Óskar Aðalsteinn

Vormenn Íslands

Saga

 

 

Útgefandi: Barnablaðið Æskan
Reykjavík 1956
Önnur útgáfa 1972

Copyright ©1956
All rights reserved


Fyrsti kaflii

1


Litlu jólin voru í fyrradag. Við skólasystkinin kveiktum kertaljós, eitt á hverju borði. Og kennarinn okkar, hann séra Jóhannes Ólafsson, las jólaguðspjallið og lék jólasálmana á skólaorgelið, og við börnin sungum með.

Í kvöld koma sjálf jólin.

Fyrir löngu höfðu jólin sett svip sinn á þorpið okkar, einkum verzlanirnar, Þorláksbúð og Pálmabúð. Búðargluggarnir voru uppljómaðir á hverju kvöldi, og þorpsgatan var skínandi björt til að sjá í öllum þessum ljósagangi.

Það var byrjað að rökkva. Ljósin höfðu verið tendruð. Nýfallinn snjór var á jörðu. Fram eftir degi hafði verið hríðarveður, en nú birti óðum í lofti. Í Þorláksbúð var ljúfur ilmur af suðrænum ávöxtum og jólagreni. Og þarna voru bæði ungir og gamlir að kaupa. Margir kölluðu í senn til afgreiðslumannsins, sögðust ætla að fá þetta eða hitt og spurðu um verð á hinu og þessu. Þetta voru síðustu forvöð til að kaupa fyrir hátíðina, því innan lítillar stundar yrði búðunum lokað og jólahelgin hringd inn. Ég hafði mig ekki í frammi en beið þolinmóður, þar til afgreiðslumaðurinn vék sér að mér og spurði:

– Hvað var það fyrir þig, Bragi minn?

– Ég ætla að fá jólatré, svaraði ég.

– Hvað má það kosta? spurði afgreiðslumaðurinn og brosti.

– Það má kosta fimm krónur, sagði ég.

– Við höfum því miður ekki svo ódýrt, sagði afgreiðslumaðurinn. – En þú getur fengið snoturt tré fyrir sjö krónur.

Þetta var einmitt upphæðin, sem ég hafði getað sparað mér saman fyrir jólin. Og nú lagði ég krónurnar mínar á borðið, og sagði við afgreiðslumanninn:

– Þakka þér fyrir, ég ætla að fá tréð.

Þetta yrði í fyrsta sinn, sem lifandi tré, grænt og ilmandi eins og sjálft sumarið, prýddi heimilið okkar á jólunum. Gamla gervitréð, sem pabbi hafði smíðað og gefið mér á fyrstu jólunum, sem ég mundi eftir, fengi því að vera kyrrt í eldiviðarskúrnum, þar sem það var geymt. Ég hafði gert mín jólakaup. Og ég þóttist ekki geta varið aurunum mínum betur en ég gerði. Annars hafði hvarflað að mér að kaupa bók. Hún hét Töfraspegillinn. Ég var sannfærður um að það væri mjög góð bók. En svo valdi ég heldur tréð.

Eftir litla stund hafði ég yfirgefið þorpsgötuna og alla ljósadýrðina og gekk þröngan götustíg, sem lá niður að sjónum. Þarna voru heldur hrörleg hús. Eitt þeirra var húsið mitt. Í daglegu tali var það bara nefnt Skúrinn. Íbúðin var svolítil stofa og eldhús, en á loftinu sváfum við Árni bróðir. Árni var átján vetra, en ég ekki nema tólf. Ég hafði sagt Árna, að ég ætlaði að koma pabba og mömmu á óvart með því að kaupa jólatré. Árna þótti þetta mjög skemmtilegt tiltæki. Við höfðum laumað trénu inn í stofuna, án þess að pabbi og mamma fengju vitneskju um það. En að þessu kæmi ekki fyrr en seinna í kvöld. Ég yrði því að fela tréð í eldiviðarskúrnum, en hann stóð á bak við húsið. Og nú var bara að komast óséður með tréð fyrir eldhúsgluggann. Mér heppnaðist þetta. Pabbi var í eldhúsinu, sneri baki að glugganum og rakaði af sér skeggið.

Það var orðið albjart í lofti og kviknað á stjörnunum, og norðurljósin þutu um bláloftin kvik og litfögur. Tunglið kom upp og lagði glitrandi silfurbrú yfir fjörðinn, og hvít fjöllin stóðu í blágullnum loga.

Ég hafði gengið niður í flæðarmálið og stóð þar líkt og bergnuminn. Hér á Malareyri gat naumast orðið fallegra en í kvöld. En nú varð ég að hraða mér heim. Og ég var ekki fyrr kominn inn úr dyrunum en ég sá að jólaundirbúningnum var lokið. Fjalagólfið var hvítskúrað, og gamla eldavélin hafði jafnvel á sér einhvern hátíðarbrag.

– Ég hélt nú bara að þú ætlaðir ekki að láta sjá þig meir, Bragi litli, sagði mamma og losaði dökkjarpt hárið úr fléttunum. Mamma var ævinlega mjög glaðleg í viðmóti og virtist hvað ánægðust, þegar hún hafði sem mest að gera.

Ég sagði ekkert góða stund, bara horfði á mömmu. Laust hárið féll um vanga hennar og herðar og tók henni allt niður að mitti. Og það var jólagleði í svip hennar og augnaráði.

– Hvar . . . hvar er hann Árni? stamaði ég loks.

– Þeir voru báðir að hafa fataskipti, hann Árni og hann pabbi þinn. Ég lét sparifötin þín á rúmið þitt. Og farðu nú að hafa þig til eins og við hin.

Ég hentist þegar af stað en var ekki kominn nema upp í miðjan stigann, sem lá upp á loftið, þegar mamma kallaði til mín:

– Heyrðu, Bragi minn, þú hefur alveg gleymt jólatrénu.

– Hef . . . hef ég hvað? stamaði ég.

– Hvað er þetta, barn, sagði mamma. – Þú veizt vel, að gamla tréð okkar hefur legið úti í eldiviðarskúr síðan í fyrra á jólunum. Blessaður skrepptu nú eftir því áður en þú hefur fataskipti.

Mér létti. Mamma vissi þá ekkert um grenitréð góða.

Og nú sagði ég glaðlega:

– Þú þarft ekkert að hugsa um tréð, mamma mín, þurrka af því og svoleiðis, við Árni höfum séð fyrir því.

– Jæja, það er indælt, sagði mamma og brá nú hárinu í fléttur með liprum handtökum.

Strax og ég var kominn í skrúðann, dökkblá blússuföt, sem kannski voru orðin mér heldur lítil, brá ég mér niður í eldhús og sagði við mömmu:

– Hann Árni þarf að finna þig upp.

– Hann Árni? spurði mamma eins og annars hugar og sléttaði úr nokkrum fellingum á fötunum mínum svo þau færu betur.

Ég var alveg að missa þolinmæðina og sagði:

– Já, einmitt hann Árni. Þú átt strax að fara upp, og pabbi líka.

Pabbi hafði klætt sig í stofunni. Nú kom hann fram í eldhúsið. Mér varð starsýnt á pabba. Hann var sjaldan í sparifötunum, því flesta virka daga vann hann við fiskaðgerð og aðra eyrarvinnu hjá Þorláki kaupmanni. En nú var pabbi prúðbúinn eins og heldri maður. Mér fannst hann afar fyrirmannlegur í sparifötunum. Hann var hár vexti og þreklegur, með móbrún, athugul augu og einkar rólegt yfirbragð. Hann leit á mig með smáskrýtnu brosi og sagði:

– Það er víst bezt að hypja sig upp, fóstri.

– Já, við verðum víst að gera það, sagði mamma og brosti líka dálítið sérlega.

Pabba og mömmu grunaði víst bæði að ég hefði eitthvert ráðabrugg í huga. Mig langaði heldur ekki til að leyna því lengur og sagði því:

– Já, blessuð flýtið ykkur nú. Og svo megið þið ekki koma niður fyrr en ég kalla . . . Að svo mæltu þaut ég á dyr. Ég var fljótur að ná í tréð, koma því fyrir í stofunni og skreyta það með kertum og marglitum pappírsræmum. Eftir stund var svo öll fjölskyldan saman komin í stofunni. Allra augu beindust að trénu. Kertin loguðu glaðlega á grænum greinum þess, og ljúfan ilm þess bar að vitum okkar. Glugginn var opinn. Og nú barst hljómurinn frá jólaklukkunni í kirkjuturninum um stjörnubjart loftið.

Svo komu jólin. Þau voru eins og sólbjartur sumardagur mitt í skammdeginu.

Framhald . . . ?


Í aðalsíðu