Óskar Aðalsteinn

Fyrirburðir á skálmöld

Skáldsaga

 

 

Bókaútgáfan Litbrá 1982

Copyright ©1982
All rights reserved


Annar kapítuli

1


Hið ókomna –

Jóhannes hafði ekki stundað sjóinn lengi þegar hann fann til þess með vaxandi innri þrýstingi, að eitthvað biði hans í náinni framtíð, sem honum væri harla framandi og ókunnugt. Og allt átti þetta rætur sínar að rekja til þess, sem móðir hans hafði mælt til hans í draumsýninni. Þetta hugarástand gerði hann oftar en ekki eins og annars hugar og utanveltu í samskiptum við skipsfélaga sína. Þeir brostu gjarnan að honum og spurðu, hvar hann hefði hugann? Sitthvað fleira sögðu þeir við hann í þessum tón. Hann svaraði sjaldnast neinu til. Ónei, hann bara kímdi. Hvar hafði hann hugann? Það vissi hann ekki svo gjörla. En þrátt fyrir smáglettni af hendi félaga sinna fékk hann þá ekki upp á móti sér.

Hann komst fljótlega að raun um það, að hann þótti betri en enginn sem sjómaður. Það var alls ekki eins og hann væri að koma í skipsrúm í fyrsta sinn. Ókunnugleikinn var ekki fyrir hendi þar sem var hann og fljótandi fjölin.

Ásbjörn var útilegubátur og sótti á fjarlæg mið . . . Fiskur virtist nægur, en veður voru oft válynd, svo stundum urðu þeir frá að hverfa og leita vars. Þetta þótti erfið sjósókn. Jóhannesi fannst ekki að sér sverfa á sjónum. Á meðan svo horfði var óþarfi að reka upp rammakvein. En fljótlega bar á því að það jafnvægi, sem hann bjó við á sjónum, vildi bregðast honum í landlegum. Þá var engu líkara en að eitthvert ókunnugt fjandsamlegt afl hefði hann á valdi sínu. Þetta byrjaði hægt, en fór vaxandi eftir því sem frá leið. Honum þótti æ oftar sem hann væri tvær ólíkar persónur. Já, hann var þessi sjómaður sem æðraðist ekki. Þennan Jóhannes þóttist hann þekkja allvel og geta treyst honum. Svo varð hann líkt og allur annar maður þegar á land kom. Þá var sem hann ætti örðugt með að átta sig á sjálfum sér. Þá var flest orðið ótryggt og vá fyrir dyrum. Flestir skipsfélagar hans voru ungir menn og ókvæntir. Þær fáu stundir, sem þeir voru í landi, létu þeir sér fátt fyrir brjósti brenna, ef það mátti verða til að veita þeim tilbreytingu og skemmtan. Þó gekk Jóhannes þarna fljótlega feti framar en félagar hans svo ekki sé meira sagt. Eftir eina svallnóttina gátu félagarnir ekki á sér setið og sendu honum tóninn:

– Jóhannes, þú ert kræfari en við héldum. Við þóttumst vita að hálfvelgjan væri ekki þitt rétta eðli. En þetta tekur steininn úr. Þú drekkur vín eins og það sé vatn. Þú hleypir upp ballinu af engu tilefni. Þú gengur að mönnum og slærð þá niður fyrir engar sakir. Það var fyrir orð karlsins að löggan fór ekki með þig í grjótið. Við vorum fjórir um að koma þér um borð og áttum fullt í fangi með það.

Jóhannes kímdi góðlátlega að orðum þeirra en sagði fátt eða ekkert. Hann hafði áður heyrt slíkar sögusagnir af vörum þeirra og dró þær síður en svo í efa. Svo skeði það næst þegar þeir komu í heimahöfn eftir alllanga útivist, að hann var ófáanlegur til að taka þátt í gleðinni með þeim.

Hann var einn um borð og hugðist sofa úr sér eitthvert slen. Oftast var hann sofnaður um leið og hann lagði höfuðið á koddann, en nú sóttu á hann hugsanir, sem bjuggu honum andvöku. Ágústa á Hamri.

Ef hann hafði nokkru sinni gengið í björg og látið villa um fyrir sér, þá gerðist það nú nýskeð . . .

Framhald . . . ? –


Fyrirburðir á skálmöld – Annar kapítuli
Í aðalsíðu