Bókaútgáfan Litbrá 1982
Fyrsti kapítuli
4
Jóhannes hafði ekki fyrr kastað fyrir kýrnar þennan morgun, en hann dreif féð úr húsunum og lét það fara sem það vildi. Það gekk á með éljum, en birti vel upp á milli. Féð hélt sig til hlés við gjóluna og átti auðvelt með að ná í góðgresið undir fannbreiðunni. Hann þyrfti ekki að standa yfir því lengur en hann kærði sig um, því ekki færi það að rása neitt núna. Hér gæti hann gengið að því vísu hvenær sem væri, ef hann þekkti það rétt. Eitthvert glaðaljós var enn yfir huga hans frá samfundunum við móðurina. Það sem hún sagði við hann um hendur hans, kom honum ekki beinlínis á óvart, þó vakti það með honum smávegis kvíðakennd, og þá helst vegna þess að Dómhildur skyldi vekja hann með sömu orðunum og móðir hans hafði mælt til hans. Þetta var eitthvað, sem hann réði ekki við, og hann gaf það alveg frá sér að hugsa frekar um það.Systurnar og amma hans voru sestar að morgunverði þegar hann skilaði sér loks til bæjar. Þrátt fyrir tregan í svip telpnanna, þóttist hann sjá þar eitthvað af því glaðaljósi, sem móðir hans hafði miðlað honum, þegar hann var lagstur til svefns í gærkveldi. Hann efaðist ekki um það eitt andartak, að henni hefði auðnast að færa þeim einhverja huggun, sem ekki yrði frá þeim tekin.
Dómhildur leit hlýlega til hans þegar hann settist að matborðinu, en hún spurði einskis. Hann neytti matarins í þögn. Það var þó engin þögn í kringum hann. Dómhildur, systur hans og amma virtust hafa nóg að segja hver við aðra og kannski var ekki minnst skrafað um nýbæruna og kálfinn. Dómhildur virtist jafnan hafa réttu orðin á hraðbergi um hvað eina sem talað var. Nei, hann lagði ekki orð í belg. En honum þótti þetta skraf betra en ekki.
Dagurinn leið tíðindalaust, en að loknum kvöldmálum þótti Jóhannesi sem þung þögn ríkti í eldhúsinu. Þau voru þarna ein, hann og Dómhildur. Hann horfði í hug sér, en fann þar ekkert sérstakt. Hann leit snöggt til Dómhildar, þar sem hún sat á eldhúsbekknum með prjónana sína. Hún var ferkar lágvaxin og breið á bolinn; breið og þung – og oftast með hálflukt augun. Allt í einu stóð hann snögglega á fætur og heyrði sjálfan sig segja heldur kuldalegum rómi:
– Ég þakka fyrir matinn og ef það er ekkert sérstakt sem ég get gert, þá ætla ég að fara að sofa.
– Já, hvíldu þig bara, þú ert hvíldarinnar þurfi, sagði hún án þess að líta upp.
Það var eitthvað í raddhreimnum, sem kom óþægilega við hann. Hann starði á hana, bærði varirnar í þögn og heyrði sjálfan sig segja hið innra með sér:
– Dómhildur, hefur þú drepið mann?
Hann flýtti sér út og lagði hurðina fast að stöfum. Hún hlaut að taka eftir því hversu hann flýtti sér og hvað hann var flumbrulegur. En hann hafði ekkert sagt upphátt; aðeins hugsað þessar voðalegu hugsanir. En strax og hann var kominn í rúmið hét hann því með sjálfum sér, að hér skyldi verða breyting á til hins betra. Hann yrði að verða sáttur við þessa konu, sem nú stóð honum og heimilinu svo nærri, og var að líkindum öll af vilja gerð til að gera sitt besta . . . Þannig smákyrrði yfir huga hans, svo svaf hann af nóttina í einum dúr. Nokkuð ókyrrðist hann aftur þegar hann kom á fætur um morguninn. Hann vissi ekki hvers vegna. Honum þótti sem hann yrði að flýta sér við öll verk, en ekkert gengi eða ræki fyrir honum. Kannski skildi hann þetta fyrst nokkru eftir hádegið. Það glamraði í diskum. Dómhildur var að þvo upp eftir matinn. Systurnar og gamla konan voru nýfarnar inn til sín. Nú þóttist hann finna að eitthvað ósagt lægi í loftinu milli hans og hennar. Hann vissi ekki hvort hann kærði sig um að heyra það. Samt dokaði hann við. Hann þurfti ekki lengi að bíða. Hún sagði:
– Það hefur heldur greiðst úr éljunum, og þú ættir nú að ganga hér út með hlíðinni og gæta að hvort faðir þinn er ekki að koma.
– Hann er víst einfær um að skila sér heim ef hann er á ferðinni, ansaði Jóhannes heldur treglega.
– Ójá, en það gæti nú samt sem áður staðið svo á að honum þætti betra en ekki að sjá þig.
Hann kinkaði ósjálfrátt kolli við þessum orðum. Allt í einu þótti honum ekki ósennilegt, að Dómhildur hefði þarna rétt fyrir sér, hvernig svo sem í því lá. Hann sagði svo lágum rómi að hann heyrði vart til sjálfs sín:
– Má vera að svo sér sem þú segir, Dómhildur . . . Að vörmu spori var hann genginn úr garði. Himinninn var hrannaður þungum svörtum éljaskýjum. Snjórinn marraði undir fæti líkt og um hávetur væri. Honum sóttist gangan greiðlega. Hann var líka að ganga til móts við föður sinn. Fundum þeirra hlaut að bera saman hið bráðasta. Kannski var það aðeins hæðardragið þarna framundan, sem skildi á milli þeirra . . . Hann hljóp við fót upp á hæðarbunguna, en þaðan virtist ekkert kvikt að sjá svo langt sem augað eygði. Var nú ekki mál að láta af þessu ferðalagi? Var hann ekki einasta að ana út í bláinn? Nei, hann hirti ekki um þessar raddir. Vindurinn ýlfraði og sleit framan í hann snjóflygsurnar. En skyndilega þótti honum sem hann hlypi út úr svörtu élinu og inn í heiðríkju sumarsins. Þarna skammt framundan, þar sá hann nú einhverja hreyfingu –, og í næstu andrá sá hann að þarna var faðir hans. Þegar hann aðgætti nánar komst hann að raun um að faðir hans hafði orðið fyrir óhappi. Hann var með hesteyki; hafði misst hestinn og sleðann niður í jarðfall og virtist eiga í örðugleikum með að koma öllu í samt lag aftur. Hann hljóp nokkur skref í móti syni sínum, greip um báðar axlir hans, hallaði honum stundarkorn í þögn upp að brjósti sér og sagði síðan:
– Þér hefur komið í hug, Jói minn, að ég þyrfti á hjálp þinni að halda?
– Ónei, en Dómhildur sagði við mig, að það væri kannski rétt að ég skryppi smáspöl og gætti að hvort ég sæi ekki til þín.
Faðir hans brosti smálega og sagði:
– Það var svartaél þegar ég missti taumhaldið á hestinum og því fór sem fór.
Þeir höfðu nóg að starfa um sinn við að koma hestinum og sleðanum upp úr jarðfallinu. Hvorugur þeirra sagði orð um það, sem faðir hans flutti heim að þessu sinni, en það var líkkista. Brátt gátu þeir haldið leiðar sinnar. Það var skollið á með grimmdarél.
Helgi bóndi var vart fyrr genginn undir dyratréð á bæ sínum, en Jóhannes þóttist finna eitthvað í viðbrögðum hans, sem minnti á mann er gekk á ótryggum ís. Og skugginn –,ennþá sá hann þennan þunga skugga hvíla yfir honum, sem hann hafði fyrst orðið var við áður en faðir hans fót í verið.
Og honum þótti sem hann hefði aldrei virt hann fyrir sér fyrr en nú. Hann var grannur á vöxt, vel limaður og lipur á fæti. Jóhannes hafði oft óskað sér að líkjast honum bæði í sjón og raun. Slíkt yrði víst seint. Það gat nánast ekki ólíkari menn að ytra útliti en þá feðga. Jóhannes var stórvaxinn og samanrekinn og allur heldur klunnalegur, eða svo fannst honum þegar hann bar sig saman við föður sinn. Lengra fór Jóhannes ekki út í þennan samjöfnuð. En hann gleymdi ekki að minna sig á, að niður á Firði kepptust formenn um að fá föður hans í skipsrúm. Sjálfur hafði hann látið sér til hugar koma að ganga þarna í fótspor föður síns, og það áður en langir tímar liðu. Faðir hans var háseti á einum af Björnunum, Ásbirni, en Birnirnir voru fjórir talsins og aðeins nokkurra ára gamlir.
Næsta morgun var móðir hans kistulögð. Sorgin, hún var Jóhannesi mild en ekki stríðandi lengur. Og þannig fannst honum að móðir hans væri syrgð af sínum nánustu . . . Þennan dag tók að rigna. Og það rigndi öll ósköpin. Það fossaði, niðaði og söng. Og þannig streymdi regnið úr lofti allan þennan dag og þann næsta. Þannig var veðrið þegar móðirin var sungin úr garði –, og jörðin kom græn undan snjónum.
Jóhannes hélt ekki heimleiðis aftur að jarðarförinni lokinni. Hann fór niður í Fjörð að taka við hásetaplássi föður síns á Ásbirni, um stundarsakir að minnsta kosti. Faðir hans hafði að ýmsu að hyggja heima fyrir, sem ekki mátti láta reka á reiðanum. Jóhannes gat vart hugsað sér annað hlutskipti betra en sjómennskuna eins og nú var komið hans högum. Seinna hugsaði hann til þess, að hann hefði verið eins og víðsfjarri jarðarför móður sinnar, þar til í lokin, að kistan var hafin úr kirkju og borin til grafarinnar. Hann sá birtu yfir gröfinni, þótt dimma og drungi væru í lofti. Hann sá skínandi bjartan kross í myrkum skýjum himinsins.