Óskar Aðalsteinn Guðjónsson


Grjót og gróður


Skáldsaga



 

Prentstofan Ísrún
Ísafjörður, 1941
Copyright ©1941
All rights reserved

 


10.


 

Fór Þorlákur í vinnu?

Það var nú andskoti litla vinnu að fá. Verkamaðurinn ranglaði bara niður á vinnustöðvarnar af gömlum vana, en ekki af því, að hann byggist við að fá þar ærlegt handtak. Það var ekkert um að vera, enginn fiskur óverkaður, og enginn bátur hafði farið á sjó síðan fyrir jól, og nú var komið fram í febrúar.

– Við höfum ekkert að éta. Við verðum að fara að þiggja af því opinbera, sögðu eyrarkarlarnir.

– Þiggja af því opinbera. Þorlákur Þorláksson lét þetta út úr sér með fyrirlitningu og gekk á burt. – Þiggja af því opinbera, nei, fyrr skyldi hann drepast. Hann átti þó alltaf hendurnar og hraustan skrokk. Hann fór að róta í ruslinu í ganginum og dró þaðan heilmikinn jálk. Það var grjótdráttarsleði.

Húsmóðirin kom í eldhúsdyrnar og spurði:

– Hvað ert þú að berja?

Húsfaðirinn hélt áfram að berja.

– O, ég er hér svolítið að klastra upp á jálkinn. Ekki dugar að standa aðgerðalaus . . . Hann hélt áfram að berja á sleðanum.

Daginn eftir fór Þorlákur að hamast í grjótinu. Það var víst enginn leikur, því bæði var það, að verkamaðurinn þurfti að standa í snjómokstri, og svo var dálítið fjúk af norðri og ekki frítt við frost. En þetta gekk nú samt allvel hjá Þorláki. Hann greip til hjökkunnar sinnar og byrjaði að grafa sig inn í skriðu, er fyrir mörgum árum síðan hafði runnið niður úr fjallinu, sem reis hátt, traust og voldugt innan til við kaupstaðinn. Sums staðar hafði gróður jarðar hjúfrað sig upp að hrjúfu grjótinu. Þorlákur reif grastægjurnar ofan af skriðunni með hjökkunni. Sumir steinarnir voru mjög fastir, en verkamaðurinn gafst ekki upp við neinn þeirra . . . Það var eiginlega ekki nema fyrir hraustustu menn að fást við þennan starfa í muggukafaldi og stirðnings frosti uppi í miðri hlíð.

– Er mikið hjá þér? var kallað utan úr kafaldinu.

Þorlákur rétti sig upp og kallaði á móti:

– Ekki meira en nóg!

Það höfðu nokkrir menn drifið sig inn á hlíð í sömu erindagerðum og hann. Þorlákur þekkti þá alla. Þeir höfðu flestir unnið með honum um margra ára skeið.

Þorlákur hjó hjökkunni fast niður í jarðveginn og rótaði hverjum steininum á fætur öðrum upp á jálkinn.

– Ó, –ho, o–ho, sagði hann stundum og tók með öllum kröftum sínum á hjökkunni. – O–ho, o–ho, sagði hann aftur, rembdist og gretti sig.

– Helvíti er hann fastur þessi, sagði hann og púaði. – En upp skal hann. Og verkamaðurinn tók að pjakka í kringum steininn með járnkarlinum sínum. – Ætli þú verðir ekki feginn að koma! Jú, sannarlega varð hann feginn. Þorlákur kastaði honum upp á jálkinn. Þar lá hann hinn rólegasti meðal bræðra sinna og virtist kunna hið bezta við sig . . . Verkamaðurinn þreif nú í snatri tvo kaðalspotta, sem voru bundnir fremst í kjálka sleðans og slengdi þeim yfir öxl sér. Svo lét hann sleðann síga hægt undan brekkunni; síðan fór jálkurinn að renna hraðar, og Láki lagðist fastar á.

– Rólegur kunningi, bara rólegur. Og Láki streittist á móti af öllum kröftum . . .  Nú stefndi jálkurinn beint á steinnibbu. Hver fjandinn? Ætlaði nú allt að kollsteypast? . . . O, nei, nei. Sleðinn rann á fljúgandi ferð fram hjá öllum torfærum.

Verkamaðurinn hafði unun að grjótdrættinum, einkum af niðurferðinni; alls staðar voru steinnibbur og holur, alls staðar hættur: Ef jálkurinn færi þarna – í staðinn fyrir hérna, þá mundi allt fara um koll. En Þorlákur lagði öruggur af stað niður með tilhlökkun. Já, það var kominn galsi í hann eins og strákhvolp . . . Hann var stjórnandinn, og sums staðar var fljúgandi hálka undir þunnri snjóbreiðunni og ef til vill ekki á allra færi að hafa hemil á jálknum. Þorlákur Þorláksson var kátur og hress.

Í námunda við þjóðveginn var hann búinn að hlaða upp dálitlu af grjóti; þetta átti nú að verða faðmur með tímanum og seljast bæjarfélaginu.

Verkamaðurinn fór að hlaða sínu ágæta grjóti. Hann gerði það vandvirknislega. Steinarnir féllu vel saman hjá honum. Enginn skyldi þurfa annað að segja. Hann rétti sig upp og teygði úr sér:

– Drengurinn er þá bara að koma, sagði hann. Svolítill drengsnáði öslaði fönnina upp í mjóalegg. Hann hélt á kaffiflösku, sem hafði verið smokkað niður í sokkræfil, svo að kaffið héldist heitt.

Drengurinn var með rauðan hárlubba, sem flaksaðist til í kafaldsfjúkinu. Hann var beinastór og sterklega vaxinn.

– Þú setur kaffið hérna hjá sleðanum, Kjarri minn; það er bezt, að ég skoli þessu niður strax.

– Þú hefur komist í námu, sagði drengurinn. Hann þagði um stund og virti fyrir sér hleðsluna. – Ég ætla að sækja sleðann minn og vera hjá þér, sagði hann svo.

– Nei, þú ferð bara alfarinn heim, karl minn, – og það strax! sagði faðirinn. – Og svo átt þú ekki að glænapast svona úti, berhausaður, berhálsaður og með bláar hendurnar af kulda. Ég undra mig bara stórlega á því, að þú skulir ekki líka vera berlappaður. Ég er viss um, að mamma þín hefur ekki leyft þér að fara svona út.

– Mér er svo funheitt, sagði drengurinn. Ég faldi húfuna og trefilinn á bak við kolakassann, en vettlingana hef ég í vasanum. Ég gat ómögulega verið svona mikið dúðaður. Ég mundi hafa sprungið af hita. Drengurinn hló.

– Það væri réttast, að ég kaffærði þig í snjónum fyrir óþekktina, sagði faðirinn. Svo gat hann ekki að sér gert og fór að hlæja að stráknum. Honum þótti varið í þennan strák. Og hann svolgraði í sig kaffið, rétti drengnum tóma flöskuna og sagði:

– Hana, farðu nú heim, Kjarri minn.

– Nei, sagði drengurinn.

– Vertu ekki með þessa bölvaða stífni. Ég vil ekki hafa þig berrassaðan úti á gaddinum . . .  En nú mátti faðirinn ekki vera að munnhöggvast lengur við drenginn, því að einn verkamannanna kom til hans.

– Djöfulsins læti eru í þér, sagði maðurinn. – Þú ætlar ekki að verða lengi að hrúga upp faðminum. Það er varla steinkvikindi, þar sem ég er. En heyrðu, heldur þú, að það þýði nokkuð fyrir manna að vera að þessu snapi: Djöfulla steininn að þeir kaupa.

– Við segjum þeim bara, að það sé ekki handtak að fá, og að ekki geti þeir ætlazt til þess, að við lifum á loftinu frekar en þeir, sagði Þorlákur.

– Það er eins og að berja hausnum við stein, sagði maðurinn.

– Nú, við segjum þeim þá bara, að ekki sé betra hjá þeim að fá okkur á það opinbera. Það var farið að sjóða í Þorláki.

– Þeir kippa sér ekki mikið upp við það, því þeir vita, að við reynum að komast hjá því í lengstu lög, sagði maðurinn og var hinn rólegasti.

– Jæja, þá er bara, að vera nógu andskoti þjösnalegur við þá, sýna þeim, að maður sé ekkert hræddur við þá. Það gildir ekkert annað. Þorlákur var orðinn æstur.

– Já, það væri það helzta, sagði maðurinn. Hann þagði um stund, en sagði svo með töluverðum þjósti: – Það er andskoti hart, að ekki skuli vera reynt að sarga neitt úr sjónum.

– Hvað þýðir að vera að sarga, þegar ekkert fæst? spurði Þorlákur.

– Gestur Jónsson er vitlaus, sagði maðurinn.

– Gestur Jónsson er einmitt hygginn karl, sagði Þorlákur Þorláksson og byrjaði á nýjan leik að hlaða sínu ágæta grjóti. – Hann er ekki að spandera olíu og veiðarfærum, þegar ekki fæst bein úr sjó.

– Þú ert þverhaus, sagði maðurinn og varð reiður. – Ég held, að flestir hér þekki Gest Jónsson. Hann er ekki vanur að gera út, nema þegar hann veit sig stórgræða á því. Honum er víst andskotans sama, þó við verkamannaræflarnir drepumst úr hungri.

Þorláki Þorlákssyni var skemmt. Hann sagði hlakkandi:

– Ég skal ekkert segja um það. En hitt veit ég, að ekki væri betra fyrir okkur verkamennina, að hann spilaði allri úrgerðinni til andskotans og bátaskriflin yrðu svo seld úr bænum.

– Ég held það yrði nærri bezt, sagði maðurinn og gekk til vinnu sinnar.

 

. . . Næstu daga gerði hláku, fyrst bleytukafald, svo rigningu. Þorlákur hafði ekki farið að hlaupa heim. Nei, það var ábyggilega hægt að vinna sér til hita, þótt maður ætti ekki fyrsta flokks hlífðarföt, og þótt maður yrði gegndrepa. Nú var leikur einn að ná grjótinu upp úr jörðinni, en illu verra að koma því niður. Snjóinn hafði leyst ört. Sums staðar voru eyður. Jálkurinn tók stundum harða kippi, húrraði svo fljótt undan brekkunni, að verkamaðurinn átti fullt í fangi með að fylgja honum eftir . . . Boms! Algert strand. Graseyða. Visin stráin krömdust undir jálkinum.

– En áfram skal hann, helvízkur! Og Þorlákur Þorláksson kippti í böndin af öllum kröftum . . . Boms! Þetta voru meiri mistökin. Bandið hafði slitnað – og grjótverkamaðurinn dottið. Svo brölti hann bölvandi á fætur og batt saman. Hann féll jafnt og sígandi á böndin, þyngdi átakið meira og meira. Böndin skárust fast niður í öxl hans, og fætur hans grófu sig niður í meyran jarðveginn. Það fór að urga í jálkinum. Hann smá seig af stað. Svo var hann áður en varði kominn út á hálar svellbungur og farinn að húrra, já, húrra á fljúgandi ferð; og verkamaðurinn hljóp á eftir, hélt í böndin og reyndi að hafa stjórn á sleðanum.

– O, það hest með laginu.

Sleðinn var nú kominn niður á sléttlendi og rann rólega. Láki pjakkaði á undan. Hann var búinn að rífa upp fjóra faðma af grjóti og jafnaði því, sem á jálkinum var, ofna á þá.

– Ég held maður láti nú þetta gott heita, sagði Þorlákur Þorláksson og vatt úr vettlingunum sínum.

. . . Svona, eins og verkamaðurinn kom úr grjótinu, moldugur og blautur, drap hann á dyr bæjarskrifstofunnar. Hann rétti bæjarstjóranum plagg, sem sannaði þessum háa herra eign Þorláks Þorlákssonar verkamanns á fjórum grjótföðmum við veg inni á hlíð.

– Það verður ekki keypt fyrr en seinna, sagði bæjarstjórinn.

– Ha? sagði húsfaðirinn.

Bæjarstjórinn leit upp úr blöðum sínum og endurtók orðin.

– Ekki fyrr en seinna. Það finnst mér helvíti hart. Ég held þig megið bara vera fegnir, meðan þið fáið einhvern til að krafsa grjót upp úr drullunni fyrir ykkur. Og ykkur er andskotann engin vorkunn að borga þessar fáu krónur. Ekki hefur verið svo lítið fyrir þeim haft. Ég get heldur ekki skilið, að mitt grjót sé neitt verra en annarra, sem þið hafið verið að kaupa af. Ég verð að fá einhverja úrlausn, og það strax. Þorlákur lagði vinnuharðar hendurnar krepptar fram á borðið.

Bæjarstjórinn leit á plaggið og síðan út undan gleraugunum á eigandann, langan, grannan, en sterklegan og þrjózkufullan verkamann, sem stóð fastur á meiningu sinni, með kuldaglott á horuðu andlitinu . . .  Ef til vill langaði bæjarstjórann til að segja eitthvað. Að minnsta kosti bærði hann varirnar, og það komu rauðir dílar fram í kinnar hans; en hann þagði og fitlaði með mjúku, hvítu dömuhöndunum sínum við pappírslappann frá bæjarverkstjóranum. Máske hefir skynsemin sagt honum, að bezt væri að hafa sem fæst orð. Svo hann sagði eftir langa þögn:

– Það er lífsins ómögulegt nema helminginn núna.

– Jæja, ég kem þá bara aftur, þegar þetta er uppétið . . . Það var þykkja í skapi Þorláks Þorlákssonar.

 


11.


 

Systirin kom.

Hún kom án þess að berja að dyrum, tók sér stöðu á miðju eldhúsgólfinu og litaðist um.

Húsfaðirinn var að láta ofan í sig kvöldverðinn. Það gekk eins og í stórorrustu, þar sem hraðast er drepið. En þegar hann sá, hver komin var, gleymdi hann mat sínum um stund og skellihló. Stelpan var öll í silki og loðskinnum. Bróðirinn skemmti sér við að horfa á þetta og sagði:

– Þú ert bara orðin heilmikið furðuverk, greyið mitt, ha-ha-ha!

Auðvitað gat systirin ekki verið þekkt fyrir að anza þessum óuppdregna dóna. Yfirleitt átti þetta blessað alþýðufólk engan móral, hugsanagangur þess og þarfir voru svo frumstæðar, eins og herra Olsen orðaði það á heimspekilega vísu.

. . . Systirin hélt áfram að litast um í eldhúsinu. Solveig var að þvo einhverjar rýjur á maskínugarminum. Húsmóðirin, Júlía, var að sinna krökkunum; hún var mjög gild yfir um sig. Þarna var skápur, sem Þorlákur hafði slegið upp úr tveim sykurkössum, og húsmóðirin hafði sjálf saumað hengið, sem hékk fyrir honum. Matborðið hafði húsfaðirinn rekið saman úr nokkrum panelborðum. Svo voru þarna fjórir þrífættir stólar. Þeir höfðu aðeins verið þrír í gamla daga . . .  Systirin hélt inn í stofuna. Valgerður lá hreyfingarlaus í fletinu sínu. Mynd af frelsaranum, klippt út úr Herópi, hékk yfir höfðalagi hennar. Bækillinn var fyrir skömmu kominn í rúmið. Hann hafði kveikt ljós á kertisskari og var að skoða myndir í bók . . . Það var allt hreinlegt þarna inni, en ósköp tómlegt. Berir, gráir steinveggir – og fjalagólf, mishæðótt og upprifið af margra ára nuddi og skúringum. Borðskrifli við gluggann. Sums staðar voru dottnir úr því kvistir; aðrir mynduðu ójöfnur á borðplötuna. Svo voru þarna nokkur hálfsundurgengin rúmflet. Og föt fólksins héngu sum undir rósrauðu hengi á veggnum.

Ása Stína leit á þetta eins og ókunnum augum, og það fór kaldur gustur um hana . . . Tilfinningar hennar, tilhneigingar og hugsanir voru svo óskyldar hinni hversdagslegu lífsbaráttu. Hún, sem þráði ríkidæmi og höfðingsskap og fannst sjálfsagt, að lífið væri leikur, hún, sem hataði kjallara og líf í kjallara, – hví hafði hún endilega þurft að fæðast í kjallara? Systirin hafði oft hugsað um þetta og grátið yfir því. En þetta þjáði hana ekki lengur. Metnaðartilfinningin hafði bjargað henni. Í krafti þeirrar tilfinningar var hún komin vel á veg með að skapa sér nýtt líf – fullnægja hvötum sínum. Henni hafði algerlega tekizt að afmá skyldleika sinn við líf sinna nánustu. Hún átti hér ekki lengur heima, hafði ekkert hingað að sækja. Hún ætlaði heldur ekki að koma hingað aftur, nei, aldrei. Koman hingað í kvöld var hinzta kveðjan hennar til þessa snauða lífs . . .   Þessa ungu stúlku dreymdi um auðæfi og aðdáun allra. Henni var sama um allt annað, og hún var viss um sigur. Að vísu var hún bara stofustúlka ennþá, en það var þó hjá einni fínustu fjölskyldunni í bænum, Olsens fjölskyldunni . . . Hún gekk um stofurnar og þurrkaði af. Hún bar silfurborðbúnað á borð. Hún strauk dömufingrum sínum yfir nóturnar á píanóinu. Hún hlustaði á hinn glaðværa söng fólksins – hlustaði á glamur glasanna, horfði á reyk vindlinganna líða í ótal hringum í loftinu. Í draumum sá hún þennan veruleika skrýðast vonum hennar sjálfrar. Hún var þá hin ríka frú, hún var sú, sem litið var upp til, hún var veitandinn.

Á kvöldin sótti hún dansleikahúsin. Þar fann hún sig hafa yfirhöndina. Hið ýmist stingandi eða djúpa augnaráð hennar og birta andlitsins voru vopn hennar. Á þessum augnablikum fannst henni hún lifa drauma sína.

Stundum lék hún á hljóðfæri á dansleikum.

Hún lék af fjöri og þrótti. Það var mikill hraði og gáski í leik hennar. Hann var kitlandi, en undir niðri leyndardómsfullur og fagur. Þó var það bara jazz, sem hún lék.

– Ekkert er eins indælt og jazz, sagði hún.

– Þú leikur fyrir okkur nokkur lög, Ása.

Frú Olsen sagði þetta stundum.

– Sjálfsagt, sagði Ása og byrjaði að leika.

– Þetta er skínandi, sagði fólkið. Svo byrjaði það að dansa.

. . . Systirin drakk kaffi við panelborðið. Henni fannst það raunar hálf rómantískt. Það minnti hana á borðhald í fjallakofa. Hún hafði tekið þátt í slíku borðhaldi um nýárið . . . Hún sagðist ekki mega vera að standa við, hún hefði bara litið hingað inn, af því að hún hefði átt leið hjá. Annars væri hún svo þrælupptekin allar stundir, að hún sæi alls ekki út yfir það, sem hún þyrfti að gera. Svo sagðist hún vera boðin í ferðalag með frúnni í sumar, – þeim félli svo prýðilega, og frúin mætti ekki af henni sjá. Þær væru oft langdvölum í burtu frá heimilinu . . . Systirin sagði lítið annað en þetta. Þó lá henni ýmislegt fleira á hjarta, en henni fannst bara fyrir neðan virðingu sína að munnhöggvast við þetta svo kallaða ættfólk sitt, þó að það ætti það sannarlega skilið. Engir höfðu þreytt hana jafnmikið og það – og hæðst að áhugamálum hennar. En ef til vill gæti nú þessi heimsókn hennar og það litla, sem hún hafði sagt, kennt því eitthvað. Það sæi kannske, að hún þyrfti ekki á því að halda til þess að komast áfram í lífinu.

Solveig fylgdi Ásu Stínu til dyra. Móðurinni var mjög þungt niðri fyrir. Hún fann, að telpan leit niður á hana. Þó hafði hún reynt að gera henni eins vel til í öllu og hún hafði hjartalag og efni til. Og hún, sem hafði alltaf verið að vona, að dóttirin kæmi til sín eins og gott barn. Og hún hafði ætlað að fyrirgefa henni ræktarleysið af hug og hjarta. Hún fann, að sér mundi hafa veizt það mjög létt, – að hún hefði orðið hjartanlega hamingjusöm . . . En hún hafði orðið vonsvikin, særð djúpu sári. Hún átti mjög bágt með að fylgja dóttur sinni til dyra án þess að tárfella. Hana langaði innilega til að halla telpunni upp að sér og biðja hana að vera hjá sér, hún ætti svo bágt með að sjá af henni. En hún tók á öllum þeim kröftum, sem hún átti til og sagði með einkennilega styrkri röddu:

– Þú ert komin inn á hættulegar lífsbrautir, Ásta mín, en þó þú skiljir ekki framkomu þína nú, þá vona ég, að þú fyrr eða síðar rekir þig á, því að það er þér nauðsynlegt.

Dóttirin horfði fjarrænu augnaráði á móðurina. Henni datt ekkert í hug nema heimspeki herra Olsens. Svo sagði hún með mikilli hógværð.

– Þú skilur ekki mitt líf, mamma. Þinn skilningur er svo frumstæður.

. . . Bróðirinn heyrði orð systurinnar inn í eldhúsið. Það datt yfir hann. Svo undrandi varð hann. Enn allt í einu stökk hann eldfljótt á fætur og rauk fram í ganginn . . . Fyrir þessi orð skyldi hún ekki sleppa óbarin!

Solveig stóð grátandi við útidyrnar. Hún grét eins og barn.

Þorláki féllust hendur. Hann stóð grafkyrr og leit niður fyrir sig.

 


Grjót og gróður 12. – 13.
Til baka