Óskar Aðalsteinn

Breyskar ástir

Skáldsaga vestan úr fjörðum

 

 

Almenna bókafélagið
Reykjavík – 1965

Copyright ©1965
All rights reserved


Fyrsti kapítuli


 

Vegurinn endaði á háheiðinni og við tók svört urðin. Jónatan í Ytridal var á heimleið úr Firðinum með rauðskjöldótta kú í taumi. Þegar hann kom í urðina, hló hann við grjótinu og sagði stundarhátt við sjálfan sig:

– Þarna leið yfir hreppsnefndina við vegagerðina hérna um árið. En það má kannski vekja þá, sem sofa.

Hann hugsaði ekki um vegleysuna stundinni lengur, ekki að sinni. Þetta var merkisdagur. Nú átti hann kú. Hvað mundu Agnes og börnin segja, þegar hann kæmi heim með blessaða skepnuna? Það var ekki lítill fengur að eignast fyrstu kúna sína. Kannski hét hún Skjalda, þegar Jónatan lagði af stað með hana yfir fjallið. Nú hafði hann skírt hana Hýru. Það var hennar rétta nafn, fannst honum. Hún var hýr og státin. Og ekki lét hún draga sig áfram með nauðung, varla að stríkkaði á tauginni alla þessa löngu leið.

Dalurinn sást allur undir eins og kom á heiðarbrúnina. Hann var fullur af sólskini, víður og djúpur og grasi gróinn fjalla á milli. Þarna var allt eins og náttúran hafði búið að því – og jarðræktin óþekkt fyrirbæri. Þó sáust þess víða glögg merki, að í eina tíð hefði staðið hér blómleg og fjölmenn byggð á gamla og góða vísu þessa lands. Þá sátu Ytridal sumir fengsælustu útvegsbændur sýslunnar. Og þá var keppzt um að fá viðlegupláss í Dalnum hvaðanæva úr næstu byggðum.

Liðin saga. Flest býlin komin í eyði. Verbúðaþyrpingin á sjávarbakkanum grasi gróin kumbi. Og Jónatan hafði tekið sér búsetu í afdalnum. Í vor lét hann húskofann sinn í Firðinum fyrir Bæ í Ytridal. Vonandi þyrfti hann aldrei að sjá eftir því. Hvergi gæfist honum betra sauðland. Hann hafði byrjað búskapinn með nokkrar skjátur. Þarna kom hann með Hýru. Og ekki voru allir stroknir burt úr Dalnum ennþá. Höfuðbólið Skál var enn í byggð, Barð í byggð, Bær í byggð. Sama sólin lýsti yfir Ytridal nú og um aldir og gaf sjálfa hamingjuna, ef einhver vildi veita henni viðtöku.

Jónatan hafði staldrað við í neðstu dalbrekkunum. Hann var lágvaxinn og sívalur á bolinn, snöggur í hreyfingum, léttur á fæti. Á hnöttóttu andlitinu breitt og hlýtt bros, sem dýpkaði og hlýnaði enn, þegar hann leit á Hýru, sem úðaði í sig töðugæfu nýgresinu.

– Á, má smakka á þessu? Er einhverju af ljósi sólarinnar blandað í bragðið? sagði hann og hélt ferðinni áfram.

Brátt sá heim að höfuðbólinu Skál. Bæjarhúsin reisuleg og stóðu undir brattri fjallshlíð. Þeir voru tímar, að fjölmenni var að Skál. Fólkið í dalnum sótti þangað ráð og styrk, ef úrskeiðis gekk í lífsbaráttunni. Nú hafði Bárður búið að Skál hart nær mannsaldur – og síðustu árin einn með konu sinni, Sigríði . . . Lífið, – það er allt of stutt, ef maður kemur ekki sínu í verk. Jónatan kímdi. Nei, hann var ekki gamall maður, hálffertugur. Hann átti líka allt ógert og þótti það gott í öðru . . . Jæja, þarna var Barðið, skakkir og skældir kofar í fúamýri. Geiri og Lísa höfðu óvart orðið innlyksa á Barði, þegar bróðir Geira hætti þar búskap fyrir fimm árum síðan. O, Lísa, – hún var í glugganum núna, það var Jónatan viss um. Hún lá í glugganum, þótt minna væri um að vera en að hann kæmi heim með kúna. En hann var ekki að taka eftir Lísu í svipinn. Hann var kominn í sína eigin landareign. Bær stóð næstum fremst á sjávarbakkanum, – var ekki öllu betur hýst þar en á Barði.

Jónatan sleit upp nokkur strá og stakk í munn sér. Jafnsnemma sá hann Agnesi og börnin í túninu: Barða, Ragnar og Stellu. Agnes vann á af kappi og kunni að láta börnin hjálpa sér, þó að aldurinn væri ekki hár – þetta tíu til tólf ár. Stella varð fyrst til að koma auga á föður sinn. Hún hljóp undir eins til hans, sviflétt eins og lamb í haga, hafði ekki augun af Hýru og sagði:

– Hún er ljómandi falleg.

Agnes lét að kúnni eins og þær hefðu þekkzt lengi og að góðu einu.

– Þetta hefur gengið betur hjá ykkur en ég þorði að vona, sagði hún. – Blessuð skepnan, það eru engin þreytumerki á henni.

Jónatan drjúgur og broshýr:

– Hafðu engar áhyggjur hennar vegna, Agnes mín. Hún er ekki eins ókunnug hér og þú kannski heldur. Hún á ætt sína að rekja hingað í Dalinn, og svoleiðis hefur sín áhrif.

– Þú segir nokkuð . . . Agnes hló við. – Mér þykir ekki verra að trúa þessu.

– Hvað heitir hún, pabbi? spurði Stella. – Raggi segir, að hún heiti Skjalda.

– Segir Raggi það? Ætli hún heiti ekki bara Hýra.

– Hýra, hún heitir Hýra, heyrirðu það, Raggi? kallaði Stella.

Einhver linka og óyndi hafði verið í Ragnari fyrst eftir að hann kom út eftir. Svo hafði hann fljótlega tekið sig á. Það var kjarkur í honum, stráknum, þótt hann væri fínlegur í sér, vildi Jónatan meina. Nú stríddi hann systur sinni, föður sínum til óblandinnar ánægju.

– Belja hefur skipt um nafn á fjallinu, sagði Ragnar. – Skjalda hét hún, á meðan hún var í Firðinum.

– Raggi kjáni, Raggi kjáni! söng Stella og dansaði í kringum kúna. – Við öpum ekki eftir þeim í Firðinum. Hýra er miklu betra en Skjalda. Ég sé það í augunum á henni.

Barði stóð lítið eitt álengdar og lagði ekki orð í belg. Hann var breiðvaxinn og sterkbyggður og glotti skemmtilega. – Já, hvenær glotti ekki Barði? sagði Jónatan í eigin barm . . . Og þessi strákur kunni vel að koma fyrir sig orði. Svo var hann þjarkur duglegur, ekki eldri en hann var. Og Agnes, – það var eins og erfiðið hlæði hana stöðugt nýrri orku. Hún var svo frískleg, fallega vaxin og mjúk í hreyfingum. Nú hafði hún bakað pönnukökur – og vöflur líka. Það yrði heldur ekki nema einu sinni á ævinni, sem þau eignuðust fyrstu kúna. Og Jónatan lumaði á smágjöf til konu sinnar. Hann afhenti henni gjöfina, meðan setið var yfir kaffinu: rauða skó með hvítum skúfum. Agnes varð innilega glöð við. Hún smeygði öðrum skónum á fót sér og sagði:

– Ja, hérna þá, Jonni! Þetta eru snotrir skór og alveg mátulegir.

– Þú átt ekkert almennilegt á fæturna – svona spari, sagði hann og gretti sig að gamni sínu.

Kannski sátu þau ögn lengur yfir kaffinu en venjulega. Svo kallaði vorönnin á þau fyrr en varði. Smáskúrir féllu öðru hverju meðan þau slóðadrógu. Í slíkri gróðrartíð mátti sjá grasið spretta. Ójá, Jónatan sá því miða með hverjum deginum sem leið. Og ekki þurfti að hafa áhyggjur vegna Hýru. Hún hagaði sér eins og þetta væru hennar sumarhagar. Það fór eftir, sem hann hafði sagt: hún átti hér heima, fannst henni.

Eitt kvöldið veitti Jónatan því athygli, að strákarnir höfðu flotað Bæjarbátnum. Barði hafði haft frumkvæði að því að klastra við skelina. Nú tók hann Ragnar á sjóinn með sér. Jónatan skipti sér ekki af þessu. Hann sagði heldur ekkert um aflann, þegar þeir komu að landi. Og ekki um stórt að tala. Þetta voru fáeinir þorskar. Næst þegar bræðurnir reru, gekk þeim heldur betur. Þá gat Jónatan ekki orða bundizt og sagði:

– Það má eyða of miklum tíma í sjógutlið.

Barði varð fyrir svörum:

– Það skil ég ekki. Karlarnir sáu ekki eftir sér að róa héðan í gamla daga.

Jónatan kímdi við glottandi stráknum og sagði:

– Víst reru þeir og voru engir aukvisar. En nú eru aðrir og breyttir tímar: Þú verður að gefa þig allan að búskapnum, viljir þú ekki fjúka burt af torfunni.

Barði anzaði engu. En Jónatan lét ekki sitja við orðin tóm. Hann réðst á einn versta mýrarblettinn í túninu og gróf skurð. Strákarnir grófu líka. Þrír feðgar – og hömuðust. Þegar Jónatan gerði upp á sitt eindæmi herhlaup að þúfunum, varð Barða að orði:

– Er ekki skömminni til skárra að koma skurðinum eitthvað áfram, áður en fleira er gert?

Jónatan:

– Öll verk standa á okkur, sonur sæll. Ekkert þeirra má verða út undan.

Barði spurði ekki frekar. Hann gekk fast að verki við að sarga ofan af þúfunum. Þeir höfðu aðeins frumstæðustu handverkfæri. Að vonum vannst þeim smátt. Þó var þetta örlítil byrjun á því, sem koma skyldi. Jörðin átti að verða fyrirmyndarjörð – og það fyrr en seinna. Jónatan gat ekki sætt sig við neitt minna. Hann var enginn malarbúi í merg og blóð. Flest sín æskuár þekkti hann ekki annað en sveitina og sveitastörfin. Hann hafði alizt upp með móður sinni í öðrum Fjarðardalnum, – að Torfalæk í Botnsdal. Þegar hennar naut ekki lengur við, réðst hann á sjóinn. Það varð svo að vera. Aðstæðurnar höguðu því þannig. Sárast af öllu þótti honum að skiljast við kindurnar sínar. En sá einn hefur átt kindur, sem verður að sjá á bak þeim. Af hverju hann hvarf ekki til sveitarinnar aftur fyrr en nú – eftir öll þessi ár? Það vissi hann ekkert um. Lífið er ekki til að leggja það út í orðum.

En það vissi hann, að sjórinn átti ekki við hann, því síður eyrarvinnan. Síðustu misserin hafði verið meira basl í Firðinum en oft áður. Sannarlega höfðu fleiri en Jónatan átt í brösum með að hafa ofan í sig og sína. En ekki fóru þeir út í Ytridal. Hann var einn um það. Og hann var strax eins og heima hjá sér í Dalnum, þótt þetta væri fyrir handan fjöll, eins og sagt var í Fjarðardölunum. Hann kom hér unglingur, oft árlega, í réttirnar og í eftirleitir. Ljóslifandi mundi hann einn haustdag í Ytridal frá æskudögum sínum. Um kvöldið hafði hann náttað sig í Skál, eftir að hafa elzt við bráðstyggar fjallafælur langt fram á kvöld, án þess að ná þeim. Það var glaðasólskin í baðstofunni í Skál, þegar hann vaknaði. Gömul kona stóð við rúmið hans og sagði:

– Þú mátt ekki sofa af þér blessað morgunsólskinið.

Ó, hversu hann fagnaði þessum degi. Það var svo gott að vakna við rödd gömlu konunnar. Og enn átti hann fyrir höndum langan eltingarleik við rollurnar. Það var sá æsilegasti leikur, sem hann þekkti. Og hann hafði fullan sigur, náði villingunum af fjalli og kom þeim suður yfir, áður en dagurinn var allur.

– Þá var sólskin, sagði Jónatan stundarhátt upp úr hugsun sinni og sá, að það var sama sólskinið þá og í dag. Fáeinum dögum seinna bar hann úr og byrjaði að slá. Og það var sólskin. Barði sló líka. Stella og Ragnar rifjuðu með móður sinni. Brátt tók að stórrigna. Það voru engar smáhvolfur, sem hann dembdi úr sér. Svo gerði góð upprof á milli með heitu geislandi sólskini.

Einn morgun var snjóföl í slægjunni, himininn blýgrár, kalt í veðri. Jónatan hrækti á brýnið og hló. Svo kepptist hann við að skafa utan þúfurnar, skildi hvergi eftir strá. Enginn hafði sézt úti við á Barði, síðan veðrið spilltist, fyrr en nú, að Geiri var kominn á teiginn.

– Naumast hann velur sér veðrið, sagði Jónatan með sjálfum sér og ókyrrðist við orfið, lagði það brátt frá sér og hélt af stað fram að Barði. Hann fór greitt, stanzaði ekki fyrr en hann kom í slægjuna til Geira, en þá varð honum að orði:

– Mikið fjandi er líflega sprottið hjá þér, Geiri.

– Ætli það sé ekki svipað og hjá þér? anzaði Geiri.

– Nei, blessaður vertu, ég var líka allt of seinn fyrir með vorverkin. Það er svona að vera alger byrjandi og viðvaningur.

– Já, ger þú að gamni þínu, Jónatan . . . Geiri dró við sig orðin. Hann var mjór og toginleitur, seinlegur í fasi, kipptist öðru hverju til, var sjaldnast með öllu laus við skjálfta. Hann titraði óvenju mikið núna.

Jónatan sagði:

– Ertu eitthvað veikur, Geiri minn?

– Nei, ég hef ekki yfir neinu að kvarta.

Jónatan líflegum rómi:

– Það er ekkert skrýtið, þó að maður titri í þessum andskotans garra. Jæja, nú skulum við koma inn til Lísu og taka úr okkur mesta hrollinn.

Fölleitt bros flögraði um þunnvangana á Geira.

– Þú hittir hana ekki heima núna, sagði hann. – Hún skrapp í Fjörðinn og hafði Sollu með sér.

– Þær eru svona flestar, þurfa ða skvetta sér upp annað slagið, svo þær séu í góðu lagi.

– Ég veit ekkert um það, kom frá Geira.

– Jú, þetta vitum við báðir . . . Jónatan hló. – Og ekki halda börnin í Lísu, bara þessi eina stelpa, komin fast að fermingu.

Geiri þagði. Jónatan ætlaði að fara við svo búið, en skyndilega laut hann að Geira og hvíslaði:

– Lísa er stundum fjarska góð við þig, Geiri minn, er það ekki?

– Það kemur mér einum við, anzaði Geiri seinlega.

– Satt er, svona hefur maður bara fyrir sjálfan sig . . . Jónatan kímdi við eigin hugsun, horfði á hávaxið grasið, sem bylgjaðist fyrir kuldagjólunni, og ámálgaði: – Drottinn minn dýri, hér er eitthvað til að slá! Þetta er ljómandi fallegt gras. Og hann hristir úr sér rosann fyrr en varir, Geiri minn. Svo kemur Lísa heim, strax og sólin skín, trúðu mér til.

Nú hló Geiri smálega. Jónatan hafði sig á kreik, – var svona að líta í hug sér: O, Lísa, Lísa, grönn var hún, spengileg var hún. Og hvernig hún leit á mann stundum og flissaði, alveg var það makalaust. Svo stökk hún á böll, þegar henni bauð svo við að horfa. Sollu átti hún með norskum skipstjóra, Karsten, nefndi hún hann. Enginn í Firðinum vissi minnstu deili á Karsten. Gott ef Karsten var ekki tilbúningur úr Lísu. Henni var trúandi . . . Hér snerist hugsunin eldsnöggt að öðru. Jónatan sá, hvar nokkrar kindur þutu út með hlíðinni – og þekkti þær á augabragði. Hann átti þær, og allar voru þær tvílemdar. Viðburður að sjá kind í heimahögum síðan fénu var sleppt á fjall. Nú höfðu þær bitið of nærri Skálarbóndanum, þóttist Jónatan vita, og Bárður stuggað þeim burt. Sjálfur var Jónatan uppi eins og stálfjöður, ef hann sá gemsu í sínu túni. Og hann gat ekki að sér gert að hóa á eftir þeim núna:

– Hæ-hó, hæ-hó! kallaði hann. Og enn hertu þær á sér. Það rauk aftur af þeim. Þær hentust yfir læki og eggjagrjót, létu ekkert aftra sér, stefndu fram á afréttinn. Jónatan bráðlangaði að fylgja þeim eftir – til að skyggnast eftir fé. Það varð að bíða, orfið beið hans í slægjunni . . .

Og aftur kom sumartíð, næstum um leið og Jónatan hafði spáð góðviðrinu. Og Lísa komin á þerrivöllinn. Taðan rauk í kringum hana. Varla hægt að mæla Lísu máli, þegar hún var í þessum ham, ferkar en Agnesi. Jónatan þótti sem hann yrði ölvaður af því einu að anda að sér töðuilminum. Ó, bara að kargaþýfið væri fokið burt. Ó, bara að mýrarfenin væru orðin að eggsléttum töðuvöllum. Ó, drottinn minn, bara að blessuð sólin fengi sem fyrst að skína á nýræktina í Bæ!

Eitt sinn stóð hann lengi í varpanum, án þess að snerta á nokkru verki. Það var sunnudagur, og sólskinið fyllti Dalinn. Agnes hafði farið í rósakjólinn sinn. Það var í fyrsta skipti, sem henni gafst tími til þess, síðan þau fluttu út eftir. Hann leit inn til að horfa á hana. Hún fór hjá sér og sagði:

– Æi, horfðu ekki svona kjánalega á mig, Jonni.

– Má ég ekki horfa á konuna mína?

– Sérðu mig ekki dags daglega?

– Ekki í rósakjólnum og nýju rauðu skónum.

– Það er ekki mikið að sjá. Kjóllinn er gamall. Ég er margbúin að breyta honum.

– Hann er samt alltaf jafnnýr af nálinni, Agnes mín, og ofinn úr rósum . . . Jónatan ætlaði að taka konuna í faðm sér. Svo varð ekkert úr því. Þau sáu bæði út um gluggann, að fríður kvennaskari gekk heim túnið. Og Jónatan varð ósjálfrátt að orði:

– Alveg ætlar þetta að verða einstakur sunnudagur, Agnes.

Hún eilítið köldum rómi:

– Þú getur ekki látið þær sjá þig í fjósagallanum.

– Hafðu engar áhyggjur, Agnes mín. Ég kem ævinlega vel fyrir, er mér sagt, hvernig sem útgangurinn er á mér.

Hún reyndi ekki frekar að koma fyrir hann vitinu. Þau fóru út á túnið að fagna gestunum. Það var Kvenfélagið úr Firðinum, tuttugu konur, kannski fleiri. Þær höfðu skilið eftir á mölinni allt, sem hét amstur og áhyggjur. Nú voru þær hér – í hágróandinni – eina ógleymanlega dagstund. Komu í bílum upp á heiðina, þangað sem vegurinn endaði, við Svörtuurð, og yrðu sóttar þangað aftur fyrir kvöldið. En hver mundi eftir kvöldinu – núna? Ekki Jónatan í Ytridal. Hann var strax í miðjum kvennahópnum, lék á léttau strengina og enga aðra strengi. Margt vængjað orðið hafði hann sagt um Dalinn við Fjarðarbúa, síðan hann gerðist bóndi. Slík orð féllu ekki vænglama til jarðar á þessum glaða degi. Það geislaði af andlitum kvennanna. Þær voru léttar og eggjandi í spori. Kvenfélagsformaðurinn, – kannski var hún sú einasta eina, sem hann talaði við, ef hann vildi vera hreinskilinn.

Hún hét Gunnhildur.

Fyrir fáum árum kom hún til Fjarðarins og gerðist þar hótelstýra. Hún var kona á bezta aldri, ólofuð og engum háð. Kannski var hún ósnertanleg með öllu. Kannski var aðeins hægt að dá hana og tilbiðja. Nú, hver var sá karlmaður, hugsaði hann, sem ekki átti sér slíka drottningu í einhverju leynihólfi hjartans? Og enginn vissi hvað gat skeð – einhvern tíma. Gunnhildur; björt og tignarleg var hún, augun blá, hafsjór af lífsyndi, með snert af sársauka í tegindjúpinu. Örsjaldan höfðu þau Jónatan talazt við. Og það voru bara hversdagsleg orð. Samt fór eitthvað á milli þeirra í hvert sinn, sem þau hittust. Það var einhver óviðjafnanlegur hlýleiki, sem spratt upp innst við hjartaræturnar og blandaði unaði í blóðið. Og nú reyndi hann að nálgast drottninguna eina. Svo var ævinlega einhver önnur kona, sem komst á milli þeirra, oftast Lísa á Barði. Lísa var þá allt í einu komin og tranaði sér fram, ljós og grönn og frökk. O, þessi Lísa, ótal smástirni sindruðu í augunum í henni. Og hvernig hún þandi barminn, mikið að kjóllinn rifanði ekki.

– Nú þykir þér gaman, Jonni, sagði hún.

– Já, ég skal fúslega gangast við því, að mér finnst þetta bráðskemmtileg heimsókn.

– En ef Gunnhildur væri hvergi nærri?

– O, Lísa . . .

Hún flissaði.

Svona gat Lísa náð á hann einan, þótt hann gæti ekki náð á Gunnhildi eina. Jú, annars, það tókst rétt fyrir kvöldið, rétt áður en gamanið var úti. Örstutta stund voru þau ein saman í hlíðinni fyrir ofan bæinn. Hún var þessi ósnertanlega gyðja og sagði:

– Bærinn er afar hrörlegur. Þú getur ekki búið lengi í þessu greni.

Hann horfði á hana með þeim dáleikum, sem vart verður með orðum lýst.

– Furða hvað hægt er, ef viljinn er staðfastur, Gunnhildur, sagði hann. – Fyrst af öllu verð ég að byggja yfir búpeninginn.

– Það er víst venja að hafa það þannig, sagði hún.

Jónatan – og enn dýpkaði bros hans:

– Þetta er lífið okkar í sveitinni, blessaðar skepnurnar.

Hún hló. Þá þurfti endilega að koma venjuleg kvenfélagskona. Og orðið kvöldsett fyrr en varði, dagurinn eitt andartak, allar aðkomukonurnar á bak og burt. En þarna var Agnes – og ekki mikið betri en Lísa núna, sagði stríðnislega við Jónatan:

– Nú ertu hljóður, nú segirðu ekki margt.

– Það er svona að standa í þessu gestaþvargi . . . Hann hló. – Það vill detta úr manni botninn, þegar veizlan er búin.

Agnes setti í brýrnar og sagði:

– Hún er hálfgerður gluggammur, þessi Gunnhildur.

Jónatan lágum rómi:

– Hún stendur fyrir sínu.

Agnes eftir nokkra þögn:

– Henni þykir einhver fremd í að ráðskast með kerlingarnar í Firðinum, – og verði henni að góðu.

Jónatan sagði ekkert, bara kímdi.

Að sjálfsögðu hafði Kvenfélagið allt Dalasólskinið á burt með sér. Það gerði beljandi vatnsveður og ekkert lát þar á – lengi. Jónatan bar sig samt til við að slá og gossaðist líka í moldarverkum. Stundum kom hann að Barði. Lísa þóttist hortug. Það var líka gaman að henni þannig . . .

Sjaldan kom Jónatan að Skál. Hann taldi sig þó eiga sérstakt erindi við Bárð. En einhvern veginn þótti honum sem Bárður gæfi lítið færi á sér til heimulegra viðræðna. Svo var það eitt sinn, þegar Jónatan kom á teiginn til Bárðar, að hann sagði fyrst orða:

– Ég þarf að biðja þig að standa með mér, Bárður, og vera mér hjálplegur.

Bárður lét styðjast fram á orfhælinn og sagði:

– Mér lízt þannig á þig, Jónatan, að þú sækir beztu ráðin í eigin barm.

Jónatan leit fast á Bárð. Maðurinn var afar hávaxinn, mjósleginn og þó mikill í herðum. Og það var þessi sterki ættarsvipur yfir langleitu Bárðarandlitinu, einbeittnislegur svipur með snert af rætnislausri hæðni. Jónatan gat vel umborið slíkt. Og nú ætlaði hann að tala út, fyrst hann var kominn af stað.

– Það eru aðstæður okkar hér í Dalnum, Bárður, sagði hann.

– Um þær er fátt eitt og fátæklegt að segja. Þar hefur lengi setið við það sama, og um það er þér fullkunnugt.

– Það er hverju orði sannara. Ég þekki þetta mæta vel, þykist ekki hafa flutt hingað að óathuguðu máli . . . Og hækkaði róminn: – En það er nú svona, maður trúir því, að eitthvað gerist, og eitthvað verður að gerast.

Bárður þagði. Jónatan kenndi stríðra geðbrigða. Hann þóttist vita, að í Bárðarbókinni væri allt hið gamla gott, en flest nýtt viðsjárvert. Þó mundi margt fleira standa í Bárðarbókinni og sumt, sem enginn fengi að sjá. Bárður var ekki bara grjóthörð fastheldnin. Hann var vitur maður, betra að hafa hann með sér en móti, og enn sagði Jónatan:

– Þín áhrif eru ekki lítil, Bárður, ef þú kærir þig um að beita þér. Það er hrein fyrirmunun, að vegurinn skuli hafa dagað uppi á fjallinu – ekkert gert í öll þessi ár. Hér gerist ekkert, sem heitið getur, fyrr en vegurinn kemur.

Regnið buldi á svipföstu Bárðarandlitinu, án þess nokkur dráttur þess hreyfðist. Eftir nokkra þögn sagði hann:

– Það var sú tíð, að ég sóttist eftir að fá veginn hingað í Dalinn. Nú er það orðið um seinan.

– Um seinan? Jónantan hefði orðin upp í undrun og spurn.

Ekkert svar. Bárður var tekinn til við að slá. Jónatan þaut af stað, án þess að yrða frekar á Bárð.

– Um seinan . . . um seinan, sagði hann titrandi rómi með sjálfum sér. – Bárður í Skál skal samt fá að lifa það, að vegurinn komist í hlað í Bæ. Og það skal ekki verða um seinan.

Jónatan þagði ekki um þetta við Agnesi. Hún var fámál og hugsaði sitt. Loks sagði hún og brá fyrir brosi í augum hennar:

– Þú með þína loftkastala, Jonni. Að þetta skuli ekki eldast af þér, maður!

Nú kímdi Jónatan, þótt honum væri þungt undir niðri. Hún skildi hann. Það var honum ekki lítils virði.

Vatnsveðrin héldu áfram. Lítið gekk með heyskapinn: Það var þó sumar ennþá, hugsaði Jónatan. Og ekki öll von úti, þótt ekki þornaði af strái. Fátt var þó venjulegra í sveit en að haustrigningarnar tækju við af síðsumarrigningunum. En um eina helgi gerðist atburður, sem Jónatan þótti nokkuð nýnæmi í.

Sportklúbburinn í Firðinum kom út eftir til að veiða í Dalsánni.

Eyjólfur, sonur Eyjólfs Fjarðarkóngs, var fyrirliði þeirra félaga: læknisins, skólastjórans og prestsins. Og ekki þurfti að fá að því, að Eyjófur yngri var sami Eyjólfurinn og sá gamli Eyjólfur. Mjór var hann, þunnur í roðinu, en skrápur á honum. Svo var nefið, stóra kónganefið ættarinnar.

Sportklúbburinn bjó að Bárðar í Skál. Annars gerði Sportið ekki greinarmun á höfuðbóli og hjáleigu, þegar því var að skipta. Herramennirnir komu til Jónatans og vildu fá að borga fyrir veiðileyfi í Bæjarlandi. Jónatan heilsaði þeim félögum með handabandi að gömlum og góðum sveitasið og sagði:

– Hvað ætli við séum að tala um borgun, piltar mínir, þó þið krækið upp nokkra titti.

Nú kom hljóð úr kónganefinu, og Eyjólfur sagði:

– Við viljum gjarnan semja við þig um veiðileyfi til frambúðar.

Jónatan gretti sig, hló samt og sagði:

– Ætli maðu nenni nokkuð að eiga við það. Þetta er ekkert. Það drepur engan, þó þið dorgið í ánni, fyrst þið hafið gaman að því.

Herramennirnir hlógu, en kannski nokkuð dræmt. Eyjólfur hafði enn orð fyrir þeim og sagði:

– Þakka þér fyrir, Jónatan. Við getum seinna gert út um þetta eins og við á.

Jónatan var nú meira en brosglaður:

– Já, látum heita svo, að við sláum alvörunni á frest . . .

Hann hló. – Og gerið þið nú svo vel, drengir góðir, og gangið í bæinn. Agnes mín telur ekki eftir sér að hella upp á könnuna, þótt það sé fyrir Sportið.


Breyskar ástir 2


Í aðalsíðu