Iðunn
Reykjavík, 1963
11
Fátt er meira augnayndi en myndarkvenfólk, sem maður sér í fyrsta sinn. Áðan voru Skeljavíkursystur að snúast innan bæjar, en nú sátu þær úti í túni ásamt okkur Nóa. Og Nói lék fyrir þær á munnhörpuna.
– Það er rétt eins og bæjarlækurinn sé að raula þessi lög, sagði Una.
– Ekki skil ég hvernig maðurinn fer að þessu, sagði Soffía.
– Og þrjár ljóshærðar konur sátu úti í sólskininu. Og það gat ekki orðið meira ljós . . . Kannski var Nói að hugsa svona eins og ég, í það minnsta sagði hann:
– Er Rakel líka ljóshærð?
Og Lea sagði:
– Ef þér sýnist, að við þrjár séum allar ljóshærðar, þá er Rakel það og Rebekka yngri og Salóme.
– Guð minn góður, sagði Nói.
Hlátrakliður. Og konurnar ilmuðu eins og jörðin. Ég veit þær höfðu reyr og fjólu undir koddanum sínum. Og í dag voru þær allar sautján ára. Og kannski elskaði ég Soffíu. Eða var það Una, sem ég elskaði? Eða hvað hét stúlkan, sem ég hitti á dalnum í gær? Hét hún kannski Lea? En hver þeirra var Lea, hver var Una, hver Soffía? Þegar ég leit á Soffíu, þá sá ég líka Unu og Leu. Og þegar ég leit á Unu, þá sá ég hinar tvær. Og liti ég á Leu . . . Það var svo mikið yndi í augum hennar, og brosið fljúgandi. Ó, Lea. Ó, Una. Ó, Soffía. Ó, þið allar. Þið gerið mig kjánalegan. Ef ég segði ykkur hug minn, þá munduð þið hlæja að mér og segja:
– Sá er góður, sá er nú aldeilis góður.
Og ég var alveg kominn að því að tala einhverja ófyrirgefanlega vitleysu, þegar Steinsen kom allt í einu stökkvandi til okkar. Það var rétta orðið. Hann kom stökkvandi með þessi dimmgráu augu og þessa svartgljáandi krúnu, eins og ungur tarfur, sem hefur verið leystur út að vorlagi. Og Lea og Una þutu báðar á fætur með glaðlegu undrunarópi. Þær ætluðu víst ekki að fljúga upp í fangið á Steinsen. Annars veit ég það ekki. En Steinsen var undur fljótur að hugsa. Hann skildi þetta allt saman á auga lifandi bragði. Hann tók stúlkurnar sinn undir hvorn arminn og hélt á burt með þær. Og Nói rölti á eftir. Svo ég var einn í brekkunni hjá Soffíu. Þarna vorum við tvö. Og bæjarlækurinn kliðaði og flugurnar suðuðu, annars var hljótt.
– Ég nenni blátt áfram ekki að hreyfa mig, sagði Soffía eftir langa þögn.
Hún lá á hliðinni í grasinu og kjólfaldurinn hennar hafði dregist upp fyrir hnéð.
Enn leið löng stund svo ekkert var sagt í brekkunni, síðan sagði Soffía:
– Ég er svo löt meðan sólin er hæst á lofti.
Ég sat upp við olnboga og ilm stúlkunnar lagði fyrir vit mér. Augu hennar voru móbrún og hálflukt, og það var þessi ljúfa leiðsla í svipnum, líkt og stúlkan svæfi frekar en vekti. Hún andaði á mig án þess að vera sér þess fyllilega meðvitandi, og ég sagði:
– Mikið var berjaskyrið ykkar gott.
– Aðalbláberin eru óvenjugóð í sumar, sagði hún, hvíslandi orðum.
– Hafið þið berjað mikið?
– Svona sæmilega, sagði hún eins og fyrr og kom við vanga minn. Það var bara lausleg snerting. En allt í einu var Soffía glaðvöknuð og setzt upp. Ég sá, að henni var ekki sama, þótt hún brosti.
– Ó, hvaða kjáni er ég, fyrirgefðu, sagði hún.
– Það var ekkert, sagði ég.
Svo hlógum við bæði. Það hafði ekkert komið fyrir. Við sátum bara þarna í sólskininu. Og nú hafði Soffía gripið til prjónanna sinna. Hún var að prjóna sokk á lítinn fót. Og það komu tvö lítil börn í brekkuna til okkar og sögðu: mamma, við Soffíu. Og hve skrýtið að hún skyldi vera móðir þó þetta stálpaðra barna, og ekki nema sautján ára í dag . . .
Ég lét fæturna bera mig hvert helzt sem verða vildi. Ég var ekki að hugsa um Soffíu. Ég var ekki að hugsa um neitt sérstakt.
En þarna var Lea.
Allt í einu stóð Lea hjá mér, og ég flýtti mér að segja:
– Berjaskyrið var hreinasta hunang.
– Já, aðalbláberin eru dásamleg í sumar, sagði hún.
Og nú rann upp fyrir mér, að orðin féllu eins og áðan í brekkunni. Og það var þetta dansandi vor í öllu viðmóti stúlkunnar. Ó, Lea.
– Nei, þú fórst ekki út í vita, sagði hún. – Ég er svo hissa. Og hvar er Soffía?
– Hún er að prjóna heima í túni.
– Er hún þessi draugur, nennir hún að prjóna – núna?
– Já, hún er svona vinnusöm.
– Allt má nú kalla vinnusemi. Er það kannski nokkurt afrek að pota sokkkríli?
– Já, þegar aðrir eru að skemmta sér.
– Hverjir eru að skemmta sér, Ívar? Erum við að skemmta okkur?
– Við bæði, Lea.
Hún hló.
– Og hin eru út í vita, sagði ég.
– Heldurðu þau séu allan daginn út í vita?
– Þú fórst ekki með þeim, Lea.
– Út í vita? Ónei, ég nennti því ómögulega. Það er ekkert að sjá þar. Ég skil ekki í fólki að vera að dandalast þetta út í vita, og svo er ekkert að sjá þar.
– Það er satt, sagði ég.
Við stönzuðum hjá mosavöxnu bjargi.
– Þetta er óvenju skemmtilegur staður, sagði ég.
– Nei, hættu nú, Ívar. Ég trúi ekki einu orði sem þú segir.
Og kannski svaf hún dálítið eins og Soffía, og þó allt öðruvísi en Soffía. Varir hennar voru glaðvakandi, þegar hún allt í einu losaði sig úr örmum mínum, og vildi fyrir hvern mun að ég skoðaði vitann.
– Það gera allir, sem koma í Skeljavík, sagði hún. – Og blessaður reyndu nú að drattast úr sporunum.
En ég komst víst ekkert úr sporunum.
– Ívar, ég er hreint alveg að gefast upp á þér, sagði hún þegar við stönzuðum hjá enn einu bjargi. Það var fjöldinn allur af björgum á leið okkar. Þetta var stórgrýtisurð. Og það var blágresi og burkni í urðinni.
Loks vorum við í vitanum. Þegar þangað kom var Lea bara fræðari um stund. Hún fræddi mig um þýðingu vitatækjanna, ljósmagn vitans og ljóseinkenni.
– Ferðu oft í vitann með gestum? sagði ég.
– Já, hvað heldurðu.
– Og segir öllum svona frá öllu?
– Já, auðvitað. Til hvers er að sjá hlutina, ef maður veit ekkert um þá?
– Á ég ekki að skrifa nafnið mitt í gestabókina?
– Jú, þegar þú kemur heim.
– Og á ég ekki að borga?
– Jú, þú mátt borga ef þú kærir þig um.
– Gerðu svo vel, sagði ég og fékk henni túkall, sem ég fann í vasa mínum.
Svo vorum við aftur úti í sólskininu – og kátir hrekkir í augum Leu. Hún hafði valið aðra leið heim. Það var engin urð, og ekkert sem skyggði á bæjarhúsin í Skeljavík.
– Við áttum að fara í gegnum urðina, sagði ég.
– Nei, það hefði ekki fengið neinn endi, maður minn, sagði hún.
– Við förum þangað seinna, Lea.
Eftir stund vorum við Hvestubúar ferðbúnir. Það var kominn tími til að vitja um netin. Steinsen var með úttroðinn bakpoka af góðmeti úr búrinu í Skeljavík. Og að sjálfsögðu reiddi hann byssuna um öxl, en skottlaus var hann. Sigdór snaraði sér að Steinsen, rétti honum nokkra samanbrotna hundraðkalla og sagði:
– Gerðu svo vel, Gunnar Steinsen. Þetta er refatollurinn. Ekki nema sjálfsagður greiði að ég borgi þetta, fæ það endurgreitt hjá oddvitanum.
– En ég er með mat á bakinu til tveggja ára, anzaði Steinsen.
– Við getum talað um það seinna, og kannski fyrr en að tveim árum liðnum, sagði Sigdór í þessum góðglettna mæðutón.
Feðgarnir létu ekki hjá líða að skjóta nokkrum flugeldum svona í lokin. Og allt gekk það út á Hvestuævintýrið – auðvitað. Ársæll var allur á lofti og lyfti harðkúluhattinum aftur og aftur. Og kvennablómanum í Skeljavík virtist mjög skemmt við að sjá þessa tilburði litla mannsins. Og Steinsen gat ekki neitað sér um að taka snoturlega utan um Skeljavíkursysturnar, einkum tók hann fallega utan um Leu.
Lea leit ekki á mig. Það var eins og hún væri öll á bak og burt, kunni að bregða yfir sig eins konar huliðshjálmi, þegar hún vildi það við hafa.
12
Guðirnir höfðu verið okkur Hvestubúum góðir í dag, svo ekki sé meira sagt. Við komum líka nýir menn til Sandvíkur aftur. Enginn okkar hafði orð á því, þó ekki væri nokkur branda í Hvestu, en Nói sagði.
– Manninum er mikill styrkur í að eiga góða og skilningsríka nábúa.
– Einkum þegar það eru fagrar konur, sem bíða manns hinum megin við fjallið, sagði Steinsen.
– Svona annesja- og afdalafólk er alltaf mesta gæðafólk, sagði Ársæll.
Ég hélt kannski að Steinsen væri búinn að gleyma byssunni. Annars rölti hann af stað með verkfærið góða stundu fyrir sólarlag. En við hinir lágum í hlaðvarpanum og sleiktum sólskinið. Nói var síkímandi til mín, og það var þetta sauðmeinlausa grín í brosinu. Hann var víst farinn að ganga í barndóm, karltetrið. En hann var samt ekki með neitt blaður. Jafnvel eftir að við vorum skriðnir í druslurnar á loftinu, hélt hann aftur af sér og þagði heilu hljóði. En aldrei þessu vant, þá fórum við bæði í krumlu og háseta, síðan fórum við að sofa. Svo hvarf Nói af loftinu strax og birti. Þannig hafði það verð síðan við komum í Sandvík. Það var svo margt að sjá, einkum um sólarupprás, sagði Nói, og þó kannski ennþá fleira að heyra. Fyrst heyrði maður aðeins eina rödd. Það var sú rödd, sem allar aðrar raddir lifnuðu af. Svo vaknaði ein röddin af annarri. Blóm og jurtir töluðu, jafnvel steinninn lofaði skapara sinn, að maður ekki minnist á fuglinn í loftinu . . . Svona talaði Nói. Og svo fann hann dýrgripi og djásn, sem hann nefndi svo. Og djásnin og dýrgripirnir voru marglitir fjörusteinar, skeljar og hörpudiskar.
Þennan morgun veiddum við tvo sjóurriða í Hvestu. Og ánægjan yfir þessum fiskum var slík, að ég er viss um við hefðum getað mettað með þeim fimm þúsundir, þótt ekkert brauð hefði verið fyrir hendi.
Við Nói fórum á sjó og drógum nokkra akfeita stútunga. Og Nói sagði, að á kyrrum sólskinsdegi, eins og þessum, rúmaði hafið alla hina sjö himna og ókunnar stjörnuveraldir sindruðu í hverjum dropa þess. Og Nói hélt áfram að tala tungum, líkt og hann hefði villzt út úr kóraninum eða biblíunni, og sjófuglinn kliðaði allt í kringum okkur, en einstaka fugl svaf á sólspeglum víkurinnar.
Þegar við Nói komum af sjónum, var Steinsen farinn til Skeljavíkur. Hann átti verk að vinna fyrir Sigurdór vitavörð, sagði Ársæll. Steinsen hafði ekki verið ýkja hrifinn af ganghljóðinu í rafmótornum. Það þurfti kannski að slípa ventlana. Og það var ekki nema sjálfsagt að sýna hjálpsemi.
Það var nú það.
Skömmu eftir miðjan dag var ég staddur í lítilli vík austan Skeljavíkur. Þetta var Mávavíkin. Og það var ekki bara fuglinn, sem bjó að berjunum í Mávavík í dag. Ég hafði ekki verið þar lengi um kyrrt þegar ég heyrði mannamál í lautardragi skammt undan.
– Bara þessa einu tínu í viðbót, Una mín, bað Steinsen.
– Nei, ég get ekki verið þekkt fyrir að þiggja þetta af þér, sagði Una. – Þú ert búinn að gefa mér svo margar fullar berjatínur.
– Já, ég hef svo gaman af því, Una.
– Sér er nú hver ánægjan, sagði Una.
– Ég gæti tínt fyrir þig aðalbláber ævina á enda, sagði Steinsen.
– En gamanið yrði naumast eins endingargott, sagði Soffía.
Svo hlógu þau öll þrjú. Og ég fór til þeirra og heilsaði upp á þau. Steinsen gerði skringilegar glennur framan í mig. Ég skildi þetta helzt á þann veg, að ég ætti að halla mér að Soffíu. Og það var mjög gaman að tala við Soffíu.
En Steinsen hefði ekki átt að vera með þetta merkjamál. Það var lítið uppörvandi að tala við stúlku samkvæmt beinharðri fyrirskipun frá öðrum. Svo ég hafði mig á burt.
Hlíðin var blá og svört af berjum, og þungur djúpur ilmur af lynginu. – Ég fann Leu nokkuð innar í hlíðinni. Hún var að tína aðalbláber, og það voru skuggar af stráum og lyngi í brosi hennar.
– Nei, ertu kominn. Ég hélt þú kæmir ekkert, sagði hún án þess að líta upp.
– Mig langaði allt í einu í berjalúku, sagði ég.
Hún leit á mig með öðru auganu og sagði:
– En þú ert ekki farinn að bragða ber.
Það var alveg satt, og þetta gátu allir séð, jafnvel með öðru auganu, svo ég sagði til að segja eitthvað:
– Hér eru bara aðalbláber.
– Viltu heldur krækiber?
– Já, ég vil heldur krækiber.
– Það er líka krökkt af krækiberjum, sagði hún og hló að mér. – Hérna litlu neðar eru stórar þúfur svartar af krækiberjum.
– Nei, er það satt, sagði ég og hafði mig á burt. Þegar ég kom í þúfurnar leit ég ekki við krækiberjunum. Það gerir enginn sem á völ á aðalbláberjum. Ég fór samt ekki sömu leið til baka, heldur rölti beint af augum þar til ég fann aðalbláber. Þau voru stór og þung og rök, og hrundu í lófa minn af lynginu. Svo var ég strax farinn að svipast um eftir Leu aftur, en nú sá ég hana hvergi. Það er nú svona; fuglinn situr ekki lengi á sömu grein og syngur.
Ég hló.
Mér hafði komið dálítið í hug. Ég skildi ekki í mér hversu lítið ég hafði talað við Unu. Ég get ekki sagt, að við höfum svo mikið sem litið hvort á annað. Mundi hún ekki vilja þiggja af mér eins berjalúku? Sjáðu, Una, hvað ég er með stór og þroskuð aðalbláber.
Ég þrýsti andlitinu niður í lyngið. Og það var hljótt, og þó var engin þögn. Ég heyrði raddirnar sem eru á bak við þögnina. Hér var allt að njóta lífsins. Hvert barð og hvert blóm drakk sólskinið, og andaði til mín unaði sínum og yndi.
En hvar var Lea?
Ég vissi hvar hún var. Hún vissi hvar ég var. Við vorum að leika hvort á annað, og þó lékum við ekki hvort á annað. Ég var hjá henni og kraup í ilmandi lynginu við hlið henni.
– Jæja, eru búinn að fá þig fullsaddan af krækiberjum? sagði hún hrekkjalega.
Aldrei fyrr hafði ég kysst stúlku með svona glaðvakandi varir, – og hún sagði:
– Ársæll og Steinsen töluðu heim til sín í gær, og Nói sendi móður sinni skeyti. Þú sendir ekkert skeyti, Ívar.
– Hverjum á ég að senda skeyti?
– Einhverjum ættingja þínum. Þú getur sagt þér það sjálfur.
– Ég á engin náin skyldmenni á lífi. Ég er eins og hver annar ættleysingi og umrenningur.
– Vertu ekki með þessa vitleysu, Ívar. Talaðu einu sinni í alvöru.
– Ég hef ekki fyrr talað af meiri alvöru, sagði ég. Svo sagði ég henni frá sjálfum mér. Það var ekki mikið að segja. Ég er líka ónýtur að tala um sjálfan mig, og mig rak strax í vörðurnar.
– Segðu mér eitthvað meir, Ívar, sagði hún þá.
Og ég sagði eitthvað meira, en mundi ekkert af því stundinni lengur. Það var allt svo ómerkilegt. En hún hlustaði á það, eins og það væri eitthvað sem hefði þýðingu. Hún var ekki svona heimsk. Hún var bara kona. Og ég þorði ekki annað en að kreista eitthvað upp úr mér, svo ég fengi að halda henni lengur í örmum mér, svo hún færi ekki að tína aðalbláber alveg strax. En eins og gefur að skilja, þá gætti ég ekki tungu minnar nægilega vel. Ég sagði sömu söguna oftar en einu sinni, og ég varð tvísaga um sum atriði eins og gengur. Hún leiddi mér allt fyrir sjónir – með brosinu, og líka með því að brosa ekki, eða þá að varir hennar dottuðu andartak og andartak. Og hélt áfram að umbera mig og koma til mín – en ekki að fara burt.
Seint um kvöldið urðum við Steinsen samferða yfir skarðið til Sandvíkur. Við gengum greitt á brekkuna, tylltum okkur ekki fyrr en efst á skarðinu, og Steinsen rétti mér sígarettu og sagði:
– Hvernig gekk? Hvað gerðist?
Ég sló hann ekki. Mér var ekkert slíkt í huga. Steinsen var fullur af gáska, minnti helzt á strák, sem er að byrja að fara út á lífið, veit ekkert, en er forvitinn um allt – og sagði:
– Ég skal steinhalda kjafti, nema um Unu og Soffíu. Það kviknaði ekki á kertinu hjá Unu.
Ég hló.
– Það er ekki hlæjandi að því, sagði Steinsen. – Það ótrúlega er, að Una elskar manninn sinn, og hefur hún þó verið gift í fimm ár.
– En ef Soffía skyldi nú líka elska manninn sinn? sagði ég.
– Nei, svo dökkleitt er það nú ekki, sagði Steinsen. – Ólánið var að ég skyldi ekki strax halla mér að Soffíu, en á morgun verður líka veður til að elska unga konu austur í Mávavík.
Já, Steinsen var upp á sitt bezta. Og báðir vorum við sömu skúrkarnir. En nú minnist ég þess, að það er enginn skúrkur til, nema sá, sem er misskilinn af náunga sínum, eða svo segir Nói Marteinsson.
Vonglaðir veiðimenn 13. – 14.
Í aðalsíðu