Copyright © 2001-2003 by Björgólfur Ingason. All rights reserved. |
Herðir |
Jeppaklúbbur |
Einn er sá félagsskapur sem ég tilheyri sem marga leikur forvitni á að vita meira um, það er jeppaklúbburinn Herðir. Ég skal nú viðurkenna það að ég hef ekki verið í þessum hóp frá upphafi, en foreldrar mínir hafa það (og að ég held farið í flestar ef ekki allar ferðirnar með þeim). Sögu klúbbsins þekki ég ekki nema að takmörkuðu leiti og þá helst núna síðustu árin. Þannig var að fyrir nokkrum árum stofnuðu menn með sér n.k. ferðafélag, fjórhjóladrifs, sjálfrennireiða sem Ingvar-Helgason/Bílheimar er með umboð fyrir. Forsvarsmaður um stofnun þessa félags var Guðmundur, organisti Landakirkju í Vestmannaeyjum, strandamaður með meiru. Honum fannst þörf á að menn notuðu sín torfærutæki eins og til væri ætlast og gekk í málið af sínum alþekkta krafti. Aðaltegundin í upphafi var Nissan Terrano II, en síðan hafa tímar, tíska og tæki breyst. Í dag er stærsti einstaki tegundahópurinn líklega Isuzu Trooper en það breytist sjálfsagt í framtíðinni. Jepparnir eru af ýmsum "styrkleikaflokkum" allt frá því að vera fullbreyttir jöklajeppar gerðir fyrir erfiðar vetrarferðir, niður í óbreytta gripi sem eru þó látnir reyna á hæfni og kunnáttu ökuþóranna. En allt eru þetta sannarlega jeppar, allir með millikassa og framdrif, engir jepplingar í þessum hóp. Það er óopinber stefna klúbbsins að reyna að sneiða framhjá öllu sem heitir malbik, ef hægt er að fara utan alfaraleiðar þá er hún farin, ef vað er við hliðina á brúnni þá er það ekið (allavega af sumum í hópnum). Það sem mér þykir skemmtilegast við þennan hóp, er fólkið sem í honum er. Þetta er sannarlega þverskurður af samfélaginu hérna í Eyjum, "fólk úr öllum hillum" eins og einhver sagði. Þetta fólk hittist til þess að hafa gaman af lífinu og hverju öðru, ferðast saman og njóta þess að vera til. Mér hefur aldrei leiðst að ferðast með þessum hóp. Þegar kom til tals að finna eitthvað nafn á klúbbinn þá tók ekki langan tíma að sættast á "Jeppaklúbburinn Herðir". Ástæðan er ákveðin tvíræðni í nafninu, þ.e. það "Herðir" fólk að vera í þessum klúbb. Vissulega eru hörkutól í hópnum, en það er kannski erfitt að skilgreina hvaða eiginleika þessi hörkutól hafa til brunns að bera. Nokkuð margir af ökumönnunum hafa gaman af að "Herða" á bílnum, þ.e. aka greitt. En einnig er til siðs að afloknum góðum ferðadegi að menn "Herði" sig aðeins upp þegar að öllum akstri er lokið og skemmti sjálfum sér og öðrum. Svona til að gefa utanaðkomandi fólki smá innsýn inn í ferðir "Jeppaklúbbsins Herðir" þá ætla ég að lýsa í stuttu máli tveimur tilvikum. Í ferð um miðbik norðanverðs hálendisins var m.a. farin leið ofan af Hólafjalli (1036 m.y.s.) sem ekki hafði verið farin um nokkurt skeið vegna þess að skriða hafði fallið á hana og sópað hluta slóðans í burtu. Einhverja stund tók að finna rétta leið og laga hana aðeins til. Þannig háttaði að síðasta haftið sem farið var niður var frekar bratt og, ja, það verður að segjast eins og er, brekkan var drullusvað á kafla. Allflestir fóru út úr bílunum og skoðuðu aðstæður og fylgdust með fyrstu bílunum fara þarna niður. Flestir farþegarnir, þó ekki allir, ákváðu að ganga frekar en að sitja í þennan spöl. Ég og minn bíll vorum aftarlega í hópnum (c.a.20 jeppar), þegar ég geng til baka meðfram röðinni fullur af spenningi og eftirvæntingu þá sé ég að ég er ekki einn um þær tilfinningar. Í hverjum einasta jeppa sem ég gekk framhjá sat bílstjórinn tilbúinn með beltið spennt, bílinn í fyrsta og lága og geislandi tilhlökkunar- sælubros á vör. The difference between a man and a boy is only the size of his toy. Í haustferð sem farin var vestur á Strandir var opinber opnun á nýrri fjallaleið frá Bjarnarfjarðarhálsi (við Steingrímsfjörð) norður og yfir á Eyrarháls (milli Norðurfjarðar og Ingólfsfjarðar), ef ég man þessi nöfn rétt. Þessi leið var "búin til" af strandamönnunum Guðmundi (organista) og bræðrum hans, þeim Daníel og Hauk. Þeir tengdu saman slóða sem voru á svæðinu og bjuggu til ansi skemmtilega leið. Verst að það læddist að okkur þoka þannig að útsýnið varð ekki upp á sitt besta, en leiðin er falleg og krefjandi á köflum. Það hafði hinsvegar verið ákveðið að setja upp viðvörunarskilti á áberandi stað á leiðinni, áður en kom að erfiðustu köflunum (sunnanmegin frá). Spjaldið var klárt og neglt á staur við slóðann, en það var bara spurningin hvað ætti að standa á þessu skilti. Eftir rekistefnu og umræðu manna á milli var ákveðið að á skiltinu stæði stórum, skýrum, rauðum, stöfum; "VARÚÐ - DRULLA". |
![]() |
![]() |