Óskar Aðalsteinn

Vonglaðir veiðimenn

Skáldsaga

 

 

Iðunn
Reykjavík, 1963

Copyright ©1963
All rights reserved


13

Næsta morgun sást naumast út úr augum fyrir þoku. Og það var þytmikið hljóð til hafsins, hljóð, sem skipti í sífellu um raddblæ, var dimmt eða ljóst, þungt eða létt, líkt og leikið væri á þúsund hörpur í miklum fjarska.

– Hann ætlar þó ekki að rífa sig upp með sjó í bláhvítalogninu? varð Steinsen að orði og skyggndi kaffibollann sinn, líkt og hann vildi lesa í honum óorðna hluti, en við Hvestubúar voru að drekka morgunkaffið.

– Jú, það máttu reiða þig á, sagði Ársæll vökulum rómi. – Höfuðdagsstraumurinn er farinn að segja til sín, og honum fylgir ekki bara aflasæld í veiðiám.

Steinsen gretti sig smálega við tengdaföðurnum og sagði:

– Þú belgir þig út eins og þú sitjir inni með tólf kónga vit að minnsta kosti.

– Já, ég bý yfir allra kónga viti hvað þetta snertir, sagði Ársæll bæði í gamni og alvöru, og hélt áfram og nú var honum einasta alvara í huga. – Og straumnum geta fylgt stórar flóðöldur.

– Er það nokkuð til að býsnast yfir? anzaði Steinsen.

– Við eigum bát á sandinum.

– Hvar á hann að vera annars staðar en á sandinum?

– Ég mundi vilja setja hann talsvert ofar.

Steinsen þagði. Ársæll hélt áfram eftir stutta þögn:

– Það verður stórvelta á sandinum, trúðu mér til, og það alveg eins þótt hann vindi ekki af hafi. Og ég veit ekki nema hyggilegt sé, að við förum ofar í ána með netin.

– Hvers vegna var ekki strax farið nægilega hátt? sagði Steinsen.

– Það veit ég ekki. Og ég er ekki að segja, að það sé nein bráð hætta á ferðum.

– Hvað er það þá?

– Ég vil aðeins . . .

– Nei, nú er nóg komið, sagði Steinsen allt að því reiðilega og fylgdi orðum sínum eftir með þungu hnefahöggi í borðið, svo að bollar og skálar dönsuðu.

Brosið datt af andliti Ársæls, en aðeins andartak, svo sagði hann ljúfum rómi:

– Ég meinti nú ekki annað en gott eitt, sonur sæll.

Steinsen hló.

– Vertu óhræddur, sagði hann síðan. – Ég misskil þig ekki að neinu ráði. En það er óþarfi að tala eins og heimsendir sé í nánd. Ætli okkur sé ekki óhætt að skola niður kaffinu, áður en við förum og björgum því sem bjargað verður.

Ársæll hafði ekki fyrr lokið út bollanum, en hann stóð á fætur:

– Ætlarðu ekki að fá þér að reykja eftir kaffið, eins og þú ert vanur? sagði Steinsen.

– Nei, ekki núna.

– Jú, viltu ekki sígarettu?

– Nei, þakka þér fyrir. Ég held ég fari strax og vitji um netin.

Steinsen var glottaralegur þegar hann sagði:

– Já, djöfsi er sjálfsagt genginn í ána.

Ársæll hló óþvingað, svo hvarf hann út í þokuna.

Nói hafði setið þögull um stund, en nú varð honum að orði:

– Ég þekki tæplega vonglaðan veiðimann, ef Ársæll er það ekki.

Og Steinsen sagði:

– Við skulum bara slá því föstu, strákar, að áhuginn dugi honum bezt, þegar til einhvers er að vinna.

Það var dálítill þvergirðingur í Steinsen. Já, menn eru ekki ævinlega við því búnir, að skyndilega dragi fyrir sólu. Í dag yrði ekki farið til leika í ilmandi lyngmó austur í Mávavík. Jafnvel byssan kæmi ekki að neinum notum í þessari svartaþoku. Annars var Steinsen hinn reifasti eftir að hann var kominn að verki, þótt varla örlaði á lifandi kvikindi í Hvestu.

– Sjálfsagt að færa trossudyrgurnar ofar í ána, fyrst það er sáluhjálparatriði, spaugaði Steinsen. – Og gerum bátinn að grasmaðki, en svo er ég líka farinn til Skeljavíkur.

– Nú, ertu ekki búinn að slípa ventlana í rafmótornum? sagði Ársæll.

– Ég bæði slípaði og smurði, gamli minn, en ég vil sjá hvernig hún gerir það eftir prufukeyrsluna.

Hlátur.

Og hvað skeði ekki skömmu eftir miðjan dag, meðan við vorum sem óðast að hakka í okkur soðninguna? Nói gekk til dyra með þess konar tilburðum að helzt mætti ætla, að meiriháttar tignargestur væri kominn í heimsókn. Og þegar Nói hafði opnað dyrnar upp á gátt, benti hann okkur að fylgja sér eftir. Öll viðbrögð hans voru svo tælandi, að maður fór ósjálfrátt í einu og öllu eftir bendingum hans. Og það var síður en svo að Nói væri að hafa okkur að ginningarfíflum, því þarna sáum við hvar ung stúlka kom á bleikum hesti út úr þokunni.

Það var Lea.

Steinsen ætlaði að hlaupa til og taka Leu af baki, en hún renndi sér af hestinum áður en Steinsen fékk höndum við komið, og sleppti honum í túnið.

– Ég staldraði við hjá silungatjörninni ykkar, sagði Lea svona eins og henni var lagið, með þessari kátu hrekkvísi í tillitinu og raddhreimnum.

– Þetta eru fallegir fiskar, sagði Ársæll.

– Já, en þetta eru bara svo örfáir tittir, sagði Lea. – Svona veiði, ef maður á að kalla það því nafni, grípur maður á svipstundu upp úr sprænunni heima, þegar eitthvað kemur í hana á annað borð.

– Hvesta á eftir að spjara sig, Lea litla, sagði Ársæll.

– Já, ég vona það, sagði Lea og horfði líflega á Steinsen.

– Jæja, svo þú ert þá hætt við klakann og komin til mín, sagði Steinsen.

– Nei, blessaður vertu, en ég ætla að trúa þér fyrir því, að þú ert stórum ríkari en þú heldur þig vera.

– Hvað segirðu, ég hef þó ekki unnið stóra vinninginn í happdrættinu? sagði Steinsen sýnilega bæði í gamni og alvöru.

– Lestu bara sjálfur, sagði Lea og rétti Steinsen símskeyti.

Steinsen varð síður en svo uppnæmur fyrir því sem stóð í skeytinu, en sagði hressilega:

– Sko til, þetta getur maður þó ennþá . . .  Og fékk Ársæli skeytið.

– Fæddur sonur. Góð líðan. Kær kveðja. Sunnefa, las Ársæll lágum mjúkum rómi, svo hvíslaði hann. – Elsku barnið, elsku Sunnefa mín.

Lea gekk að hestinum, sem hámaði í sig töðugresið, hvíslaði einhverju í eyra hans og var síðan umsvifalaust komin á bak. Hún hafði ekki litið á mig – ,og þó sá hún mig mjög vel.

– Lea, þú ert þó ekki rokin alveg á stundinni? sagði Steinsen ör og fljótmæltur.

– Jú, ég er að fara til Bláeyrar, ætla að reiða hana Tótu litlu frænku mína vestur yfir.

– Núna, í allri þessari þoku? sagði Steinsen.

Lea hélt við hestinn, sem vildi ómur þjóta af stað, og hún sagði:

– Á ég kannski að hræðast sjólæðugreyið? Bezt gæti ég trúað það væri sólskin á heiðinni.

– Bíddu andartak, kallaði Steinsen, ætlaði að grípa um tauminn en mistókst það.

– Una og Soffía báðu alveg sérstaklega að heilsa þér, Steinsen, en þær fóru með vitaskipinu í morgun, sagði Lea og hló –, og svo hló hún enn meira, af því Steinsen þrútnaði mjög í framan og orðin stóðu í honum, þótt hann bæri sig borginmannlega. Og í þessum töluðum orðum gaf Lea hestinum lausan tauminn, en í sama var ég kominn á bak fyrir aftan hana. Mér var líka illa brugðið, ef ég kæmist ekki hjálparlaust á hestbak, eins og ég hafði gaman af hestum þegar ég var strákur.

Steinsen var eitthvað að hrópa á eftir okkur Leu, en við heyrðum ekki orðaskil. Brátt voru allar raddir hljóðnaðar, nema dynurinn til hafsins og þyturinn sem varð af ferð hestsins. Bleikur var stór og traustlegur hestur, og bar okkur léttilega, líkt og við værum svo sem ekki neitt. Og þó vorum við eitthvað dálítið. Ég hélt Leu í örmum mér, og það voru enn svolitlir hrekkir í augum hennar þegar hún sagði:

– Nei, ert það þú, Ívar?

– Kannski er það Steinsen, sagði ég. Og svo sagði ég. – Heldurðu það sé sólskin á heiðinni?

– Svo þú ert þá Steinsen eftir allt saman, sagði hún.

– Þarftu að fara fyrr en birtir? sagði ég.

– Ég var ekki nema átta ára stelpugréla þegar ég fór fyrst ein yfir heiðina.

– Þá leyfi ég þér að fara.

– Heldurðu ég spyrji nokkurn leyfis, maður minn? Ég þarf að fá nýjar skeifur undir hann Bleik. Hagbarður er að smíða fyrir mig skeifur.

– Hagbarður –, nú er hann þá til?

– Hann Hagbarður? Þú ættir að reyna að segja honum Hagbarði Katarinusarsyni, að hann sé einhver tilbúningur úr mér. Bleikur er gjöf frá honum. Finnst þér hann ekki vakur?

– Ég hef ekki komið á bak betri hesti.

– Kannski lofa ég þér að reyna hann svo bragð er að, þegar ég kem aftur að vestan – ef þú verður ekki farinn.

– Ég verð ekki farinn. Og þú kemur fljótt aftur.

– Það veit ég ekki, sagði hún.

– En ég verð ekki farinn, Lea.

– Þú veizt það ekki, Ívar. Þú veizt ekkert um það.

– Nei, kannski vitum við ekkert um það, sagði ég og hélt henni fast í örmum mér.

 


 

14

Við Lea skildum á dalnum, þar sem fundum okkar hafði fyrst borið saman. Ég sneri ekki við sömu leið aftur. Mér flaug í hug, að gaman væri að skreppa upp á víkurbrúnir. Á leiðinni þangað sá ég og heyrði sitthvað í þokunni. Sum blómin voru eins og silfurbikarar barmafullir af blikandi víni. Dýrar perlur ljómuðu á hverju strái og sums staðar lýsti af eðalsteinum. Og í þokunni var enginn hlutur kyrr. Landið leið áfram eins og lognaldan. Miðlungssteinar tóku á sig gervi stórvaxinna manna og kvenna í mosagráum hversdagsklæðum, og komu í móti mér virðuleg í fasi og mæltu við mig nokkur orð í hljóði. Flestir töluðu svo lágt, að ég greindi ekki orðaskil. En einstaka rödd heyrði ég þó greinilega, eins og þessa karlmannsrödd:

– Vertu ekki hræddur.

Og kvenmannsrödd sagði:

– Ég á að bera þér kveðju frá henni systur minni.

Og önnur kvenmannsrödd sagði:

– Þig skal ekki iðra.

Brátt var allt þetta fólk á bak og burt. Ég mátti hafa mig allan við að klöngrast um syllur og klettastalla, svo hjólaði ég lengi í flugbrattri aurskriðu, síðan fékk ég aftur að atast á við blátt bergið, en að lokum varð rennislétt undir fæti. Ég var á efstu brún. Og ég hafði ekki gengið lengi, þegar skyndilega varð albjart í kringum mig, og mér gaf sýn inn til landsins, þar sem hver fjallgarðinn reis öðrum meiri, dimmbláir með drifhvítum jökulsköflum, en strandlengjan var grafin í svartaþoku.

– Bezt gæti ég trúað það væri sólskin á heiðinni.

Þegar ég kom aftur niður af fjallinu var ekkert að sjá í þokunni; hún var grá og dauð –, og ekkert að heyra nema hafhljóðið. Og ég átti ekkert að reykja, hafði reykt síðustu sígarettuna á fjallinu. En ég vildi heldur standa við að berja klakann úr reiðanum nótt með degi, ég þekkti það af eigin raun, heldur en að eiga ekkert að reykja.

Heima í Hvestu sátu menn við kertaljós, þegar mig bar þar loks að garði. Þeir félagar höfðu verið heima við, sagði Ársæll. En hafði ég komið í Skeljavík?

Nei, ég hafði ekki komið í Skeljavík.

Nói og Steinsen voru báðir að reykja sígarettur. Steinsen hafði haldið mér uppi á sígarettum síðustu dagana. Ég hafði ekki þurft að knékrjúpa honum. Hann hafði fengið mér pakka og pakka, án þess ég bæði um það. Nú gerði hann ekki svo vel að bjóða upp á sígarettu. Nói sá hvað mér leið, þeir sáu það sjálfsagt allir, og Nói rétti mér rjúkandi sígarettuna frá vörum sér. Ég svældi hana upp á augabragði og sagði:

– Eigið þið ekkert að reykja?

Steinsen glotti með hálflukt augu, hafði sýnilega gaman af að virða mig fyrir sér og sagði:

– Við vorum að ræða þetta lítillega þegar þú komst. Bíðið þið andartak, strákar, ég kem alveg undir eins . . .

Og Steinsen brá sér inn í stássstofuna.

Þetta var skipbrotsmannaskýli.

Ég hafði ekki minnzt þess um sinn. En í stássstofunni voru geymd matvæli, fatnaður og sitthvað annað, sem ætlað var hrakningsmönnum. Og þarna voru að sjálfsögðu gnægðir af sígarettum. Þurfti ekki að draga það í efa. Steinsen hafði heldur ekki verið lengi í stofunni, þegar hann koma aftur fram til okkar, og ekki bara með lengju af sígarettupökkum, heldur að auki fjórar dósir af aldinsafa. Hann lét dósirnar á matborðið, en fékk okkur þrem, hverjum fyrir sig, tvo pakka af sígarettum, og sagði með smjör í brosinu.

– Ég er víst ekki að ljósta upp neinu leyndarmáli, þótt ég segi ykkur, að við höfum verið að reykja hrakningsmannasígarettur síðustu dagana. Þetta er annað kartonið sem ég fæ lánað hjá þeim.

Ársæll ræskti sig, svo sagði hann:

– Það er alveg ástæðulaust, að við neitum okkur um þetta, drengir. Við getum líka illa án þess verið. Og við skilum þessu að sjálfsögðu aftur, strax og flugvélin kemur að sækja aflann.

Steinsen tók vasabók í rauðum plastsniðum og blýant úr brjóstvasa sínum, vætti blýantsoddinn með tungubroddinum og sagði:

– Það er rétt ég skrifi þetta hjá mér til minnis.

Og Ársæll sagði:

– Skrifaðu þá líka kertastokkana tvo og olíuna, sem við fengum að láni. Það voru víst einir átta lítrar á brúsanum.

– Ég skrifa tíu lítra, anzaði Steinsen.

– Það er ekki nema sjálfsagt að borga vel það sem maður fær að láni, sagði Ársæll.

Steinsen virtist skyndilega mjög hugsi. Það voru djúpar fellingar á enni hans. Hann dró hægt til stafs, líkt og hann vildi vanda skriftina sem mest, og sagði án þess að líta upp úr bókinni:

– Við skuldum þeim líka tvö búnt af eldspýtum. Við skulum ekki láta hrakningsmennina eiga neitt hjá okkur, þegar reikningarnir verða gerðir upp.

Ársæll með hægð:

– Það eru nú ekki beinlínis þeir, sem þú nefndir, sem eiga þetta hjá okkur.

Steinsen leit upp úr bókinni og sagði meinhægri röddu:

– Til hvers er verið að safna þessu góssi hingað, ljúfurinn? Kannski fyrir einhverja rápandi sportpeyja, eða þá okkur, sem erum hér í sérstökum erindum? Nei, gamli minn, vertu ekki að slá ryki í augun á þér. Auk þess er sízt verra að skulda hrakningsmönnum en hverjum öðrum.

– Jæja, jæja, sagði Ársæll og hneggjaði svolítið.

Ég drakk svart kaffi og var á góðum vegi með að svæla upp þriðju sígarettuna, og ég var að horfa á aldinsafadósirnar. Af einhverjum ástæðum stungu þær mig í augun, og ég sagði:

– Hvað með þessar dósir?

Steinsen leit hlæjandi á mig og sagði:

– Hefurðu aldrei drukkið aldinsafa úr dós?

Ég þagði.

Steinsen tók eina dósina, stakk tvö göt á hana með sjálfskeiðing, bar hana að vörum sér og drakk góðan teyg. Nói og Ársæll fóru að eins og Steinsen, en þegar ég lét kyrrt liggja, leit Steinsen á mig píreygur og sagði:

– Ég væri lélegur bókhaldari, Ívar Sölvason, ef ég gleymdi að færa það gjaldamegin, að við erum líka farnir að lifa hrakningsmannalífi.

– Við erum þá komnir á algeran skipbrotsmannakost, sagði ég, stakk upp dósina, sem ætluð var mér, og drakk hinum þrem til.

– Verði þér að því, sagði Steinsen.

Og Nói sagði:

– Það fer bezt á því, að bræður lifi við ein lög og einn sið.


Vonglaðir veiðimenn 15. – 16.


Í aðalsíðu