Iðunn
Reykjavík, 1963
17
Þegar þeir Sigdór og Steinsen skiluðu sér loks úr skotfæraleiðangrinum hafði matur verið borinn á borð. Og nú var eins og Ársæll forðaðist að líta á tengdasoninn. Hann vissi upp á sig einhverjar sakir. Það var augljóst mál. Þetta fór áreiðanlega ekki fram hjá Steinsen, sem virtist hæfilega hýr af víni. Kannski var hann ýmis hugsi, í það minnsta var honum skemmt. Hann lék með nokkrar byssukúlur milli handa sér og sagði:
– Maður leitar ekki ullar í geitarhúsi hér í Skeljavík.
– Þú hefur nú vart sannprófað það ennþá, sem heldur ekki er von, anzaði Sigdór í þessum mæðutón sem þó var enginn mæðutónn.
Steinsen gretti sig beinlínis fallega við okkur Nóa og sagði:
– Allir mínir menn mættir, og allir eins og blóm í vermireit. Það er eins og ég sagði áðan við Sigdór: Vandinn í Hvestu leysist strax og maður kemur til Skeljavíkur.
– Það er nú svo bezt að sá vandi, sem um er að ræða, sé ekki allt of stór, varð Sigdóri að orði, og minnti á aldamótakarlana þegar þeir brostu, snaraði flösku á borðið, leit til okkar Nóa og sagði:
– Ég dreypti á félaga ykkar þegar þeir komu. Og fáið þið ykkur bragð líka. Það tekur úr ykkur hrollinn.
Hlátur.
– Já, ég segi þetta svona að gamni mínu, sagði Sigdór.
Steinsen var setztur við borðið og sagði dillandi röddu við Ársæl, sem gekk eirðarleysislega um gólf:
– Hringdirðu suður?
Ársæll snöggstanzaði og það kom sýnilega á hann. Steinsen varð fyrri til máls og sagði:
– Nú, ég hélt kannski, að þú hefðir talað við konuna.
Ársæll hló uppgerðarhlátri, svo sagði hann.
– Nei, nei, ég talaði ekki við konuna mína, en það er mesta ómynd að gera það ekki, fyrst maður er staddur hér á annað borð.
– Við munum eftir því næst þegar við komum í Skeljavík, sagði Steinsen. – En nú fáum við okkur bragð með Nóa og Ívari.
– Ég tek mér til þakka, sagði Ársæll og tyllti sér við borðið.
Þegar við höfðum fengið vel í glösin, lokaði Sigdór flöskuna inni í skáp. Auðséð var að Steinsen saknaði hennar talsvert, þótt hann tæki hraustlega til matar síns. En eftir litla stund varð Steinsen að einni hlust. Sigdór hafði opnað fyrir útvarpið, og þulurinn var að segja erlendar fréttir. Það var eitthvað um landamæraskærur austur í heimi. Annars hlustaði ég ekki eftir því, sem Steinsen sagði uppveðraður:
– Þarna höfðu þeir það loksins af að rjúka saman í fúlustu alvöru.
– Þetta er nú svo langt í burtu, sagði Ársæll og hafði ekki augun af diskinum sínum.
Steinsen hló.
– Langt í burtu, hafði hann svo upp eftir Ársæli. – Það er ekkert til sem heitir langt í burtu nú til dags.
– Ég er nú svo skilningssljór, sagði Sigdór. – En mér skilst þó, að hér sé um óeirðir að ræða á mjög takmörkuðu svæði.
Enn hló Steinsen, síðan sagði hann:
– Já, þannig lítur það út á kortinu, Sigdór Aronsson. En það segir ekkert. Hitt segir allt, að hér takast austrið og vestrið á í fyrsta sinn, svo orð sé á gerandi.
– Já, bragðið er að þá barnið finnur, sagði Sigdór í þessum sérlega mæðutón sínum, sem nú ómaði af kátri hrekkvísi.
Steinsen ljómaði þegar hann sagði:
– Sannleikurinn er sá, að stríðsgúbbarnir hafa verið að sálast úr leiðindum síðan þeir hættu að berjast og lognmollan skall yfir. En nú eru þeir aftur komnir í sitt "sittu með það", og það verður æðisgengið span á hlutunum, strákar, herstöðvar spretta upp út um allar jarðir, og okkur mörlendingunum verður ekki gleymt.
– Ekki vil ég trúa því, að skynsemisglóran sé orðin að algjörri hornreku hjá þeim sem ráða fyrir þjóðum, og enginn græðir á að gera sér slíkt að trúaratriði, sagði Sigdór og birtubrigðin í svip hans voru mjög snögg.
– Steinsen leit á myndirnar á veggjunum, tillitið skemmtilega glannalegt meðan hann horfði á ungmeyjahópinn í Skeljavík, líkt og hann vildi segja: Halló, stelpur, ég er hérna . . . Svo hló hann opinskátt við hinum veðruðu skeggkörlum, sem nú vitrust jafnvel alvarlegir um og. Og Steinsen hleypti brúnum að gamni sínu og sagði:
Skynsemisglóran, Sigdór Aronsson, gengur ekki lengur út á hugsjónaprang, eins og þegar þú varst ungur. Menn slíta sér ekki lengur út fyrir ekki neitt. Í dag er spurt: Get ég grætt á því? Er nokkuð upp úr þessum andskota að hafa? Einföld lífsregla, en erfið og áhættusöm í framkvæmd – kannski.
Þetta var eitthvað fyrir Nóa, hann sagði:
– En svona tal er óskiljanlegt hér norður í Skeljavík.
– Rétt er orðið, hér er ekki nýjabragð af neinu, sagði Sigdór næstum unggæðingslega. – Útúrboruhátturinn gerir mann sjálfsagt að hálfgerðu skrifli og viðundri.
– Við nefnum hlutina ýmsum nöfnum, sagði Nói og kímdi ofna í tómt glasið sitt.
Rebekka kom inn í þessu og bar okkur molakaffi:
– Nói hefur rétt fyrir sér þótt afglapi sé, skrollaði Steinsen. – En svo ég tali um Skeljavíkina, þá skal enginn segja mér, að það sé með öllu andskotalaust að búa svona úr alfaraleið. Og ég dáist að úthaldinu hjá gömlu hjónunum.
– Einsdæmin eru verst, sagði Sigdór og brosti kátlega. – Við höfum lafað hér hátt á þriðja áratug, og nú síðustu árin af vana og þrjózku.
– Hrósverð þrjózka – það, sagði Steinsen.
– Já, það er aðdáunarvert, sagði Ársæll líkt og hann væri víðsfjarri öllu sem var að gerast.
Steinsen lék á als oddi yfir kaffinu þótt flaskan kæmi ekki í leitirnar. Hann hafði sýnilega dottið niður á hugmynd sem gerði honum verulega glatt í geði, og hann ropaði og dæsti feginsamlega, enda þægilega saddur, og nú varð honum að orði:
– Ég kann engin sköpuð ráð til að þakka ykkur hjónum allan þann margvíslega greiða, sem þið hafið gert okkur Hvestumönnum.
– Vonandi áttu samt eftir að komast í stærri vanda, það er ekki nema hollt ungum manni, sagði Sigdór og hló við.
– Ég er bara ekki maður fyrir meiru í svipinn, sagði Steinsen. – En segðu mér, Rebekka, áttu nokkuð verulega þægilegt sæti, þar sem þú getur verið með handavinnuna þína?
– Maðurinn er meir en lítið gamansamur, sagði Rebekka og hló smálega.
– Já, annars væri ég líka löngu dauður úr öllum æðum. En ég spyr ekki bara að gamni mínu.
– Það er ekki eins og hér sé um béuð ekkisen heimsmálin að ræða, sagði Sigdór, virtist skemmta sér með ágætum og bætti við. – En þess hættara er fallið, sem hærra er sætið.
Öll vorum við brosleit nema Steinsen, hann setti upp hátíðasvip þegar hann sagði:
– Ég hef ákveðið Rebekka mín, að gefa þér rókókóstól. Þetta er skratti girnileg mubla, svo ég ímynda mér helzt, að þú verðir ekki fyrir vonbrigðum.
Rebekka kinkaði kolli, lét það nægja.
Steinsen sýndist hinn ánægðasti með þessar hljóðlátu undirtektir. Ekki var drukkin nein burtfararskálin, og ekki varð ég þess var að höfðingjarnir hefðu annað meðferðis úr Skeljavík að þessu sinni en nokkrar kartöflur í poka. Aftur á móti virtist Steinsen næstum of kátur, svo það væri einleikið. Einkum sauð hláturinn niðri í honum þegar hann sagði:
– Alltaf eru þessir sveitakurfar sömu kotungarnir. Karlinn gerði ekki annað en að æra upp í okkur sultinn.
18
Nóttin sem í hönd fór var ekki með öllu tíðindalaus. Það var enn svartamyrkur þegar ég vaknaði; Nói farinn á flakk, en gengið var um gólf í hrakningsmannastofunni. Þetta var Ársæll. Hann stanzaði í hvert sinn sem marraði í fjöl undir fæti hans. Kannski leiddist honum þessi emjan í gólffjölunum. Samt gat hann ekki látið vera að hreyfa sig. Það var nú svona, að leyfa sér leynimakk á bak við tengdasoninn, slíkt hefndi sín grimmilega í myrkri næturinnar. Annars var Steinsen hvergi nærri. Veiðivonin hafði sjálfsagt tælt hann út í náttmyrkrið.
Góð stund leið án þess nokkuð nýrra bæri við. Svo lét litli maðurinn til sín heyra á óvæntan hátt. Hann gaf frá sér niðurbælt óp, líkt og hann hefði séð skrattann sjálfan.
–
Framhald . . . ?
Vonglaðir veiðimenn 19. – 20.
Í aðalsíðu