Óskar Aðalsteinn

Í röstinni

Skáldsaga

 

 

Ægisútgáfan
Guðmundur Jakobsson
Reykjavík – 1978

Copyright ©1978
All rights reserved


Fyrsti kapítuli

1


Fyrirsát –

Það er setið um líf mitt. Ég stari í kringum mig á myrku þurrfiskloftinu í Neðstakaupstað, löngu dauðri útgerðarstöð, sem ég er að timbra upp að nýju. Dautt á skriðbyttunni. Ekkert að sjá nema flöktandi skugga. Ójú, þarna er aftökusveitin, grá fyrir járnum . . .  Fljótlega tekst mér að komast út úr húsinu – og tek sprettinn upp brautarteinana. Aftökusveitin kemur á hæla mér í þumbaralegri þögn. Þeir hafa sótt mig heim undanrarnar nætur með hávaðahótunum um að ráða mig af dögum. Í nótt leið sýndi korpúralinn mér þá sæmd að ganga í skrokk á mér með byssuskeftinu. Í svipinn gera þeir ekki betur en að vera í kallfæri við mig. Slíka tillitssemi hafa þeir ekki sýnt mér áður. Ég hef hugboð um að nú eigi að taka mig á taugum, svo að ég geti enga stund verið viss um hvað þeir ætlist fyrir með mig. Þetta er vonlaust hjá þeimi. Þeim tekst ekki að leyna mig blóðþorsta sínum og mannfyrirlitningu. Þeir vilja að ég krjúpi þeim í auðmýkt og biðji þá með tárum að þyrma lífi mínu – áður en þeir láta byssurnar tala:

– Það skal aldrei verða, hrópa ég út í náttmyrkrið.

Þá kveður við rödd korpúralsins með spekingsbrag:

– Hringur Sverrisson, líf þitt er uppgjöfin.

Fyrsta skytta segir í dagskipunartón:

– Hringur, þótt þú færir í hæstu hæðir eða neðstu undirdjúp, kæmist þú ekki hjá gjaldþrotinu.


Í aðalsíðu