Iðunn
Reykjavík, 1963
5
Og enn um stund stóðum við kyrrir á sandinum, tveir fyrirmenn og tveir undirsátar. Undirsátarnir höfðu ekki annað meðferðis en fötin sem þeir voru í – jú, ég má ekki gleyma vaðstígvélunum og haglabyssuhólkinum hans Nóa. Fyrirmennirnir voru með tvo bakpoka, ullarábreiður, vaðstígvél og einn forláta riffil, þar með upptalið, að ógleymdum veiðiútbúnaðinum. Netin virtust af beztu fáanlegri gerð, og svo var að sjá, sem þau hefðu aldrei í vatn komið. Þarna var líka fjöldinn allur af töskum úr seglastriga, sem mundu vera ætlaðar undir veiðina meðan hún yrði flutt loftleiðis suður.
Á leið til bæjar varð Ársæli tíðlitið á fjöllin, og brosti hóglátlega við þeim, líkt og hann vildi segja:
– Komið þið nú sæl og blessuð. Ég heiti Ársæll Jónsson frá Húsum. Vonandi verður okkur vel til vina.
Sandvíkin minnti kannski helzt á tröllslegan hamrabás, fjöllin víða girt klettariðum allt frá efstu brún og í sjó fram, undirlendi ekkert, nema í hvolfinu inn af víkinni og í dalverpi austan hennar. Svo það var ef til vill ekki átakalaust fyrir lítin mann af sléttlendinu, eins og Ársæl, að finna til stærðar sinnar með þessi risafjöll í kringum sig.
Það var kafagras á túninu, gras í beðjum. Við hlupum við fót síðasta spölinn heim að bænum. En þarna var því miður engin heimasæta til að fagna okkur og kyssa okkur velkomna. Útidyrahurðin var njörfuð aftur með snæri, og á hurðinni var auglýsingaspjald frá slysavarnafélaginu.
Þetta var þá skipbrotsmannaskýli.
Staðurinn hafði verið helgaður nauðleytamönnum. Steinsen glotti kátlega og sagði:
– Karlinn hefur leyft slysavörnunum afnot af stássstofunni, svo við liggjum á loftinu, en sniðgöngum stássstofuna.
Að svo mæltu hleypti Steinsen okkur í bæinn. Fyrst var lítið fordyri, svo eldhúsbora, en okkur var mest forvitni á að svipast um í stássstofunni, sem Steinsen nefndi svo. Þar höfðu tvö herbergi verið gerð að einni rúmgóðri vistarveru. Í einu horni stofunnar stóðu þrír stórir trékassar, og á þilinu fyrir ofan þá hafði verið komið fyrir vélrituðum nafnalista, þar sem talin voru upp margs konar matföng, einkum í dósum og öðrum loftþéttum umbúðum, er ætluð voru skipbrotsmönnum og geymd voru í kössunum, auk þess borðbúnaður, eldhúsáhöld og ytri og innri fatnaður. – Og enn glotti Steinsen þegar hann sagði:
– Það hefði farið bezt á því, strákar, að við værum hrakningsmenn, fyrst við erum komnir hér á annað borð.
– Og þarna . . . þarna er víst sængurfatnaðurinn, drengir, sagði Ársæll og benti á nokkra svartgljáandi vaðsekki, sem héngu á krókum neðan í loftinu.
Og Nói sagði:
– Þeir sem lenda í sjávarháska hafa sjaldnast tíma til að grípa með sér sængina.
Og nú var helgið í hrakingsmannastofunni.
Svo vorum við aftur í eldhúsinu. Fjórir menn gátu naumast snúið sér við í þessari kytru, en allir fundum við okkur eitthvað til að sitja á, nema Nói, hann kraup fyrir framan kamínuna, og lagði í hana sprek og móflögur, en til hliðar við kamínuna var myndarlegur hlaði af þessu eldsneyti. Brátt sauð á katlinum. Nói hellti upp á könnuna, og Steinsen skákaði fullri brennivínsflösku fram á milli bollanna á borðinu.
– Þið þurfið ekki að spara við ykkur kaffið, sagði hann. – Ég er með helling af kaffi og eitthvað af brauði og margaríni. Svo fæ ég matarbirgðir með vélinni þegar hún kemur aftur. Annars ætti maður að geta haft ofan í sig hérna, þar sem allt morar og kvikar af lífi.
– Sjóbirtingurinn er ekki til að forsmá hann, sagði Nói kíminn.
– Já, ætli við tímum ekki að sjá af tveim þrem á pönnuna, svona þegar frá líður, sagði Ársæll og brosti beinlínis fallega við Nóa, þótt hann væri kannski dálítið hættulegur.
Steinsen dæsti sældarlega og sagði:
– Já, hann Nói Marteinsson, ef með þarf, þá breytir hann hundasúrum í kótelettur.
Ársæll hló eins og barn. Og það varð myrkt af nóttu fyrr en varði, og kamínan var orðin rauðglóandi og murraði ánægjulega, og Steinsen var eitthvað áþekkur kamínunni þegar hann sagði:
– Nú sitjum við laglega í því, strákar, við drógum netin í bæinn, í stað þess að demba þeim í ána.
– Það var orðið svo áliðið þegar við komum, sagði Ársæll í þessum mjúka tón sem minnir á alsæluna.
Nói sagði:
– Og hér á ekki að vinna nein myrkraverk.
Steinsen hló lágum, djúpum hlátri og stóð á fætur, var ekkert að flýta sér, rétti svera armanna upp yfir höfuð sér, og teygði svo duglega úr skönkunum, að brakaði í nautsskrokknum á honum.
Ég stóðst ekki mátið, en spratt á fætur og henti mér á Steinsen, svo óvænt og snöggt, að hann rauk um koll. En hann kom undir sig fótunum aftur, og höggin dundu. Annars var bardaginn leikur frá upphafi og endaði í faðmlögum. Við Steinsen vorum vanir tuskinu. Einu sinni í vetur börðumst við lengi nætur, ég held helzt út af engu, og skildum jafnir; Steinsen nefbrotinn, ég kjálkabrotinn, og gerðum með okkur fóstbræðralag.
– Þið eruð svo bráðungir og trylltir, að ég hefði átt að hafa með mér spennitreyju, sagði Ársæll og hló smálega.
Og Nói sagði:
– Menn eru ungir meðan þeir vilja, og allir eru ungir í upphafi leiks.
Þar með var ölið af könnunni. Við Nói lömmuðum okkur upp á loftið, hreiðruðum þar um okkur á gömlum heydýnum og drógum ofan á okkur einhverjar druslur, sem við þreifuðum uppi í myrkrinu innan um annað drasl.
Já, ég var í landi að skemmta mér, hafði um árabil aðeins komið á land til að skemmta mér. Annars var ég fæddur sveitastrákur, var í sveit hjá frænku minni meðan hennar naut við, en gerðist sjóari og sjálfs mín ráðandi fjórtán ára gamall. Ég hef verið á öllum mögulegum skipum, og siglt jafnt með erlendum sem íslenzkum. Í upphafi stríðsins var ég á norsku Ameríkukaupfari, en dallurinn var skotinn niður á Norðursjó. Mannbjörg varð, eins og segir í fréttum. Ég gæti sagt mergjaðar sjóferðasögur af sjálfum mér, eins og hver annar gamall og reyndur sjómaður. En ég ætla ekki að rifja það upp að sinni. Ég er að tala um strák, sem gengur á land og skvettir sér upp.
Og í þessum svifum var eitthvað að gerast í loftsgatinu. Já, Ársæll rak lítið, frítt höfuðið upp um loftsgatið, en hann hvarf sem skjótast niður aftur. Steinsen hafði ekkert fyrir því að líta upp á skörina, en sagði við tengdaföðurinn:
– Þér lízt ekkert á þig þarna uppi í hæðunum, gamli minn.
– Það er hvergi hægt að leggjast þar niður fyrir rusli, anzaði Ársæll.
Steinsen ropaði stórum og naut þess auðheyrilega, svo sagði hann:
– Við helgum okkur eitt hornið í stássstofunni.
– Já, en . . . Orðin stóðu í Ársæli.
– Það er ekkert – já, en – til, hér á nyrztu þröm heimsbyggðarinnar, ljúfurinn, sagði Steinsen.
Svo fóru fyrirmennirnir að sofa í hrakningsmannastofunni.
6
Við Hvestubúar brugðum blundi í sama mund og fuglarnir í móunum, og drógum okkur strax út í sólskinið. Það var lognkyrrt, og allir litir nýir og skrúðmiklir.
Steinsen var í fráhnepptri hermannatreyjunni og tvinnaði blótsyrði sér til ánægjuauka. Nói rauðskeggur hafði ekki hlustað lengi á þennan morgunsöng, þegar hann sagði kímileitur:
– Við skemmum birtuna, bróðir, með svona talsmáta.
– Já, það gæti komið úrhellisrigning, sagði Steinsen.
Og Nói sagði:
– Það gæti rökkvað hið innra með okkur, en hvað yrði þá af birtunni í kringum okkur?
– Já, mikill er andskotinn, hló Steinsen og bætti við. – Jæja, strákar, nú er að grípa gæsina meðan hún gefst.
– Það er aldeilis veður til þess núna, sagði Ársæll fullur með leikandi létta glaðværð.
Og brátt var uppi fótur og fit við árósinn. Vinnugleðin var með fádæmum, allir gerðum við okkar bezta, enda ekki nokkur stund að koma dræsunum í vatnið. Ársæll sagði, að nær sem helzt mætti búast við fyrstu stóru silungagöngunni, þá yrði strax brugðið við og hlaupið yfir fjall til Skeljavíkur og símað suður: Við erum að drukkna í silung. Sendið flugvélina undir eins . . .
En á þessu varð einhver bið. Í fyrstu lögn fengum við sjö fiska.
– Smátt er það, sagði Steinsen.
– Það getur verið stór dagamunur á veiðinni í beztu veiðiám, sagði Ársæll og lék við hvern sinn fingur.
Steinsen hló ánægjulega og sagði:
– Þú ert sérfræðingur í vitleysunni.
Við létum fiskana í tjörn, sem þannig var til orðin, að við höfðum hlaðið með torfi og grjóti fyrir smávik, er varð í árbakkann kippkorn fyrir ofan ósinn. Þarna átti veiðin að geymast, þar til við sendum hana suður með flugvélinni. Spriklandi skyldi fiskurinn koma í hendur viðskiptavinanna syðra. Glænýr Hvestusilungur. Gerið þið svo vel. Hagkvæm kaup. Mesta lostæti, sem hægt er að bera á borð . . . Og við sátum við silungatjörnina og horfðum á fiskana sjö, hvernig þeir dönsuðu og dilluðu sér í sólfáðu vatninu. Og Ársæll sagði:
– Gefst ykkur á að líta, drengir. Mikið logandi er þetta feitur og fallegur fiskur.
– Hann er ekki svo afleitur, anzaði Steinsen. – En við eigum eftir að sjá þá stærri.
– Þetta er sú stærðin, sem húsmæður sækjast hvað mest eftir, sagði Ársæll.
– Já, er ekki gaman að selja þeim svona vöru? sagði ég.
– Gaman, þú getur því nú nærri, Ívar litli.
– Þær kyssa þig yfir borðið, skrollaði Steinsen.
– Já, svona allt að því, sonur sæll.
– Jæja, kannski maður gerist afgreiðslumaður í fiskbúð, sagði Steinsen og hélt á burt með riffilinn um öxl.
Og Nói sagði:
– Ekkert er eins kvikt og litfagurt og vatnafiskurinn.
– Það má nú segja, að þetta sé skapað fyrir vatnið, sem sinnti Ársæll. Svo komu veiðisögurnar. Ársæll var hafsjór af veiðisögum. Og það er ekki veiðisaga, ef hún er ekki ýkjusaga, og Ársæll væri ekki veiðimaður, ef hann tryði ekki þessum ágætu lygisögum eins og nýju neti.
Eftir stund voru við Ársæll tveir eftir við tjörnina, horfðum á dansandi silunginn og Ársæll sagði:
– Við þurfum engu að kvíða.
– Fyrirtækið leggst vel í þig, sagði ég.
– Já, mikið vel.
– Og kannski betur núna, en áður en við fórum?
Vongleðin var uppteiknuð í svip Ársæls þegar hann sagði:
– Já, jafnvel það. Undirbúningurinn var ekki átakalaus. Maður var auralítill, en einhvern veginn tókst mér að skrapa saman fyrir veiðarfærunum og flugferðinni. Þetta blessast allt saman. Og nú erum við búnir að setja okkur niður og veðrið leikur við okkur. Það er eins og maður sé kominn fyrir vindinn.
Ég hló.
– Ég tek nú svona til orða, Ívar litli, hélt Ársæll áfram. – Og nú ætla ég að trúa þér fyrir dálitlu. Mig langar til að koma konunni minni skemmtilega á óvart. Ég ætla að fara með hana í orlofsferð til Ameríku, vestur á Langasand, auðvitað, strax og ég kem heim aftur.
– Þú ert allra karla yngstur, sagði ég.
Ársæll lagði hönd á öxl mér og hló við um leið og hann sagði:
– Það fara ekki aðrir en ungir og djarfir menn í svona veiðitúr. Og Svala mín kvaddi mig með þessum orðum: Þið eruð eins og þeir allra harðsnúnustu í villta vestrinu, og blessaðir komið þið nú heim með ósvikið gull.
Vonglaðir veiðimenn 7. – 8.
Í aðalsíðu