Almenna bókafélagið
Reykjavík – 1965
Þriðji kapítuli
Með fyrstu ylhýru vorsólargeislunum kvað við ungbarnsgrátur í Bæ. Agnes ól sveinbarn, stærðar strák. Hún stóð upp af sænginni eftir nokkra daga hress og kát. Jónatan var meira en upp með sér af nýja erfingjanum. Hann reigði sig næstum í hverju spori. Einhvern næsta sunnudag báru foreldrarnir barnið til skírnar í Fjarðarkirkju. Agnes minnti á unga stúlku, sem þekkti vald sitt og yndisþokka. Hún kom nú í fyrsta sinn á mölina, síðan hún flutti í Dalinn. Sigurfinna hafði ekki fyrr boðið hana velkomna en hún sagði:
– Mikið ertu sælleg, Agnes mín. Það leynir sér ekki, að búkonustarfið á vel við þig.
– Það veit ég ekki, sagði Agnes og hló smálega. – Maður kemst af, og þá er ekki yfir neinu að kvarta.
– Blessað litla barnið ykkar, ég óska ykkur innilega til hamingju með það.
Jónatan kinkaði kolli við systur sinni og hugsaði sitt: Það var ekki ófyrirsynju, að Sigurfinna var svona yfir sig hrifin. Hann var búinn að segja henni frá því, að drengurinn ætti að heita Sigurfinnur. Hann hafði ekki eingöngu valið nafnið vegna systur sinnar. Það var sterkur hljómur í þessu nafni, fannst honum, einkum í fyrri hlutanum: sigur. Drengurinn mundi alast upp heima í Ytridal frá fæðingu. Sú hugsun fékk Jónatan mikillar gleði. Sigurfinnur var fæddur Ytridælingur. Bæjarbóndinn vantreysti ekki eldri börnum sínum, en mikið vildi hann hafa gefið til þess, að þau hefðu öll fæðzt heima í Dalnum.
Fjarðarkirkjan var þéttsetin við messuna. Það vissi Jónatan fyrir. Já, fólk kom fyrst og fremst til að vera við skírarathöfnina. Það var einstæður atburður nú orðið, að hjón kæmu með barn sitt til skírnar utan úr Ytridal. Og gamli séra Pálmi, hann var ekki alveg útkulnaður ennþá. Honum auðnaðist að segja lifandi orð. Kannski var hann langorður eins og venjulega. En þar sem lífsæðin er, þar mega vera mörg orð, ef vill. Undir lokin komu þessi orð: – Dalurinn á bak við fjöllin. Grænn dalur í auðninni. Og er þá nokkuð að hræðast, börnin mín? Þar sem guð gefur grasið og sólina og regnið, þar er staður fyrir fagurt mannlíf. Þess skulum við minnast í dag við skírn þessa barns . . . Ójá, nú fékk Jónatan glýju í augun. Blessaður hempuskröggurinn, hvort hann ætti ekki skilið góða smjörsköku fyrir ræðuna.
Það mátti sjá hjónin í Ytridal, þar sem þau stóðu við gráturnar. Agnes í rósakjólnum góða og hélt sjálf barni sínu undir skírn. Jónatan í nýpressuðu svarta Bjartmarsdressinu – og stóð pinnstífur.
– Hvað á barnið að heita? spurði presturinn.
– Sigurfinnur, svaraði móðirin hátt og skýrt.
– Líflegur þytur fór um kirkjuna, þegar hún nefndi nafn barnsins. Sjálfur vorkliðurinn, hugsaði Jónatan.
Skömmu eftir kirkjuferðina gerðist það, að Lísa á Barði brá Jónatan á einmæli og kvaðst vera ólétt eftir hann.
– Þarf það nú að vera ég, Lísa mín? varð honum að orði.
Hún bar þungann undir niðri, sagði án þess að líta á hann:
– Já, það ert þú. Enginn efi þar á . . . Og eftir nokkra þögn. – Þetta gaztu. Þessi klaufi varstu.
Jónatan hló ljúflega. Hann gat samt ekki haft óyndið úr Lísu. Hún lét sem hún sæi hann ekki næstu daga. Svona þykkja var sérstaks eðlis og kom þægilega við Jónatan. Og lömbin voru byrjuð að fæðast.
Einn sólskinsmorgun fann Jónatan fyrstu ána sína borna í lautardragi skammt frá bænum. Hún var tvílembd. Tveir fannhvítir hnoðrar, silkimjúkir viðkomu og unaðslega kvikir í spori. Í gleði sinni tók hann þá í fang sér og hljóp með þá til bæjar.
– Kemurðu með fullfrísk lömbin í hús! sagði Agnes gæðalega.
– Þetta er svo ljómandi fallegt, sagði hann.
Stella og Ragnar vildu bæði fá að halda á lömbunum. Barði þóttist ekki sjá, sá samt.
– Lipurtá og Ljósalöp, sagði Jónatan. Svo flýtti hann sér með hnoðrana út í túnið til lambamóðurinnar. Hún kallaði ákaft á þá.
Lömbin, ekkert er mýkra viðkomu, ekkert skærara til augnanna, nema ungbarnið í vöggunni, hugsaði Jónatan . . . Sigurfinnur litli dafnaði vel. En var kannski eitthvað að samt! Æi, maður gerir sér alls konar rellur, þegar ungviðið er annars vegar. Drengurinn var bara svo kyrrlátur. Það hafði kannski borið á því strax. Hann var afskaplega kyrrlátur. Varla að hann gréti nokkurn tíma. Varla að hann lyki upp augum. Hann virtist ævinlega sofa. Stundum var Agnes hrædd við þetta.
– Hvað er að barninu? sagði hún þá.
Jónatan sagði ekkert, fann engin orð.
Þá tók hún barnið í fangið, gerði því til góða, og lét vel að því. Og mikið hýrnaði yfir henni, þegar drengurinn opnaði augun og horfði á hana. Þá hló hún mjúklega og sagði:
– Óttalegur einfeldningur er hún mamma . . . Svo leit hún á Jónatan og sagði: – Hann er bara svona kyrrlátur, Jonni. Svona voru hin börnin okkar líka stundum, – manstu ekki eftir því?
– Jú, jú, það var eitthvað svipað, tók hann undir með henni, en mundi ekki eftir þessu. Kvenfólk mundi allt svona lagað betur. Svo sagði hann: – Vertu viss, hann verður ekki lengi svona kyrrlátur. Lífið kann sína vísu, engin hætta á öðru.
Stund og stund gleymdi hann Sigurfinni með öllu. Lömbin voru sem óðast að fæðast. Nótt sem dag höfðu hjónin vakandi auga með ungviðinu. Hvert hljóð í túni og haga varð skyndilega þýðingarmikið. Hvert smáhljóð greinilegt og bjó yfir sinni sérstöku merkingu. Engin jarmur var eins. Agnes og Jónatan voru afar næm fyrir hverju hljómbrigði – og ekki að ástæðulausu. Túngirðingin var ósköp léleg. Víða voru dýjaveitur og botnlausir pyttir, jafnvel bæjarlækurinn gat verið hættulegur ungviðinu. Stöðugt fjölgaði lömbunum. Stöðugt óx jarmurinn í túni og haga.
Það var morgunn. Sólin ekki komin upp. Mikil og skær morgunbirta í lofti. Um stund höfðu þau Agnes og Jónatan verið úti við. Hvernig var aðkoman í bænum? Enginn lýsir því:
Sigurfinnur litli lá andaður í vöggunni.
Þau höfðu farið frá honum sofandi, bæði lotið að vöggunni og heyrt kyrrlátan andardráttinn. Í gærkvöld hafði hann horft á þau skýrum, geislandi augum. Nú fundu þau hann látinn. Hann hafði liðið út af eins og ljós. Bæði sátu þau stjörf yfir vöggunni. Þau sáu hvorugt sólina eða heyrðu jarminn í túninu. Og þau sáu ekki börnin eða Geira eða Lísu, sem komu í heimsókn. Næstu nótt grét Agnes við brjóst hans. Það gekk á með krapaéljum. Barði og Ragnar voru einir úti að koma lambánum í hús. Án þess að mæla orð gengu Agnes og Jónatan í lið með drengjunum. Hann vissi ekki, hversu lengi þau eltust við féð. En eftir þetta gátu þau loks fest blund. Agnes svaf enn, þegar hann vaknaði og fór til starfa. Svo kom hún í dyrnar á fjárhúsunum. Það bærðist ekki lífsneisti í andliti hennar, þótt hún liti lömbin. Ekkert sagði hún, ekkert orð fór þeim á milli. Um kvöldið táraðist hann yfir nokkrum fjölum, sem hann sagaði og heflaði í líkkistustokk.
Sporin að gröfinni . . .
Á fjallinu gerði á þau hryðjuveður. Hún gekk við hlið hans og leiddi Stellu. Barði og Ragnar fylgdu á eftir þeim. Jónatan hélt á kistunni. Hann lagði hana naumast frá sér alla þessa löngu leið, fyrr en við gráturnar í Fjarðarkirkju. Hér voru þau fyrir stuttu. Þá höfðu þau glaðzt yfir barninu sínu. Hvar var nú sú gleði? Hafði hún nokkru sinni fallið þeim í skaut? Hann skynjaði ekki annað við útförina en kröm konu sinnar og að börnin þeirra voru yfirkomin af þreytu, köld og hrakin af fjallinu.
Frá gröfinni fóru þau heim til Sigurfinnu og Bjartmars. Þau tóku ekki annað í mál en að Agnes og börnin yrðu um kyrrt, þar til upp birti og veðrinu slotaði. Sigurfinna var beygð og grátin, en sagði ekki æðruorð.
Jónatan lagði þegar á fjallið. Krapaélin stóðu í fangið á honum langleiðina heim. Geiri á Barði leit eftir fyrir hann, meðan hann var í burtu . Honum hafði farist það vel úr hendi. Jónatan fann til þakklætiskenndar. Það birti andartak í myrkrinu.
Agnes og börnin komu heim degi seinna. Þá var sólskin, svo ríkt og stórt í örlæti sínu, að mannleg kröm og mæða lét vermast við það. Lömbin fæddust á ný út í guðsgrænni náttúrunni. Jarmurinn fyllti loftið. Það var einn samfelldur kliður nótt og dag – og fylgdi manni inn í stopular svefnstundir. Agnes hlúði að þeim lambkettlingum, sem vesalastir voru. Þessir hnoðrar voru eins og líf af hennar lífi. Nú gat hún aftur gleymt sér stund og stund – í þrotlausu starfi. Það sást í augum hennar. Þar brá fyrir birtu, og viðbrögð hennar voru móðurleg og hlý.
Jónatan var hvatur í spori. Flest gladdi hann, sem hann sá úti í náttúrunni. Svona skríður manneskjan saman og finnur sjálfa sig, þótt henni sé varpað út í yztu myrkur. Jæja, nú var sauðburðurinn á enda. Þar var ekki yfir neinu að kvarta. Baslið og stríðið, – þetta bar tilganginn í sjálfu sér . . . Sonur hans, sem dó? Að það hefði verið hegning? Nú fyrst fann hann sig nægilega styrkan til að staldra við þessa hugsun. Að hann hefði unnið til þess með því, sem farið hafði á milli þeirra Lísu á Barði? Ekki var hann svo vesall, að hann tryði slíku. Öllu öðru gæti hann trúað, en ekki þessu. Annars stóð ekki uppá hann að gera sitthvað galið. Fyrr mætti nú líka vera. Það væri aumt líf að grípa ekki sjálfan sig inn á milli sem brotlega bróðurinn.
. . . Sársaukinn, nú magnaðist hann í brjóstinu. Maður finnur til, finnur óendalega mikið til, þegar litli drengurinn manns deyr. Það er eins og slitnar séu út úr hjartanu innstu og fínustu taugarnar. Og grær ekki um heilt fyrr en löngu seinna . . .
Jónatan var á leið fram að Barði. Lísa og Geiri sýndu meiri dugnað um burðinn en hann hafði þorað að vona. Nú voru þau sloppin yfir það versta, flestar ærnar þeirra bornar. Hann mátti samt fara varlega í að lofa þau. Þarna fann hann lamb í keldu rétt við túnfótinn hjá þeim. Það var sem líflaust slytti. Hann fékk Lísu það og sagði:
– Verkaðu það upp og helltu niður í það heitri mjólk.
Hún leit ekki á hann, en hélt lambinu fast upp að brjóstinu á sér.
– Guð minn almáttugur, stundi hún og hljóp með það til bæjar.
Þá varð Geira að orði:
– Þetta lamb lognast ekki út af.
Jónatan:
– Þú ert ekki eins einfaldur, Geiri, og ég held stundum.
– Hún kemur því til, vinur, sagði Geiri ánægður. Var með allan hugann við lambið, trúði því einlæglega, að það mundi lifa.
Og lambið lifði. Jónatan fór ekki fyrr en hann hafði sannfærzt um það . . .
Og það var sumar. Dagarnir bjartir, – og nóttin varð stöðugt bjartari. En löngum átti önnin allan hugann. Svo þurfti stundum að skreppa í Fjörðinn. Eitt sinn, þegar Jónatan var ferðbúinn, kom Barði að máli við hann og sagði:
– Það má fara á sjó í svona veðri.
Hann fékk þetta svar:
– Þið voruð á sjó í gær. Það er nóg í bili.
Barði setti upp kímið glott og sagði:
– Fyrst þú ert að fara í Fjörðinn, þá ættirðu að athuga með vél í bátinn. Okkur Ragnari gengur ekkert svona vélarlausum.
Jónatan hló rætnislaust.
– Þú ætlar seint að láta af þínu, varð honum að orði. – En það máttu vita, Barði, að allt vantar okkur frekar en vél í bátskriflið.
Barði sagði ekkert, bara glotti.
Jónatan gekk hratt úr hlaði. Vél í bátinn! Það skyldi aldrei spyrjast um Jónatan í Ytridal, að hans fyrsta vél yrði bátrokkur. Og kannski fengi Barði innan tíðar að gleyma sér við önnur störf en sjógutlandann.
– Svona, hættu þessu flaðri, sagði Jónatan upp úr hugsunum sínum. Hann var að tala við tíkina, sem skokkaði glaðgjammandi í kringum hann. Hún sýndi honum ennþá áleitnari vinahót, strax og hann yrti á hana, var öll á lofti eins og eigandinn. Jæja, greyið, hún var undan Geiratíkinni. Börnin kölluðu hana Mjöll – og hvergi dökkur díll á henni.
– Nú skulum við spyrja Eyjólfsnefið, sagði Jónatan. Hann hvataði enn ferðinni, hljóp við fót.
Þegar í Fjörðinn kom, ákvað hann að bera fyrst niður í hótelinu. Gunnhildur bauð honum inn til sín – í fremri stofuna. Þetta var raunar skrifstofan. Þar inn af var sjálf drottningardyngjan, þóttist hann vita og heyrði léttan hlátraklið innra með sér við tilhugsunina. Gunnhildur bauð honum sæti gegnt sér við skrifborðið. Hann hafði slegið augum niður, strax og hann kom inn fyrir dyrnar. Nú sagði hann líflegum rómi, án þess þó að líta á drottninguna.
– Ég er í leiðinda klípu, Gunnhildur. Þarf að sarga út lán í sparisjóðnum hjá Eyjólfi. En drellirinn situr rígfastur á gullhrúgunni. Ekki hægt að krækja krónu undan hans rassi, nema maður hafi gildan ábyrgðarmann.
Hún hló glaðlega.
– Ef ég gæti bara hlegið með þér, Gunnhildur, sagði hann og renndi augunum á jómfrúna, horfði á dansandi gulllokkana yfir síbrosandi augunum, en leit ekki hvelfdan barminn, treystist ekki til að sjá þá undrasjón alveg strax.
– Hvað ertu eiginlega að segja mér? spurði hún.
– Ja, það kostar víst einhverja ögn af peningum, Gunnhildur, að tolla við torfuna sína nú til dags.
– Og þú kemur til mín, sagði hún án spurnar.
– Mig undrar það mest sjálfan, Gunnhildur. Það er þó ekki vegna þess, að mér hafi ekki dottið fleiri í hug . . .
Þetta var ósatt, og það vissi hann vel. Flestir, sem hann þekkti, voru einskis megnugir. Í fyrra hafði Bjartmar gengið í talsverða ábyrgð fyrir hann. Sem sagt, Jónatan hafði ekki í annað hús að venda en hótelið, en sagði rogginn. – Auðvitað átti ég að álpast eitthvað allt annað en til þín. Kvenfólk stendur ekki í svona svínaríi. Þú fyrirgefur mér glannaskapinn.
Hún eftir nokkra þögn:
– Ég skal gera þetta, Jónatan, ef upphæðin er ekki allt of há.
Hann nefndi fjárhæðina. Hún skrifaði nafnið sitt á víxilinn, stóð síðan á fætur og fékk honum blaðið.
– Ekki gerirðu nein stórvirki fyrir þessar krónur, sagði hún.
Hann stóð líka á fætur, horfði á alla drottninguna og sagði:
– Meira fæst ekki, þótt Eyjólfur sé klipinn með glóandi töngum. Svo er á það lítandi, að jafnvel mín litla Rómaborg verður ekki byggði á einum degi frekar en sú stóra Rómaborgin.
Hún hló.
– Alltaf ertu eins, sagði hún svo. – Eins og margt hefur reynzt þér örðugt og mótdrægt.
– Ojæja, læt ég það vera . . . Átti hann að nefna Sigurfinn litla? Hann fékk sig ekki til þess, ekki við neinn. Hann sagði: – Hér stend ég með bara þó nokkra fjárfúlgu handa á milli, er þó í öðru eins og vesöl betlikind. En kannski á ég rjómalögg og smjörsköku, næst þegar ég kem.
Hún rétti honum höndina til kveðju og sagði:
– Það var einmitt þetta, sem ég ætlaði að nefna við þig, Jónatan, en þorði það blátt áfram ekki.
Einhvern tíma hefði hann reynt að lengja svona stund. Nú var hann strax á dyr. Fór beint í Eyjólfsskrifstofuna. Gamli Eyjólfur virtist í ergilegu skapi. Svo hvein þó ekki óánægjulega í nefinu, þegar hann rak fuglsaugun í víxilinn og sagði:
– Þú ert kræfur, Jónatan í Ytridal.
– Það má lengi fordjarfa kvenfólkið, sagði afdalakarlinn. – En láttu þetta ekki hlaupa óþægilega fyrir hjartað á þér, Eyjólfur góður. Ég er rétt að byrja að hita þér.
– Það finn ég raunar á mér . . . Karlinn ók sér þægilega í herðunum. – Já, þennan víxil kaupi ég. Þú færð það, sem þú biður um.
Að sjálfsögðu vildi Jónatan hafa fengið þúsundfalt meira. Hvað um það, – nú gat hann loks stækkað fjárhúskofana. Barði hafði nóg að starfa við smíðar, þótt hann væri enginn sérstakur hagleiksmaður. Ragnar var náttúrusmiður. Sérstæður og fallegur svipur yfir öllu, sem hann lagði hönd að . . .
Og Jónatan var enn að byggja, löngu eftir að sláttur var hafinn. Hann steypti votheyshlöðu. Það hefði hann gert, þótt engin króna hefði fengist að láni, þó svo að hann hefði orðið að svelta sig og sína heilu hungri til að koma hlöðunni upp. Bárður í Skál skyldi ekki oftar en einu sinni hælast um yfir því, að Jónatan í Ytridal væri lélegur heyafla- og heyverkunarmaður.
Sumarið var stórgjöfult á jarðargróðann og haustið lengst af einmuna veðursælt. Jónatan bjó að miklum og góðum heyjum, þegar vetur gekk í garð. Honum þótti ekki lítill akkur í að sýna ásetningsmanninum í votheyshlöðuna nýju. Þetta var fyrirtaks fóður, eins vel verkað og Jónatan gat helzt kosið sér.
– Lyktaðu af þessu, Bárður. Þetta ilmar eins og núbakað pottbrauð, sagði hann og rétti væna heyvisk að Bárði.
Bárður leit ekki á, en sagði:
– Það var aldrei mín hugsun, að þú legðir árar í bát að þarflausu.
Jónatan brosti gleitt, þótt Bárður vildi ekki sjá votheyið og sagði:
– Þú gerir nú svo vel og gengur í bæinn og þiggur kaffisopa.
Bárður:
– Það er sama og þegið, en nú fer ég yfir að Barði og skoða þar líka.
Jónatan eftir nokkra þögn:
– Ég skil ekki í fólki að hanga við búskap upp á sama og það á Barði. Þetta gengur heldur saman hjá þeim og var raunar ekkert, þegar þau byrjuðu.
– Það má segja svipaða sögu af hokrinu í Skál, anzaði Bárður og hló lítinn.
Jónatan hló mikinn. Svo varð hann þögull og hugsi litla stund eftir að Bárður var farinn. Skálarhjónin höfðu lengi verið ein. Synirnir þeirra þrír farið að heiman jafnskjótt og þeir spruttu úr grasi. Tveir þeirra stunduðu skrifstofustörf syðra, sá þriðji var skipstjóri á farskipi. Það var bæði ár og dagur síðan þeir höfðu sýnt sig heima í Skál. Að börnin færu alfarin úr Dalnum – var nokkurn tíma hægt að sætta sig við slíkt? Heima fengu þau allt, sem þau þörfnuðust. Þar var full þörf fyrir þau. En einn góðan veðurdag voru þau svo farin og sáust ekki meir. Jónatan fannst sem Bárður hefði á vissan hátt sagt þetta við sig, þegar hann minntist á hokrið í Skál. Á bak við orð hans þóttist hann kenna djúpan sársauka þess manns, sem var orðinn einn og yfirgefinn . . . Einn og yfirgefinn, og enginn mannlegur máttur fengi breytt því úr þessu! Bárður mátti þó gjarnan vita það, að Jónatan hélt fast um sitt og ætlaði sér ekki lítinn hlut. Börnin hafði hann jafnan heima framan af vetri. Þau lásu námsbækurnar sínar heima. Svo fóru þau í Fjarðarskóla eftir hátíðirnar. Þetta var sjálfsagður hlutur. Þetta var ekki að fara að heiman.
Fyrstu stórhríð vetrarins gerði á jólaföstu og stóð vikum saman. Jónatan lét sér ekki leiðast innivistin. Hann dvaldi lengur í fjárhúsunum en venja hans var. Á kvöldin skrafaði hann sitthvað við sitt fólk. Og stundum datt í hann að segja sögukorn. Marga góða kappasöguna kunni hann nær því orði til orðs. Fornaldarsögur Norðurlanda hafði hann numið við móðurkné. Þó var það svo, að um sinn höfðu engar sagnir staðið honum hjarta nær en munnmælasögur af gömlum og gengnum Ytridælingum. Þessar sögur einar voru nú sagðar í Bæ. Þarna komu fram á sjónarsviðið sægarpar, sem ekki voru einhamir. Frásögnin mögnuð þeim kyngikrafti, sem sprettur upp í hverri setningu, þegar líf og dauði vegast á nær því við hvert fótmál söguhetjunnar. Barði starði ekki ósjaldan af nokkurri forvitni á föður sinn, áður en langt var liðið á söguna. Fyrir kom, að Agnes missti niður lykkju eða prjónarnir hættu með öllu að tifa. Gleymt bros hvíldi á vörum Stellu. Ragnar var með furðusvip í augum.
Menn greindi á um það, hversu margar verbúðir hefðu staðið á sjávarbökkunum í Ytridal, þegar þær voru flestar. Hitt datt engum í hug að véfengja, sem gjörla þekktu til, að ótrúlega margar hefðu þær verið. Og bátarnir, þá voru þeir ófáir, meðan fjölmennast var. Það líf, það fjör. Oftast landburður af afla. Og hvernig þessir karlar sóttu sjóinn. Það var ekki setið í landi við hvern goluþyt. Sýður á keipum, hvín í reipum. Og landlegurnar . . . Þá fengu sumir skrokkskjóður og pústra, sem bragð var að. Flest höfðu búin verið í meðallagi að fjáreign. Þó lifðu enn í dag fornar sagnir um geipilegan fjárfjölda á höfuðbólinu Skál. Og víst var, að gildustu útvegsbændurnir í Dalnum höfðu um langt skeið verið með ríkustu og ráðamestu mönnum sýslunnar.
Svo komu vélbátarnir.
Þar með var kippt stoðum undan stórútgerð í Ytridal. Þá tók að losna um fólkið, þótt hægt færi í fyrstu. Komið kvöld í Ytridal.
Jónatan varð ekki ósjaldan andvaka að loknu sagnakvöldi. En það varð aldrei sú andvaka, sem níddist á honum. Sagan hélt áfram að gerast, gamla Ytridalssagan. Og var ekki bara gömul, hún var að endurnýja sig í svolítið breyttri mynd. Hin gamla Ytridalsbyggð var óhagganleg í sjálfu sér, landgæðin voru traustur grundvöllur til að byggja á það, sem koma skyldi. Margoft hafði Jónatan lagt veginn yfir fjallið í huga sér. Margoft sá hann nýja byggð rísa á rústum þeirrar gömlu. Já, hvers vegna ekki það? Hér var allt, sem þurfti frá náttúrunnar hendi. Betra fjárland en Ytridalur varð trauðla fundið. Hér gátu hæglega þrifizt mörg blómleg sauðfjárbú. Skóli og félagsheimili í miðri sveit. Nývirki hvarvetna í smíðum. Og jarðræktarvélarnar létu ekki af söng sínum daglangt, – ekki nema gaddur væri í jörð.
Nú, eins og stundum áður, sofnaði Jónatan inn í glymjandi vélasönginn. Svo vaknaði hann úthvíldur og endurnærður að morgni. Veðrahamurinn skellti á hann útidyrahurðinni, um leið og hann þokaði henni frá stöfum. Þá var að taka betur á. Hann lagðist með öllum þunga sínum á hurðina og fékk smeygt sér út fyrir. Norðanhríðin í almætti sínu. Jónatan sökk niður í botnlaust hyldýpi af hvítamjöll. Hann var nokkra stund að finna fjárhúsin. Svo heyrði hann kumrið og hornakliðinn í gegnum veðurhljóðið, um leið og hann lauk upp hurðinni. Hann tók fullt fangið af ilmandi heyi og sagði hlæjandi rómi, um leið og hann gaf á garðana:
– Þarna er sólskinið og sunnanvindurinn og gróðrarskúrirnar frá í sumar. Já, þetta kunnið þið að meta og takið við því eins og vera ber.
Þegar Jónatan kom aftur út í öskrandi moldviðrið, sá hann snöggvast í snjónum djarfa fyrir sporum. Þetta voru ekki hans spor, – þau hlutu að vera horfin. En hver gat þetta verið? Hver myndi brjótast á milli bæja að þarflausu í slíku veðri? Jónatan fékk svarið, strax og hann kom í bæjardyrnar. Geiri á Barði stóð þar hríðarbarinn. Og Agnes, hún hafði steypt yfir sig vaðmálspilsi, farið í svellþykka snjósokka og veðraúlpu. Hún sagði ekki orð, þótt Jónatan liti spyrjandi á hana. Þá hvarflaði Jónatan augunum til Geira og spurði:
– Hvaða tíðindi segir þú?
Geiri ræskti sig; svo kom:
– Lísa mín er lögzt á sæng. Þú veizt, hvernig veðrið er. Ógjörlegt að sækja ljósmóður. Agnes ætlar að vera hjá henni.
– Hvernig líður? spurði Jónatan. – Er allt með felldu?
– Já, þakka þér fyrir. Lísa mín er ósköp róleg. Ég er líka rólegur, fyrst Agnes kemur með mér.
Hýran breiddist yfir Jónatansandlitið, þegar hann sagði:
– Sumar konur kunna allt svona af sjálfum sér. Þið getið treyst Agnesi . . . Aftur leit hann á konuna sína, gekk alveg til hennar og var ósköp blíðróma. – Það veit ég, Agnes mín, að þér tekst nærkonustarfið eins og allt annað.
Hún anzaði seinlega eftir nokkra þögn:
– Það vona ég – með guðs hjálp.
– Ég læt ykkur ekki fara ein í þessum veðurofsa, sagði Jónatan og fylgdist með þeim út í hríðina.
Þau áttu undan veðrinu að sækja, og ferðin gekk greitt. Agnes vatt sér upp á loftið til Lísu, eftir að hún hafði losað sig við hlífðarfötin. Jónatan stanzaði í efsta stigaþrepinu. Lísa var í hvítum náttserk. Hún sat upp við dogg í sænginni og sagði feginsamlega við Agnesi, um leið og hún rétti henni báðar hendurnar.
– Mikið varstu góð að koma, Agnes.
– Það eru engin gæði, Lísa mín, bara það sjálfsagða. Við þurfum ekkert að óttast. Þetta er ekki annað en það, sem við þekkjum báðar.
Mikið er Agnes hlýleg, hugsaði Jónatan. Hann hafði ætlað inn að rúminu að tala við Lísu. Nú dró hann sig ósjálfrátt í hlé, hvarf niður til Geira. Af einhverjum ástæðum höfðu þeir fátt að segja hvor við annan. Senn kom Agnes niður og sótti eitthvað í kistu, sem geymd var í stofukytrunni. Sjálfsagt voru það einhver föt á Lísu og barnið. Jónatan langaði til að segja: Hvað er þetta, sem þú ert með, Agnes? Svo sagði hann ekki neitt. Hún gekk um eins og enginn væri í eldhúsinu. Það koma þær stundir, sem ekkert karlkyns er til í heimi konunnar.
Þögn í eldhúsinu.
Mennirnir sátu hljóðir og sötruðu kaffi. Báðir kenndu þeir sömu tilfinninga, þóttist Jónatan vita. Dulinn ótti tókst á við eftirvæntinguna í hugum þeirra. Hvar stæðu þeir, ef eitthvað bæri útaf? Nú var sem Geiri læsi hugsanir Jónatans.
– Ég get ekki setið hér lengur, sagði hann og ræskti sig. – Ég ætla að fara til hennar.
Snögga stund rauk öll yfirborðskyrrð af Jónatan, röddin hörkuleg:
– Þú verður kyrr. Við verðum báðir kyrrir. Agnes kallar, ef hún þarf á okkur að halda.
Aftur þögðu mennirnir.
Það var eins og veðurgnýrinn fyrir utan magnaðist um allan helming í þögninni. Jónatan gramdist sjálfum sér fyrir að hafa rokið upp. Svona var hann, verri en Geiri, þótt hann titraði ekki eins og hann. Ekkert drepur mann frekar en aðgerðarleysið, – að sitja svona og hafast ekki að. Margsinnis hafði hann óskað þess, að hér væri um kú að ræða, en ekki sængurkonu. Þá hefði hann fengið að taka til hendinni. Hann sáröfundaði Agnesi af hennar hlutskipti. Líka Lísu. Þær báðar höfðu við eitthvað raunverulegt að berjast.
. . . En . . . ef eitthvað yrði að? Mundi hann geta brotizt eftir hjálp? Í svo til öllum veðrum hafði hann farið heiðina, þó ekki í þvílíkum ofsa sem nú geisaði. En hann gæti það núna . . . gæti það, ef ekki væri um annað að ræða. Hann færi án þess að hika, staðráðinn í að gera skyldu sína . . .
– Hvað varstu að segja? spurði Geiri.
– Það var ekkert. Ég sagði ekkert.
– Jú, það var eitthvað um veðrið.
Jónatan ætlaði að svara einhverju. Svo stóðu þeir báðir upp samtímis. Lísa hrópaði hárri röddu:
– Jesús minn, góður guð, Agnes, ég er að slitna í sundur!
Það hafði lítið heyrst til hennar fyrr en nú, að hún gaf sér alveg lausan tauminn. Einhvern tíma löngu seinna heyrðist barnið gráta. Þá var eins og nýtt afl hefði verið leyst úr læðingi í hamförum vetrarríkisins. Eitthvað, sem minnti á skæran blóma sumarsins og heiðbláar, niðandi víðáttur, hugsaði Jónatan. Barnið grét svo hraustlega. Þó var gráttónninn svo undur léttur. Var það kannski bara unaðslegur hlátur? Agnes brosti við Jónatan, þegar hann kom upp á loftið. Svo fegin var Agnes, svo hjartanlega glöð var hún – og sagði:
– Það er drengur, ósköp elskulegur drengur.
Lísa var eins og milli svefns og vöku. Hún virtist ekki vita af Jónatan, sem þrýsti hönd hennar. Agnes hafði reifað barnið. Geiri kyssti það á vangann. Agnes bar það að rúminu. Þá glaðvaknaði Lísa. Hún horfði á Agnesi – og hló hlakkandi. Svo brosti hún sínu blíðasta brosi og sagði:
– Fyrirgefðu mér, Agnes mín, ég er eitthvað svo undarleg. Orðalaust lagði Agnes barnið í arma móðurinnar.
Það var langt liðið á daginn, þegar Jónatan og Agnes héldu heimleiðis. Veðrið þrumaði. Jónatan studdi konu sína í hörðustu sviptibyljunum. Þess á milli gekk hann fyrir henni og ruddi brautina. Lengi voru þau að ná heim, munaði minnstu, að þau villtust af leið.
Agnes fór enn nokkrar ferðir fram að Barði, áður en hún taldi sig lausa af öllum skyldum við sængurkonuna. Lísu og barninu heilsaðist vel. Sjá mátti á Agnesi, að þungu fargi væri af henni létt, þegar hún gat lagt af Barðsferðirnar. Jónatan fylgdi henni fram eftir, meðan veðrið var sem verst. Hún bað hann ekki um það, og ekki nefndi hún barnið í hans eyru.
Einn daginn frétti Jónatan það hjá Geira, að drengurinn ætti að heita Jón.
– Það er föðurnafnið hennar Lísu, sagði Geiri eitt sólskinsbros.
Hann sá naumast annað en barnið, sat hjá því löngum stundum, skipti um á því og þvoði litlu rýjurnar.
Jónatan gruflaði dálítið yfir Jónsnafninu. Já, þetta var skrýtið. Þó var það ekkert skrýtið. Lísa vissi sjálfsagt, að það mátti lengja Jónsnafnið og segja: Jónatan. Þarna var hann kominn með það, þó ekki alveg fyrr en hann sagði: Litli-Jonni. Nei, hann nefndi þetta ekki við Lísu. Þau töluðust fátt við, þá sjaldan þau sáust. Hún var innibyrgð í sjálfa sig. Hann þóttist vita hvers vegna. Nú komst hún ekki í Fjörðinn.
Lengi hafði enginn farið burt úr Dalnum. Veðurógnin sá fyrir því. En loksins hætti snjósvelgurinn að gjósa. Einhver hulinn kraftur svipti hríðarkápunni af fjallinu. Máninn hálfur brosti heilu fjölvísu brosi. Og það kom gestur að Bæ. Sá hét Ólafur, sonur Sigmundar Ólafssonar í Fjarðarbæ. Hvað kom til, að gildasti bóndinn í Firðinum gerði son sinn út á fund afdalakarlsins? Ungi maðurinn heilsaði Jónatan alvörugefinn í bragði og spurði tíðinda úr Dalnum.
– Þú sækir vel að, Óli minn, sagði Jónatan glettnum rómi. – Ég hef þau góðu tíðindi að segja þér, að nýr Ytridælingur fæddist fyrir stuttu. Já, ekki vorum við of margir fyrir.
Þegar Ólaf setti hljóðan við þessar ágætu fréttir, hló Jónatan dátt. Svo hafði hann ekki fyrr leitt gestinn til stofu og hlýtt á mál hans en hann varð sjálfur hljóður litla stund. Ólafur var kominn í þeim erindum að klaga nauð föður síns fyrir Jónatan í Ytridal. Þannig var málum háttað, að upp hafði komið krankleiki í fénu á bænum. Sigmundur vissi lítil skil á pestinni og kunni því fá ráð til úrbóta.
Jónatan var ekki með öllu óþekktur í Firðinum sem heppinn dýralæknir. Fyrir skömmu hafði hann læknað kú af bráðadoða á bæ einum í Botnsdal. Svona gleymdist ekki. Nú mændi sjálfur Sigmundur í Fjarðarbæ upp á hann í von um hjálp.
Jónatan spratt á fætur og gekk kviklega um gólf. Svo stanzaði hann, og nú varð honum að orði:
– Þar sem faðir þinn gengur frá, ungi maður, er engin von til, að ég komi að neinu gagni.
– Jú, þú ert sá eini, sem við getum treyst á í þessum efnum, sagði Ólafur.
Jónatan stóð pinnstífur og sagði:
– Svona nú, ekkert óþarfatal, góðurinn. Jæja, ég veit ekkert fyrr en ég sé skjáturnar. Ætli ég lalli ekki með þér. Þarf að viðra mig. Í lengri tíma hefur maður verið innibrenndur eins og melrakki í greni.
Í aðalsíðu