Almenna bókafélagið
Reykjavík – 1965
Fjórði kapítuli
Nokkur ár liðu – og fóru gamla lestarganginn. Síðan gerðist mikil saga í Firðinum. Framvindan rumskaði af áralöngum dvala og fór strax hamförum.Nú var lítandi á Fjörðinn.
Þangað komu margir nýir bátar, stór og traust skip. Hafin var smíði á nýjum hafnarmannvirkjum. Miklar byggingar tóku að rísa í kringum útveginn. Hver meðalskussi varð þýðingarmikil og eftirsótt persóna. Stöðugt vantaði fólk til að bjarga útflutningsverðmætum. Svona talaði Eyjólfur yngri. Hann var allt í öllu. Gamli Eyjólfur hafði fengið slag og reri sig áfram á tveim stöfum nær því sjónlaus og heyrnarlaus. Hvernig átti líka níræður öldungurinn að standa ókrenktur í því reikna umróti, sem nú geisaði í Firðinum? Jónatan kom þar oftar en hann þurfti. Sívökull athafnakliðurinn kallaði hann til sín. En hver tók eftir afdalakarlinum? Enginn eyddi orðum á mann, sem dagað hafði uppi aftur í öldum.
Heima í Ytridal var gamli Bárðartíminn enn við lýði óskertur og óbreyttur. Þarna losnuðu engin öfl úr læðingi, nema klakinn rann úr jörðinni þetta vorið eins og önnur vor. Agnes leiddi ekki hugann að framförunum. Það gekk alveg fram af Jónatan stundum, hvað hún gat verið isóleruð, eins og þeir voru farnir að segja í Firðinum. Oftar en einu sinni reyndi hann að leiða henni fyrir sjónir, hversu hörmulega langt þau væru aftur úr öllum, sem eitthvað máttu sín eða eitthvað gátu. Hún neitaði ekki, hún jánkaði ekki heldur. Eitt sinn sagði hún þó:
– Ég er farin að þreytast á þessu skrafi.
– Þá eru að opnast á þér augun, sagði hann.
Hún eftir nokkra þögn:
– Við komumst af. Ætli það nægi ekki.
– Spurðu þá sem mala gullið dag og nótt, sagði hann.
Hún leit fast á hann og sagði:
– Ég er lítið uppnæm fyrir þessari símalandi Fjarðarkvörn. Hávaðinn í henni er slíkur, að enginn heyrir þar lengur til sjálfs sín.
Barði var nærstaddur og heyrði á orðaskipti þeirra. Hann var þessi sami Barði og hann hafði alltaf verið, breyttist ekki með árunum. Og til hvers er að yrða á Barða? hugsaði Jónatan. Samt sagði hann:
– Eitthvað hlýtur þú að hugsa um þetta, Barði.
Barði glotti lítinn og sagði:
– Ég veit ekki ævinlega, hvað þú meinar með öllu þínu tali.
– Nei, það er engin von til þess, Barði minn. Ég er nú svo myrkur í máli.
– Ekki legg ég neinn dóm á það. Hitt veit ég, að þrátt fyrir allt talið, þá situr þú sem fastast á þúfunni. Jæja, ég ætla að segja ykkur það núna, að ég er á förum að heiman, hef ráðið mig á sjóinn.
Agnes horfði þögul á son sinn andartak, svo sagði hún:
– Hvar ætlaður að vera til húsa?
– Ég verð nú á sjónum fyrst og fremst, svo fæ ég inni hjá Sigurfinnu.
Agnes leit á Jónatan. Hann sagði ekkert. Hann kenndi stríðra geðbrigða og furðaði sig á því. Hvers vegna að æðrast út af sjálfsögðum hlut?
– Þú hlýtur að skilja drenginn, Jonni, sagði Agnes.
– Hann gerir það . . . Barði kímdi. – Ekki lætur hann svo lítið af Fjarðardýrðinni.
Jónatan varð þungorður:
– Farðu varlega í að rangfæra orð mín, sagði hann. – Ég banna þér ekki að fara að heiman. Hitt skaltu ekki segja, að ég hafi hvatt þig til þess.
Þeir horfðust í augu litla stund; svo sagði Barði:
– Ég hef ekki frá neinu að hverfa. Það er ekkert að gera heima fyrir þrjá karlmenn.
– Talaðu líka varlega um það, sagði Jónatan og dró niður í honum.
Barði fór án þess að svara nokkru. Agnes sagði af hljóði:
– Það er ekki víst hann uni lengi að heiman.
Jónatan eins og mest við sjálfan sig:
– Nú fær hann það, sem hann vill. Hann hefur jafnan haft hugann við sjóinn.
Og Barði fór á sjóinn.
Eyjólfur yngri hóaði öllum í vinnu, sem hann náði til. Hann hafði þegar rutt lélegustu kotin í Fjarðardölunum, hópað fólkinu niður á mölina til sín. Einn daginn gekk hann í veg fyrir Jónatan á þorpsgötunni og sagði:
– Þarna ert þú á lausum kili, Jónatan í Ytridal. Gætirðu ekki hugsað þér að vinna hjá mér, þó ekki væri nema í nokkra daga?
Jónatan svaraði ekki alveg strax. Það var nýtt fyrir hann í seinni tíð, að góðir Fjarðarmenn gæfu sér tóm til að stanza á götu og ávarpa hann að fyrra bragði.
– Hér er úr vöndu að ráða, Eyjólfur góður, sagði hann loks. – Það líður yfir þúfurnar, ef ég er ekki jafnan heima og vakta þær.
Eyjólfur gekk snúðugt á burt.
Svo skeði það ekki miklu seinna, að Jónatan í Ytridal var farinn að vinna í Firðinum.
Sem sagt: öll vitleysan er ekki eins. Hann fór aftur og aftur í eyrarvinnuna, tók stundum langar tarnir. Hann var að hafa upp peninga. Þeir fengust hvergi nema í Firðinum. Hann ætlaði að safna í sjóð og gera eitthvað seinna. Og Ragnar vann í Firðinum, þá sjaldan Jónatan var heima. Og stundum var Stella líka að vinna í Firðinum. Agnes tók á sig öll erfiðustu verkin heima fyrir. Henni þótti það ekki nema sjálfsagt. Hún gat trútt um talað, hugsaði Jónatan. Láttu hana bera á sjálfri sér, og hún ber meira en þig dreymir um. Láttu hana stinga út fjárhúsin, og hún er búin að því fyrr en þig varir. Settu hana í mómýrina og sjáðu, hvað gerist. Fáðu henni orfið, og líttu svo á ljána um kvöldið.
Jónatan var með allan hugann heima í Dalnum, þegar hann púlaði í Firðinum. Þá var bæjargrenið höll á súlum, þótt það gerði ekki betur en að hanga uppi. Smáskákirnar í túninu, sem hann hafði reynt að slétta, voru ekki lengur skæklar, heldur víður völlur, grænn og fagur. Já, hokrið, það var ekki lengur hokur . . . Hann hló oft upp úr svona hugsunum – og ævinlega hlýlega, eins og eitthvað væri til í þessu þrátt fyrir allt. Og hver hljóp þarna í grænu túninu? Jú, Jónatan sá það ljóslega, þótt hann stæði í slorinu upp fyrir haus. Það var hann Litli-Jonni, bústinn hnubbur, kvikur í spori og hláturglaður. Mikið logandi var nú gaman að hlægja með honum. Jónatan var fyrir lifandi löngu hættur að biðja gott fyrir, þótt hann nefndi dengsa Litla-Jonna í áheyrn Barðsfólksins eða Agnesar. Geiri hafði fyrst borið við að leiðrétta hann, Agnes aldrei. Lísa bara flissaði. Lísa var orðin feit og værðarleg, rorraði mest innandyra, fór sjaldan af bæ. Stóð í barneignum. Var búin að eignast þrjú börn, – ha, kannski fleiri! . . . Jónatan hló. Hann var ekki minnugur á tölur! Svo færðist skuggi yfir svip hans. Ójá, hér stóð hann í slorinu. Það var líka staðurinn fyrir Jónatan í Ytridal. Hver hefði fengið hann til að trúa því fyrir skemmstu, að hann hlypi frá sínu í von um nokkrar ónýtar krónur? Já, ónýtar voru þær, strax foknar út í veður og vind. Ekki hægt að hafa hönd á þeim andartaks stund. Hvar var nú sjóðurinn, svo unnt væri að gera eitthvað? Hvers vegna að halda þessum fjanda áfram? Af hverju að leggja á sig þrengingar og píslir að þarflausu?
Svo var Jónatan heima í Dalnum um sinn. Þá varð hugsunin fljótlega þessi: Guð minn góður, hvað þetta er allt saman vonlaust. Hið ljúfa líf heima, það er aðeins til, meðan maður púlar í Firðinum. Kyrrðin heima, þögnin heima – þessar dásemdir var hvergi að finna, þegar heim kom. Kyrrðin var ekki kyrrð, þögnin ekki þögn. Þetta . . . þetta, hann gat ekki umborið það, þegar hann mætti því eins og það var. Hið ljúfa líf Dalsins . . . Nei, nú gekk fram af honum . . . Hann káklaði eitthvað við verkin heima fyrir, lét svo Agnesi þau eftir og kom sér í eyrarvinnuna.
Þannig gekk þetta í tvö ár, án þess út af brygði. Jónatan í Ytridal var hálfur sveitamaður og hálfur bæjarmaður. Hann var ekki neitt, sagði hann stundum með sjálfum sér, en flýtti sér að bæta við. Þetta er lygi. Þú sverð ekki af þér afdalakarlinn, ekki einu sinni til hálfs. Enginn er svo aumur, að hann trúi því ekki innst inni, að hans tími komi áður en allt um þrýtur.
Þetta var í vikulokin. Jónatan var að enda eina vinnuvikuna í Firðinum. Átti aðeins eftir að þræla hálfan dag í slorinu, síðan kæmist hann heim í grænan Dalinn. Nú var hádegi og hann á leið í mat. Hann borðaði og hélt til hjá Sigurfinnu, systur sinni. Hann gekk greitt. Svo fór hann sér hægt, þegar hann nálgaðist hótelið.
Gunnhildur.
Hún var sigld. Fólk sagði, að hún væri að forframa sig í kaffihúsamennt. Jónatan þóttist vita betur. Gunnhildur var í orlofsferð. Það er siður drottninga að sýna sig á stærstu stöðum heimsbyggðarinnar. Hvarvetna mundi Gunnhildur ganga um með glaðlegri reisn. Það sópaði að henni, og hvað mest þar, sem smámenni hurfu í ys og þys stórborganna. Þjónustufólk var á þönum í kringum hana. Mikilmenni og auðkóngar horfðu á eftir henni löngunaraugum. Í huganum setti Jónatan sig við hlið henni úti í heiminum. Honum var það óhætt. Hann gat horft djarflega framan í drottninguna. Þótt hann væri skuldum vafinn, hafði hann fyrir löngu borgað þá fjárfúlgu, sem hún hafði sett sig í ábyrgð fyrir hans vegna. Já, hvort hann sómdi sér ekki vel við hlið henni úti í veröldinni. Þau sigldu á hvítu skipi upp breitt fljót. Hann sagði henni sögur, sem tengdar voru þessum ókunnu sýslum aftan úr grárri forneskju. Hún heyrði ekki, þótt aðrir menn ávörpuðu hana. Bryggjum var skotið á land. Þau Gunnhildur hurfu inn í þéttvaxinn skóginn á árbakkanum. Hann þóttist geta lesið fótspor Hrólfs Kraka og kappa hans í sverðinum. Það var svo önnur saga, að í veruleikanum var hann staddur á þorpsgötunni og sá varla í hann fyrir slori. Þegar hann kom inn úr dyrunum hjá Sigurfinnu, kallaði hún á móti honum:
– Hefurðu heyrt tíðindin, Jonni bróðir?
Jónatan var nokkra stund að koma sér utan úr löndum og heim í Fjörðinn. Hvað var að sjá Finnu? Það var eins og hún hefði himin höndum tekið. Barði var í landi og sat til borðs við hlið Bjartmars. Ekki sáust nein stórmæli skráð í svip Barða og þá ekki í Bjartmarssvipinn.
– Ég veit ekkert nýrra, anzaði Jónatan áhugalaust.
Sigurfinna var öll eitt hýrubros og sagði:
– Það voru engar smáfréttir, sem Bjartmar kom með af skrifstofunni.
Jónatan gretti sig. Æi-já, nú sat Bjartmar í nýju skrifstofunni hjá Eyjólfi yngra. Hvers átti Jónatan að vænta úr þeirri átt? Eyjólfsstórmælin höfðu aldrei verið hans stórmæli. En nú sagði Sigurfinna þetta:
– Þeir ætla að leggja veginn út í Ytridal á þessu sumri.
Ekkert orð kom frá Jónatan. Ekkert varð ráðið af svip hans. Það var eins og tíðindin hefðu ekki minnstu áhrif á hann í fyrstu. Hann horfði á Bjartmar, sem aldrei breytti um svip; andlitið stórt og slétt og ferskleikablær yfir því, þrátt fyrir tuttugu ára tukthúsvist í Eyjólfsskrifstofunni. Bjartmar leit upp frá súpudiskinum sínum og sagði í hversdagstón:
– Það hefur lengi verið unnið að því að gera Ytridalsveginn að sýsluvegi.
– Einmitt það . . . Fleiri orð komu ekki frá Jónatan í bili.
Bjartmar lauk við súpuna, var ekkert að flýta sér, sagði síðan:
– Nú er björninn unninn, mágur, vegurinn orðinn sýsluvegur og fé fyrir hendi til að hefja framkvæmdir. Hreppsýtan verður látin byrja verkið á mánudagsmorgun.
Jónatan sat kyrr og orðlaus. Hann fann, að augu Sigurfinnu hvíldu á honum. Hún sagði:
– Ósköp tekurðu þessu fálega, bróðir minn. Víst ertu búinn að bíða lengi eftir veginum. En nú fer líka að lifna yfir öllu í Ytridal . . . Og eftir nokkra þögn: – Eyjólfur vill helzt, að þú verðir með ýtumanninum.
Jónatan svaraði engu. Barði sagði, án þess að líta á föður sinn:
– Í þínum sporum færi ég síðastur allra að eltast við óviss vinnusnöp uppi á fjalli.
Þegar Jónatan þagði enn, varð Sigurfinnu að orði og hló við:
– Ég er svo aldeilis hissa á þér, Jonni bróðir. Þú heldur þó ekki, að við séum að ljúga þessu í þig?
Jónatan stóð á fætur, án þess að hafa gert matnum veruleg skil. Nú lauk hann loks sundur munni, sagði um leið og hann fór:
– Ég veit ekkert um þennan veg, nema öll loforð hafa verið svikin – honum viðkomandi.
Fleira sagði Jónatan ekki um Ytridalsveginn fyrr en um kvöldið. Þá var hann staddur á fjallinu, þar sem veginn þraut við Svörtuurð. Hann sagði hátt og snjallt við sjálfan sig:
– Ég gradúlera Sportinu . . . Og hélt áfram í huganum: Vegur fyrir Sportklúbbinn. Þarna hafði hann það. Á hverju sumri kom Eyjólfur yngri snögga ferð út eftir, með nokkur valin stórmenni í slagtogi, Sportklúbbinn, – Sportið, sem Jónatan kallaði svo. Og það voru slitnir upp úr ánni nokkrir tittir. Og það var hrópað, að sjálfsagt væri að leggja veginn út eftir. Í fyrstu hafði Jónatan ginið við flugunni og trúað öllu, sem Eyjólfur sagði. Hann hafði gert að ósk hans. Látið Sportinu eftir samningsbundin veiðiréttindi í sinni landareign. Allt upp á veginn, von um veginn, sem aldrei kom. Sýsluvegur, sagði Bjartmar. Það var og. Kannski hafði það heyrzt áður. En nú var hver mínútan dýrseld: Sportið hafði ekki efni á að plampa langar og erfiðar leiðir að þarflausu. Svo átti sýslan að gefa því Ytridalsveginn. Jónatan kom það ekki við. Ekkert orð skyldi hann tala hér um við nokkurn mann – og engu trúa. Síðan gerðist það, að hann var ekki fyrr kominn heim en hann hafði uppi nokkur spottyrði um Sportveginn. Enginn var til að hlusta á hann nema Agnes. Ragnar nýfarinn í brúarsmíði í aðra sveit, Stella í Firðinum. Agnes var fyrir löngu hætt að anza nokkru upp á það, sem bóndi hennar sagði um veginn. En nú var hún með, nú hlustaði hún, svo sagði hún:
– Bara að þetta verði okkur til gæfu.
Hann varð orðlaus. Hann sagði ekki fleira. Hún trúði þessu. Hún trúði gömlu lygasögunni um Ytridalsveginn. Eða var lygin orðin að sannleika eftir öll þessi ár? Svo fannst henni. Sjálfur vildi hann engu trúa, skyldi aldrei neinu trúa.
Jónatan vann allan sunnudaginn, en sagði ekki orð um veginn. Á mánudagsmorgun rauk hann í að flytja grjót úr moldarflagi, sem hann hafði ekki hirt um langalengi. Agnes var með honum. Þau unnu lengi morguns án þess að talast við. Hann hamaðist. Steinar flugu, og stundum allt annað en þeir áttu að fara. Loks sagði Agnes upp úr þögninni:
– Það er þessi herjans vegur.
Jónatan eftir drykklanga þögn:
– Hvaða vegur? Ég veit ekkert um neinn veg.
– Það er helzt. Þú talar um hann upp úr svefninum. Og núna . . . Hún hikaði.
– Já, núna hvað? . . . Rödd hans var lág og titrandi.
Hún ræskti sig, svo kom:
– Það er furðulegt, hvernig þú getur alltaf verið, Jonni. Loksins þegar þeir eru byrjaðir á veginum, þá hangir þú heima.
Hann horfði fast á Agnesi og sagði:
– Byrjaðir, eru þeir byrjaðir?
– Ég þarf ekki að segja þér það, sem þú veizt. Okkur er óhætt að treysta því, að Bjartmar fer ekki með fleipur.
Hann tautaði í eigin barm:
– Eru þeir byrjaðir, helvítis afglaparnir?
– Jónatan, sagði hún fastmælt. – Þú ferð fram eftir á stundinni. Það er óþarfi, að þetta geri þig alveg frávita.
Hann henti frá sér steini af miklu afli og eitthvað út í loftið, – og öðrum og enn öðrum. Svo gekk hann hægt af stað áleiðis fram eftir, næstum því að hann fetaði sig áfram eins og dýr í veiðihug. Mjöll fylgdi á eftir honum. Hann jók ferðina jafnt og þétt, án þess að taka eftir því. Áður en hann náði heiðarbrúninni, varð hann gripinn taumlausum fögnuði.
Hann heyrði í ýtunni.
Hún var skammt undan, vissi hann, þótt hann sæi ekki til hennar ennþá. Hann settist niður og hlustaði . . . hlustaði. Samstundis var Mjöll hjá honum. Hún rak trýnið mjúklega og gælandi framan í hann, sleikti andlitið allt, skildi engan blett eftir.
– Fjandans græðgi er þetta. Éttu mig ekki alveg, sagði hann og var aftur kominn á sprettinn. Stanzaði ekki fyrr en hann sá ýtuna að verki. Lengi starði hann á verkfærið, án þess að nálgast það frekar. Vélarferlíkið drundi og hvæsti, spændi upp jörðina, spýtti frá sér mold og grjóti og mjakaðist áfram fet fyrir fet. Urðin, – hún opnaðist. Hann sá Svörtuurð opnast. Honum fannst eitthvað opnast í sjálfum sér um leið, dimmt fylgsni í hugarinnum sínum, sem lengi hafði verið lokað. Þar inni hafði verið rakt og dimmt og fúlt. Nú var opnað fyrir fersku lofti, sól og hlývindum. Hann horfði á það með sínum eigin augum, og vegurinn varð til . . .
Það voru nýir tímar í Ytridal. Margt gerðist og allt harla gott, eða svo fannst Jónatan. Vegurinn hafði örugglega tekið skriðið niður í Dalinn. Jónatan kom ekki nærri heyskapnum nema stórum og sjaldan. Hann var hægri hönd ýtumannsins, Ólafs Sigmundssonar. Þessir tveir kumpánar kunnu vel að meta hver annan. Jónatan hafði ekki reynzt ónýtur hérna um árið, þegar pestarfaraldurinn kom upp í sauðfénaðinum hjá Sigmundi í Fjarðarbæ. Hann reyndist ekki alveg ónýtur í veginum heldur. Það þurfti að byggja smábrýr, leggja rör í lækjarsytrur, gera fyrirhleðslur, sprengja stórgrýti. Jónatan var í þessu öllu. Og Geiri á Barði kom fram eftir og vann nokkur dagsverk. Þvílíkt blessað sumar. Svo var það undir eins búið. Verkin stóðu eftir. Vegurinn kominn niður í miðjan Dal – næstum því. Fjallið sigrað. Einangrunin komin á heljarþröm. Fuglinn þegar frjáls – og flaug. Ójá-já, blakaði vængjum í heiðloftinu bláa; vegur undir, vegur yfir, vegur allt um kring.
Veturinn – hann var ósköp venjulegur vetur, hvorki mildur né harður. Nokkuð lét vorið bíða eftir sér, en varð einmuna gott. Hvað dvaldi ýtuna? Komin sumarmál, og ennþá sást ýtan ekki í Ytridal. Hverju sætti þetta? Jónatan lét Eyjólf yngri ekki hafa nokkurn stundlegan frið. Jónatan reifst í Eyjólfi dag og nótt, fullur glettni og sótillur og bölvandi. Stórkostlegt rifrildi – og stóð fram á sumar. Sólskin um allar jarðir, þegar Ytridalsvegurinn tók skriðinn á ný. Nú hljóp hann rétt að kalla – á sléttum grundum meðfram ánni. Undir lokin, nokkru áður en vegurinn komst í hlaðið í Bæ, var Jónatan ýtustjóri um sinn. Ólafur stjórnaði jarðræktartækjum fyrir föður sinn. Jónatan ýtustjóri. Hvað gæti hann ekki gert, ef hann hefði fjármagn og verkfæri í höndunum? Að sjálfsögðu stal hann ýtunni á kvöldin og beitti henni eins og hann mátti á óræktina í Bæ. Annars var hann nýbyrjaður þennan leik, þegar yfirvöldin tóku af honum ýtuna. Það var alls ekki meiningin, að svona dýrmætt tæki yrði innlyksa í Ytridal. Þangað var kominn ruðningsvegur. Það varð að duga.
Stopp . . . stopp!
Var hægt að segja stopp við framvinduna? Eða var þetta bara Sportið – kannski? Jónatan hló? Hann hafði efni á því núna. Sprangaði mikið um varpann og þreytti hugann. Nú þurfti, svei mér þá, að leggja saman tvo og tvo og fá eitthvað meira út en bara slétta fjóra. Og allt tímgaðist margfaldlega. Stundum var Jónatan það upptekinn, að hann sá ekki Litla-Jonna, þótt hann trítlaði við hlið hans. Svo hló sá litli. Þá hló sá stóri líka. Svona dillandi hlátrum hlógu engir í víðri veröld nema litli og stóri Jónatan. Litli-Jonni, – allt vildi hann sjá, allt vildi hann skoða. Aftur og aftur stalst hann í Fjörðinn með aðskotabílum, bara til að sjá sig ofurlítið um í heiminum. Já, aðskotabílar – flökkubílar. Það komu skrúðfylkingar af slíkum vögnum út í Ytridal, síðan vegurinn opnaðist, einkum um helgar. Fólk kom til að sjá Dalinn á bak við fjöllin og sólarlagið og kynnast afdalafólkinu.
– Ekki nóg að hendast svona út eftir, gott fólk, sagði Jónatan í Ytridal og þreyttist ekki á að tala við flökkufólkið.
– Gleymið þið nú bíladruslunum um stund, elskurnar mínar, og röltið um ein sér. Óþarfi að glápa á sjálfa sólina. Það er ekki að sjá sólarlagið. Smakkið þið á jarðargróðrinum. Enginn hefur drepizt af því einu að stinga upp í sig strái. Og hlustið stundarkorn á kyrrðina. Þá takið þið sjálfa gleðina heim með ykkur . . .
Og einn glaðan dag stóð Jónatansjeppinn á Bæjarhlaði.
Barði lagði fram stærstan fjárhlutann í fyrirtækið. Annars fengust sveitajeppar á mjög góðu verði og með hagkvæmum borgunarskilmálum. Jónatan kunni strax á jeppann. Hann hafði líka verið ýtustjóri. Nú var hann bílstjóri.
– Ég er ekkert að þessu núna . . . Svona sagði Agnes ævinlega, þegar Jónatan bauð henni í bíltúr. Svo varð hún þó oftast með. Það er nú líkast til. Þau fóru ekki lengra en í Fjörðinn og sneru jafnan fljótt heim aftur. Einu sinni ók þó Jónatan lengra og án þess að nefna það við Agnesi. Þegar hún sá, hvers kyns var, leit hún spyrjandi á hann og sagði:
– Hvert ertu að fara með mig, Jonni?
Hann hló dátt og spurði á móti:
– Heldurðu kannski, að allar leiðir endi í Firðinum, elskuleg?
Henni stökk ekki bros.
– Það varðar mig ekkert um, sagði hún. – Ég ætla ekki að álpast eitthvað út í bláinn.
Hann:
– Það heitir ekki að álpast út í bláinn, þó að við skreppum til Djúpafjarðar, höfuðstaðarins í landsfjórðungnum.
Hún lagði hönd sína á arm hans og sagði mildilega:
– Góði, Jonni minn, snúðu nú aftur. Ég hef ekkert að sækja til Djúpafjarðar.
Agnes átti ekkert að sækja – nema heim, hugsaði hann.
Og hún þekkti aðeins einn stað, sem var þeirra beggja staður.
– Svona, snúðu nú við, Jonni minn, sagði hún aftur.
Hann lét að ósk hennar með ljúfu geði. Þegar sá yfir Dalinn af heiðarbrún, varð henni að orði:
– Þetta er nú meiri fartin, maður er strax komin heim aftur.
– Já, finnst þér til þess. Við eigum orðið heima í Firðinum.
– Sem betur fer er fjallið á sínum stað, sagði hún.
Að gamni sínu tók hann nú það snarpa beygju, að bíllinn hentist til. Þá hló hún og sagði:
– Þú ert alltaf sami glanninn, Jonni.
Þau voru komin heim. Agnes fór til verka sinna. Hann horfði á jeppann. Og hann gekk í kringum jeppann – tvisvar, þrisvar. Þetta var bíllinn hans; drif á öllum hjólum og komst allt. Hann gerði flesta farartálma að engu, spændi upp fjarlægðirnar, þokaði afdalnum jafnhliða þéttbýlinu.
Næsta dag komu þau, Lísa og Geiri, bara til að glápa á jeppann. Augun ætluðu út úr Lísu, og það ólgaði og hveraði í henni undir niðri.
– Nú geturðu spanað, Jonni, sagði hún og hló kuldalega. – Já, mikill djöfuls völlur er á þér maður. Það er meira hvað sumir geta veitt sér allt, sem þeim dettur í hug.
– Þið getið þetta líka, Lísa mín. Þið þurfið bara að bera ykkur rétt til.
– Segðu Geira það . . . Hún gekk snúðugt á burt.
Geiri var gráfölur í andliti.
– Það er ekki bílleysið eitt, sem hún setur fyrir sig, sagði hann. – Ég veit ekki hvað það er. Það er svo þungt í henni núna. Hún er oft orðljót og illskeytin.
– Hún finnur sér fljótlega eitthvað til að gleðjast yfir. Engin er blíðari en Lísa, þegar hún nýtur sín.
Jónatan tók ekki eftir, hverju Geiri svaraði. Allt í einu hafði hann fengið nýja hugmynd, eina af mörgum. Já, nú þurfti hann að tala við Geira um vissan hlut, – og hann ók með Geira í jeppanum yfir að Barði. Þannig var mál með vexti, að Geiri átti hestasláttuvél. Einn Fjarðarbóndinn hafði sama sem gefið honum hana í gleði sinni yfir að eignast dráttarvél. En hvað átti Geiri að gera með sláttuvél? Hún hafði fengið að ryðga í ruslahaug að bæjarbaki . . . Jónatan dvaldi góða stund á Barði. Síðan ók hann aftur heim. Þá var sláttuvélin tengd við jeppann.
Jónatan átti enn dálítið óslegið á sæmilega sléttu landi. Og hugmyndin var að láta bílinn draga vélina við sláttinn. Barði hafði komið heim snögga ferð. Það kom á Barða í fyrra, þegar hann sá, að Sportinu var alvara með veginn. En að hann hefði látið hrifningu í ljós, – ekki hann Barði Jónatansson. Nú setti hann upp kímniglott yfir þessu nýja uppátæki föðurins og sagði:
– Þetta verður ekki annað en leikaraskapur . . .
– Svona, sonur sæll, vertu ekki þetta staður . . . Jónatan hló. – Þú stjórnar vélinni, ég bílnum. Og sjáðu til, allt mun ganga eins og í sögu.
Barði hreyfði sig ekki en rak upp smáhlátur og sagði:
– Það þekkist hvergi í heiminum, að jeppa sé beitt fyrir hestasláttuvél.
Jónatan:
– Allt er einu sinni fyrst. Og framsýnin er ein um að breyta vitleysunni í vizku . . . Hann snerist á hæli, kom auga á Stellu heima við bæ og kallaði til hennar. – Stella, komdu hérna og seztu upp á sláttuvélina.
– Hvað viltu ég geri, – ha, setjast upp á vélina, segirðu?
Hann tók hana léttilega í fangið. Ójá, eins og hún væri ennþá lítill angi, setti hana í ekilsætið og sagði henni, hvernig hún ætti að stjórna vélinni.
– Jesús minn, góður guð, sagði hún og hló.
Hann settist inn í jeppann og kallaði til hennar:
– Gerðu það, sem ég sagði þér, og hreint ekkert annað.
– Ég geri það, ef ég dett ekki af baki! hrópaði hún.
Galdraverkið fór af stað. Barði horfði á aðfarirnar með hressilegu glotti.
– Pabbi . . . pabbi, það er hægt, það gengur! hrópaði Stella.
– Hvað annað, stelpa? hrópaði hann á móti og fór nýjan hring með prýðis árangri. Hafði strax vitað, hvað hann var að gera, hafði undirbúið allt af mestu kostgæfni. Sko, grasið greiddist mjúklega af ljánum. Enn sneri Jónatan jeppanum. Hann ók fram hjá Barða og sagði hlæjandi rómi:
– Þarna sérðu, jeppi og hestasláttuvél geta átt saman fullkomna hjónasælu.
Barði hrópaði ekki með föður sínum, lét nægja að veifa hendi í áttina til hans – kannski í viðurkenningarskyni.
– Þú ert alveg stórkostlegur, pabbi minn, hrópaði Stella. – Barði bróðir sér ekki roð við þér.
– Svona, gleymdu ekki því, sem þú ert að gera, sagði faðirinn og gleymdi sér sjálfur við að horfa á dótturina. Hún var grönn eins og grasið og sveigðist eins og grasið . . . Og á hverju balli, – þetta líka dansfíflið var hún – eins og hann. Svo kunni hún undir eins að stjórna vélum – alveg eins og hann. Og Agnes, – nú kom hún með hrífuna sína, horfði brosglöð á sláttuvélina og sagði:
– :Þetta er nú meiri skellinaðran!
Í aðalsíðu