Óskar Aðalsteinn

Vonglaðir veiðimenn

Skáldsaga

 

 

Iðunn
Reykjavík, 1963

Copyright ©1963
All rights reserved


3

Það var ekki hægt að koma tómhentur heim í braggann til konu og barna, þegar maður var að leggja upp í langferð. Þarna var bakarí, og því ekki að kippa með sér einhverju af kökufrauði? Steinsen horfði á kökuhraukana í gegnum glerið, gaf mér olnbogaskot og sagði:

– Ljáðu mér tíkall, ljúfurinn.

Ég leitaði í vösum mínum, og sko þann gamla; lumaði hann ekki enn þá á nokkrum hundraðköllum.

– Hérna hefurðu fyrir skonrokinu, sagði ég og fékk Steinsen hundraðkall.

Það mátti kaupa nokkrar rjómakökur fyrir hundraðkall. Við Steinsen vorum líka sæmilega klyfjaðir þegar við komum í braggahverfið. Hér sá ekki út yfir bárujárnskofana; ryðgað og niðurgrotnandi bárujárn og gaddavír hvert sem litið var. Og maður óð eðjuna í ökkla, og mátti gæta sín að fletta ekki utan af sér görmunum á gaddavírnum. En hundrað metrum til hægri reis nýtt bæjarhverfi. Það var svo nýtt, að maður gat vel látið sér detta í hug, að toppmennirnir hefðu reist það í gær. Og öll húsin í einhvers konar hallarstíl, og áttu ekkert skylt við það, sem venjulegt fólk kallar hús og dreymir um að byggja yfir sig.

En þarna var Steinsenbragginn. Drengur og telpa, væði innan við fimm ára aldur, sátu í eðjunni hjá skálduðu bíslaginu. Svo höfðu þau ekki fyrr komið auga á Steinsen, en þau kölluðu til hans:

– Babbi, ge-mér, ge-mér.

Og þegar börnin höfðu fengið rjómaköku, tóku þau aftur til þar sem frá var horfið, að ausa yfir sig aurnum, en sáu ekki babba.

Sunnefa Ársælsdóttir, kona Gunnars Steinsens, sat við kaffidrykkju með glaseygum grannholda kvenmanni í upplituðum peysufatafrakka. Ég hafði ekki séð Sunnefu lengi, og satt að segja kom ég henni ekki fyrir mig alveg strax. Hún var langt gengin með, og það var einhver þreytusvipur yfir henni, sem gerði hana ólíka sjálfri sér. Hún hafði þó ekki fyrr borið kennsl á mig og ávarpað mig, en ég þekkti hana á augabragði. Í tillitinu, svipnum, í allri framkomu hennar, leyndist þessi ólýsanlegi dráttur, sem gerði konur fagrar og eftirsóknarverðar. Sunnefa var smávaxin og fínleg, eins og Ársæll. Hún var lifandi eftirmynd föður síns.

Og Sunnefa og Steinsen höfðu gift sig í stríðsbyrjun, flutt inn í góða íbúð og haft mikið umleikis. Steinsen hafði byrjað sem óbreyttur túlkur hjá setuliðinu, en fljótlega haft úti allar klær, og tekið að sér tíu verk fyrir eitt á vegum stríðsjöfranna, bæði opinber og leynileg. Um sinn óð hann í peningum. Hann var allt í einu orðinn dálítið stór. Hann var meðeigandi í tveim sjoppum og fjölsóttum veitingasal. Og einn góðan veðurdag hafði Steinsen trúað mér fyrir því, að hann hefði krækt sér í amerískan lúxusbíl, og væri í þann veginn að flytja í rómanska skrauthöll. Þegar hér var komið grunaði raunar Steinsen, að hann væri að missa allt úr reipunum, enda styrjöldinni lokið, meginherinn farinn af landi burt, og öll viðskipti við stríðsherra úr sögunni í bili. En það var Steinsen líkt að komast þannig að orði: allt í þessu fína, þetta lagast eins og skot, – þegar bomban sprakk í höndunum á honum, ameríski hjóladraumurinn gekk honum úr greipum, og hann varð að flytja með fjölskylduna inn í þetta braggaskrifli, í stað þess að setjast að í rómönsku skrauthöllinni. Og um nokkurt skeið hafði Steinsen þrælað fyrir sér og sínum sem fátækur byggingaverkamaður, en í dag hófst hann svo handa með nýtt stórfyrirtæki norður í Sandvík . . .

Það hýrnaði líka verulega yfir Sunnefu, þegar Steinsen sagði henni, að nú væri ekki annað eftir en að koma sér í loftið.

Sú glaseyga í peysufatafrakkanum stóð á fætur og sagði líkt og annars hugar:

– Ég þakka fyrir mig.

Steinsen þrýsti konunni aftur í sætið og sagði:

– Ekkert óðagot, Gunsa mín. Hvað segja spilin?

– Þú tekur ekkert mark á spilum, anzaði spákonan fjarhuga sem fyrr.

– Jú, ég trúi skilyrðislaust á góða spádóma, og láttu mig heyra, sagði Stensen.

Spákonan sat þögul og með lukt augu.

– Hún sá dágóða veiði í spilunum, sagði Sunnefa og það birti stöðugt í svip hennar.

– Við vorum öll að kaffidrykkju. Steinsen lét góðan vínsopa út í bollan hjá spákonunni og sagði:

– Jæja, það hafa þá verið skötur og hámerar í spilunum.

– Láttu ekki svona við konuna, sagði Sunnefa og hló við.

– Þessar skepnur, sem hann nefndi, eru ekki ómerkilegar í spilum, sagði spákonan án þess að bregða svip.

Steinsen rétti spákonunni digran vindil. Hún kveikti í og hafði þegar uppi mikinn damp. Og Sunnefa sagði:

– Þið megið ekki láta það fá allt of mikið á ykkur, þótt þið veiðið lítið fyrstu dagana.

– Ég skal minnast þess, ljúfan, sagði Steinsen og horfði á konuna sína eins og hann byggi yfir meiriháttar gleðitíðindum.

– Nei, nú lumarðu á einhverju skemmtilegu, sagði Sunnefa og varð næstum eins ungleg og þegar hún var krýnd fegurðardrottning.

– Það veit ég ekki, sagði Steinsen. – En ég trúi á góða spádóma, eins og þennan: Það á aðeins eftir að halda nokkra fundi og meika fólkið til, og herinn kemur aftur og Steinsen kemst á toppinn, hehe . . .  En þetta var gamall og margtugginn spádómur, svo Steinsen flýtti sér að bæta við, til þess að konan hans yrði ekki vonsvikin. – En ég þarf að trúa þér fyrir leyndarmáli, það er dálítið sem ég þarf að segja þér einni, ljúfan.

Og hjónin hurfu inn í næsta herbergi, en ég og spákonan, við urðum eftir við veizluborðið, og um stund heyrðum við aðeins óminn af röddum hjónanna. Andlit spákonunnar varð hvítt og skarpmótað, augun eins og grængular glerperlur, hárið svart og skipt fyrir miðju enni. Og spákonan horfði á mig með ekki óþokkalegu kaldgrettnu brosi, hafði sígaradrjólann í vinstra munvikinu og spjó frá sér kafþykkum, blágráum reykjarstrókum. Þannig leið góð stund, svo sagði spákonan:

– Og þú ætlar líka að giftast fegurðardrottningu.

– Hvað segja spilin? sagði ég og hellti á hjá spákonunni.

Hún tók spilastokk upp úr tuðru sinni og lagði stjörnu.

– Svört drottning, sagði ég.

– Svört drottning getur líka verið rauð, sagði spákonan, sem áreiðanlega hafði séð fífil sinn fegri. Og svo sagði hún í þeim tón, að ætla mátti, að hún meinti ekkert með orðum sínum, en þá meinar maður gjarnan eitthvað. – Varðu þig, gættu þín, sagði hún.

En nú voru raddirnar í innra herberginu allt í einu orðnar háværar.

– En Gunnar, hvað á ég að gera? Hvað viltu að ég geri?

– Þú bíður bara róleg, frú mín góð. Þeir láta þig hafa peninga eins og sand, strax og ég sendi þeim fyrsta flugvélarfarminn.

– Já, en Gunnar. Það verður lokað fyrir rafmagnið, ef . . .

– Ég tala við þá frá flugvellinum, áður en ég fer í loftið.

– Þeir anza þér ekki.

– Þú segir vel um það. Þeir innsigla ekki á morgun, svo mikið er víst.

– En Gunnar . . .

– Já, já, þetta er allt í lagi, manneskja. Þú færð peningana, þú átt víst pláss á fæðingardeildinni og rollingarnir fara á barnaheimilið. Hvað viltu hafa það betra?

– Já, en Gunnar . . .

Spákonan lyfti glasi sínu og sagði:

– Sum hjón eru eins og nýtrúlofuð, ef þau þurfa að skilja stutta stund.

Ég drakk spákonunni til –

En þegar við Steinsen komum loks á flugvöllinn, var Grönnmannflugbáturinn tilbúinn til flugtaks, og allir mættir sem ætluðu í loftið.

 


 

4

Við komum okkur fyrir í sætunum sem næst stjórnklefanum, og vorum ekki fyrr lausir við jörðina, en Steinsen dró fagra flösku upp úr brókunum.

– Það var ánægjulegt, sonur, að þú skyldir mun eftir burtfararskálinni, sagði Ársæll.

– Er ekki of fljótt að bregðast skyldum sínum í upphafi leiks? anzaði Steinsen og rétti flöskuna fram fyrir öxl sér.

Sá sem þar sat þóttist ekkert sjá, en tautaði vonzkulega eitthvað óskiljanlegt fyrir munni sér. Þetta var gamall naggur, allur á þverveginn, úfinn og heldur ótótlegur á svip, með hvítar hárlýjur í vöngum, annars nauðasköllóttur. Hann var í næstum skósíðum klæðisfrakka, spanskgrænum af elli, hélt á rifrildi af skjalatösku og þrýsti þessu að brjósti sér.

Steinsen sneri sér við í sætinu, hélt áfram að ota flöskunni að karlinum og sagði:

– Þú tekur fyrsta snafsinn, Skæringur Samúelsson.

Karlinn virtist ekki koma upp orði fyrir illsku, hann bara hristi sig allan. Þá sagði Ársæll mjúkum rómi:

– Þú ert heiðursgesturinn okkar, Skæringur minn, gleymdu því ekki.

Nú tók talverkið í karlinum fyrst við sér, og það svo um munaði.

– Sér er nú hver heiðursgesturinn, þusaði hann. – Þið látið mann drolla og dómolla eftir ykkur von úr viti. En ég hef andskotans engan tíma til að hanga yfir engu . . .

Karlinn skók töskuna. – Ég er hér með stefnu á mannræfil, sem skuldar mér stórfé, þótt ykkur komi það ekkert við. En kapteinninn ætti að hafa vit fyrir ykkur og snúa vélinni aftur. Svona skepnur, eins og þið, hafa djöfulinn ekkert til Sandvíkur að gera.

– Þeir sem ekki hirða um áhættuna, snúa aftur, sagði Nói.

Allir hlógu nema Skæringur, hann stundi við þyngslalega, en allt í einu hófst hann í sæti, henti flöskuna á lofti, setti stútinn á varirnar og svalg þar til hann þraut örindið, þeytti síðan flöskunni í Steinsen með þessum orðum:

– Þá er það búið og gert.

– Já, þú ert enginn durtur og slærð ekki á útrétta hönd, sagði Steinsen og lét pyttluna ganga. Næst gerðist það, að Nói fór í barm sinn eftir munnhörpu og lék smálög með ýmsum tilbrigðum. Hann lék þannig, að maður hlustaði ósjálfrátt og hafði ekki löngun til annars.

Það var orðið kvöldsett, sólin gengin langt til vesturs og varpaði heitrauðum logablysum inn yfir landið.

Steinsen hvarf um stund fram í stjórnklefann, að gera hosur sínar grænar fyrir flugstjóranum. Skæringur hafði sofnað í sæti sínu. Og nú var karl eins hýr og hann hafði áður verið ótótlegur.

– Lognið og blíðan kemur eftir storminum, sagði Nói og lék enn nokkur lög á munnhörpuna.

Steinsen kom brátt aftur fram í farþegarúmið, og skellti á eftir sér hurðinni að stjórnklefanum. Samstundis hrökk Skæringur upp úr mókinu, sem á hann hafði runnið. En það var síður en svo að hýran hyrfi úr svið hans, ef nokkuð var, þá glaðnaði enn yfir karlinum og hann sagði:

– Jæja, piltar, það eru nú sex ár síðan ég var heima í Hvestu, já, síðan ég fékk slæmskuna í löppina, og Ásta mín lét drífa okkur suður. Þá var engin lifandi sála í öllum hreppnum, nema ég og kerlingin, og Sigdór Aronsson og hans fólk í Skeljavík. Allir aðrir farnir, já, já.

Steinsen rétti Skæringi flöskuna og sagði:

– En áin Hvesta er sú sama og hún hefur alltaf verið, full af silungi bakka á milli þegar bezt lætur – já, eins og kraumandi hausastappa, segirðu.

Og Nói sagði:

– Þetta segir meira en sannleikurinn, og svo liggja milljónirnar þarna óhreyfðar ár eftir ár.

– Nú, við gömlu mennirnir veiddum í sjónum, þekktum ekki annað, hugsuðum ekki um annað, sagði karlinn kampakátur.

– En í ánni var það bara leikur, sagði Ársæll mjúkum rómi.

– Leikur og leikur, sagði karlinn. – Okkar fiskur var nú einu sinni þorskurinn, og beit á öngulinn alveg heima við bæjardyr, og eins langt til hafs og við hættum okkur.

– Þú áttir þó til, gamli minn, að ausa silungnum upp úr ánni, og þá helzt með berum höndunum, sagði Steinsen.

– Jú, jú, stundum var þetta svo bráðfjörugt, að það beinlínis stökk í fangið á manni, já, já.

Svona tal var að sjálfsögðu ljúfmeti í munni tengdafeðgana. Og það var mikill gleðskapur í vélinni, og við komnir á leiðarenda næstum fyrr en nokkurn okkar varði. Fjöllin spruttu upp allt í kringum okkur með hvössum brúnum og tindum, dimmbláum hamrabeltum, grænum hlíðum og niðandi lækjum. Brátt þögnuðu hreyflarnir og Grönnmannflugbáturinn stóð kyrr á dökkleitum sandinum fyrir botni víkurinnar.

– Hér á ég heima, og héðan vildi ég hvergi fara, sagði Skæringur allt að því klökkum rómi. En karl var ekki fyrr kominn út úr vélinni, en hann umturnaðist gersamlega. Fyrst tvísté hann og horfði í allar áttir, grettur og eins og til alls búinn, svo hleypti hann í herðarnar og þaut af stað, stakk við á hægra fæti og töskuræksnið lamdist við sitjandann á honum.

Við, sem eftir vorum, affermdum vélina með aðstoð flugstjórans. Þetta var strax búið. Svo var horft á Skæring og hlegið. Hann stefndi í átt til bæjar, sem var lítið timburhús með lágu risi, og stóð í grænu hvolfi drjúgan spöl fyrir ofan sandinn. Annars var karl ekki fyrr kominn á gras, en hann sneri við sömu leið til baka og sendi okkur tóninn:

– Nei, nei, þetta er ekki mitt hús, ekki mín vík, ekki mín fjöll, hrópaði hann.

– Kannski stýrimaður hafi litið skakkt á sjókortið, sagði Steinsen og gerði sig til framan í flugstjórann, ungan mann, sem virtist skemmta sér vel við að horfa á Skæring.

– Hvað um það, hvað um það, hélt Skæringur áfram. – Hér hefur öllu verið snúið öfugt. Svona er að afrækja sína jörð og yfirgefa sitt hús. Þá setjast draugar og andskotar að í hverjum krók og kima.

Ársæll hló manna mest, annars þótti honum sýnilega alveg nóg um allan þennan yfirsöng.

Steinsen lagði þykka stóra hönd sína á öxl Skærings og sagði:

– Þá er að líta á Hvestugullið, ljúfurinn. Þú lætur það ekki spyrjast, að þú gangið ekki með okkur að ánni.

– Já, já, fíflinu er att á foraðið, nauðaði karlinn.

Hvesta féll til sjávar skammt undan. Við gengum í þéttum hóp. Nói flautaði lagstúf, svo varð honum að orði við Skæring:

– Þegar þú kemur suður aftur, þá sérðu smjör drjúpa af hverju strái hér í Sandvík, og þannig er það líka í raun og veru.

Tengdafeðgarnir tóku mjög eindregið undir þessi ummæli, en Skæringur lét ekki á sér kræla, fyrr en við vorum allir fimm við árósinn, en þá fór hann á fjóra fætur og jós vatninu úr ánni í lófa sér. Svo hafði hann ekki fyrr bergt á vatninu en hann skyrpti því út úr sér með megnu ógeði og tautaði:

– Nei-pa, oseisei, hér er ekkert, sem mig varðar lengur. Svo sannarlega hefur áin færzt úr stað. Þetta er ekki sú Hvesta, sem ég þekkti meðan ég var og hét. En þið ráðið hvað þið gerið, ég er farinn . . . Og karl tók á rás í átt til vélarinnar.

Steinsen gerði ekkert til að halda í Skæring, en honum varð að orði:

– Hann þolir ekki að dreypt sé á hann, karlhólkurinn.

Nói raulaði veiðimannasöng aftan úr grárri forneskju. Ársæll horfði á vatnsflauminn með þessum sanna vonglaða veiðimannasvip. Og því ekki að vera vonglaður? Sko, þarna skauzt rétt laglegur urriði í sjónmál. Annars var Hvesta ekkert stórfljót, en þrátt fyrir það gæti hún vissulega verið hin ágætasta veiðiá.

– Þið eruð eitthvað svo andskoti spekingslegir, skrollaði Steinsen og hafði flöskuna á lofti.

Og nú drukkum við Hvestuskálina.

Þegar við litlu seinna komum aftur að Grönnmannflugbátnum, var Skæringur horfinn um borð og lét ekki sjá sig meir. Flugstjórinn stóð í dyrum vélarinnar, og Steinsen kvaddi hann með þessum orðum:

– Þú verður hér að þrem dögum liðnum, vinurinn, að sækja fullfermi.

– Allt í lagi, sagði flugstjórinn og gekk til starfa sinna.

Hreyflarnir fóru í gang og vöktu stormviðri í kringum vélina. Við, sem stóðum á sandinum, hopuðum ósjálfrátt á hæli. En bálviðrið lægði næstum hafnskjótt og það skall á. Grönnmannsflugbáturinn var þegar kominn hátt á loft. Og brátt yrði Skæringur gamli aftur í höfuðstaðnum, og mundi ekki eiga orð yfir dásemdirnar í Sandvík – um það var ég sammála Nóa Marteinssyni.


Vonglaðir veiðimenn 5. – 6.


Í aðalsíðu