Stjórnmálaflokkar

eftir

Björk Þorgeirsdóttur

Kynning | Verkefni| Bjargir | Ferli | Mat | Niðurstaða

Kynning

Því hefur oft verið haldið fram að ungt fólk hafi lítinn áhuga á stjórnmálum og starfi stjórnmálaflokka.  Þrátt fyrir þetta þá koma oft upp málefni í kennslustundum sem eru mjög pólitísk án þess að það sé sett í pólitískt samhengi.  Félagslegur veruleiki okkar er nefnilega uppfullur af þáttum sem tengjast stjórnmálum beint eða óbeint.  Stjórnmál skipta okkur því máli, sama á hvaða aldri við erum.  Stjórnmál snúast um völd og hagsmuni og flestir hafa skoðanir á hlutum eins og styttingu framhaldsskólans um eitt ár, hvort leyfa eigi sölu áfengis í matvöruverslunum, á að virkja á hálendinu o.s.frv.  Hér á eftir er ykkur gert kleift að kynna ykkur starf stjórnmálaflokka, sögu hans og helstu stefnumál,  starfsreglur o.s.frv. og komast að því fyrir hverju þeir standa í ýmsum málaflokkum.

efst á síðu


Verkefni

Verkefnið er hópverkefni (3 til 4 saman í hóp) sem skila á skriflega sem ritgerð eða á heimasíðu.  Einnig kynna hóparnir sinn stjórnmálaflokk á sérstökum "framboðsfundi" sem við skipuleggjum síðar í námskeiðinu.  

Meginmarkmiðið er að fá nemendur til að kynna sér stjórnmálaflokkana hér á landi og fá dýpri sýn á stefnumál þeirra og áherslur.  Verkefnið miðast við heimildir af Internetinu, viðtöl og vettvangsheimsóknir sem vísað er í hér á eftir (bjargir) en að sjálfsögðu er nemendum einnig heimilt að leita fanga annars staðar.

  • Gerið grein fyrir sögu flokksins og stofnun hans:  Tengsl við aðra flokka og/eða þrýsti- og hagsmunahópa.  Af hverju varð þessi stjórnmálaflokkur til?  Á hann sér einhverjar erlendar fyrirmyndir.
  • Lýsið ákvörðunartökuferli innan flokksins:  Hvernig er valið á framboðslista, hvaða mál eru sett í öndvegi o.s.frv.  Er miðað við að forystumenn í flokknum hafi einhverja ákveðna eiginleika (menntun, starfsreynslu, náðarvald)  Hvernig fara forystumenn flokksins með vald sitt ?
  • Kannið fylgistölur í síðustu 2 kosningum til Alþingis og sveitastjórna.  Hverjir kjósa þennan flokk - aldur, kyn og atvinnustétt.  Er hægt að tala um íslensk stjórnmál sem stéttastjórnmál (rökstyðja svarið).  
  • Setjið fram myndrænt m.v. fjölda kjörna fulltrúa og heildarfylgi.  Athugið að þingmannafjöldinn segir til um styrk flokksins og það er ekki alltaf samræmi á milli stærðar (fylgis) og styrk flokksins - af hverju er það ?
  • Finnið skoðanakannanir úr fjölmiðlum.  Er eitthvað að marka slíkar kannanir?  Kostir þeirra og gallar.
  • Hver er stefna flokksins og helstu áherslur hans.  Hvað greinir hann frá öðrum flokkum.
  • Kynnið ykkur mjög vel stefnu flokksins í ákveðnu máli/málaflokki að eigin vali.  Menntun, umhverfismál, einkavæðing, heilbrigðismál, húsnæðismál o.s.frv.  Fjallið a.m.k. um 2 efnisflokka.

efst á síðu


Bjargir

Hér finnur þú krækjur á heimasíður og upplýsingar um bækur sem tengjast stjórnmálum og stjórnmálaflokkum.  Athugið að þetta er ekki tæmandi listi því er ykkur frjálst að nota aðrar heimildir.  Athugið þó að vera gagnrýnin á heimildirnar.  Oftast er um að ræða kynningu stjórnmálaflokkanna sjálfra sem einhverjir gætu auðveldlega flokkað sem "áróður".  

Stjórnmálaflokkar og stjórnmálahreyfingar:

Hér má finna vefi íslenskra stjórnmálahreyfinga. Lögð er áhersla á flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi og ungliðahreyfingar þeirra.

Aðrar krækjur:

Aðrar heimildir:

Eftirtaldar heimildir má allar finna á Þjóðarbókhlöðunni.  Þetta er ekki tæmandi listi eins og sjá má og því er nauðsynlegt að nota leitarvélarnar gegnir.is og greinir.is sem veitir aðgengi að safnskrá íslenskra bókasafna.  Hér getið þið fengið upplýsingar um bækur, greinar í tímaritum, yfirlýsingar og samantektir stjórnmálaflokkana vegna landsfund auk lokaverkefna t.d. stjórnmálafræðinema við Háskóla Íslands.  Hægt er að leita eftir nafni höfunda, heiti á grein og/eða bók eða efnisorðaleit.  

  • Alþýðubandalagið (1995).  Björgunaraðgerðir nýrrar ríkisstjórnar:  lífskjörin og vandi heimilanna
  • Árni Snævarr (1992).  Liðsmenn Moskvu:  samskipti íslenskra sósíalista við kommúnistaríkið.  Kópavogur:  Almenna bókafélagið 
  • Framsóknarflokkurinn  (2003).  Verkin tala - samantekt.  Reykjavík:  Framsóknarflokkurinn  
  • Gunnar Helgi Kristinsson (1989).  Farmers parties:  a study in electoral adaptation.  Essex.
  • Guðmundur Steingrímsson.  Allt sama tóbakið?:  hugsjónir í íslenskum stjórnmálum.  TMM, 62. árg., 4.tbl., október, 2001, s.25-31.
  • Hallgrímur Guðmundsson (1979).  Uppruni Sjálfstæðisflokksins.  Reykjavík:  Háskóli Íslands, félagsvísindadeild
  • Illugi Jökulsson (2002).  Ísland í aldanna rás, 1976-2000, ritsafn.  Reykjavík: JPV útgáfan
  • Íslensk þjóðfélagsþróun 1880-1990: ritgerðir.  Guðmundur Hálfdánarson og Svanur Kristjánsson ritstj.  Reykjavík:  Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
  • Magnús Gíslason (1994).  Stjórnmálafræði fyrir framhaldsskóla.  Reykjavík
  • Ólafur Þ. Harðarson (2002).  The Icelandic electoral system 1844-1999.
  • Stefán Karlsson.  Stjórnmálafræði.  Reykjavík:  Iðnú
  • Svanur Kristjánsson (1979).  Sjálfstæðisflokkurinn klassíska tímabilið 1929-1944.  Reykjavík:  Háskóli Íslands félagsvísindadeild

efst á síðu


Ferli

  1. Fyrst er skipt í hópa 
  2. Hver hópur fær úthlutað stjórnmálaflokki til að fjalla mjög ítarlega um
  3. Hópurinn skipuleggur vinnu sína og ákveður hvort lokaafurðin verði heimasíða eða ritgerð
  4. Setja fram vinnuáætlun ( hver gerir hvað, hvenær og hvernig). Hvenær á að taka viðtöl, við hvern á að tala, hvaða máli ætlið þið að fylgja eftir, hvenær áætlið þið að fara á þingpalla og fylgjast með o.s.frv.   Skiladagur er 19. janúar 2004
  5. Heimildaöflun - skiladagur á heimildaskrá er 2. febrúar 2004.  Nemendur mega þó bæta við heimildum meðan á vinnunni stendur
  6. Skila viðtölum og stuttri vettvangsskýrslu 1. mars 2004.  Viðtölin þarf að skipuleggja og undirbúa vel.  Þetta krefst þess að nemendur verða að vera búin að lesa heimildir og skipuleggja vinnuferli sitt vel.
  7. Heimasíðu eða ritgerð skilað 2. apríl 2004
  8. Við kynningu á verkefnum (framboðsfundur) þá vinna hóparnir sem fjallað hafa um sama stjórnmálaflokkinn saman.  Kynningar hefjast í vikunni 19. til 23. apríl 2004

efst á síðu


Mat

Verkefnið er 20% af einkunn í áfanganum.  Þau atriði sem metin verða eru:

  • Undirbúningur og skipulag verkefnis.  
  • Heimildir - heimildaöflun - notkun heimilda
  • Efnisleg uppbygging, framsetning og stíll
  • Trúverðugleiki - skilningur - áhugi 
  • Sjálfstæði og rökstuðningur
  • Kynning

Verkefnið er mjög umfangsmikið og gildir mikið og því mikilvægt að það verði ekki "farþegar" í hópavinnunni.  Til að koma í veg fyrir slíkt þurfa nemendur að halda utan um vinnuna sína, skrifa vinnuskýrslu þar sem kemur fram hvað var gert og hvenær.  Skrifið tímana hjá ykkur og skilið í lokuðu umslagi til kennara, þessar upplýsingar eru trúnaðarmál.

efst á síðu


Niðurstaða

Eftir þessa yfirferð ættu nemendur að vera búnir að kynnast betur sögu, stefnu og vinnuaðferðum stjórnmálaflokkanna á Íslandi.  Verkefnið verður vonandi til þess að nemendur fylgjast betur með stjórnmálaumræðu og sýni þeim meiri áhuga.

efst á síðu


Seinast uppfært 2. janúar 2004
Björk Þorgeirsdóttir
bjorkth@kvenno.is