SAGA HRÍSEYJARKIRKJU

 
 

 
 
Hríseyjarkirkja var vígð 26.ágúst 1928.  Arkitekt var Guðjón Samúelsson og smiðir Þorsteinn Þorsteinsson frá Lóni og Jón Einarsson.  Frumkvöðlar að kirkjubyggingunni voru konur í Kvenfélagi Hríseyjar.  Í upphafi var kirkjan máluð af Jóni Þór og Vigfúsi Jónssyni frá Akureyri en síðan hefur Hörður Jörundsson málarameistari málað hana árin 1960 og 1990. 

Jón Espólín segir að enskir hafi eytt Ólafsfirði og Hrísey og brennt þar kirkju árið 1423.  Í prestatali og prófasta á Íslandi segir að alkirkja hafi verið fyrrum í landi Syðstabæjar en bænhús í landi Ystabæjar.  Síðar var bænhús í Syðstabæ en var lagt niður með konungsbréfi 15.maí 1765. 

Áður en kirkja var byggð í Hrísey áttu menn kirkjusókn í Stærra-Árskógskirkju.  Hrísey tilheyrði Stærra-Árskógssókn þar til 23.janúar 1928 þegar Hrísey var gerð að sér sókn.  Hrísey tilheyrði Stærra-Árskógsprestakalli, síðan Vallaprestakalli og Hríseyjarprestakalli frá árinu 1951.  Í Hríseyjarprestakalli eru 2 sóknir, Hríseyjarsókn og Stærra-Árskógssókn. Í Hríseyjarsókn eru um 200 sóknarbörn en í prestakallinu öllu um 600 manns. 

Fyrsti prestur Hríseyjarprestakalls var séra Fjalarr Sigurjónsson 1952- 1963, síðan herra Bolli Gústafsson vígslubiskup 1963- 1966, séra Kári Valsson 1966- 1982, séra Sigurður Arngímsson 1982- 1984, séra Helgi Hróbjartsson 1984- 1986 og séra Hulda Hrönn M. Helgadóttir frá 1987.


 
 
TIL BAKA