Óskar Aðalsteinn Guðjónsson


Grjót og gróður


Skáldsaga



 

Prentstofan Ísrún
Ísafjörður, 1941
Copyright ©1941
All rights reserved

 


7.


 

Júlía . . .

Hún hafði verið einstæðingur, en nú var hún orðin móðir og eiginkona. Hún hafði komið á heimili Þorláks til að vinna, og hún hafði búizt við að fara þaðan aftur til hins sama annars staðar. – En maðurinn, Þorlákur Þorláksson, hafði faðmað hana að sér frammi í gangi. Var það nokkurt einsdæmi? Höfðu ekki ókunnir karlmenn oftsinnis faðmað hana að sér? Höfðu þeir ekki sagt, að það væri alveg sjálfsagt, – og að hún væri fífl, asni, – já, bara helvítis-djöfuls-bikkja, ef hún vildi það ekki? Hvað hafði Þorlákur Þorláksson gert? . . . Hún þurfti aldrei að fara af heimili hans. Hún mátti alltaf vera hjá honum. Hann hafði tekið sér hana fyrir konu.

Þessi unga stúlka hafði mikið umgengizt börn, og hún hafði ævinlega notið innilegrar gleði í návist þeirra. Á myrkum stundum í einstæðingsskap sínum hafði hún ævinlega fundið huggun í brosandi barnsaugum.

Svo kom hennar stærsti hamingjudagur.

– Láki, ég er með barni, sagði hún og kastaði sér hlæjandi um háls hans, – og hún sem aldrei hló.

. . . Það var drengur, yndi hennar og gleði.

Hún tók hann varlega upp og gaf honum brjóstið. Hann saug fast. Hinn næringarmikli, hreinhvíti vökvi streymdi yfir til barnsins og veitti því svölun. Það sofnaði í fullnægingu sinna frumstæðustu þarfa. En uppsprettulindin í móðurbrjóstinu var ung og óþrjótandi og veið eftir því, að drengurinn yrði þyrstur.

Hann var skírður Kjartan Ingi.

 

Í dag hlógu þrjú börn framan í Júlíu. Hún elskaði þau öll. Já, líka son Solveigar. Júlía hafði lánað honum boltann hennar Guggu, litlu skjátunnar, sem var bara rétt farin að skríða.

Hin unga húsmóðir vatt skúringaduluna upp úr fötunni. Hún lá á hnjánum á gólfinu og hélt á dulunni í hendinni, án þess að þurrka færuna. Hún var að horfa á dreng Solveigar. Hann hafði oft verið veikur, oft tekið mikið út. Júlía hafði stundum grátið yfir því í leyni. Henni hafði fundizt það svo sárt.

Það dimmdi yfir andliti húsmóðurinnar. Hún kepptist við að skrúbba og þvo. Og brátt varð gólfið hreint og hvítt . . . Dimman hvarf úr andliti konunnar. Það kom heitur roði fram í kinnarnar og hlýtt bros á varirnar. Júlía var enn svo ung. Hún gladdist innilega yfir verkum sínum, yfir sínum björtu vonum og yfir því, að vera móðir og eiginkona.

 


8.


 

Solveig . . .

Henni fannst tengdadóttir sín svo óskyld sér í mörgu. Nýja húsmóðirin hagaði ýmsu öðruvísi en hún hafði gert. Henni fannst það breyta svo mörgu á heimilinu frá því, sem áður var. Það var Solveigu þungbært, en hún lét það aldrei uppi, bara geymdi það í hjarta sér . . . Já, Solveig bar einhvern kala eða andúð til Júlíu, en stundum táraðist hún yfir þessum kala eða andúð. Þá minntist hún þess, hve Júlía var ævinlega góð og nærgætin við drengina hennar, já, hve hún reyndist henni hjálpsöm í veikindum litla drengsins, hve hún var óþreytandi í að gera allt, sem hún framast gat . . . En tár Solveigar hættu að renna, næstum jafnskjótt og þau komu . . . Henni fannst þessi nýja húsmóðir alltaf eins og sofandi: hún sagði aldrei neitt uppörvandi eða hlýlegt orð. Hún hafði líka tekið hennar sess á heimilinu. Já, Solveig hafði orðið að víkja fyrir Júlíu. Þannig er það víst ævinlega í veröldinni, hinu eldra er miskunnarlaust rutt úr vegi fyrir því, sem yngra er; því lögmáli lífsins verður að öllum líkindum aldrei breytt; allir verða að sætta sig við það.

Þetta var ósköp erfitt fyrir Solveigu, ef til vill það erfiðasta, sem hún enn hafði orðið að reyna í lífinu, eða svo fannst henni nú. En hún skildi fullkomlega skyldur sínar gagnvart syninum. Hún vissi vel, að hann hafði ekki efni á að hafa tvær konur til heimilisstarfa. Og hún vildi sízt af öllu verða byrði á herðum sonarins, meðan hún gat haft ofan af fyrir sér. Hún hafði oftsinnis þurft að vinna utan heimilis. Hún var vön þvottakona. Og nú vann hún að þvottum flesta daga vikunnar . . . Svo var það einn daginn, að sonur hennar sagði:

– Þú getur þetta ekki lengur, mamma. Þú ert orðin svo slöpp. Þú þolir þetta ekki. Þú ættir heldur að vera heima við.

Þá sagði hún:

– Heima við! Og það var svo einkennilega mjúkur hreimur í röddinni. Móðirin stóð nokkra stund hugsi . . . Heima við – já, þá gæti hún hlúð að drengjunum sínum – og litli drengurinn hennar, sem nú var svo lasinn. Hann, sem þurfti svo mikla og nærgætnislega aðhlynningu . . . Heima við. – Nei, það gæti ekki átt sér stað. Ekki fengi hún mikla peninga fyrir að sitja heima, og efnin engin. Hún varð að þvo, meðan hún gat; það var þó helzt einhver hjálp í því. Hún trúði Júlíu fyrir veika drengnum sínum og fól henni hann til umönnunar án sárinda.

– Nei, sonur minn, nei, ég get ekki verið heima. Hér er ekkert fyrir mig að gera. Ég uni mér bezt við balann, og þar vil ég vera, meðan guð gefur mér þróttinn.

– Jæja, mamma, þú hefur það eins og þú vilt, sagði sonurinn.

Og Solveig hélt áfram að þvo þvotta í ókunnugum húsum fyrir ókunnugt fólk. Hún þurfti aldrei að biðja um þvotta. Frúrnar sendu alltaf til hennar.

– Það er sjálfsagt að láta Solveigu þvo, sögðu þær. – Hún er bæði fljótvirk og vandvirk . . .

Móðirin var oft þreytt á kvöldin, fætur hennar bólgnir og þungi fyrir hjartanu. Stundum varð hún að neyðast til að liggja fyrir einn dag eða svo. En hún gafst ekki upp. Það var bjart yfir svip hennar – og gleði í hjartanu. Hún gat þó enn talizt fyrirvinna . . .

En svo kom að því, sem unga húsmóðirin hafði óttazt mest. Eina dimma nótt gisti maðurinn með sigðina í kjallaranum. Móðirin fór ekki að þvo daginn eftir. Hún sat að mestu aðgerðalaus og horfði á barnið sitt dáið . . . Og hún, sem hafði þráð svo innilega að sjá þetta unga líf blómgast og bera fagran ávöxt.

Móðirin hafði aldrei unnið eins mikið og fyrst eftir að búið var að grafa drenginn hennar niður í jörðina. Hún kom seinna heim á kvöldin en hún ef til vill þurfti, og hvarf aftur til vinnu sinnar fyrr en hún var vön.

. . . Valgerður, móðir hennar, skelfing var hún orðin gömul og farin. Solveig mundi eftir henni ungri og glaðlegri í anda, en nú lá hún eins og ósjálfbjarga barn í fletinu sínu. Það var varla, að hún gat lyft höfði frá kodda. Hún þjáðist mikið, ef hún þurfti að hreyfa sig eitthvað lítillega. Þetta gamalmenni var sjaldnast með sjálfu sér; það var einhvers konar sljóvgandi máttleysi, sem lá í hverri þess æð og taug.

Þó kom alltaf eins og bros fram á andlit Völu ömmu, þegar dóttirin sat á rúmstokk hennar og hélt í hönd henni; það var einkennilegt bros, því að andlit hinnar háöldruðu móður var hvítt og uppblásið af þrota í holdinu.

Þessar mæðgur höfðu fylgzt að í gegnum lífið, og þeim hafði ævinlega samið mjög vel. Þær voru víst búnar að lifa sínar fegurstu ævistundir, – lífsljós þeirra var tekið að fölskvast.

– Þú hefur alltaf verið mér góð dóttir, hvíslaði skarið í rúminu, og það lék bros um hvítt andlit þess. – Mínir jarðnesku sólskinsdagar eru svo langt í burtu, en þó man ég þá svo glöggt, þegar ég annars af mér veit; þeir ylja mér um hjartaræturnar á hverjum degi.

Það varð þögn.

Dóttirin horfði með lotningu á hinn helga frið, sem hvíldi yfir andliti gamalmennisins.

Svo sagði hin ellihruma móðir:

– Það fer að líða að sólarlagi. Ég sé í huga mér roða fyrir nýjum degi. Geislar handan úr ókunna landinu eru farnir að brosa til mín. Blessað sé það land . . . Það rann óvenju mikið vatn úr hægra auganu á henni. Þessi vesalingur titraði, titraði og skalf. Hún fór að tauta í hljóði, – tala við guð.

Þetta gamalmenni beið stöðugt; það var að bíða eftir hinztu skipuninni. Það var líka svo skelfing þolinmótt. Víst var sendiboði almættisins lengi á leiðinni, en bráðum mundi hann koma til að lyfta henni upp úr þessu fleti þjáninganna og fljúga með hana burt frá stund og stað, upp fyrir stjörnur og sól, inn í land hamingjunnar.

Það kom birta yfir andlit Solveigar, þessi skæra tignarlega birta, sem hafði svo mjög einkennt persónu hennar um ævina. Það var aftur komin saklaus gleði í hjarta hennar. Hún átti enn ljós, sem lýsti henni í myrkri veraldarinnar . . . Blessaður bækillinn hennar. Hún óskaði þess innilega, að fá að lifa sem lengst hjá honum; hann einn fannst henni eins og fyrr. Ef hann væri tekinn frá henni, fyndist henni allt hér jafnframandi; en hann mundi ekki verða tekinn frá henni. Sá, sem öllu réð, gat ekki verið svo harðbrjósta við einmana ekkju.

 


9.


 

Hugboð verkamannsins reyndist rétt:

Heimilið var mjög erfitt. Það var svona þar um, að Þorlákur kæmist sæmilega af, með því að þræla nótt og nýtan dag. Hvað mundi ske í atvinnuleysi? Þorlákur Þorláksson lét sér nægja að hugsa um líðandi stund. Hann vakti yfir hverju handtaki. Það var nú svo komið, að jafnvel þegar flestir af eyrarkörlunum stóðu uppi atvinnulausir og blásnauðir, þá var hann Láki hennar Júlíu alltaf í atinu.

– Láki í atinu, sögðu eyrarkarlarnir og öfunduðu Þorlák Þorláksson.

Verkamaðurinn var stoltur af þessari nafngift. Hvað var lífið, ef maður var ekki alltaf í sífelldu ati?

Húsfaðirinn hló. Honum datt systirin í hug. Honum fannst engin eftirsjón að henni. Hún hafði lítið gert annað en klínt framan í sig lit og saumað utan á sig, og svo heimtað út úr honum peninga, með sjálfskyldu, fyrir öllum skrattanum, sem hún gat látið sér detta í hug. Og nú var hún orðin svo mikil dama, að ef það kom fyrir, að bróðir hennar rakst á hana á götu, þá fannst henni sér ekki samboðið að taka kveðju hans. Hún skammaðist sín víst fyrir hann, ha-ha-ha ! Það var eins og hún reyndi að sneiða hjá honum. Og ekki hafði hún enn brotið sig svo smátt að líta inn til smælingjanna, síðan hún tók við þessu göfuga embætti hjá frú Olsen . . . Bróðirinn var oft kominn á fremsta hlunn með að greikka sporið og ná í hana, þegar hann sá hana tilsýndar. Hann vonaði, að sér mundi ekki reynast mjög erfitt að hafa hana í eftirdragi heim, þótt hún yrði ekki taumliðug. En þó bróðurinn sárlangaði til að fremja þennan verknað, vissi hann, að móðurinni mundi ekki líka tiltækið, og þá hafði það ekkert upp á sig.

Húsfaðirinn beit sig oft í fingurna út af bæklinum. Þetta var orðinn 18 ára karlmaður og gerði aldrei ærlegt handtak . . . Stundum gat Þorlákur ekki orða bundizt og sagði við bróðurinn:

– Ætlar þú alla þína æfi að vera ómagi?

– Nei, anzaði bækillinn lágt.

– Hvernig ætlar þú að sjá fyrir þér? Það var miskunnarleysi í rödd eldra bróðurins.

– Ég veit það ekki, svaraði yngri bróðirinn í ráðaleysi.

– ég skal segja þér, hvernig þú átt að hafa ofan af fyrir þér; þú átt að vinna eins og ég og mínir líkar; þú skalt ekki halda, að þér hafi verið ætlaður annar sess í lífinu. Það þarf peninga til að menntast; ekki getur þú grafið þá upp úr skítnum, og ekki færð þú þá fyrir að sitja aðgerðarlaus. Nei, fyrsta skilyrðið, sem fátækur unglingur verður að uppfylla, er að vinna eins og þol hans leyfir; þá fyrst er einhver von um, að úr honum verði maður. Sá, sem ekki vill vinna, er aumingi. Það er hæðst að honum, hann er alls staðar burtrækur, enginn vill sjá hann né heyra, og svo drepst hann að síðustu úr leti.

– Ég er bæklaður og á óhægt með að vinna. Svo er ég alltaf svo máttlítill.

– Máttlítill ! Það var ergelsi í rödd Þorláks. – Hvernig á annað að vera? Þú, sem aldrei kemur undir bert loft, nema þegar bezt er veðrið, en liggur jafnt nótt sem nýtan dag yfir bókum og blómarusli! Hvað annað en máttleysisleti fylgir svoleiðis líferni? Þú getur vel unnið fyrir þér. Það hefur þó nokkrum sinnum sýnt sig, að þú getur unnið. Og ég er viss um, að þú ert ekki það barn lengur, að þú sjáir ekki, hve þetta er hörmulegt með þig. Ég veit, að það kostar þig mikið að rífa þig upp úr aumingjaskapnum og volæðinu, en ef þú átt nógu sterkan vilja, þá getur þú það; já, þá getur þú það.

Bróðirinn hætti að tala.

Bæklinum var þungt niðri fyrir. Stundum hafði honum staðið til boða erfiðisvinna, en hann gat ekki unnið örðug störf. Hann hafði oft reynt það, en aldrei getað haldið það út. Hann var farinn að hræðast líkamlegt strit, hræddist það mest af öllu, sem hann þekkti. Honum leið öllum svo illa í erfiðisvinnu. Örkumlin gerðu honum slíka vinnu þyngri en flestum öðrum, og því þreyttist hann svo fljótt. Það var líka svo mikið af óhreinindum í erfiðisvinnu, allt svo gróft, kalt og vossamt. Nei, nei, nei, hann gat aldrei, aldrei farið í þvílíkan þrældóm. Hugur hans og tilfinningalíf var orðið of rótgróið í því, sem var fjarskylt líkamlegu erfiði. Hann gæti heldur aldrei þolað augu fólksins. Hann vildi vera einn, þar sem enginn sá hann nema guð. Hann hafði alltaf þráð að vera glæsilegur og fagur. Þegar hann var lítill, hélt hann að guð myndi gera hann þannig, þegar hann yrði stór. En nú vissi hann, að hann yrði aldrei annað en pervisalegur bækill. Og hann sniðgekk fólk eftir mætti. – Hann er bæklaður, sögðu augu fólksins. – Og svo nennir hann ekki að vinna . . . Sál bækilsins logaði af hatri til erfiðisvinnunnar, til allra þeirra manna, sem lítilsvirtu hann – og til síns eigin lífs.

– Ég fer aldrei í vinnu, sagði hann og titraði af bræði.

– Og hvers vegna ekki? spurði húsfaðirinn.

– Af því að ég er lítilsvirtur af fólkinu, af því að það dregur mig sundur og saman í háði fyrir vanmátt minn og líkamslýti, af því að ég hata erfiðisvinnu. Bækillinn grét sárt og lét fallast niður í kjöltu Solveigar.

Húsfaðirinn hristi höfuðið. Hann vissi, að þetta voru móðursýkisórar í drengvesalingnum, en hann gat samt ekki verið að tala um það við móðurina; það mundi særa hana. Honum voru þetta engin ný vonbrigði . . .

Bækillinn fann ævinlega til hlýinda frá móðurinni, en hann kunni ekki að meta þessi hlýindi hennar fyllilega: honum fannst hún svo óskyld sér í hugsun. Þó átti það sér stað, að hann sýndi henni blóm og sagði henni, að blómin væru það allra fallegasta, sem til væri á jörðinni, og að menn yrðu ósjálfrátt betri við að horfa á blóm og finna angan þeirra . . . En flest af því, sem hann var að segja, fann hann að fór fram hjá móðurinni, og það, sem ekki fór fram hjá henni, stóð henni fyrir hugskotssjónum eins og ævintýri; það heyrði hann á orðum hennar . . . Bækillinn fann hjá sér tómleikatilfinningu og andvarpaði þungan. – Mönnum er ómögulegt að skynja hið fagra og bjarta í gegnum grákaldan veruleikann nema sem ævintýri.

Þegar rökkrið læddist yfir og allt hljóðnaði, þá mátti sjá þennan bæklaða pilt skokka út kjallaraganginn og smeygja sér á hlið út um kjallaradyrnar og út á götuna. Síðan gekk hann hægt og rólega hverja götuna á fætur annarri. Hann átti ekki mjög bágt með að umgangast fólk í myrkri, því að þá sá hann ekki í augu þess . . . Hann nam staðar fyrir utan búðarskrifli. Átti hann að fara inn og heilsa upp á gamla manninn, eða öllu heldur það, sem geymt var í skrifborðsskúffunni?

 

Þóroddur frændi . . .

Hann var eigandi búðarinnar. Bækillinn hafði stundum hjálpað honum lítillega. Það þótti gamla manninum vænt um. Hann var orðinn sjóndapur og átti örðugt með margt. Hann kallaði Bjarna aldrei bækil. Hann sagði alltaf: "drengur minn", – auðvitað af því, að hann er svo sjóndapur, hugsaði bækillinn . . . Honum lá við uppsölu, þegar hann kom inn í búðina, þar stangaði allt af olíu og hákarli.

Það ískraði ámátlega í gömlum tréfæti, það brakaði í gömlum liðamótum, sjóndöprum augum var deplað, slepjulegum höndum var slegið í kringum feitan og svolalegan líkama, er rambaði fram og til baka um gamalt gólf, sem söng í sömu tóntegund og tréfóturinn.

– Það segi ég þér, drengur minn, þú átt að koma oft til gamla mannsins, sem þarf á þér að halda. Hann er fátækur og getur því ekkert gefið þér í staðinn nema þakklæti sitt. Það er fallegt að gleðja gamlan mann . . .  Karlinn setti stút á munninn, deplaði augunum í sífellu og ýtti sprungnum gleraugunum upp á beran skallann.

– Já, þú átt að koma oftar drengur minn, miklu oftar . . . Nöldur og marr, nöldur og marr.

Bækillinn framkvæmdi ýmislegt eftir fyrirskipunum gamla mannsins, raðaði í hillur, vó í poka, og fleira og fleira. Einu sinni sá hann sér færi á að opna skrifborðsskúffuna. Þar lá það, sem hann hafði þráð svo innilega að snerta. Það var hrafnsvart og gljáandi með silfurskínandi skrúfum. Hann hafði nuddað það og fægt vandvirknislega í heilan dag. Það hafði verið drifið blóði, þegar Þóroddur frændi hafði beðið hann að fægja það. Þann dag hafði verið slátrað. Síðan hafði þetta hrafnsvarta, gljáandi verkfæri legið óhreyft í skrifborðsskúffunni, og það átti að liggja þar kyrrt til næsta hausts, en þá átti að þvo af því rautt blóð . . . Bækillinn greip verkfærið í auðsýnilegri áfergju; það var kalt, og hann fann kulda þess læsa sig upp handleggi sína og þaðan út um allan líkamann. Hann skalf og titraði. Bara ef hann væri hér einn, þá gæti hann með hjálp þessa verkfæris lagt upp í langt ferðalag til fjarlægs lands, til fegursta landsins, sem mannlegan huga dreymir. Og hann yrði ekki lengur bækill, heldur glæsilegur og fallegur maður, sem fengi að njóta birtu, yls og fegurðar . . . Það ískraði og tísti í tréfætinum, eins og þungstígt gamalmenni væri að ganga upp fúinn stiga. Það brakaði líka í gömlum liðamótum . . . Bækillinn lét verkfærið í skrifborðsskúffuna og flýtti sér heim. Solveig var ævinlega hrædd um hann, ef hann var lengi að heiman.

. . . Valgerður rétti honum visnu höndina sína. Hann beygði sig niður að henni. Gamla skarið hvíslaði:

– Bráðum kemur fæðingarhátíð lausnarans, og þú átt engan sokk til að fara í, og amma þín er orðin svo ónýt, að hún getur ekki einu sinni prjónað sokk fyrir dindilinn sinn.

– Mamma gefur mér sokka, sagði Bækillinn inn í hægra eyrað á gömlu konunni.

– Já, ég treysti henni til þess. Já, dindillinn minn.

Hann hélt um visnu höndina hennar, þar til hún sofnaði . . . Það var eins og lífið horfði eitthvað svipað við þessum tveim manneskjum – og hann, sem var svo ungur, með djúpa fegurðarþrá og viðkvæmni í augum.

Um nóttina veiktist Solveig.

Bækillinn vaknaði við bröltið í húsföðurnum. Og þegar hann fékk vitneskju um, hvernig komið var, grét hann eins og barn.

– Elsku drengurinn minn, sagði móðirin. Hann kúrði við brjóst hennar og hlustaði.

– Það slær, sagði hann og horfði með gleði á móðurina. Hann hafði gleymt hinu hrafnsvarta, gljáandi verkfæri með silfurskínandi skrúfunum, gleymt öllu öðru en því, að hann átti móður – og að jólin voru að koma. Þúsund ljós höfðu kviknað í sál hans. Hann varð andvaka af gleði. Hann gat ekki sofnað fyrr en löngu eftir að verkamaðurinn var farinn til vinnu sinnar.


Grjót og gróður 10. – 11.
Til baka