Almenna bókafélagið
Reykjavík – 1965
Annar kapítuli
Snjórinn og vetrarharkan komu á Jónatan berskjaldaðan. Síðustu slægjurnar hirti hann að mestu í vothey, dembdi grasinu niður í holu, sem hann gróf í jörðina, og fergði yfir með grjóti. Þegar hann tók fargið af heyinu, var allt ónýtt, allt kolsvart. Svo kom ásetningsmaðurinn, Bárður í Skál, og sagði með sinni venjulegu hægð:
– Þessi nýja heyverkunaraðferð hefur gefizt misjafnlega hjá fleirum en þér, Jónatan . . . Og enn sagði ásetningsmaðurinn eftir nokkra þögn: – Þú mátt fara vel með, ef þér eiga að duga heyin fram úr.
Jónatan stóð grettur og sagði ekki orð um stund. Hvað gat hann sagt? Hann hafði sett meira á en heyin leyfðu. Maður freistast til að treysta á beitina . . .
Þessi tíð var nú löngu liðin, komið fram yfir áramót. Og Jónatan var engan veginn svartsýnn. Það hafði hreint ekki gefizt meira af heyjunum en hann hafði búizt við, og svo var hann þá sjálfum sér líkur . . . Þetta var snemma morguns, Jónatan að koma úr húsunum. Hann flýtti sér til bæjar og sagði við Agnesi:
– Viltu taka til fyrir mig það, sem ég fer með í Fjörðinn.
– Það er tilbúið.
– Nú, jæja, vissirðu, að ég færi í dag?
– Það má nú sjá minna, sagði hún blátt áfram. – Það er eins og þú hafir himin höndum tekið, í hvert sinn sem þú ætlar á skrall.
Hann kímdi og sagði:
– Ég hef í ýmsu að snúast áður en ballið byrjar. Þú lætur þér ekki leiðast, þó að ég komi seint heim.
Þögn. Agnes var samt ekkert þegjandaleg. Hún hafði síður en svo nokkuð á móti því, að Jónatan skvetti sér stöku sinnum upp. Sjálf hafði hún ekki nennt að eiga við það, eftir að hún gerðist bóndakona.
– Vertu nú sæl og blessuð, elskan mín, sagði Jónatan og rak að henni rembings koss. Hann kvaddi hana aldrei betur en þegar hann vissi sig verða seinan fyrir heim aftur.
Nú var venju fremur ánægjulegt að leggja á fjallið, harðfenni, rennifæri. Tunglið rann upp, um það bil sem hann kom á háheiðina, og fyrstu stjörnurnar tendruðust á bláu himinhvelinu. Hann var með sleða og sat á honum undan brekkunni. Það var nær óslitin buna allt niður undir kauptúnið. Jónatan kvað við raust og barði fótastokkinn. Viðburður að hitta á slíka færð. Stundum varð maður að kafa botnlaust djúpfennið, stóð iðulega fastur, mátti hafa sig allan við að rífa sig lausan.
Fyrsta húsið, sem Jónatan í Ytridal heimsótti í Firðinum að þessu sinni, var prestssetrið. Séra Pálmi var orðinn gamall og gloppóttur, einkum að minni. En Jónatan þótti gott að heilsa upp á guðsmanninn, sér í lagi þegar hann átti merkilegt erindi við hann eins og nú. Hann var með sjörsköku til prestsins. Svo kom Stína gamla ráðskona til dyra og sagði:
– Séra Pálmi er upptekinn. Þú getur fengið mér þetta, sem þú ert með.
Jónatan hló glaðlega við kerlingunni og sagði:
– Greyið mitt, Stína, vertu ekki með neinn óþarfavaðal. Reyndu að dragnast inn og segja Pálma, að Jónatan í Ytridal vilji hafa tal af honum.
Stína ráðskona næstum skellti á hann hurðum, en kom að vörmu spori aftur sætbrosandi út undir eyru. Hún hafði meðferðis peningaseðil fyrir skökuna og bar bóndanum líka nokkur hlý þakkarorð frá presti.
Jónatan fór allillur frá dyrum guðsmannsins, án þess þó að hafa hátt við kerlinguna. Aðra sjörsköku afhenti hann í húsi Eyjólfs Fjarðarkóngs. Hann afþakkaði að þiggja kaffi við eldhúsborðið, var á hraðri ferð, sagði hann. Sannleikurinn var sá, að hann þóttist ekki lengur upp á það kominn, að vera settur niður á eldhúsbekk í betri húsum, eins og hver annar óvalinn hreppsómagi.
Nú voru smjörbirgðirnar úr Bæjarbúinu þrotnar. Það voru að sjálfsögðu nokkur takmörk fyrir því, hvað hægt var að fá af slíkum afurðum með eina belju í fjósi, jafnvel þótt Hýra væri fram úr máta dropsöm. En rjóminn var þó alla vega eftir. Afdalakarlinn var með tvær rjómaflöskur í mal sínum. Önnur var að vísu ekki nema pelaglas, en rjómann ætlaði hann Gunnhildi hótelstýru. Þetta var ekki í fyrsta sinn, sem hann færði drottningunni rjómalögg, líka hafði hann stundum bugað að henni smjörklípu. Oftast var hann svo heppinn, að drottningin sjálf veitti hnossgætinu móttöku. Hún borgaði út í hönd, lét ekki standa upp á sig í þeim sökum, Gunnhildur. Jónatan kunni vel að meta slíka hreinskiptni. En bara að sjá drottninguna fannst honum allra peninga virði. Þegar hann nú kom í hótelið, var honum sagt, að Gunnhildur væri ekki heima.
Jónatan tók þessu áfalli karlmannlega, enda ekki vonlaus um, að drottningin sýndi sig á gleðinni í kvöld. Hann hélt enn eftir rjómapelanum, þegar hann kom úr hótelinu. Fyrst flaug honum í hug að gefa SIgurfinnu, systur sinni, dreytilinn, en hún átti heima í Firðinum . . . Bíðum samt við, af hverju ekki að rétta Eyjólfi gamla Eyjólfssyni pyttluna, svona rétt til gamans?
Aftur var Jónatan hin ánægðasti, og nú var heppnin loks með honum. Hann hitti á Eyjólf Eyjólfsson einan í skrifstofunni. Eyjólfur var allra karla elztur, mjósleginn, beinn, nokkuð fasmikill. Og kóngsnefið, það skagaði langt fram úr mjóu andlitinu og sagði allt, sem karlinn sagði. Spyrjið Eyjólfsnefið, var haft að orðtæki í Firðinum . . . Eyjólfur skaut fránum fuglsaugum á Jónatan og sagði:
– Hvað vilt þú, Jónatan í Ytridal?
Það er seigt í þeim, þessum nöglum, sem lengi eru búnir að fara með mannaforráð, hugsaði Jónatan. En upphátt sagði hann hýrum rómi og setti um leið rjómafleyginn á borðið fyrir framan Eyjólf:
– Ég veit, að þér þykir bragðið gott.
Eyjólfur gretti sig ekki ólundarlega við pyttlunni og sagði:
– Fæst nú enginn markaður fyrir rjómann, hvað þá heldur mysuna?
Jónatan:
– Það fer eftir ykkur, sem ráðskið með verðlagið, sem sjaldan hefur verið öfugra en nú um sinn.
Eyjólfur tók til sín góðan slurk af rjómanum, og Jónatan sagði enn:
– Njóttu heill, Eyjólfur Eyjólfsson. Þetta segi ég í einlægni, þótt ég hafi ekki ennþá riðið feitum hesti frá þínu borði.
Það krimti í Eyjólfsnefinu, svo sagði hann:
– Þú villt byggja upp hjá þér. Þú vilt fá lán í sparisjóðnum. Ég hef ekki anzað þessu neinu. Nú spyr ég þig: Út á hvað á ég að lána þér?
– Ja, þar komstu með það, vinur. Og þessu er fljótsvarað. Þú lánar mér út á framtíðina. Það grær undan hollri hendi, hafi hún einhverju að hlúa að.
– Þig skortir ekki orð, Jónatan í Ytridal, það hef ég lengi vitað. En hyggindin, sem í hag koma, þau eru að sníða sér stakk eftir vexti. Þú lifir það af, þótt þú farir þér hægt. Í Ytridal hrekkur enginn upp af úr ófeiti. Þið Ytridælingar hafið ekki yfir neinu að kvarta, og ykkur þarf enginn að vorkenna.
– Þetta segirðu satt, Eyjólfur góður . . . Jónatan lyfti sér í sæti. – Í guðanna bænum farið þið stórmennin ekki að gráta yfir okkur afdalakörlunum. Sýnið heldur af ykkur sjálfsagða röggsemi, hvað sem öðru líður, og komið veginum út eftir til okkar.
Eyjólfur drakk rjómann, varð glottaralegur og sagði:
– Já, vegurinn. Sá söngur ætlar seint að þagna. Á sínum tíma áttum við Bárður í Skál í brösum út af þessum vegi. Heldurðu að ég hafi breytt um skoðun?
– Það tel ég alveg víst, Eyjólfur. Breyttir tímar breyta ósjálfrátt skoðunum manna. Svo er á það lítandi, að sjálfur mundir þú hagnast á veginum í síauknum viðskiptum við okkur Ytridælinga.
Eyjólfur starði á rjómafleyginn, sem nú var senn tómur, og sagði:
– Hef ég ekki sagt þér, hvers vegna ég vil ekki veg útí Ytridal?
Jónatan gæðalega:
– Nei, Eyjólfur góður, svo opinskár hefur þú ekki verið við mig hingað til.
– Þá skal ég vera það núna . . . Eyjólfur tíndi fram orðin. – Fáir þú veginn, þá verður það þitt fyrsta verk að flytja eftir honum hingað í Fjörðinn.
Jónatan starði reiðilega á Eyjólf eitt andartak, svo snögghló hann og sagði:
– Nú hef ég fyrst fullkomlega sannfærzt um það, Eyjólfur Eyjólfsson, að þú ert með mér en ekki á móti. Og það er trúa mín, að innan tíðar verði ekki unnt að reka hnífsblað á milli okkar.
Eyjólfur rétti Jónatan tóman fleyginn og lét þessi orð fylgja:
– Það er líka eins gott, að þú skiljir mig rétt, hvernig svo sem þú úttalar þig þar um. Og vertu nú sæll, Jónatan í Ytridal.
Tekið var að skyggja, þegar Jónatan kom aftur út á þorpsgötuna. Hann kenndi svölunar eftir orðaskakið við Eyjólf. Eyjólfur virtist alltaf jafnósveigjanlegur. En enginn er með öllu ósveigjanlegur, hugsaði Jónatan. Hann trúði því, að framvindan væri sumt eins og stormurinn og öskrandi brotsjóirnir: eirði engu, þegar hún loksins rifi sig upp úr lognmollunni. Og bráðum kæmi hún með krafti. Hún mundi knýja mannpeðin til dugs og dáða einnig hér, þar sem allt hafði verið í sömu skorðum árum saman. Já, einnig hér og í Ytridal. Annras þóttist Jónatan ekki hafa yfir neinu að kvarta innst inni. Hann átti jörð, og jörðin átti hann, og ekkert afl gat drepið hann í algjöran dróma.
Nú var ekki í fleiri hús að venda að sinni, nema til Sigurfinnu. Hún bjó í þægilegu einbýlishúsi. Maður hennar, Bjartmar, hafði um árabil verið kontóristi hjá Eyjólfi. Sigurfinna var hreint ekki ólík bróður sínum í sjón og raun. Hún lét sér mjög annt um hann, fagnaði honum innilega, strax og hann kom inn úr dyrunum, og sagði:
– Jæja, loksins læturðu sjá þig, Jonni bróðir.
– Hélztu kannski, að ég ætlaði að svíkja Kvenfélagið?
– O, ég þekki þig. Þeir eru fáir léttari í dansinum en þú, þegar þú ert kominn af stað.
– Þetta er oflof, systir góð. En það verður seint svo af mér dregið, að ég mæti ekki á Kvenfélagsballinu.
Hún togaði í aðra buxnaskálm hans og sagði:
– Að sjá útganginn á þér, drengur, allur útataður í kúamykju.
– Til þess hefur kýrin hala, systir mín, að hún veifi honum – og helzt framan í þann, sem hún metur mest, sagði Jónatan og ætlaði inn í stofuna. Þar höfðu betri fötin hans verið geymd, síðan hann flutti í Dalinn.
Sigurfinna tók enn í hann, nú þéttingsfast – og sagði:
– Þú ferð ekki feti lengra en hingað í eldhúsið, Jonni, ekki í þessum druslum.
– Þá hef ég það bara svona, systir . . . Jónatan fleygði af sér ytri fötunum, þar sem hann stóð.
Sigurfinna horfði á hann með velþóknun og sagði:
– Á baðinu ferðu út öllu, ég lána þér nærföt af Bjartmari.
– Vel boðið og þér líkt, systir mín.
Sigurfinna í alvörutón:
– Svo vil ég ekki sjá þig lengur á þessum jollum, sem þú kallar sparistígvél. Þú ferð í skó af Bjartmari mínum.
– Jæja, á bara að setja undir mig lakkskó. Það má dansa á slíkum renniskíðum!
Bjartmar kom inn í þessu. Dagfarsbetri manni hafði Jónatan ekki kynnzt um dagana. Þetta var einstakt prúðmenni, holdugur og svifaseinn, sléttfelldur í andliti, þar sást engin hrukka. Jafnan rjómalogn í svipnum, og ákaflega snyrtilegur var Bjartmar í klæðaburði. Ekki brá hann út af jafnaðargeðinu, þótt hann sæi Jónatan á nærklæðunum. Hann kinkaði kolli til hans, leit síðan á konu sína og sagði:
– Ég vinn yfirvinnu í kvöld.
Sigurfinna horfði á Bjarmar eins og hún horfði á Jónatan.
– Þú ferð með þig á allri þessari yfirvinnu, vinur minn, sagði hún. – Og hvað er svona mikið að gera kvöld eftir kvöld?
– Það tínist sitthvað til, ársuppgjör, endurskoðun og margt fleira.
Sigurfinna þagði við þessu svari, svipur hennar kólnaði, og hún mælti snöggum rómi:
– Þú kemur samt á ballið, Bjartmar. Ekki eru börnin hjá okkur, ekki yfir neinu að sitja heima.
Alveg vissi Jónatan, að hún mundi segja þetta. Þær fyrirgáfu manni það aldrei, að ekkert væri barnið. Bjartmarssvipurinn breyttist ekki hót, þótt svona væri talað. En nú þótti Jónatan rétt að grípa inn í og sagði:
– Bjartmar minn, mér skilst helzt á Finnu, að ég eigi að klæðast þínum skrúða í kvöld.
– Jonni lætur bara svona, sagði hún og var aftur blíð og góð. – Annars á hann engin spariföt, sem hægt er að nefna því nafni. Mér hefur stundum dottið í hug, að hann gæti notazt við eitthvað af þínum fötum.
– Það er sjálfsagt, sagði Bjartmar og brá fyrir brosglömpum í augum hans. – Ekki eftir neinu að bíða með þetta. Þú þarft lítilsháttar að stytta buxurnar.
Sigurfinna mjög áhugasöm:
– Þetta er fallega hugsað hjá þér, Bjartmar minn, og þér líkt . . . Og leit á Jónatan. – Við björgum þessu við Jonni.
– Jæja, ég verð uppstrílaður kontóristi í nótt . . . Jónatan hló. – Gott ef ég rata nokkurn tíma heim í Dalinn aftur.
Sigurfinna:
– Gerðu ekki lítið úr sjálfum þér, bróðir minn. Ég trúi því staðfastlega, að þú eigir eftir að komast vel áfram.
Eftir stutta stund stóð Jónatan teinréttur undir steypibaðinu og söng gleðivísur. Og það mátti sjá hann, þegar hann kom á ballið í Bjartmarsdressinu! Svo til allt Kvenfélagið hafði orð á því, hversu sallafínn hann væri. Seinna um kvöldið sá hann Gunnhildi bregða fyrir. Hún kom ekki á almenna dansleiki. En þetta var Kvenfélagsballið. Hún hafði yfirumsjón með veitingunum. Hún virtist höfði hærri en aðrar konur, án þess þó að vera það. Hún skar sig bara úr. Um miðnæturskeið brá hún sér í dansinn með nokkrum helztu stórherrum Fjarðarins. Jónatan hafði látið ofan í sig ómælda brjóstbirtu. Og hann horfði á dansherra drottningarinnar með ómældum þóttasvip. Enginn þeirra fann hina minnstu náð fyrir augum hans. Allir voru þeir eins og herfileg skrípi við drottningarbarminn, fannst honum. Nú var það Eyjólfur yngri. Að maðurinn skyldi ekki fara niður úr gólfinu af skömm, en það var nú eitthvað annað. Eyjólfur rembdist í dansinum, eins og allt væri með felldu og vel það.
Svo skeði undrið. Drottningin sveif upp í fangið á afdalakarlinum.
Hvernig þetta atvikaðist? Að sjálfsögðu hneigði hann sig fyrir henni. Eða var þetta kannski dömufrí? Hann vissi ekkert um það. Hann vissi ekkert í sinn haus. Jú, hann vissi heilmikið. Hún var í örmum hans. Hann hélt utnum hana. Svo kunni hann ekkert að dansa, þegar mest reið á að kunna það. Hann var eins og liðamótalaus drumbur. Áðan hældist hann yfir Eyjólfi og fleirum. Svo gat hann ekkert sjálfur. Var á lakkskóm og hvaðeina og vitaónýtur samt. Gunnhildur sagði:
– Þú lagðir á þig að koma til okkar í þessari ófærð.
– Þetta var leikur, Gunnhildur . . . Rödd hans ljómandi glaðleg. – Gunnhildur, þú hefðir átt að sitja á sleðanum með mér.
– Hvað segir þú, sleðanum?
– Já, hugsaðu þér bara, Gunnhildur! Það var ein þeisireið niður allt fjall.
– Ja, nú skil ég.
– Þú skilur mig alltaf . . . Kannski sagði hann þetta ekki upphátt. En eitthvað sagði hann, sem kveikti ljós í svip hennar og augum. Sko . . . sko, hvernig dúnlétt brosin svifu yfir andlitið aftur og aftur. Og nú kunni hann lítilsháttar að dansa. Samstundis var allt búið. Gargararnir hættu að spila andartak. Í sama mund notaði læknisskrattinn tækifærið og stal af honum drottningunni. Þeir voru útsmognir, þessir sprenglærðu delar. Síðan ekki söguna meir. Gunnhildur kom ekki oftar á dansgólfið. En það var ólíkt Jónatan í Ytridal að lyppast niður. Hann drakk af stút hjá kunningjum sínum og eðalvinum. Hann var fær í allan sjó. Hann umfaðmaði dansandi stelpur með list og prýði. Hann beitti þær sömu tökum og þegar hann þreifaði á uppáhalds rollunum sínum. Þær umluðu í örumum hans. Dansgleðin í hámarki, blóðið við suðumark.
Seint um nóttina kom Jónatan heim, sætkendur og syngjandi. Hann stakk sér ekki alveg strax niður hjá Agnesi. Fyrst leit hann aðeins við í fjárhúsunum. Já, já, jú, jú, víst hafði hann séð þessum andlitum bregða fyrir í dansinum: Það var ekkert dömufrí, sögðu þær við hann allar í senn. Þú tókst drottninguna í faðm þér af sjálfsdáðum, Jónatan . . .
Með fyrstu morgunskímunni vakti Geiri á Barði upp í Bæ. Hann hafði engar góðar fréttir að færa. Kýrin var að bera og gekk hvorki né rak fyrir henni. Þau Lísa og Geiri höfðu setið yfir henni næturlangt.
– Eitthvað hlaut að vera, fyrst Lísa sást ekki á ballinu, anzaði Jónatan.
Geiri mæðulegum rómi:
– Áðan sótti ég Bárð. Hann gat ekkert gert. Nú set ég von mína á þig.
– Bara að það gagni eitthvað, Geiri minn . . . Jónatan þóttist ekki eins vanbúinn og hann lét í veðri vaka. Á unglingsárunum hafði hann stundum setið yfir veikri kú með móður sinni. Þeim hafði ævinlega farizt það vel úr hendi. Þau höfðu haft þar gæfuna með sér . . . Eftir stund var Jónatan í Barðsfjósinu. Hann leit snöggvast á kúna, gekk síðan til bæjar. Lísa ekki var í eldhúsinu.
– Hvar er Lísa? spurði Jónatan.
– Hún er sofandi . . . Geiri var skjálfraddaður og titrandi. – Hvað heldurðu um kúna, Jónatan?
Jónatan svaraði engu.
– Lísa, komdu starx, ég þarf á þér að halda! kallaði hann.
Undir eins heyrðist léttur umgangur á svefnloftinu, síðan hratt fótatak í stiganum, en allt í botnlausri óreiðu í kringum hana eins og ævinlega. Útgangurinn á Barðsheimilinu var alveg dæmafár.
– Þú varst á ballinu, Jonni, sagði hún.
– Komdu með heitt vatn, sagði hann.
– Það er steindautt í maskínunni, maður . . . Hún hló.
– Kveiktu þá upp, skipaði Jónatan.
Geiri hljóp til og lífgaði eldinn. Lísa í dimmum, hvíslandi tón:
– Þetta helvítis kerlingaball, mér var alveg sama um það.
Jónatan leit á Geira og spurði:
– Hvar er Bárður?
– Hann ráðlagði mér að sækja Þórð gamla í Botni . . .
Geiri skalf óhugnanlega.
Handbók bænda lá opin á knjám Jónatans. Þá bók mat hann mikils. Í henni fann hann svör við flestu, sem búskapinn varðaði. Nú leit hann með alvörusvip upp úr handbókinni og á Lísu, sem sveigðist til og flissaði.
– Þórður í Botni er orðinn skar og ekki ferðafær, sagði Jónatan hægt og fast.
– Hvað get ég gert? . . . Geiri koma vart upp orðunum.
Jónatan skellti aftur handbókinni, stóð á fætur og sagði við Lísu.
– Hvað hugsarðu, Lísa? Vatnið kappsýður, og þú skælir þig bara. Komdu með tandurhreina rýju.<ð> – Andskota hreina tuskuna að ég á . . . Hún hló – og tvílýsti í augum hennar, kalt ljós, heitt ljós.
– Láttu ekki eins og fífl, Lísa, gerðu eins og ég segi þér . . . Jónatan kímdi, þótt röddin væri ströng.
Lísa skauzt á dyr. Svo kom hún strax aftur með drifhvítan silkiundirkjól, fékk Jónatan og sagði:
– Hafðu þetta, hef ekkert annað – tandurhreint.
Nú datt á með þögn. Jafnvel Lísa dirfðist ekki að bæra á sér litla stund. Jónatan bretti skyrtuermarnar upp undir axlir og þó hendur og handleggi lengi og vandlega. Að svo búnu gekk hann til starfa í fjósinu. Það var löng og erfið barátta. En Jónatan var ekki kominn til að bíða ósigur. Honum tókst að hjálpa kúnni. Kálfinn tók hann snöggvast í fangið og sagði:
– Þarna fáið þið sprellfjörugan kvígukálf.
Lísa horfði á Jónatan hálfluktum augum undan löngum, ljósum bráhárunum. Geiri var ósköp ánægður og þakkaði Jónatan hlýjum orðum. Jónatan vað hann blessaðan að minnast ekki á þetta. Það færi bezt á því, að nábúar gerðu hvor öðrum þann greiða, sem þeir mættu.
Þegar þau komu aftur í bæinn, hitaði Lísa á könnunni. Geiri varð aftur þungbúinn á svip. Þá sagði Jónatan alveg ósjálfrátt.
– Get ég eitthvað fleira gert fyrir þig, Geiri minn?
Lísa hló.
– Ha? hváði Jónatan.
– Já, já, hann heldur að þú getir hjálpað honum meira, sagði hún.
– Sleppum því alveg, sagði Geiri. – Ég vil ekki níðast á þér, Jónatan.
– Þið gerið mig meira en lítið forvitinn, varð Jónatan að orði.
Þá sagði Lísa mjúkri, laðandi röddu:
– Þú veizt, Jonni, hann Kalli, bróðir hans Geira, er alltaf að drepast, síðan hann hætti hérna á Barði. Nú er hann alveg frá og getur ekki stundað sjóinn. Svo vill Geiri fara í Kalla stað um tíma, ef þú vilt fara í Geira stað. Þú skilur: hirða um skepnurnar fyrir hann.
Jónatan þagði drykklanga stund. Og nú brosti hann ekki. Nei, hann var ekkert að koma upp um ánægju sína, en lofaði að athuga málið. Í þrjá daga nefndi hann þetta ekki á nafn við Agnesi. Með gáðu móti gat hann ekki þagað lengur. Hann talaði fyrist um Lísudótturina, Sollu Karsten: Stelpan hefði sam og ekkert lært ennþá, ætti þó að fermast að vori, sagði hann. Engin glóra í þessu. Eitthvað yrði að gera. Þau ætluðu líka að koma Sollu á skóla í Firðinum. Geiri tæki hana með sér á morgun . . . Og bætti við eftir nokkra þögn, að Geiri yrði á sjónum tímakorn í plássinu hans Kalla bróður síns.
– Ég hélt Geiri væri ekkert ginnkeyptur fyrir sjónum, anzaði Agnes seinlega. Hún var langt gengin með og aldrei næmari fyrir því, sem Jónatan varðaði, en þegar þannig stóð á fyrir henni.
– Geiri ætlar að reyna þetta, sagði Jónatan gætnum rómi. – Kalli er veikur, en vill ógjarnan missa plássið.
– Er nú allt í einu orðin mannekla í Firðinum? sagði hún kuldalega. – Og Lísa, hún ætlar líklega að taka við fjárgæzlunni af Geira.
Nú hló Jónatan líflega.
– Þú gerir að gamni þínu, kona mín, sagði hann. – Það veiztu eins vel og ég, að Lísa kann ekkert að hirða um skepnur. Nei, ég verð að hjálpa upp á strákkvölina.
– Þetta vissi ég.
Agnes talaði ekki fleira hér um. Jónatan vék aftur að Sollu Karsten, sagði til að hafa það eitthvað:
– Kæmi mér ekki á óvart, þótt Solla spjaraði sig í skólanum. Hvernig hún rekur mann á stampinn oft og einatt. Já, hún kann að svara fyrir sig.
Og svo fór Jónatan að hirða um Barðsféið. Lísa vildi ekki heyra annað en að hann þægi kaffi í bæði mál. Það mætti ekki minna vera, sagði hún. Hér var vandi vel boðnu að neita. Lísa bjó til ágætis kaffi. Kannski gerði hún fleira með ágætum, þótt ekki væri beinlínis hýrt í kringum hana. En hún var toppfín á böllum. Þessi líka hofróðan var hún. Jónatan hafði sjaldan dansað við hana og vart getað fest á henni hendi í dansinum. Þetta var ómark. Það sannaðist núna. Alveg kom það af sjálfu sér, að þau fengu sér snúning, þegar hann leit inn. Bara nokkur saklaus spor í hvert skipti, já, já. Svo var hann farinn. En Lísuaugun, hvað þau voru opin og hviklaus stundum – og tvílýsti í þeim. Og hvernig hún flaug í dansinum og hló hjúfrandi. Eitt sinn, þegar hann sleppti af henni faðmlaginu, sagði hann:
– Heyrðu Lísa, þessi Karsten . . . ?
– Af hverju nefnirðu hann? spurði hún, og brosið hvarf andartak úr svip henni.
– Ja, var hann til, var nokkur Karsten til?
Hún hló og sagði:
– Var Karsten til? Óttalegur kjáni ertu, Jonni. Líttu á Sollu. Er hún ekki til? Hún er með Karstens-hárið og Karstens-augun. Hefurðu séð dekkri augu og kolsvartara hár?
Jónatan:
– Lét hann þig aldrei heyra frá sér?
– Nei, aldrei. Hann ætlaði að sækja mig og hafa mig með sér út, skömmu eftir að við kynntumst, – en fórst í hafi . . . Hún breytti um tón, sagði spotzk. – Þú ert hræddur við mig, Jonni. Er það ekki, – agnarlítið?
Hann klappaði henni létt á vangann og sagði:
– Láttu ekki svona, Lísa litla. Maður gefur ekki allt góðheyið á einum og sama deginum. Bless, þar til við sjáumst næst.
Eitt sinn stanzaði hún í miðjum dansi og hló öðru vísi en að undanförnu, líkt og hún væri að hæða hann.
– Hvað er nú? sagði hann höstugur.
Lísa hló og hló. Þá sá hann út um gluggann, hvar Agnes kom kjagandi í fjósaúlpunni heim traðirnar. Í sama bili skellti hann sér niður við eldhúsborðið og sagði fljótmæltur:
– Blessuð góða Lísa, komdu nú með kaffið.
Agnes heyrðist ganga um frammi. Svo stanzaði hún við eldhúsdyrnar. Hláturinn ólgaði í Lísu, loks fékk hún stunið upp:
– Eftir hverju er kerlingin að bíða? Af hverju hímir hún við dyrnar?
Jónatan gretti sig og hvíslaði:
– Lísa, guð gefi að þú getir einhvern tíma haldið kjafti. Og komdu nú með kaffið.
Enn lét gesturðinn bíða eftir sér. Jónatan sagði eitthvað um veðrið í háum yfirspenntum tón og skipaði Lísu lágum, niðurbældum rómi að taka undir með sér. Þá sprakk blaðran hjá Lísu. Það var trylltur hlátur – og ekki þagnaður með öllu, þegar Agnes kom inn. Hún brosti og sagði glaðlega:
– Ég rölti þetta að gamni mínu. Einhvern tíma verður maður að heilsa upp á nágrannana.
– Það hefðirðu átt að gera fyrr, Agnes mín . . . Lísa var alúðin sjálf og flýtti sér að bæta við. – Úr karlinum þínum fæ ég ekkert nema leiðindanöldur.
Agnes gerði gaman úr flestu, sem sagt var, alveg eins og Lísa. Og Jónatan kunni að taka þátt í svona kvennaskrafi, svo að bragð var að. Já, Agnes lék við hvern sinn fingur meðan hún stóð við. Svo togaðist varla úr henni orð, þegar þau Jónatan héldu heimleiðis. Aðeins einu sinni leit hún á hann og sagði:
– Þér er ekki leitt að hanga lon og don á Barði, eins og þar er vistlegt eða hitt þó heldur.
Hann ósköp hljóðlega:
– Þú þekkir það nú, Agnes mín, að maður neitar sjaldan kaffisopanum.
Ekkert svar. Lengi eftir þetta nefndi hún ekki Barðsheimilið á nafn, hvað þá heldur að hún kæmi þar. Jónatan þótti það getra enn ekki. Hann hafði gildar ástæður til þess. Nú urðu þær breytingar á Barði, sem Agnes gæti lagt út á ýmsa vegi, hefði hún einhvern pata þar af. Já, Lísa snurfusaði til í bænum, svo að um munaði. Það voru komin rósrauð tjöld fyrir eldhúsgluggann, puntdúkur á borðið og dansgólfið var gljáfagurt. Og Lísa sprangaði um í dýrindis klæðnaði, hellti yfir sig ilmvötnum og málaði sig stórkostlega. Þessi mikla umbylting hafði naumast fyrr átt sér stað en Geiri kom heim snögga ferð. Hann varð yfir sig hrifinn af Lísu. Jónatan þóttist reyndar vel geta sett sig í spor hans. Að vonum vildi Geiri helzt ekkert fara aftur. Lísa varð að beita hann allri þeirri lipurð og lagni, sem hún átti, til að koma fyrir hann vitinu. Aumingja Geiri. Jónatan sárvorkenndi honum.
Svo fór Geiri næsta dag. Um kvöldið bar Jónatan Lísu upp á svefnloftið á Barði. Þau drukku allt lífsyndið af sömu skál. Í morgunsárið næsta neitaði Jónatan sér um að heimsækja Lísu. Svo stóðst hann ekki mátið lengur en til kvölds. Lísa hló að honum. Samt ekki lengi, ekki lengur en hann kærði sig um.
Og það var snemma morguns viku seinna. Þau Lísa og Jónatan voru ein á loftinu og uggðu ekki að sér. Þá var gengið um niðri. Það var Geiri.
– Lísa . . . Lísa mín! kallaði hann glaðlegum rómi.
Þau urðu jafnfljót upp úr rúminu, hjónaleysin. Hún steypti yfir sig kjólnum, byrgði niðri í sér spenninginn og sagði:
– Ég er alveg að koma, Geiri minn. Láttu könnuna yfir.
– Já, elskan mín, var svarað að neðan.
Jónatan hafði snarazt að stafnglugganum á nærfötunum, sagði, kom varla upp orði fyrir kitlum:
– Ég hendi . . . hendi mér hérna út, Lísa. Kastaðu . . . kastaðu til mín leppunum . . . Og stökk niður á skúrþak, sem var undir glugganum. Spjarirnar komu á eftir honum. Hann tíndi þær upp úr snjónum, hráskellti sér í þær og var enn að hneppa axlaböndunum, þegar hann barði að dyrum á Barði. Geiri kom fram, horfði hissa á Jónatan og sagði:
– Hvað er þetta, vinur, berðu að dyrum hjá okkur?
Jónatan hafði komið ill niður þegar hann vippaði sér út um gluggann, kenndi þrauta í hægri fæti, lét ekki á neinu bera, hló smálega og sagði:
– Já, ég veit vel, að ég haga mér eins og kjáni. En þú ert sá öðlingur, Geiri minn, að þú tekur það ekki illa upp fyrir mér.
Geiri opnaði upp á gátt.
– Lísa var að koma á fætur, sagði hann. – Gerðu svo vel og komdu inn fyrir.
Með herkjubrögðum tókst Jónatan að stinga ekki við á veika fætinum. Hann mundi bólgna um öklann, hugsaði hann, en sagði við Geira:
– Ég sá til þín neðan frá húsunum, þegar þú komst. Skrambi ertu annars snemma á ferðinni. Þú hefur lagt upp löngu fyrir birtingu.
– Já, ég var laus af sjónum í gærkvöldi. Kalli bróðir er orðinn vinnufær. Og ég vildi komast sem fyrst heim. Þú átt hönk upp í bakið á mér, Jónatan, þó ég slóri ekki að þarflausu í Firðinum.
Jónatan tók yfir herðar hans og sagði:
– Heyra þetta, – eins og við gerum ekki allt upp í mesta bróðerni, greiði kemur á móti greiða!
Nokkrum dögum seinna skrapp Lísa í Fjörðinn. Þegar hún kom heim aftur, varð flest með sama draslarabragnum hjá henni og áður. Sjálf gekk hún í görmum og hafði kannski fleiri en eitt andlit. Hún var svona stunum, þegar hún gleymdi að þvo framan úr sér málninguna eftir böllin. Geiri tók þessu, eins og flestu öðru, með jafnaðargeði. Eitt sinn varð honum að orði við Jónatan:
– Engin ósköp standa lengi.
Jónatan svaraði fáu til, þóttist hafa um annað að hugsa. Hann gleymdi að kasta kveðju á Geira og fór einförum um stund. Hann gat ekki lokað augunum fyrir því lengur, að ískyggilega gekk á heyin hjá honum. Þetta var ekkert, sem hann átti til að gefa á garðana. Einmánuður bráðum allur og hvergi rifaði í jörð. Ekkert að hafa nema sultarsnöp á fjörunum. Hýra komin fast að burði. Eitt sinn gat hann ekki orða bundizt við Agnesi og sagði:
– Bárðarspádómurinn ætlar að rætast á mér.
– Láttu ekki svona, Jonni, þar er ekki líkt þér að vera með óþarfa barlóm.
– Nei, líklega ekki, kannski ekki . . . Nú krimti ekki óánægjulega í Jónatan.
Agnes var nærgætin og hlý í viðmóti. Þess var ekki langt að bíða, að hún yrði léttari. Þau gleymdu því bæði löngum. Öll hugsun þeirra var hjá skepnunum. Agnes sauð sjófang fyrir Hýru. Það var mest hrognkelsahræ, sem hún fann rekin á fjörunum. En Jónatan gat jafnvel leyft sér að ganga í kúahlöðuna fyrir sauðkindina. Hjónin höfðu verið ein heima um sinn. Börnin á skóla í Firðinum. Hún var oft í húsunum með honum. Hver tugga var mæld og vegin. Þannig börðust þau hlið við hlið. Það varð ekki til einskis. Þau björguðust klakklaust í gegnum vorharðindin – án þess að þurfa að leita á náðir annarra.
Í aðalsíðu