4.
Nýtt líf.Það hafði vaknað þarna í kjallaraherberginu einn morguntíma.
Vala amma vappaði fram og aftur um herbergiskytruna. Hún bætti oft á eldinn. Það varð að vera heitt í veikindum.
Júlía Hansdóttir:
Hún hafði verið útveguð til að vinna heimilisstörfin, þar til Solveig færi að hressast.
Húsfaðirinn var stundum að horfa á kvenmanninn.
Hún var í meðallagi há, í bláröndóttum kjól, sem náði rétt niður fyrir hné, og mjóir fæturnir voru berir í skónum, og svo var bert langt niður á brjóst, og handleggirnir voru líka berir, hörundið hvítt, svo ungt og viðkvæmt. Augun voru dökk, hrein og róleg, hárið mikið og dökkjarpt. Höndin var óvenju smá og alltaf á ferðinni, en stúlkan fór samt hægt að öllu. Það var mýkt í fasi hennar. Hún talaði fátt, en var mjög viðfelldin og brosmild, hló aldrei – bara leið þetta áfram með hægð og stillingu.
Júlía hafði verið skrifuð Hansdóttir. Móðir hennar hafði mikið farið um borð í ókunn skip. Hún hafði fengið peninga fyrir að vera þar á næturnar, sagði fólkið.
Júlía Hansdóttir var að taka til kvöldveriðinn handa húsföðurnum. Hún sagði ekkert, hét bara áfram að taka til matinn. Svo fór hún að hræra í heitum grautnum, svo að hann brynni ekki við. Hún sneri sleifinni hægt og rólega og allaf með jöfnum hraða.
Þau töluðust ekkert við.
Svo kom nóttin, og það varð rökkur í kjallaranum.
Húsfaðirinn lagðist fyrir í öllum fötum; hann varð að sofa á gólfinu. Júlía svaf í rúminu hans; hún varð alltaf að fá að gista þar, sem hún vann, því hún var fátækur einstæðingur.
Júlía var byrjuð að hátta. Hún var lengi að afklæða sig. Hún fór fyrst úr kjólnum og lagði hann snyrtilega frá sér. Svo settist hún á rúmið og horfði um stund inn í rökkur hins hverfandi vetrar . . . Hún smeygði skónum hægt og hljóðlaust fram af fótum sér og ýtti þeim inn undir rúmið með berum fætinum. Svo sat hún kyrr.
Maðurinn horfði á hálfnakta stúlkuna í rökkrinu. Hún var víst mjög mjúk og gott að kúra hjá henni . . . Það fór titringur um hann allan. Hann varð hálf skömmustulegur. – Því að vera að skjálfa eins og aumingi, þó að maður sjái fáklæddan kvenmann? . . . Hann sneri sér til veggjar og dró andann djúpt. Honum kom þessi stúlka ekki við; það var strákslegt af honum að vera að glápa á hana. En áður en varði, var hann aftur farinn að horfa yfir til stúlkunnar. Hún var lögst út af. Hann hlustaði eftir andardrætti hennar, sem var hægur og jafn, eitthvað svo fróandi. Hann sofnaði við að hlusta á hann.
Áður hafði Þorláki alltaf leiðst að vera mikið heima við, en nú þótti honum það ekki svo bölvanlegt, – stúlkan skapaði honum einhverja óljósa gleði með nærveru sinni.
Júlía Hansdóttir skrapp oft fram í ganginn. Þorláki fannst henni stundum dveljast svo lengi þar. En það var kannske ekkert athugavert við það. Hún þurfti að ná þar í ýmislegt, og ekki svo fljótlegt að finna það í myrkrinu . . . Hún var núna frammi í ganginum og hafði skilið eftir opið á eftir sér. Hún hafði tekið með sér kolafötuna . . . Hann heyrði hana moka. Já, hún hamaðist við verkið, en svo varð allt í einu dauða þögn, – löng og djúp þögn.
– Hún er víst þreytt, hugsaði hann. – Ég ætla að bera kolin.
Þorlákur varð að þreifa fyrir sér í myrkrinu. Hann gekk hægum, jöfnum skrefum. Hann kom alveg að henni og gat rétt greint hana og hinar hægfara hreyfingar hennar.
– Ertu búin að moka í fötuna? spurði húsfaðirinn.
– Já, anzaði stúlkan.
– Það er bezt, að ég beri hana fyrir þig, sagði hann.
– Þú mátt það, anzaði hún. Svo sneri Júlía sér við og gekk nokkur skref.
Þorlákur greip um hönd hennar. Hann fann sig knúinn til að taka á þessari stúlku, og hann þrýsti henni fast upp að sér og kyssti hana. Hún lofaði honum að kyssa sig mikið, og þau voru bæði svo róleg.
– Ver ég vondur? spurði hann blátt áfram.
– Nei, anzaði stúlkan eðlilega.
Honum var kalt um kvöldið. Það var mikill dragsúgur í kjallaranum. Hún svaf vært í rúminu hans. – Ég þarf að fá mér konu, hugsaði hann. – Mömmu ætlar að heilsast seint . . . Auk þess var hún fyrir löngu farin að þreytast; hún hafði oft legið í hjartveiki. Það var sannarlega orðið tímabært að létta eitthvað á henni . . . Og svo: Var ekki stúlkan vel verki farin? Hafði hann ekki þrýst henni upp að sér og kysst hana? Hafði hún ekki látið að vilja hans, án mótþróa, án þess að segja eitt orð? Hafði hún ekki lagt mjúka handleggina sína yfir um hann – og bar hann ekki hlýju til hennar? – Var það ekki nóg?
Þorlákur hugsaði þetta ekki frekar. Hann svipti ofan af sér druslunum, læddist yfir til stúlkunnar og snart við henni. Hún opnaði augun, – varð ekkert undrandi, bara horfði á hann eins og vanalega.
– Það er hálfónotalegt á gólfinu, sagði hann. – Má ég koma til þín?
– Ef ég má alltaf vera hjá þér? anzaði einstæðingurinn.
– Já, svaraði húsfaðirinn og hvarf niður undir.
5.
Kona . . .
Já, það var komin ný kona á heimilið, og það var kærastan hans. Þorlákur ætlaði að gifta sig á sumardaginn fyrsta. Á sumardaginn fyrsta yrði hún lögmæt eiginkona hans. Þá yrði hann eiginmaður.
Verkamaðurinn hlakkaði alltaf til sumarsins, ekki vegna þess, að þá væri náttúran svo yndisleg og fögur og veðrið svo blítt, – onei, en þá var líf og fjör í vinnunni, stanzlaus vinna frá morgni til kvölds, heilar vikurnar og mánuðina út í gegn. Það var eitthvað annað en á veturna; snap, svona rétt að maður hafði eitthvað ofna í sig . . . En nú var vorið komið.
– Við giftum okkur á sumardaginn fyrsta, sagði húsfaðirinn.
– Já, sagði hún og brosti blítt framan í hann, bara svolitla stund. Hún brosti ekki lengi til hans í einu, en hún gerði það þess oftar.
Verkamaðurinn sagði bara meiningu sína; svo var það búið.
– Hvað finnst þér um hana? spurði hann móðurina.
– Hún er vinnusöm, svaraði móðirin.
– Já, hún er vinnusöm, hafði sonurinn upp eftir móður sinni, og það var ánægja í röddinni. – Við ætlum að gifta okkur á sumardaginn fyrsta . . . Þetta kom eins og í beinu áframhaldi af því, sem hann hafði fyrr sagt.
– Bara að það verði ykkur til hamingju?
Það var spurning í rödd móðurinnar.
Þorlákur efaðist ekki um það. Hann hafði sínar skoðanir á stúlkunni.
Dagarnir liðu. Og það voru ágætir dagar. Það var atvinna, nóg atvinna . . . Og á kvöldin, þegar húsfaðirinn var að borða, þá sagði hann:
– Meira.
Já, alveg eins og áður, og konuefnið kom með meira. Svo sagði hann:
– Kaffi.
Og Júlía færði honum nýlagað sterkt kaffi. Það var fyrirtaks kaffi. Hún reifst aldrei við hann eins og systirin. Júlía var svo hæg og rólynd.
Þorlákur var ekki forvitinn maður. Hann var heldur ekki að spyrja Júlíu, hvað hefði drifið á dagana. Honum kom það náttúrlega ekkert við. Hann hafði bara heyrt svona ýmislegt, en ekkert hlustað eftir því . . . Hvaða manneskja var eiginlega látin liggja óskemmd hjá garði slúðurkerlinga?
Hann sagði við konuefnið:
– Hér koma sjaldan ókunnugir.
– Ha? Júlía hafði ekki áttað sig á þessum óvæntu orðum.
– Já, mér var svona að detta í hug, hvort þú ættir ekki eitthvað af kunningjafólki.
– Ég hef aldrei átt vini, sagði konuefnið.
Þetta sagði hún, og þetta líkaði honum. Kunningjar – svoleiðis snuðrarar! Ætluðu einhverjir að halda því fram, að til væru sannir og algerlega hreinlyndir kunningjar? Það gat vel verið, en Þorlákur Þorláksson hafði bara ekki hitt fyrir slíka menn . . . Hvað kom heimili hans öðrum við? Var hann nokkurn tíma að hnýsast í hag annarra? . . .
Verkamaðurinn hugsaði áfram um kærustuna sína. Svo kom hún til hans, svona líðandi, eins og hún var vön, og hún var nýþvegin og greidd. Hún settist í keltu hans, vafði mjúku, hvítu örmunum sínum í innileik um háls hans og sagði:
– Láki . . . Hún kallaði hann alltaf Láka, þegar hún var innileg og góð, og það var hún oftast.
Hann þrýsti henni að sér eins og lítilli telpu, og hún kúrði við brjóst hans. Hann sat svona lengi . . . Það var vor í náttúrunni. Hann kyssti varir stúlkunnar. Þetta var konuefnið hans.
Svo kom sumardagurinn fyrsti.
Þorlákur og Júlía – maður og kona, sem ætluðu að fylgjast að í lífinu. Giftingardagurinn þeirra var svo bjartur og fagur.
6.
Verkamaðurinn:
Hann hafði ekki haft mikinn tíma til að lesa bækur eða sitja á skólabekk. Hann hafði heldur aldrei óskað sér annars en að vera dugandi verkamaður og því sjaldnast borið við að vaða í skýjum. – Það er vegur glötunarinnar fyrir fátækt fólk, hafði góður maður einu sinni látið í eyru hans . . . Þorlákur Þorláksson hafði í einu og öllu haldið sér við jörðina, bitið sig fastan í það áþreifanlega, eins og steinbítur, sem bítur sig í grjót. Það var svo langt frá því, að hann væri nokkuð skyldur þeim fáu óhamingjusömu, sem líða kvöl í hjarta sínu fyrir ófullkomleika mannkynsins og sífellt hrópa á meira ljós og kærleika; nei, sá þungi kross hafði ekki verið lagður á herðar verkamannsins, Þorláks Þorlákssonar:
Heimilið:
Það var brennidepillinn í lífi hans . . . Nú hafði hann eignazt konu; svo kæmu ábyggilega börn, ef til vill mörg börn; þetta yrði líklegast þungt heimili? Það varð að hafa það. Dugandi verkamaður gat vel staðið sig sæmilega með þungt heimili . . . Maður mátti búast við öllu, og það var gott að vera við öllu búinn.
Líf verkamannsins var fábrotið og einfalt, en það var erfitt, – og hann var stoltur af sínu lífi.
Þorlákur var alltaf kominn á fætur klukkan sex á morgnana. Hann byrjaði daginn með því að ylja upp undir könnunni á prímusnum, fékk sér svo kaffi og brauð með rúllupylsu og kæfu ofan á.
– Þeir sem vinna sómasamlega, eiga að fá sinn mat, sagði húsfaðirinn.
Hann braut nokkrar spýtur, áður en hann fót til vinnunnar. Hann gerði það ævinlega á hverjum morgni.
– Þú hefur brotið spýtur, sagði stúlkan fyrsta daginn, sem hún var á heimili hans.
Þorlákur anzaði því og sagði:
– Já.
– Ég er vön að brjóta í eldinn. Mér þykir ekkert vont að brjóta spýtur, sagði hún þá.
– Þessi stúlka er ekki sérhlífin, hugsaði hann.
Og dagarnir liðu í vinnu. Það var óbrotin vinna, en það þurfti hraustan skrokk og karlmennsku til að þola hana. Standa í salt- eða kolamokstri alla daga, bera salt í strigapokum, klukkutíma eftir klukkutíma – og aldrei hlé nema brýna nauðsyn bæri til.
Svo var það þorskurinn, kvikindið, sem mestmegnis hélt lífinu í því fólki, sem lifði niðri við strendur landsins . . . Verkamaðurinn stóð við að losa báta dag eftir dag. Honum fannst ánægjulegt að kasta hinum sleipu, gulleitu kvikindum í hundraða- og þúsundatali upp úr fleytunum – og þó alveg sérstaklega, þegar þær komu drekkhlaðnar að landi. Verkamaðurinn fylgdist með þorskinum í gegnum þykkt og þunnt, eins og þar stendur: inni í húsi við aðgerð, söltun, umstöflun og vöskun, og úti á reitum við breiðslur og samantekningar. Og svo að síðustu útförin. Það var ekki hinn minnsti jarðarfararstíll á þeirri útför, því að hún var eitthvert það allra skemmtilegasta í fiskverkuninni – þegar fiskurinn, sólþurr og hvítur, var innpakkaður í strigaböggla, þeim síðan húrrað á vögnum fram bryggjuna og þeir hífðir út í eitthvert vöruskip, stærðar skip, sem hér Stat eða Hitterö – eða einhverju þvílíku skringinafni, sem fólkinu var óskiljanlegt og framandi.
Síldin.
Þessi glitrandi, fagri fiskur, sem minnti svo mjög á silfur. Var hann ekki líka silfursígildi? . . . Það var sól í hverju hjarta, og vonirnar urðu að veruleika, þegar þessir spegilgljáandi fiskar lágu í morandi kösum á bryggjum og plönum . . . Og fleyturnar komu á hverjum degi, fullfermdar silfruðum fiski, – já, fullfermdar silfri.
Verkefnin kölluðu á Þorlák Þorláksson til starfa og hann lét aldrei standa á sér.
Þetta voru fengsælir tímar.
Grjót og gróður 7. – 8. – 9.
Til baka