Óskar Aðalsteinn Guðjónsson


Grjót og gróður


Skáldsaga



 

Prentstofan Ísrún
Ísafjörður, 1941
Copyright ©1941
All rights reserved

 


1.


Verkamaðurinn Þorlákur Þorláksson:

Hann stóð í löngum gangi og horfði á nokkra karla ýta á eftir þungum kolavögnum. Nú var komið undir kvöld, og hann hafði hímt hér í allan dag. Hvað annað? Hvar átti hann að taka peninga ? . . . Faðir hans, Þorlákur Kárason, hafði farið í sjóinn í haust. Sá maður hafði allt sitt líf sótt sjóinn, hafði frá blautu barnsbeini gutlað á sjónum. Hann hafði verið ósköp digur og svolalegur, síkátur og hlæjandi, heljarmenni að burðum – mesti víkingsforkur. En hann gat nú ekki lengur stritað fyrir fjölskyldu sinni. Það var Þorlákur yngri, elzti sonurinn, sem nú var húsfaðirinn. Það var hann, sem bar ábyrgð á fjölskyldunni; það var hann, sem átti að sjá henni fyrir lífsviðurværi.

Bjarmi frá ljóskeri féll á andlit Þorláks; það var stórgert, en magurt; þrjóska, blandin ódrepandi vilja, hafði mótazt í það með aldrinum. Þar var enginn mjúkur dráttur, ekkert draumlyndi. Líkami hans var langur og rýr, en það voru sterkar sinar í þessum skrokk, og maðurinn var dugandi við alla vinnu.

Þorlákur Þorláksson barði sér þarna í hálfrökkrinu í ganginum, barði sér öllum og stappaði niður í steinsteypugólfið.

– Ljótan að þurfa að standa svona uppá endann í fleiri klukkutíma. Hvað kemur til að karlósóminn vill ekki lofa mér að vinna í dag? O, hann er svo fjári kenjóttur; það hlaupa í hann þessar tiktúrur, að ganga svona framhjá mönnum, eins og þeir séu einhverjir hundar, virða þá ekki einu sinni svo mikils að tala við þá . . . En Þorlákur var nú ekki alveg á þeim buxunum að fara heim og liggja þar og drepast úr leiðindum. Hann hélt áfram að berja sér og stappa niður í steinsteypugólfið.

– Þorlákur !   var kallað utan úr ganginum.

– Ýttu þarna á eftir vagninum með honum Birni!

Og verkamaðurinn Þorlákur fór að ýta á eftir vagninum með Birni. Þeir voru lengi að ýta á eftir honum inn ganginn; svo var öðrum vögnum, fullfermdum af kolum, rennt til þeirra – og þannig áfram allan daginn.

Húsfaðirinn Þorlákur varð kófsveittur og kolsvartur frá hvirfli til ilja.

– O, það gerir nú ekki mikið til, sagði hann.

– Nú fær maður peninga, nú getur maður keypt mat. Og hann ýtti fastar og fastar. Með hverri hreyfingu lagði hann sig betur og betur inn í starfið. Vit hans fylltust af kolaryki. – Þetta er bara gott, sagði verkamaðurinn. Hann fann til djúprar ánægju og öryggis . . . Vinna og böðlast áfram – það var líf hans og hamingja.

Það var orðið dimmt. Ekkert heyrðist nema vagnaskröltið. Jú, einstaka sinnum kall – og einu sinni vein. Kolamál hafði fallið á verkamann og brotið handlegg hans. Svo var þögn. Dagsverkinu var lokið.

Það rigndi.

– O, þetta eru bara dropakríli, sagði Þorlákur. Hann herti ekki gönguna. Honum datt það bara ekki í hug. Þó var eins og það færi eitthvað kalt niður eftir bakinu á honum, já, eitthvað ískalt, sem eins og þrengdi sér inn í líkamann: Kuldi og vosbúð . . . Þorlákur var víst ekki mikið að hugsa um slíkt. Hann hafði fengið kolavinnu, og það var honum fyrir mestu. Aldrei hafði hann verið eins lánsamur með atvinnu og í vetur; hann hafði oftast eitthvert snap. Og þetta hafði allt saman gengið slysalaust hjá honum. Hann hafði alls ekki verið við því búinn, að taka að sér heimili. Tuttugu og tveggja ára, ekki var það hár aldur. Og hvað átti hann? Tvær sterkar hendur, vilja og áræði. Það var náttúrlega gott og blessað, ef atvinna var næg, en maður eins og Þorlákur Þorláksson, sem ekki hafði á öðru að byggja en hlaupavinnu, mátti alltaf eiga á hættu atvinnuleysið. Hann þurfti oftsinnis að neyta allra sinna krafta í baráttunni við þann vágest. Stundum varð hann að híma á vinnustöðvunum hálfa og heila dagana til að fá handtak, og oft mátti hann vera á þindarlausum hlaupum úr einum staðnum í annan. Hann hafði nóg að hugsa – nú. Það þýddi ekki lengur að spila fram á nætur eða horfa á stelpur:

– Þú getur fengið atvinnu hjá mér.

Hver talaði þessi gullfallegu orð?

Sjálfur þingmaðurinn, bæjarfulltrúinn og framkvæmdastjórinn Gestur Jónsson. En það var nú bara, þegar mest var að gera, að Gestur Jónsson hafði brúk fyrir Þorlák. Hann var sem sé ennþá svo ungur og óreyndur í pólitík.

Verkamaðurinn gekk inn á hliðargötu. Litlir timburkumbaldar og ömurlega ljót steinsteypuhús stóðu í óreglulegum röðum beggja megin götunnar.

Þögn.

Það rigndi mikið. Maðurinn var orðinn eins og kolsvart húgald. Hann beygði sig saman og bretti upp kápukragannn. Kolarykið féll í taumum regnvatnsins niðuru um líkama hans.

– Held það geri ekki mikið til, sagði hann.

– Vorið er að koma.

 


2.


 

Heimilið:

Tvö kjallaraherbergi; annað eldhús, hitt stofa og svefnherbergi í senn, og svo gangurinn, sem auk þess að vera vegur fólksins út og inn, var notaður sem geymsla.

Þorlákur fór úr mestu bleytunni fyrir framan; svo opnaði hann eldhúsdyrnar. Notaleg hitabylgja kom á móti honum og orsakaði viðkunnanlega hitaleiðingu um allan líkamann.

– Vatn, sagði hann og benti á systurina.

– Ha? sagði hún og reigði sig svolítið.

– Já, vatn, endurtók húsfaðirinn byrstur, – Sérðu ekki, að ég þarf að þvo mér? Þú, sem ekkert gerir nema föndra við sjálfa þig og skrækir upp með guðhrópum, ef þú einhvern tíma stingur hendi í kalt vatn, ég hélt þú sæir minni skít en þetta.

Systirin Ása Stína:

Hún situr við eldhúsborðið og saumaði. Hún var löngu búin að ganga í gegnum skóla og fermingu, löngu viðurkennd dama – svo anzi fiks, sagði fólkið. Hún var líka alltaf á böllum. Hún málaði á sér andlitið, málaði rauða bletti á kinnarnar, setti svartan lit í augnabrúnirnar, – og svo voru varirnar eldrauðar.

Systirin sagði ekki neitt, stóð bara á fætur, lét vatn í skál og dulu og sápuspil hjá skálinni.

Þorlákur nuddaði sig samvizkusamlega upp úr vatninu, loðið brjóstið, ávalar axlirnar, bakið, alla leið niður að þjóhnöppum. Þegar hann var búinn að þvo sig allan og strjúka, þá fór hann að tína í svanginn. Þarna hafði verið sett á borðið fyrir framan hann fleytifullur diskur af haframélsgraut, ódæmin öll af brauði og stór blóðmörskeppur . . . Húsfaðirinn borðaði hraustlega. Hver bitinn hvarf niður í hann á fætur öðrum, fjótt og ört, engu líkara en hann væri botnlaus.

– Meira, sagði Þorlákur og rétti tóman diskinn til systurinnar.

– Naumast, að þú ætlar að éta. Hún gaf honum meira.

– Kaffi, sagði Þorlákur.

– Þú ert frekja. Systirin sat kyrr.

– Svona, strax. Hann sýndi sig líklegan til að standa á fætur.

– Naumast að þú ert húsbóndi. Systirin hellti kaffi í bolla.

Húsfaðirinn fór inn fyrir. Hann var þreyttur. Hann ætlaði strax að fara að sofa.

 

Móðirin Solveig:

Hún lá í rúminu sínu. Hún var með barni. Hún var löngu farin að vænta sín. Það var mikil birta í andliti hennar. Þessi kona var alltaf svo hæg og róleg.

 

Valgerður, móðir Solveigar: Hún sat framan á rúminu sínu og potaði sokk. Hún var alla daga að pota sokk. Hún var áttrætt gamalmenni; andlitið var eins og uppblásið af þrota í holdinu, vinsta augað herpt saman; það var löngu hætt að sjá dagsins ljós, en með því hægra sá hún ennþá svolítið fram fyrir sig.

 

Bjarni bækill:

Hann var bara fimmtán ára umglingur, lítill og væskilslegur. Fimm ára barn hafði hann fengið berkla í vinstir handlegg; hann hafði þjáðst lengi, áður en vitjað var læknis. Svo hafði meinsemdin verið skorin burt, og þjáningarnar linaði, en handleggurinn hafði hætt að vaxa; hann var svo skelfing stuttur og holdgrannur, alveg eins og á barni. Það var birta í andliti þessa ungmennis, eins og í andliti móðurinnar. Í augum hans lifðu fallegir draumar. Þar sást líka þrá eftir fegurð. Hann átti mikið af fallegum blómum, sem hann hafði þurrkað og límt inn í bækur.

– Þú drepst bráðum. Þorlákur var argur.

– Nú? spurði yngri bróðirinn undrandi.

– Já, þú drepur þig á þessu grúski og iðjuleysi.

Bækillinn grúfði sig niður í bókina sína; hann gleymdi öllu öðru en bókinni og blómunum . . .Vala amma vappaði til hans. Stór og holdugur líkami hennar beygði sig yfir hann; svo strauk hún honum niður eftir bakinu.

– Dindillinn minn á að fara að sofa, hvíslaði hún.

Hann horfði á hana bláum, viðkvæmum augum.

– Bráðum, sagði hann svo inn í hægra eyrað á gömlu konunni . . . Valgerður var orðin mjög heyrnadauf.

Húsfaðirinn smeygði sér niður undir:

– Góða nótt, sagði hann. Svo fór hann að skera hrúta.

 


3.


 

– Ég fer héðan á morgun.

Það var systirin, Ása Stína, sem talaði þessi orð.

– Ha? Þorlákur Þorláksson gretti sig.

– Ég fer á morgun, sagði hún snúðugt.

– Og hvert? spurði Þorlákur.

– Í vist, svaraði hún og mélaði á sér andlitið.

– Þú í vist . . . Ha-ha-ha ! Bróðirinn hló.

Systirin stappaði niður í gólfið.

– Þú heldur víst, að ég sé ekkert. Ég skal bara segja þér það, að ég er svo mikið, að mér sæmir ekki að liggja hér lengur í þessum rottu- og pestarkjallara. Ó, það er svo hryllilegt, svo kalt og ópent hér. Það kom titringur í herðar henni. En allt í einu sneri hún upp á sig og horfði eins og úr órafjarlægð og með fyrirlitningarsvip á bróðurinn. – Ég verð hjá frú Olsen – stofustúlka. Hún var svo lengi að segja þetta síðasta orð.

– Þú ferð ekki fet – þangað. Það var skipun í rödd bróðurins.

– Því ekki? Það var kjökur, blandað hroka, í rödd systurinnar.

– Þú átt að hjálpa móður þinni; þú veizt víst, hvernig stendur á hjá henni? . . . Bróðirinn var kominn fram á mitt gólf. Hann pataði út í loftið með höndunum, og honum var mikið niðri fyrir. – Hryllilegt, segirðu, óvistlegt – þá er bara að sýna manndóm í sér, svo það verði ekki lengur hryllilegt eða óvistlegt.

Systirin fór í fússi í kápuna og ætlaði að rjúka á dyr.

Húsfaðirinn stóð fyrir dyrunum.

– Farðu! sagði hún og þreif í hann.

– O, ekkert liggur nú á, sagði bróðirinn.

– Ég skal aldrei, aldrei vera hér. Mér er sama, þótt þú standir þarna í alla nótt, margar nætur, já, þangað til þú dreptst. Ég skal aldrei, aldrei . . .

Ása Stína fór að gráta:

Solveig kom í dyrnar; hún hafði smeygt yfir sig víða, gráa , götótta kjólnum sínum.

– Hvað er að þér, Ása mín? spurði móðirin.

Ása Stína hætti að gráta. Hún talaði hratt og kjökrandi:

– Var ekki von að mér sárnaði, var það bara ekki eðlilegt, að ég yrði reið? Ég er bara svo hissa, að ég skyldi ekki fljúga á hann. Þessi asni þykist ætla að banna mér að fara í vist til frú Olsen.

– Svona talar ekki góð systir, sagði móðirin. Hún stóð á miðju gólfi, björt yfirlitum, en það var þreyta í svipnum, og það skein í bert í gegnum götin á kjólnum.

Systirin horfði rannsakandi á móðurina. Hún var nú alveg hætt að kjökra, en það var samt veikleiki í röddinni.

– Ég vil ekki vera fátæk; það er ræfilsháttur að vera fátækur; það er bara duglaust fólk, sem er fátækt. Ó, mamma, ef þú hefðir það bara á tilfinningunni, hvað það er yndislegt að eiga fín föt og vera í góðu húsi, – já, mamma, þá stæðir þú ekki hér.

Það var eitthvað voldugt í svip móðurinnar, eitthvað stórbrotið. Það var eins og lífsreynsla hennar kmi fram í svip hennar og fasi.

– Þú ert svo mikið barn, telpa mín, svo fákunnandi og leiðitöm, en þú mátt fara; ég reiðist þér ekki.

Þorlákur Þorláksson hafði staðið hreyfingarlaus við dyrnar, en nú vék hann frá þeim. Konan, sem hafði sagt síðustu orðin, var móðir hans, og það var bezt, að hún réði þessu.

Systirin fór aftur að núa framan í sig.


Grjót og gróður 4. – 5. – 6.
Til baka