka margt hvað skynsamt, en óupplýst og beygt af stöðugri vöntun á því allra nauðsynlegasta. Steinn var alltaf að reka sig á það, að hvað mikið sem þetta fólk erfiðaði, hvað mikið sem það sleit sjálfu sér út til þess að lifa viðunanlegu lífi, þá ríkti söm og jöfn kyrrstaða í högum þess – ár eftir ár. Hann sá harla litla framþróun.

En fólkið sjálft – hefði það nú ekki getað breytt og umrótað lífsmöguleikunum með því að styðja betur hvert við annað í lífsbaráttunni? Vissulega fannst honum það styðja hvert annað. En það gat ekki verið gert á réttan hátt, þar sem svo lítið vannst. En var nú rétt að álasa fólkinu fyrir þetta? Vissulega hafði margt mannsefnið, sem alist hafði upp á þessari Eyri, haft áhuga fyrir að bæta lífsmöguleikana. En hvar var sú rétta leið? Hvert átti að halda?

Hann varð oft andvaka við að velta þessu þunga viðfangsefni fyrir sér; það olli honum hugsýki og hugarangri.

Mennirnir eru alltaf að leita að nýjum brautum til að þræða út úr örðugleikum og öngþveiti þessa lífs. Hann hafði séð marga gefast upp í þessari leit, missa trúna á, að það væri mögulegt að leysa þrautina að nokkru gagni. Sumir hugsuðu sem svo; Það ræður enginn við gang lífsins, lífið verður alltaf eins og forsjónin fyrirskipar, og því verða mennirnir að taka með þögn og þolinmæði.

Að hans dómi hafði þessi hluti fólksins misst trúna á lífið. Hinar ömurlegu kringumstæður, sem héldu lífi fólksins í klóm sínum, höfðu svæft draumana í vitund þess.

Var hann þess megnugur að gerast brautryðjandi? Var það mögulegt að vekja drauma fólksins um batnandi lífsmöguleika, svo þeir streymdu ferskir og lífgandi um hug þess og sál?

Hann var ungur og lítt reyndur í lífinu, en sál hans var alltaf á stöðugri leit. Hann var líka alltaf að finna. Hann rekti lífsferil manna – manna, sem höfðu viljað leggja sig alla fram til þess að lífið gæti orðið sem allra unaðsríkast. Hann sá mörg mistök og villur, sem þeir höfðu gert, oft af veikleika og vitandi vits, en oftar þó óafvitandi. Var hann þess megnugur að benda fólkinu á einhverja leið út úr því öngþveiti, sem það stóð í?

Hann sá margar ótroðnar leiðir, en flestar þeirra leit hann á með ótta og tortryggni, eins og ótrausta brú yfir beljandi hyldýpi, brú, sem væri teflt í tvísýnu með að voga sér út á.

Steinn Þorfinnsson þóttist vita, að brúin yfir reginhafið yrði aldrei nógu traust eða óbrigðul. Lífið væri nú einu sinni svo, að það gæti aldrei orðið verulegur leikur eða sífelld gleði. Hann hafði reynt, að menn yrðu að þola mótlætið, láta örðugleikana herða sig og kenna sér, læra af því sem á undan er gengið, og því, sem er að líða, og halda síðan áfram með skynsemi og réttsýni. Með því móti hlaut framþróunin að verða jafnari og stefna í rétta átt.

Hann sökkti sér mikið niður í bækur, ekki frekar skáldsögur en hvað annað. Hann þyrsti eftir bókum, sem sýndu fram á, hvernig réttast væri að byggja framtíðina, og eftir hvaða reglum og lögmálum fólkið ætti að lifa, svo það gæti komizt hjá árekstrum sín á milli. Hann fann, að bókunum bar ekki alltaf saman, meira að segja ekki í höfuðatriðum á sumum sviðum. Í þeim komu fram stórar sálir, skær og björt ljós, í öllu heimsmyrkrinu, sálir, sem voru að leita, voru á stöðugri leit að því réttasta og háleitasta, bendandi mönnum á þær leiðir, sem þær töldu happasælastar. Þessar sálir, þessir menn, voru langt á undan samtíðinni. Hann fann til þess, að það voru fáir af samtíðarmönnunum, sem skildu þær, eða vildu leggja sig fram til að skilja þær. Af því leiddi, að líf þeirra og starf bar ekki fullan árangur fyrr en langt fram í tíma, þegar margar kynslóðir voru búnar að lifa og hrærast.

En honum nægði ekki það, sem stóð í þessum bókum. Vitund hans þrengdi sér út fyrir takmörk þeirra, og vaggaðist frjáls í sælukenndri leiðslu inn á svið þess, er tekur við fyrir utan hið jarðbundna.

Hún Hávarðína, móðir hans, kenndi honum heilmikla romsu, þegar hann var svolítill snáði. Hún hafði sagt honum að þetta væri guðsorð – og að það væri hrópleg háðung fyrir hann, ef hann gæti ekki lært það. Hún lamdi hann, af því að hann mundi það svo illa fyrst. Svo hafði hann getað lært það, og ávallt hafði hann það yfir, áður en hann fór að sofa. Hann flýtti sér alltaf að því, en samt þorði hann ekki annað en að gera það, því hún Hávarðína hafði sagt honum, að ef hann læsi þetta ekki á hverju kvöldi, þá kæmu vondir vættir og tækju hann.

Þetta voru upplýsingarnar, sem hann hafði fengið um eilífðarmálin. Það hafði heldur enginn minnst á þau við hann nema hún Hávarðína.

Svo kom kirkjan og presturinn. Drengurinn lærði kverið og biblíusögurnar, og þekking hans varð meiri á eilífðarmálunum, sem fólkið á Eyrinni sótti í sína endurnæringu og styrk.

Hann skynjaði fljótt, að fólkið hafði ekki fundið guð réttilega í hinum löngu, leiðinlegu þulum, eð hinum þunglamalega söng og öllum hinum mörgu seremoníum. Sál hans sjálfs hafði heldur ekki fundið guð í sálmasöngnum, seremoníunum eða þurrum prédikunum frá ræðustólnum.

Þegar nóttin lagðist yfir, þreytan seytlaði um allan líkamann og smáhvarf, og ró og kyrrð ríkti, þá leitaði sál hans sambands við hið mikla afl, sem hann trúði að væri í öllu góðu og fullkomnu. Hann fann, að kraftur guðs var samtengdur sál hans og að það væri dýrmætasta eign hverrar hugsandi veru að eiga sem mest af þeim heilaga krafti.

Hann fann til þess, að mannkynið hafði í gegnum allar aldir verið að leita í myrkrinu að ljósi. Það var hans helgasta sannfæring, að uppfylling hinna fegurstu vona um fullkomnun hefði bezt komið fram meðal mannskynsins í mannskynsfræðaranum Jesú Kristi. Að þar hefði mannkyninu verið veitt það, sem það í gegn um aldaraðir alltaf hafði verið að leita að.

Hið unga skáld hugsaði um það með mikilli hryggð, að þess væri, eftir öllu að dæma, langt að bíða, að mannkynið eignaðist það mikinn þroska, að það gæti lifað lífinu í sannri fullkomnun, eins og brautryðjendurnir.


9.


Það var frostharður vetrarmorgun.

Hreinn Þorfinnsson gekk út. Það ríkti einhver skyldleiki með honum og morgninum. Báðir voru þeir svo kaldir, tómlátir og hrikalegir.

Það var aðeins þessi eini maður, sem rölti þarna um Eyrina þennan morgun. Hann gekk ofurhægt og þunglamalega, horfði oftast beint framundan sér. Augun voru gljákennd, alveg eins og klakahellurnar, sem lágu yfir freðinni jörðinni.

Hver var eiginlega þessi maður, sem rölti þarna í sífellu um Eyrina?

Hreinn Þorfinnsson.

Það var tómahljóð í þessum orðum, því líf þessa manns var hrunið. Rústir þessa tapaða lífs voru hræðilegar. Eintrjáningslegur líkami, sem stjórnaðist af einhverjum huldum hvötum.

Hann gekk upp frá Eyrinni áleiðis til heiðarinnar. Það lá einhver hulin taug milli hennar og þessa einmana manns. Fótatakið hætti að verða eins og reikandi. Það var eins og líkaminn hefði fengið dularfulla skipun, sem knúði hann til framkvæmda.

Það bárust snarpar vindhviður framan frá heiðinni. Það var byrjað að hvessa. Vindhviðurnar þutu með miklum hraða framan út daldrögunum og strukust ískaldar við vanga einstæðingsins. Þær báru með sér hörð snjóhögl, sem orsökuðu sviða, þegar þau skullu á hrjúft andlitið. Frostið jókst og læsti sig um líkama hans.

Hann nam oft staðar og horfði í kringum sig. Það var ekki að sjá, að hann væri að taka eftir neinu sérstöku. Hann fann heldur ekki til kuldans, sem frostharkan orsakaði, né til sviðans, sem hin hörðu frosnu snjókorn ollu í andlitinu. Sál hans og tilfinningalíf hafði samlagast frostinu, því dauða og líflausa.

Það fór að rökkva. Birtan, sem þessi kaldi skammdegisdagur hafði umráð yfir, smá dvínaði og hvarf í myrkrið. Það snjóaði, en hægt og hljóðlaust. Þetta var ekki kafald, sem kom úr loftinu, heldur frosin ískorn. Hægt og þunglamalega hélt hann áfram þessari hljóðlátu göngu. Hreyfingar líkamans urðu reikular og fálmandi. Slóðin, sem fæturnir mörkuðu í fönnina, lá í einlægum krókum og beygjum. Það leið alltaf styttri og styttri tími milli hvíldanna, og þær urðu alltaf lengri og lengri.

Hann átti aðeins nokkra faðma ófarna upp á hæðina, þaðan sem mátti sjá vesturfjöllin í sínum hrikalega tígulleik. Hann hélt áfram nokkur fótmál; svo lét hann staðar numið og stóð kyrr í sömu sporum og horfði tómum augum út í náttmyrkrið. Snjókornin höfðu hlaðið um föt hans hvítum hjúp, frostið hafði gert þau hörð og stirð, svo þau voru lítt hreyfanleg. Þessi eintrjáningslegi líkami var eins og samvaxinn jörðinni, eins og blágrýtis drangarnir, sem harkan og kuldinn hafði lamið og sorfið í margar aldir.

Þannig leið nokkur tími. Svo smáfjaraði út uppistöðumáttur líkamans. Hann hneig niður í mjöllina. Hann sofnaði.

Frostið gróf sig inn í hjartað, og það hætti að slá.

Eldsglæðurnar, sem höfðu lifað á þessum sprungna arni höfðu slokknað út þessa vetrarnótt.

Rústir þessa unga lífs biðu nú vegfarenda, eyðilegar og tómar, voru eins og hluti af þessari dauðu líflausu náttúru þarna á heiðinni.

En síðar mundi koma vor og gróandi, heiðin mundi verða græn og ilmrík.

Þessi vetrarnótt var kyrrlát og hljóð.

Framhald . . . ?

10.


Ljósið í kotinu –


Í aðalsíðu