Óskar Aðalsteinn

Vonglaðir veiðimenn

Skáldsaga

 

 

Iðunn
Reykjavík, 1963

Copyright ©1963
All rights reserved


15

Með nýjum morgni var farið að brima í strauminn. Sjóirnir stækkuðu óðfluga og byltust inn víkina eins og snjóflóð á hraðri ferð. Það lýsti af brimsköflunum, og það var vindstrengur af hafi, og hafði lyft undir þokuna, svo nú sá upp í miðjar hlíðar.

Við Hvestubúar gátum helzt ekki komið á sitjandann þennan dag. Við reikuðum með fram ánni, eða um sandana, héldum okkur í þéttum hóp, tókum okkur lengi vel ekkert sérstakt fyrir hendur, og sögðum nánast ekkert sem máli skipti. Annars var okkur öllum þetta sama í huga: Straumurinn í algleymingi og engin veiði. Hvað var hægt að vona lengi ennþá?

Ef marka mátti svip Ársæls, þá var vissulega engin ástæða til að örvænta. En Ársæll var sagnafár, þar til allt í einu að hann lagði handleggina utan um tengdasoninn og sagði:

– Nú getur það ekki dregist lengur en til fyrramáls, að við fáum hann á netin svo um munar. Já, hér verður yfirdrifið af fiski strax á morgun.

– Á maður nú líka að hafa áhyggjur af fiskisældinni? sagði Steinsen og losaði sig með hægð úr örmum tengdaföðurins.

Ársæll hló, svo sagði hann:

– Þú gerir bara að gamni þínu, sonur. En það er þetta: flugvélin getur ekki athafnað sig hér fyrr en sjóinn lægir aftur. Og svo sitjum við uppi með alla veiðina.

– Ætli það setji okkur í svo stóran vanda?

– Nei, nei, mikil ósköp. Ég meinti það ekki þannig, sagði Ársæll.

– Hvað segir Ívar Sölvason? sagði Steinsen glaðklakkalega. – Væri ekki ráð að stækka silungatjörnina?

– Það væri líka hægur vandi að koma sér upp nýrri silungatjörn, sagði ég.

– Ég anza ekki svona gamansemi, sagði Ársæll með hláturróm í röddinni. – Það mætti nú fyrr vera, ef okkur nægði ekki tjörnin sem fyrir er. En ég er bara að vona, að við þurfum ekki að geyma fiskinn þar allt of lengi, sem heldur ekki kemur til greina, því þessi brimsúgur í strauminn hjaðnar fyrr en varir . . .  Og Ársæll steig dansspor við sjálfan sig á sandinum.

– Ef þú hefði nú eitthvað mjúkt og lifandi í fanginu, Ársæll minn, varð Nóa að orði.

– Mér finnst það nú raunar, sagði Ársæll og hélt áfram að stiga dansinn. Og víst var eins og hann hefði snotra stúlku í örmunum.

Steinsen rak upp skrækan hlátur, sletti til hrikastórum skrokknum og tvísté.

– Næst er það fingrapolki, sagði Ársæll og skipti um dansspor.

Svo vorum við allir fjórir komnir í dansinn, og tókum undir þegar Ársæll hóf að syngja eina af sínum uppáhalds gleðivísum. Og brimhljóðið lék fyrir dansinum, og Nói var strax farinn að vanga sína píu.

En þessi kátlegi leikur fékk skjótan endi. Við hlupum nærri strax til og ýmist bárum eða drógum á gras þá rekadrumba, sem við fundum á söndunum.

– Þetta eru verðmæti, og sjálfsagt að koma þessu undan sjó, sögðum við einum rómi.

Steinsen gekk berserksgang við stauraburðinn. Hann var eins og stórt og stynjandi dýr. Já, það gat verið heilsusamlegt að leifa ekki af kröftunum stöku sinnum.

Þannig rápuðum við um allar fjörur og komum ekki í hús fyrr en í myrkri. Það hafði drepist í kamínunni, en enginn okkar hafði orð á því, að rétt væri að kveikja upp eld og hita kaffi. Við tíndum í okkur eitthvert kalt snarl, síðan var gengið til náða.

Eins og venjulega, þá lágum við Nói á loftinu, en tengdafeðgarnir í hrakningsmannastofunni. Það hafði lítið heyrst til þeirra á næturnar fyrr en nú, að þeir byltu sér hvíldarlaust á undirbreiðslunum. Síðan var staðið á fætur og gengið um gólf.

Þannig lengi.

Svo héldust tengdafeðgarnir ekki lengur við innan dyra. Þeir skelltu hurðum og hurfu út í myrkrið, en komu inn aftur eftir stutta útivist, og enn skelltu þeir hurðum, líkt og þeir hefðu gleymt því, að aðrir væru í húsinu en þeir sjálfir.

Þeir voru að bíða eftir döguninni og stórveiðinni.

Og loksins varð albjart af degi. En nú brá svo við, að mennirnir í hrakningsmannastofunni höfðu hægt um sig, eins og þeir væru lítið uppnæmir fyrir að forvitnast um veiðihorfurnar. Þó kom þar, að þeir yfirgáfu bæinn, en fóru sér hægt og gengu hljóðlega um, svipað og þeir væru í dauðs manns húsi.

Aldrei þessu vant: Nói hafði ekki hreyft sig af loftinu í nótt, og hann hafði vart yrt á mig fyrr en nú að hann sagði:

– Ívar, við skulum koma okkur af stað.

– Hvað á að gera? anzaði ég.

– Spurðu mig ekki, Ívar. Þú sérð það sjálfur þegar þar að kemur . . .

Við Nói fundum tengdafeðgana sem næst silungatjörninni. Þeir sátu undir hólbarði í skjóli við vindstrenginn. Ég hafði á tilfinningunni, að þeir hefðu ekki talazt við lengi. Kannski voru þeir að hlusta á brimhljóðið. Kannski það. Ársæll var gráfölur í andliti. Það hafði sýnilega slegið að honum. En hann reyndi að leyna vanlíðan sinni með eins konar brosi, sem þó vildi ekki tolla á andlitinu. Steinsen hafði sams konar yfirbragð og kúreki í amerískri hasarmynd, sem hafði verið afvopnaður af fjandmannaher, en slíkur reyfari kemst þó jafnan ofan á eftir eina mínútu. Og Steinsen hrækti út á ána og kallaði hlakkandi rómi:

– Það hættir sér ekkert lifandi kvikindi upp í þennan andskota.

Ársæll ræskti sig. Steinsen skyrpti aftur úr á ána og sagði:

– Aldrei hef ég séð svartari djöful en þetta skrímsli.

Ársæll hryllti sig í herðunum:

– Hafðu ekki þessi orð, sonur minn, sagði hann síðan svo lágróma að orð hans týndust næstum í brimgnýnum.

– Má ekki ávarpa hvern eins og hann hefur til unnið? hlakkaði í Steinsen.

– Ég tek ekki undir neinar bölbænir, sagði Ársæll eins og fyrr.

Steinsen kveikti sér í sígarettu, sem Nói rétti honum, pírði augum á Ársæl og sagði:

– Jæja, hvað viltu gera, gamli?

Skyndilega mælti Ársæll af fullum raddstyrk:

– Við getum ekki staðið í þessu lengur, sagði hann. – Það yrði bara aukinn kostnaður og ekkert annað. Fyrst ekki lifnar í strauminn, þá er þetta vonlaust með öllu.

Steinsen lagði höndina sefandi á öxl Ársæls og sagði:

– Það er ekki öll nótt úti enn, gamli minn. Hvað vitum við hvað gerist á morgun eða hinn daginn? Við getum ekki einblínt á einn einasta dag og sagt: Nú eða aldrei.

– Mér er ómögulegt að ljúga að mér lengur en orðið er, sagði Ársæll hávær og titrandi. – Lífið er ekkert happadrætti, þegar til alvörunnar kemur. Við máttum vita það strax, að hér var ekki feitan gölt að flá. En við vildum bara ekki vita það.

– Þú jafnar þig fljótlega aftur, tengdapabbi. Hugsaðu bara til orða minna, og þið allir. Það verður nýtt blóð í kúnni fyrr en varir, sagði Steinsen næstum glaðlega, spratt á fætur og gekk á burt hröðum skrefum. Ársæll hljóp á hæla honum, líkt og nú þætti honum öllu varða, að standa sem næst tengdasyninum.

Við Nói vorum kyrrir þar sem við vorum komnir, og Nói sagði:

– Þú ætlaðir að rjúka í Steinsen.

– En þú hafðir mig góðan, bara með því að líta á mig, anzaði ég.

– Þú lést eftir mér, Ívar, að halda þér í skefjum, sagði Nói.

Ég þagði. Hver anzar líka svona vitleysu?

Nói benti yfir um ána og sagði:

– Þeir eru komnir yfir á, Ívar. Kannski eiga þeir erindi í Skeljavík, og við líka – ef við viljum.

 


 

16

Við Nói vorum ekkert að flýta okkur yfir fjallið að þessu sinni. Við sáum heldur ekki til tengdafeðganna, enda blindþoka strax og kom upp fyrir miðjar hlíðar. En af tilburðum þeirra kumpána, áður en þeir hurfu okkur í þokunni, mátti helzt ráða það, að nú væri öll velferð þeirra og hamingja undir því komin, að þeir kæmust sem fyrst til Skeljavíkur.

– Hann hefur það af að kála karlinum, sagði ég.

Og Nói sagði:

– Ársæll blaktir fram yfir næstu áramótagleði, og Steinsen heldur heim eins og sigursæll hershöfðingi.

Ekki veit ég hvort þetta átti að vera skrýtla eða forspá, nema hvorttveggja væri.

Þegar við Nói komum til Skeljavíkur, vísaði Rebekka húsfreyja okkur strax til stofu. Hún lét okkur þarna eina með þeim sem fyrir var, en það var Ársæll Jónsson. Hann hvíldi á legubekk og hafði lagt yfir sig ullarábreiðu. Ósköp var höfuð hans lítið á svæflinum, og andlitið eins og unglingsásjóna. Annars flaug mér strax í hug, að nú byggi Ársæll yfir einhverju, sem hann hefði ekki einu sinni látið uppskátt við tengdasoninn. Og Nói tyllti sér hjá Ársæli og sagði:

– Gerði þér illt, Ársæll minn?

– Nei, nei, mikil ósköp. Ég var bara svolítið þreyttur og kaldur.

Nói dró andann í hægum djúpum sogum, nasavængirnir titruðu, og hann næstum hvíslaði:

– Svo hefur Sigdór vitavörður dreypt á þig svolitlu tári.

Ársæll færði sig ofar á legubekkinn, líkt og honum væri ekkert um það gefið, að hafa Nóa þarna yfir sér, en hann var mjúkur í máli þegar hann sagði:

– Já, það slæddist víst bæði eitt og annað hérna á fjörurnar meðan á stríðinu stóð. Og maður talar ekki um það, þótt gamli maðurinn eigi píring á brúsakríli, slíkt getur komið sér vel á afskekktum stað.

– Jú, þetta er spíri, sem hann hefur gefið þér, og líklega hollenskur, sagði Nói – var næstum hátíðlegur í máli.

– Ég veit ekkert um það, sagði Ársæll og bar ótt á. – Það veit ég svei mér ekki. En mér varð gott af því.

– Þér hlýnaði um hjartaræturnar, sagði Nói hrifnæmum rómi.

– Þetta var ósköp indælt . . .  Ársæll hikaði dálítið, síðan bætti hann við. – En . . .  en þér er kannski sama, þótt þú sitjir við borðið.

Nói færði sig að borðinu. Ársæll átti jafnan örðugt með að leyna því, að hann bæri ugg í brjósti gagnvart Nóa. Þetta gekk svo langt, að hann hafði falið haglaskotin fyrir Nóa, og þau ekki komið í leitirnar, enda Nói ekki gengið eftir þeim við Ársæl. Nói tók þessu öllu með hugarró þess manns, sem ævinlega skilur meðbróður sinn. Og nú var Nói ekki fyrr setztur við borðið, en Ársæll andvarpaði léttan og sagði:

– Dívaninn er svo ári mjór, annars fer prýðilega um mig.

– Já, það fer ljómandi vel um þig, sagði Nói.

– Og ég ætla bara að biðja ykkur blessaða, að taka ekki allt of mikið mark á því sem ég sagði í morgun við silungatjörnina, sagði Ársæll og talaði auðheyrilega þvert um hug sér. – Það er lítið á manni að græða, þegar maður er niðurdreginn og vonsvikinn. Gunnar minn hefur vissulega rétt fyrir sér í því, að happið þarf alls ekki að vera gengið okkur úr greipum.

– En hvað hefurðu gert af Steinsen? sagði ég.

– Hann skrapp frá með Sigdóri, sagði Ársæll. – Gamli maðurinn er eitthvað að athuga með skotfæri fyrir Gunnar minn.

Jæja, svo Steinsen var að falast eftir skotfærum. Var hann kannski búinn með öll þau ódæmi af skotfærum, sem hann hafði haft með sér að sunnan? Já, ætli ekki það. Hann hafði skotið þessi líka ósköpin.

– Það verður nú ekki mikið skotið meðan svona viðrar, sagði Nói.

– En þetta veður stendur ekki nokkra stund, sagði Ársæll.

– Verður sól á morgun? sagði Nói.

– Já, ef ég má ráða, þá verður sól á morgun, sagði Ársæll og brosti snöggvast eins og honum var eiginlegt.

Rebekka húsfreyja kom í þessu með rjúkandi kaffi. Hún horfði á okkur eins og við værum heimamenn, og það var dálítill Leusvipur yfir henni og Unusvipur og Soffíusvipur –,og sagði okkur að gera svo vel.

– Takk, sögðum við.

Og svo sagði Nói:

– Þetta er nú meiri gæðadrykkurinn þegar manni er kalt.

– Víst getur slegið smávegis að manni í svona beljanda, sagði Rebekka, og kannski var hún svolítið hrekkjaleg til augnanna.

Ársæll spurði eftir Leu.

Hafði hún ekki talað heim, Lea litla?

Jú, Lea talaði heim í gærkvöldi.

Og hvernig hafði henni gengið yfir heiðina?

Rebekka svaraði því til, að henni hefði ekki getað gengið örðu vísi en vel yfir heiðina í þessari veðurblíðu sem var í gær.

– Við biðjum að heilsa Leu, næst þegar hún talar heim, sagði Nói.

Já, hann var eitthvað að þvæla, karlkvölin. Og Ársæll var ekki mikið betri, kannski var hann öllu lakari, karltetrið.

– Þú þorðir, kona góð, að sleppa stúlkunni yfir heiði í þessari líka þokunni, sagði hann.

Rebekka hló. Það var svona dálítill Leuhlátur. Og það voru myndir á veggjunum, sem gátu ekki að sér gert að brosa að svona tali. Það voru myndir af konum, sem voru í blóma lífsins um síðustu aldamót, aldamótakonur og fornaldarkonur í síðpilsum með stóru blúnduverki. Og það voru myndir af karlmönnum í efnismiklum fötum, og allir síðskeggjaðir og skemmtilega veðraðir; aldamótakarlar og fornaldarmenn. Og það voru myndir frá í gær og fyrragær; Skeljavíkursystur í hvítum fermingarkjólum og héldu á sálmabók. Og Skeljavíkursystur í dýrum kvöldkjólum, eins og borgardömur, svo maður spurði ósjálfrátt: Hver var Lea og hver var Una og hver var Soffía?


Vonglaðir veiðimenn 17. – 18.


Í aðalsíðu