Bókaútgáfan Litbrá 1982
Fyrsti kapítuli
1
Jóhannes –Dag nokkurn, að loknum göngum og réttum, þóttist hann sjá einhvern skugga hvíla yfir föður sínum. Það var skuggi sem var kyrr en fór ekki burt. Þessi skuggi kallaði fram í hugskotið frýjuorð, sem hann heyrði ekki ósjaldan af vörum þeirra, er bjuggu í lágsveitinni, Fjarðardalnum:
– Hvað ætlið þið feðgar að lafa lengi þarna efra, í Skriðdal? Þaðan eru allir flúnir, nema þið og Jón á Felli. Það er annað með hann, sem býr í dalsmynninu, en ykkur sem hokrið innst í þessum afkima. Tími til kominn að þið flytjið til okkar. Þá eigið þið stutt í Fjörðinn. Þá má hvenær sem er taka strikið alla leið suður. Og þar leysast vandkvæðin á svipstundu.
Jóhannes leiddi þetta skraf hjá sér. Hann taldi víst að enginn hlypi að heiman að gamni sínu. En þessar raddir voru nú háværari með mönnum en oftast áður. Og skugginn, þessi skuggi, sem hann þóttist sjá hvíla yfir föður sínum –, vonandi var hann ekki annað en missýn.
Helgi, faðir hans, var á förum í verið. Það hafði heldur aukist síðustu árin að hann væri langtímum að heiman, eða síðan Jóhannes komst til manns og gat sinnt öllum karlmannsstörfum heima fyrir. Honum var það vel kunnugt að faðir hans var eftirsóttur í skipsrúm í Firðinum, og að hann hafði oft mikið upp. Og hann vissi líka vel, að hann hafði mikinn hug á að bæta jörðina og byggja upp fjárhúsin, sem voru því nær að hruni komin. Búið var heldur lítið: Tvær kýr, tveir áburðarhestar og sextíu ær, loðnar og lembdar. Þetta var fallegt fé og hvítt á lagðinn. Það voru hreinlegustu og státnustu kindur, sem Jóhannes þóttist nokkru sinni hafa augum litið. Það mátti mikið leggja á sig fyrir slíkan fjárstofn. Og engan vissi hann sýna kindunum sínum meiri umönnun en föður sinn.
Og nú var komið fararsnið á föður hans. Það fór raunar ekki framhjá neinum á bænum. Systur hans, Helga og Jóna, þær voru nýfermdar og kunnu ekki að dyljast. Nú voru þær blátt áfram eins og á verði. Og þó sögðu þær flest, sem í hugann kom. Og oftar en ekki heyrði Jóhannes þær hafa orð á því við föður sinn, hvort hann væri á förum, hvort hann færi núna?
Faðir þeirra svaraði oftast fáu til, og stundum lét hann sér nægja með að kíma smálega. En eitt sinn heyrði Jóhannes Helgu segja við systur sína í orðastað föður síns, og í hans áheyrn:
– Þú veist það vel, Jóna, að hann pabbi er á förum í verið.
Jóna starði á Helgu og næstum hvíslaði:
– Kannski verður hann farinn áður en við vöknum í fyrramálið.
Helga starði á móti. Hún þagði drykklanga stund, svo sagði hún og hálf styggðist við:
– Þú ert bara að reyna að hræða mig. En ég er ekkert hrædd við það, sem þú ert að segja.
Nú sprakk blaðran, þær hlógu báðar glaðlega og faðir þeirra hló með þeim.
Það heyrðist sjaldan nokkuð til Jóns afa, hann var fyrir nokkru síðan orðinn fastur við rúmið, en nú sagði hann þessi sömu orð upp aftur og aftur:
– Einu sinni var ég ungur og fór í verið.
– Þú ert ekki lítið opinmynntur núna, sagði Helga amma, kvað fast að orðunum og bætti við: – Hann á víst ekki langt að sækja sjósýkina, hann sonur okkar . . . Gamla konan greip heldur hastarlega til prjónanna sinna, en allt í einu lagði hún þá í kjöltu sér, leit fast á son sinn og sagði með meiri skapþunga en hennar var vandi: – Ég var nú að láta mér detta í hug, að þú færir ekkert að heiman fyrr en hún Huppa er borin.
Jóhannesi þótti sem faðir sinn kæmi af fjöllum þegar hann sagði:
– Huppa segirðu, það hafa aldrei verið nein vandræði með hana Huppu . . . Við þessi orð gekk hann hratt á dyr.
Gamla konan grúfði sig yfir prjónana sína, gneyp á svip, en allt í einu sagði hún í kvörtunartón og án þess að líta upp:
– Var kannski einhver að minnast á hana Huppu mína?
– Við vonum allt það besta með hana Huppu, þegar þar að kemur.
Jóhannes leit upp við þessi orð. Það var móðir hans sem mælti þau. Helga gamla varð jafnan glaðari á svip við það eitt að Signý yrti á hana. Þannig varð það líka að þessu sinni . . . Og næsta morgun fór Helgi bóndi í verið.
2
Fyrstu haustdægrin liðu hjá í ljúfri önn. Jóhannes reiddi heim á áburðarhestinum síðasta heyfeng sumarsins. Hestarnir voru orðnir gamlir og slitnir. Hann fór vel að þeim og leyfði þeim að fara lestarganginn . . . Fénaðurinn dreifðist víða um úthagana í dalnum, þarna var ekki þrengslunum fyrir að fara síðan bæirnir eyddust af mannfólki og fénaði. Jóhannes vissi jafnan hvað það hélt sig hverju sinni –, og taldi ekki eftir sporin við að halda því til haga.
Einn síðdaginn skipti jafn snögglega um svip yfir landinu og hendi væri veifað. Það brast á með glórulausa norðanhríð og skefldi yfir graslendið sem á svipstundu. Jóhannes sýndi ekki af sér neitt hik. Hann var fljótur að hafa kindurnar að sér og koma þeim í hús. Þegar hann leit yfir hópinn í fjárhúsinu, sá hann strax að tvær þeirra vantaði. Hann hafði grunað þetta um leið og hann byrgði féð inni. Nú flaug honum í hug að fara til móður sinnar og leita fregna hjá henni um það hvar hann ætti helst að svipast um eftir þeim. Slíkt hafði hann oft gert, og ekki ósjaldan fengið leiðsögn hjá henni, hvað þetta snerti. En að undanförnu hafði hann fengið hugboð um sitt hvað, og þannig var það að þessu sinni. Það var sem hann fyndi slóð kindanna í blindhríðinni; þær voru í djúpu gili í fjallinu. Þarna voru háir salir huldunnar. Hann hafði ekki ósjaldan séð inn í dýrðarheima huldufólksins, einkum þó á meðan hann var drengur að árum. Nú var þarna ekkert að sjá nema nær því hrufulaust bergið, gráhvítt af hríðarkófinu. En í því hann ætlaði að víkja sér frá berginu með kindurnar, heyrði hann sem kveðið væri til hans úr hamrinum:
Láttu ekkiJóhannes hafði ekki fyrr lagt vísuna á minnið en honum varð hugsað til móður sinnar. Hann braust með kindurnar heim í fjárhúsin. Svo var sem athygli hans glaðvaknaði á ný þegar hann hafði byrgt aftur húsin:
ljós þitt daprast
ungur sveinn –
þótt myrkrið
sæki þig heim
og hjúpi þig
voðum sínum.
Láttu ekki
ljós þitt daprast.
Gættu þess
á dimmu dægri
að þú ekki
steytir fót þinn
við steini.
Ljós í fjósinu.
Hvað kom til? Það var orðið það áliðið kvölds að móðir hans ætti að hafa lokið mjöltum. En ætli hún Huppa sé ekki borin?
Þarna var ekki vandi fyrir hann að geta sér rétt til um hlutina. Amma hans og systur komu á móti honum fram í fjósdyrnar að segja honum tíðindin. Já, Huppa var borin . . . Hún var enn að sleikja kálfinn sinn, allra fallegasta kvígukálf. En hvar var móðir hans. Jóhannes furðaði sig á að sjá ekki móður sína í fjósinu þegar svona stóð á. Hún hafði ekki áður látið sig vanta undir slíkum kringumstæðum. Þegar enginn minntist á hana, varð honum á að spyrja ósköp kjánalega:
– Hvar er mamma?
Hann fékk ekkert svar fyrr en hann hafði spurt hins sama þrisvar, en þá sagði amma hans hálfvegis utan við sig af gleði vegna nýfædda kálfsins:
– Ég hafði ekki brjóst í mér til að vekja hana.
Og Helga systir hans sagði í sama tón og amma:
– Hún mamma fékk aðsvip þegar hún ætlaði að fara í fjósið, svona eins og hún fær stundum, en þá kemur henni best að sofa sem mest. Og hún sofnaði um leið og hún lagði höfuðið á koddann.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem móðir þeirra fékk aðsvif, slíkt hafði ágerst nokkuð upp á síðkastið, en ekki virst hafa nein alvarleg eftirköst. Jóhannes sagði eins og áður:
– Veit mamma þá ekkert um kálfinn?
Jóna systir hrópaði glaðlegum rómi:
– Ójú, við Helga hlupum strax inn til mömmu og sögðum henni að Huppa væri borin.
Nú brosti Jóhannes glaðlega. Hann hefði sjálfur viljað verða fyrstur til að flytja móður sinni tíðindin úr fjósinu. Hann dvaldist þar smástund eftir að amma hans og systur voru farnar til bæjar. Þegar hann svo lagðist til svefns mundi hann ekki eftir öðru frekar en nýfædda kálfinum. Honum þótti ákaflega skemmtilegt að hugsa um hann . . . Það var tekið að skíma á glugga þegar Jóhannes vaknaði við óvænt hljóð. Amma hans sat við rúm hans og grét með sáru kjökurhljóði. Honum varð það hverft við að hann átti örðugt með mál, en loks fékk hann þó sagt:
– Amma, hvað hefur komið fyrir?
Gamla konan lét hallast upp að brjósti hans, og nú brutust orðin út með tárunum:
– Það er blessað ljósið hún móðir þín, hún er dáin. Hún varð bráðkvödd í svefni.
Jóhannes –, nei, nei, nú átti hann engin orð, og kannski enga hugsun heldur. Í fyrstu vissi hann ekki fyllilega hvar hann var staddur eða hvernig hann fann til . . . Amma hans leiddi hann eins og barn sér við hönd inn í hjónaherbergið. Hann fann undireins, að móðir hans var ekki þarna. Hún var farin burt. Systur hans, þær voru þarna úrvinda af harmi og þreytu, og afi hans, hann var þarna líka, en hafði ekki ennþá getað áttað sig á því sem gerst hafði. Og hver vissi í raun og veru hvað gerst hafði? Hvernig var unnt að skynja það, í allri sinni nekt, að móðir hans væri dáin?
Láttu ekkiljós þitt daprast . . .
Já, aftur heyrði hann vísuna, sem kveðin var til hans úr hamrinum. Hann hafði um stund legið fyrir líkt og milli heims og helju. En söngurinn úr hamrinum bjó honum vökuhug. Hann stóð á fætur og gekk um gólf hiklausum skrefum. Hreyfingar hans og viðbrögð sýndu glögglega að hann ætlaðist eitthvað sérstakt fyrir. Hann fann að systur hans horfðu á hann með nýkveikta von í svipnum og amma hans gaf honum leynið auga, líkt og hana grunaði að nú stæði eitthvað sérstakt til, sem ekki ætti erindi við dauðann. Hún var aðgerðarlaus þessa stundina, en þegar hann sagði ekkert drykklanga stund, fékk hún ekki orða bundist og nauðaði:
– Það er mikið sem skaparinn leggur á suma, að þurfa að horfa upp á allt þetta heimilisböl og geta ekkert orðið að liði.
Jóhannesi varð litið á hrímaðar gluggarúðurnar og sagði eins og við sjálfan sig:
– Það má nú kannski skreppa bæjarleið þótt smávegis gusti á glugga.
Amma hans skáskaut augunum til gluggans og hélt áfram í sama mæðutóninum:
– Mikið helg ég að það sé hægt að fara eitthvað í þessari hríð, sem er svo svört að ekki sér handa skil. Ójá, það leggst flest á eitt þegar ógæfan dynur yfir.
– Veðrið er ekki svo slæmt, að ég hafi það ekki af hérna fram í dalsmynnið til hans Jón á Felli, sagði Jóhannes ákveðinn í máli. – Ég tal um það við hann, hvað helst sé nú til ráða fyrir okkur úr því sem komið er.
– Já, en kemurðu ekki aftur fyrir kvöldið? sögðu systur hans svo til samtímis.
Gamla konan leit með föstu tilliti á þær báðar og sagði með skerpu í rómnum:
– Verið ekki að því arna. Bróðir ykkar er einfær um að ráða sjálfur sínum ferðum, og hann mun nú gera eins fljóta ferð og hann megnar.
Jóhannes gekk hratt um gólf, en ekkert sagði hann. Þetta minnti á föður hans þegar eitthvað stóð til. Systurnar höfðu ekki af honum augun, og Jóna sagði:
– Já, já, þú ferð til Jóns á Felli. Þú varst líka hjá honum tímakorn í vor – á traktornum.
3
Jóhannes var fljótur að ferðbúast og gekk rösklega úr hlaði. Hann var því vanastur að fara flestra sinna ferða á tveimur jafnfljótum, enda enga hesta að hafa heima nema áburðarhestana. Hríðin var glórulaus þessa stundina, og orðið þungt fyrir fæti. Göngumaðurinn átti á veðrastrenginn að sækja og gerði ekki betur en að ráða sér í mestu sviptibyljunum. Loksins birti ögn til –,og þarna var Hamarskotið steinsnart framundan. Jóhannes staldraði í spori. Hann hafði haldið réttri átt þrátt fyrir dimmviðrið og veðurofsann. Og undir eins var hann aftur farinn að brjótast í móti veðrinu. Svo snarstansaði hann, þegar hann kom á móts við bæjardyrnar. Hann sá þar bregða fyrir í ljósflökti ófríðu en vingjarnlegu mannsandliti – og hann hrópaði:
– Þorkell, aldrei hef ég verið eins feginn að sjá nokkurn mann og þig núna . . . Jóhannes heyktist við af skerandi sársauka fyrir brjóstinu, því nú sást ekkert lífsmark í dyrunum lengur. Sá, sem þar hafði brugðið fyrir sjónir hans, hafði orðið úti í stórhríð hér í túnfætinum fyrir tveim árum síðan. Þorkell var orðinn gamall og fótfúinn, en betri heimilisvin en hann, hafði fólkið á Skriðu ekki átt um dagana. Og nú hafði hann áreiðanlega viljað verða Jóhannesi að liði, hefði hann sjálfur mátt ráða.
Nú varð það Jóhannesi hvað mestur styrkur að hugsa um móður sína. Hann hafði trúað henni einni fyrir því, sem hann sá og heyrði, og óvenjulegt og dulúðugt mátti teljast. Hún hafði farið um það mildum orðum, eins og allt annað sem hann varðaði.
Við þessar hugsanir birti í hugskotinu. Og brátt bálaði upp ljós skammt framundan. Það var ljósið í Fellsbænum. Og ekki hafði hann margt talað við Jón á Felli og konu hans, þegar hann komst að raun um það, að þau hjónin vildu verða honum innan handar í örðugleikum hans, svo sem þau máttu. En einhvern veginn fannst honum þó, sem hann væri rétt að byrja þetta ferðalag og lítill endir fengist á það í bráð. Hugboð hans reyndist rétt. Ekkert lát virtist á veðurógninni. Jóhannes svaf af nóttina á Felli, í þeirri von að heldur sljákkaði með morgninum. Sú von brást. Um dagmál var fárviðri. Jóhannes fór í peningshúsin með Jóni bónda og piltum hans, þurftu þeir að sæta færis til að komast þetta, og var þó hvergi langt að fara. Þennan dag var ekkert lát á veðurofsanum. Og enn varð Jóhannes að gera sér að góðu að gista aðra nótt á Felli. En í morgunsárið næsta dag, tók bóndi á gesti sínum, bað hann upp standa hið bráðasta og búast til heimferðarinnar; nú væri dottið á með dúnalogn, ofankoman væri þó ennþá söm við sig, en óvíst væri hversu lengi þeir byggju við lognið.
Ekki þurfti að leggja hart að Jóhannesi til fararinnar. Jón hafði látið leggja á þrjá hesta. Þeir stóðu ferðbúnir á hlaðinu. Ein af vinnukonum Jóns slóst í förina með þeim, roskin kona, Dómhildur að nafni. Hún átti að vera Jóhannesi til halds og trausts heima fyrir um sinn, annars mundi faðir hans ráða fram út vandkvæðum heimilisins eftir bestu getu, en hans var von heim hið bráðasta. Jón bóndi hafði náð tali af honum í gegnum símann, skömmu áður en lagt var upp áleiðis heim að Skriðu.
Stórar snjóstjörnur sprungu í sífellu fyrir sjónum Jóhannesar og byrgðu honum alla útsýn. Hann vissi þó ávallt hvar hann var staddur. Undraðist hann mest þrótt og þol hestanna og hversu hratt þá bar yfir í fannferginu. Sjálfum fannst honum hann vera kominn í hlé við öll veður.
Þessi dýrð stóð skamma stund. Aðkoman heima á Skriðu var með nokkuð öðrum hætti en hann hafði búist við.
Eldurinn var dauður.
Þetta gerðist í gærkvöldi. Þá var orðið eldsneytislaust í bænum. Systurnar höfðu ekki árætt að brjótast í eldiviðarkofann. Þær höfðu líka búist við bróður sínum heim þá og þegar. Ekkert af heimilisfólkinu hafði fylgt fötum síðan eldurinn dó, en það hafði reynt að halda á sér hita í rúmunum. Þegar svo hlýnaði í bænum á ný, og búið var að mjólka og hygla skepnunum, þá fóru þær Helga gamla og systurnar á fætur, og virtist þeim ekki hafa orðið meint af völdum kuldans. Nú, gamli Jón kvartaði ekki heldur, en það fór ekki fram hjá Jóhannesi, að hann var á einhvern hátt ver haldinn en venjulega.
Jóhannes tók þetta nærri sér og fleira stríddi á hugann – , já, Dómhildur. Sjálfur þekkti hann sama og ekkert til hennar, nema helst af afspurn. Hún var langt að rekin, og orðin nokkuð roskin þegar hún lofaðist ungum og gjörfulegum manni. Þau höfðu eignast telpu sem Unnur hét. Lítið hafði Dómhildur verið samvistum við dóttur sína, síðustu árin, þar sem Unnur hafði átt við heilsuleysi að stríða. Hún hafði dvalist í sjúkrahúsum, bæði í Firðinum og fyrir sunnan. En það var af Dómhildi að segja, að eftir stutt kynni við mannsefnið brá hann heitorði við hana og gekk að eiga mun yngri stúlku. Litlu seinna lést hann snögglega af innantökum. Þá gaus upp sá kvittur, að Dómhildur hefði byrlað honum einhverja ólyfjan, sem átti að hafa leitt hann til dauða. Ekki var réttað í málinu, þar sem enginn fótur fannst fyrir þessum fáheyrða rógburði. Dómhildur hafði mikið verið á faraldsfæti á sínum yngri árum. Hún hafði reynst vel sem grasalæknir og þótt nærfærin yfirsetukona. En eftir mannslátið settist hún að mestu um kyrrt og þótti lítt gefin fyrir að blanda geði við annað fólk . . . Jóhannes hafði ekkert hugsað um þessar sögusagnir fyrr en nú. Að vonum neitaði hann að trúa slíkum voða áburði. En við þessa hugsun sett að honum kvíða. Og eitthvað þótti honum Dómhildur bera í svip sínum, sem honum féll ekki í geð. Hann vissi ekki hvað það var og hann reyndi að hugsa sem minnst um það.
Nokkru fyrir háttumál hélt Jón á Felli heimleiðis og hafði nú þrjá til reiðar. Jóhannes sat smástund hjá afa sínum, og eins og venja hans var hélt hann drykklanga stund um hönd hans. Brátt sagði gamli maðurinn sínum hlýja en brothætta rómi:
– Nú er kominn ylur í mig, nú líður mér vel . . . Eftir smástund var hann fallinn í væran blund.
Jóhannes hafði ekki komist hjá að veita því athygli síðan hann var drengur, að bæði menn og málleysingjar, sem á einhvern hátt voru vanheilir, sóttust eftir návist hans. Og oftar en ekki hafði sjúkt fólk kveðið sem svo að orði við hann:
– Það er ósköp gott að hafa þig nálægt sér, þá er eins og manni létti heldur.
Jóhannes mundi yfirleitt ekki eftir þessu. Hann mundi það samt mjög vel núna, þar sem hann sat hjá afa sínum, sem var sofnaður og laus við öll kuldaónotin.
Eftir stund var Jóhannes lagstur fyrir í rúminu sínu og einmitt nú, þegar hann gat varpað frá sér öllum skyldum um sinn, var honum móðurmissirinn sárbitrari en nokkru sinni áður. Svo var hann, á einhvern óútskýranlegan hátt, kominn eitthvað langt, langt burt. Eitthvað svipað hafði hann reynt stundum áður. Hann var þó ennþá í rúmi sínu, en án þess hann fyndi sig bundinn við það. Hann var hér og hann var ekki hér. Eitthvert glaðaljós skein honum að innan, og í þessu ljósi sá hann móður sína. Allt í einu sat hún hjá honum og lagði hönd sína á brjóst hans. Snerting hennar, bros hennar, kyrrði sorg hans og kvíða. Hún sagði:
– Vertu ekki dapur, láttu ekki hugfallast.
– Nei, mamma, ekki fyrst þú ert komin til mín. Nú veit ég að þú hefur aldrei farið burt.
Hún hélt um báðar hendur hans og sagði:
– Þú hefur líknarhendur. Ég sagði þér þetta, þegar við fórum í fyrsta sinn saman á grasafjall.
– Ég er víst búinn að gleyma þessu, sagði hann. – Það er svo langt síðan við fórum fyrst saman á grasafjall.
Hún sagði:
– Gættu vel handa þinna, sonur minn. Með þeim áttu eftir að veita mörgum líkn og hjálp . . . Hún laut að honum og snart vanga hans. Síðan stóð hún á fætur og hvarf gegnum vegginn gegnt rúminu hans. Hann vissi, að hún var að vitja telpnanna sinna. Við þessa hugsun hvarf hann inn í djúpan draumlausan svefn. Hann vaknaði ekki af sjálfsdáðum um morguninn. Dómhildur vakti hann. Hún tók báðar hendur hans í sínar, hægt en fumlaust, og stórgert andlit hennar mildaðist af innri birtu, þegar hún sagði:
– Þú hefur líknarhendur, Jóhannes.
Hann furðaði sig á orðum hennar og sagði:
– Móðir mín mælti þannig til mín rétt í þessu. En hvaðan hefur þú þetta, Dómhildur?
Hún sleppti höndum hans jafn fumlaust og hún hafði gripið um þær, andlit hennar lokaðist og hún varð sem öskugrá á vangann.
– Um þetta er þarflaust að fjölyrða, en nú mun tími til kominn að sinna skepnunum . . . Við þessi orð reis Dómhildur á fætur og hvarf hljóðlaust á braut.