Fjölvaútgáfan
Reykjavík, 1990
1. kapítuli
Strandafjöllin voru hvít af fyrstu snjóum vetrarins, stormský á himni og allra veðra von, óljós dagsbrún á austurloftinu. Um Bröttuhlíðarveg, utan við mynni Djúpafjarðar, fór ungur maður, Jón Jökulsson, á leið til heimabyggðar sinnar, í Jökulvík. Hann var grannur og beinvaxinn, svartur á hár og í augum og nokkuð fölleitur. Síðla nætur kom hann sjóleiðis að sunnan eftir meira ne tveggja ára útivist, sem farmaður á erlendum skipum.Í nótt, þegar skip hans kom í fjarðarmynnið, leit hann óvænta sýn; leiftrandi eldsbjarma yfir Djúpafjarðarkaupstað, líkt og bærinn stæði allur í ljósum logum. Á land kominn varð hann þess vísari að eitt stærsta hús bæjarins, Bjarg, væri alelda, og að íbúarnir hefðu orðið að flýja bálið á nærklæðunum og misst allar eigur sínar.
Hann stóð hjá hálfföllnu húsinu ásamt fjölmörgum bæjarbúum og starði í eldana. Brestir kváðu við og eldglæringar brutust upp úr eimyrjunni. Hann fékkst ekki varist þeirri hugsun, að í vissum skilningi hefði hann eitt sinn átt þetta hús, – hann og stúlkan hans heiman úr Jökulvík: Mjöll í Presthúsum.
Í aðalsíðu