Iceland - Land of Fire and Ice
Snorra Edda ] [ Völuspá ]

Home
Up

Völuspá

1.      Hljóðs bið eg allar
        helgar kindir,
        meiri og minni
        mögu Heimdallar.
         Viltu að eg, Valföður,
        vel fyr telja
        forn spjöll fira,
        þau er fremst um man.

2.      Eg man jötna
        ár um borna,
        þá er forðum mig
        fædda höfðu.
        Níu man eg heima,
        níu íviði,
        mjötvið mæran
        fyr mold neðan.

3.      Ár var alda,
        það er ekki var,
        var-a sandur né sær
        né svalar unnir;
        jörð fannst æva
        né upphiminn,
        gap var ginnunga
        en gras hvergi,

 4.      áður Burs synir
        bjöðum um ypptu,
        þeir er Miðgarð
        mæran skópu;
        sól skein sunnan
        á salar steina,
        þá var grund gróin
         grænum lauki.

5.      Sól varp sunnan,
        sinni mána,
        hendi inni hægri
        um himinjöður;
        sól það né vissi
        hvar hún sali átti,
        stjörnur það né vissu
        hvar þær staði áttu,
        máni það né vissi
        hvað hann megins átti.

6.      Þá gengu regin öll
        á rökstóla,
        ginnheilög goð,
        og um það gættust;
        nótt og niðjum
        nöfn um gáfu,
        morgun hétu
        og miðjan dag,
        undorn og aftan,
        árum að telja.

7.      Hittust æsir
        á Iðavelli,
        þeir er hörg og hof
        hátimbruðu;
        afla lögðu,
        auð smíðuðu,
        tangir skópu
        og tól gerðu.

8.      Tefldu í túni,
        teitir vóru,
        var þeim vettergis
        vant úr gulli,
        uns þrjár kómu
        þursa meyjar
        ámáttkar mjög
        úr Jötunheimum.

9.      Þá gengu regin öll
        á rökstóla,
        ginnheilög goð,
        og um það gættust,
        hver skyldi dverga
        dróttir skepja
        úr Brimis blóði
        og úr Bláins leggjum.

10.     Þar var Mótsognir
        mæstur um orðinn
        dverga allra,
        en Durinn annar;
        þeir mannlíkun
        mörg um gerðu
        dvergar úr jörðu,
        sem Durinn sagði.

11.     Nýi og Niði,
        Norðri og Suðri,
        Austri og Vestri,
        Alþjófur, Dvalinn,
        Bívör, Bávör,
        Bömbur, Nóri,
        Án og Ánar,
        Ái, Mjöðvitnir.

12.     Veigur og Gandálfur,
        Vindálfur, Þráinn,
        Þekkur og Þorinn,
        Þrár, Vitur og Litur,
        Nár og Nýráður,
        nú hefi eg dverga,
        -- Reginn og Ráðsviður, --
        rétt um talda.

13.     Fíli, Kíli,
        Fundinn, Náli,
        Hefti, Víli,
        Hannar, Svíur,
        Frár, Hornbori,
        Frægur og Lóni,
        Aurvangur, Jari,
        Eikinskjaldi.

14.     Mál er dverga
        í Dvalins liði
        ljóna kindum
        til Lofars telja,
        þeir er sóttu
        frá salar steini
        Aurvanga sjöt
        til Jöruvalla.

15.     Þar var Draupnir
        og Dólgþrasir,
        Hár, Haugspori,
        Hlévangur, Glói,
        Skirvir, Virvir,
        Skáfiður, Ái.

16.     Álfur og Yngvi,
        Eikinskjaldi,
        Fjalar og Frosti,
        Finnur og Ginnar;
        það mun upp
        meðan öld lifir,
        langniðja tal
        Lofars hafað.

17.     Uns þrír kómu
        úr því liði
        öflgir og ástkir
        æsir að húsi,
        fundu á landi
        lítt megandi
        Ask og Emblu
        örlöglausa.

18.     Önd þau né áttu,
        óð þau né höfðu,
        lá né læti
        né litu góða;
        önd gaf Óðinn,
        óð gaf Hænir,
        lá gaf Lóður
        og litu góða.

19.     Ask veit eg standa,
        heitir Yggdrasill,
        hár baðmur, ausinn
        hvíta auri;
        þaðan koma döggvar
        þær er í dala falla,
        stendur æ yfir grænn
        Urðarbrunni.

20.     Þaðan koma meyjar
        margs vitandi
        þrjár úr þeim sæ,
        er und þolli stendur;
        Urð hétu eina,
        aðra Verðandi,
         skáru á skíði,
         Skuld ina þriðju.
        Þær lög lögðu,
        þær líf kuru
        alda börnum,
        örlög seggja.

21.     Það man hún fólkvíg
        fyrst í heimi,
        er Gullveigu
        geirum studdu
        og í höll Hárs
        hana brenndu,
        þrisvar brenndu,
        þrisvar borna,
        oft, ósjaldan;
        þó hún enn lifir.

22.     Heiði hana hétu
        hvar er til húsa kom,
        völu velspáa,
        vitti hún ganda;
        seið hún hvar er hún kunni,
        seið hún hugleikin,
        æ var hún angan
        illrar brúðar.

23.     Þá gengu regin öll
        á rökstóla,
        ginnheilög goð,
        og um það gættust
        hvort skyldu æsir
         afráð gjalda
        eða skyldu goðin öll
        gildi eiga.

24.     Fleygði Óðinn
        og í fólk um skaut,
        það var enn fólkvíg
        fyrst í heimi;
        brotinn var borðveggur
        borgar ása,
        knáttu vanir vígspá
        völlu sporna.

25.     Þá gengu regin öll
        á rökstóla,
        ginnheilög goð,
        og um það gættust
        hverjir hefði loft allt
        lævi blandið
        eða ætt jötuns
        Óðs mey gefna.

26.     Þór einn þar vó
        þrunginn móði,
        hann sjaldan situr
        er hann slíkt um fregn.
        Á gengust eiðar,
        orð og særi,
        mál öll meginleg
        er á meðal fóru.

27.     Veit hún Heimdallar
        hljóð um fólgið
        undir heiðvönum
        helgum baðmi;
        á sér hún ausast
        aurgum fossi
        af veði Valföðurs.
        Vituð ér enn  eða hvað?

28.     Ein sat hún úti
        þá er inn aldni kom
        yggjungur ása
        og í augu leit:
        Hvers fregnið mig?
        Hví freistið mín?
        Allt veit eg, Óðinn,
        hvar þú auga falt,
        í inum mæra
        Mímisbrunni.
        Drekkur mjöð Mímir
        morgun hverjan
        af veði Valföðurs.
        Vituð ér enn  eða hvað?

29.     Valdi henni Herföður
        hringa og men,
        fékk spjöll spakleg
        og spá ganda,
        sá hún vítt og um vítt
        um veröld hverja.

30.     Sá hún valkyrjur
        vítt um komnar,
        görvar að ríða
        til Goðþjóðar;
        Skuld hélt skildi,
        en Skögul önnur,
        Gunnur, Hildur, Göndul
        og Geirskögul.
        Nú eru taldar
        nönnur Herjans,
        görvar að ríða
        grund valkyrjur.

31.     Eg sá Baldri,
        blóðgum tívur,
        Óðins barni,
         örlög fólgin;
        stóð um vaxinn
        völlum hærri
        mjór og mjög fagur
        mistilteinn.

32.     Varð af þeim meiði,
        er mær sýndist,
        harmflaug hættleg,
        Höður nam skjóta.
        Baldurs bróðir var
        um borinn snemma,
        sá nam Óðins sonur
        einnættur vega.

33.     Þó hann æva hendur
        né höfuð kembdi,
        áður á bál um bar
        Baldurs andskota;
        en Frigg um grét
        í Fensölum
        vá Valhallar.
        Vituð ér enn  eða hvað?

34.     Þá kná Váli
        vígbönd snúa,
        heldur voru harðger
        höft úr þörmum.

35.     Haft sá hún liggja
        undir Hveralundi,
        lægjarns líki
        Loka áþekkjan.
        Þar situr Sigyn
        þeygi um sínum
        ver vel glýjuð.
        Vituð ér enn  eða hvað?

36.     Á fellur austan
        um eiturdala
        söxum og sverðum,
        Slíður heitir sú.

37.     Stóð fyr norðan
        á Niðavöllum
        salur úr gulli
        Sindra ættar;
        en annar stóð
        á Ókólni
        bjórsalur jötuns,
        en sá Brimir heitir.

38.     Sal sá hún standa
        sólu fjarri
        Náströndu á,
        norður horfa dyr.
        Féllu eiturdropar
        inn um ljóra,
        sá er undinn salur
        orma hryggjum.

39.     Sá hún þar vaða
        þunga strauma
        menn meinsvara
        og morðvarga
        og þann er annars glepur
        eyrarúnu.
        Þar saug Niðhöggur
        nái framgengna,
        sleit vargur vera.
        Vituð ér enn  eða hvað?

40.     Austur sat in aldna
        í Járnviði
        og fæddi þar
        Fenris kindir.
        Verður af þeim öllum
        einna nokkur
        tungls tjúgari
        í trölls hami. 

41.     Fyllist fjörvi
        feigra manna,
        rýður ragna sjöt
        rauðum dreyra.
        Svört verða sólskin
        um sumur eftir,
        veður öll válynd.
        Vituð ér enn  eða hvað?

42.     Sat þar á haugi
        og sló hörpu
        gýgjar hirðir,
        glaður Eggþér;
        gól um honum
        í galgviði
        fagurrauður hani,
        sá er Fjalar heitir.

43.     Gól um ásum
        Gullinkambi,
        sá vekur hölda
        að Herjaföðurs;
        en annar gelur
        fyr jörð neðan
        sótrauður hani
        að sölum Heljar.

44.     Geyr Garmur mjög
        fyr Gnipahelli,
        festur mun slitna
        en freki renna.
        Fjöld veit hún fræða,
        fram sé eg lengra
        um ragnarök
        römm sigtíva.

45.     Bræður munu berjast
        og að bönum verðast,
        munu systrungar
        sifjum spilla;
        hart er í heimi,
        hórdómur mikill,
        skeggöld, skálmöld,
        skildir eru klofnir,
        vindöld, vargöld,
        áður veröld steypist,
        mun engi maður
        öðrum þyrma.

46.     Leika Míms synir,
        en mjötuður kyndist
        að inu galla
        Gjallarhorni.
        Hátt blæs Heimdallur,
        horn er á lofti,
        mælir Óðinn
        við Míms höfuð.

47.     Skelfur Yggdrasils
        askur standandi,
        ymur ið aldna tré,
        en jötunn losnar.
        Hræðast allir
        á helvegum
        áður Surtar þann
         sefi um gleypir.

48.     Hvað er með ásum?
        Hvað er með álfum?
        Gnýr allur Jötunheimur,
        æsir eru á þingi,
        stynja dvergar
        fyr steindurum,
        veggbergs vísir.
        Vituð ér enn  eða hvað?

49.     Geyr nú Garmur mjög
        fyr Gnipahelli,
        festur mun slitna
        en freki renna,
        fjöld veit hún fræða,
        fram sé eg lengra
        um ragnarök
        römm sigtíva.

50.     Hrymur ekur austan,
        hefist lind fyrir,
        snýst Jörmungandur
        í jötunmóði.
        Ormur knýr unnir,
        en ari hlakkar,
        slítur nái Niðfölur,
        Naglfar losnar.

51.     Kjóll fer austan,
        koma munu Múspells
        um lög lýðir,
        en Loki stýrir.
        Fara fíflmegir
        með freka allir,
        þeim er bróðir
        Býleists í för.

52.     Surtur fer sunnan
        með sviga lævi,
        skín af sverði
        sól valtíva.
        Grjótbjörg gnata,
        en gífur rata,
        troða halir helveg
        en himinn klofnar.

53.     Þá kemur Hlínar
        harmur annar fram,
        er Óðinn fer
        við úlf vega,
        en bani Belja
        bjartur að Surti;
        þá mun Friggjar
         falla angan.

54.     Geyr nú Garmur mjög
        fyr Gnipahelli,
        festur mun slitna,
        en freki renna.

55.     Þá kemur inn mikli
        mögur Sigföður,
        Víðar, vega
        að valdýri.
        Lætur hann megi Hveðrungs
        mundum standa
        hjör til hjarta,
        þá er hefnt föður.

56.     Gín loft yfir
        lindi jarðar.
        Gapa ýgs kjaftar
        orms í hæðum.
        Mun Óðins son
        eitri mæta
        vargs að dauða
        Víðars niðja.

57.     Þá kemur inn mæri
        mögur Hlóðynjar,
        gengur Óðins sonur
        við orm vega,
        drepur hann af móði
        Miðgarðs véur,
         munu halir allir
        heimstöð ryðja;
         gengur fet níu
        Fjörgynjar bur
        neppur frá naðri
        níðs ókvíðinn.

58.     Sól tér sortna,
        sígur fold í mar,
        hverfa af himni
        heiðar stjörnur.
        Geisar eimi
        við aldurnara,
        leikur hár hiti
        við himin sjálfan.

59.     Geyr nú Garmur mjög
        fyr Gnipahelli,
        festur mun slitna
        en freki renna.

60.     Sér hún upp koma
        öðru sinni
        jörð úr ægi
        iðjagræna.
        Falla fossar,
        flýgur örn yfir,
        sá er á fjalli
        fiska veiðir.

61.     Finnast æsir
        á Iðavelli
        og um moldþinur
        máttkan dæma
        og minnast þar
        á megindóma
        og á Fimbultýs
        fornar rúnar.

62.     Þar munu eftir
        undursamlegar
        gullnar töflur
        í grasi finnast,
        þær er í árdaga
        áttar höfðu.

63.     Munu ósánir
        akrar vaxa,
        böls mun alls batna,
        Baldur mun koma.
        Búa þeir Höður og Baldur
        Hrofts sigtóftir
        vel valtívar.
        Vituð ér enn  eða hvað?

64.     Þá kná Hænir
        hlautvið kjósa
        og burir byggja
        bræðra tveggja
        vindheim víðan.
        Vituð ér enn  eða hvað?

65.     Sal sér hún standa
        sólu fegra,
        gulli þaktan
        á Gimlé.
        Þar skulu dyggvar
        dróttir byggja 
        og um aldurdaga
        yndis njóta.

66.    Þá kemur inn ríki
        að regindómi
        öflugur ofan,
        sá er öllu ræður.

67.     Þar kemur inn dimmi
        dreki fljúgandi,
        naður fránn, neðan
        frá Niðafjöllum;
        ber sér í fjöðrum,
        flýgur völl yfir,
         Niðhöggur nái.
        Nú mun hún sökkvast.

TURDUS.NET Animal pics Iceland Jökulhlaup USA pics Þröstur's research Science Family web-mail

Created by Þröstur Þorsteinsson web_iceland_turdus@turdus.net
©Þröstur