14.
Nauðþurftir . . .
Allt líf verkamannsins var sleitulaust strit fyrir hinum brýnustu nauðsynjum. En annars hafði Þorlákur Þorláksson leyft sér að vona í upphafi hjúskapar síns, að hann yrði maður til að afla sér og sínum einhvers umfram það, sem allra nauðsynlegast þurfti til að geta dregið andann um barkann. En þær vonir hans höfðu farið í hund og kött. – Og af hverju? spurði hann sjálfan sig. Hann hafði svarið á reiðum höndum. Já, lífið hafði svarað honum fullum hálsi. Það stendur sjaldnast á, að það svari hverjum sem er, jafnvel heimskingjanum, þótt hann vegna skilningsskorts síns láti sig svar þess engu skipta. En Þorlákur Þorláksson hafði ekki verið sá erkibjáni, að hann gæfi svarinu engan gaum: Verkamaður gat aldrei orðið annað en fátæklingur, sem barðist í bökkum. Það var aðeins efnamaðurinn og menntamaðurinn, sem gátu krafizt stærri fórna af lífinu. Þetta voru landsins lög. Svona hafði það verið frá alda öðli. Og Þorláki Þorlákssyni datt ekki í hug að véfengja réttlæti þessara laga.
– Það þýðir ekki fyrir nokkurn mann að ybbast við þeim, hugsaði verkamaðurinn, – Sá, sem það gerir, fær margfalda hend. Lífið refsar honum.
Þorlákur hafði aldrei látið sér detta þá firru í hug, að hann byggi yfir möguleikum til að verða ríkur, – en eitthvað fram yfir nauðþurftir hafði hann látið sér koma til huga. Svo glámskyggn hafði hann verið á aðstöðu sína í þjóðfélaginu, meðan hann var ungur . . . Auðvitað fyrirvarð verkamaðurinn sig fyrir slíka óhæfilega heimtufrekju. Samt var hann ekki svo mikið lítilmenni að viðurkenna ekki heimsku sína fyllilega. Miskunnarlaust dró hann sínar fyrir fram dauðadæmdu kröfur út úr fylgsnum sínum og skoðaði þær vendilega, eins og í hefndarskyni fyrir að hafa látið sér detta þær í hug . . .
Í tilhugalífinu hafði það flogið að honum, að hann mætti til með að fá sér skárri flíkur, áður en hann settist á brúðarbekkinn. Hann gæti ómögulega látið sér lynda gallann af föður sínum sálaða. Hann mundi skrölta innan í honum eins og beinagrind. Svo hafði verkamaðurinn tekið upp þá nýstárlegu reglu að leggja til hliðar nokkrar krónur af vikukaupinu sínu. Já, hann hafði stofnað stássfatasjóð. En nokkru seinna hafði svo mjólkurreikningurinn komið, og auðvitað fór allur sjóðurinn í að greiða mjólkina. Litlu síðar vanhagaði verkamanninn um peninga fyrir kolum, og þá tók hann þær fáu krónur, sem komið höfðu í stássfatasjóðinn, síðan hann snaraði út úr honum fyrir mjólkinni. Og frá þeim degi og allt fram á þennan dag hafði ekki komið einn eyrir í þann fyrsta og síðasta sjóð, sem verkamaðurinn Þorlákur Þorláksson hafði stofnað um ævina . . . Húsfaðirinn hló. Allan skrattann gat maður látið sér detta í hug, meðan maður var ungur og vildi ganga í augun á kvenfólkinu . . . Þá hafði og Þorlákur oftsinnis ásett sér að gefa Júlíu eigulega kápu, en auðvitað aldrei orðið neitt úr því. Að vori til og fyrir hátíðar gaf húsmóðirin sig í hreingerningar til að geta klætt sig og börnin. Það var mikið, sem sú kona þoldi að þræla. Og ekki stóð á Solveigu; heldur gekk hún hálfnakin sjálf, en að láta börnin norpa úti í kuldanum, ber og köld . . .
Stundum hafði verkamaðurinn verið að hugsa um, að þetta væri eiginlega engin íbúð; kjallara skömmin væri að mestu leyti grafin í jörðu, og birtunnar nyti ekki nema að litlu leyti. Svo flóði allt í raka. Þorlákur hafði fljótlega komizt á þá skoðun, að undir öllum kringumstæðum væri ekki mjög hollt fyrir ungviðið að dvelja í slíkum vistarverum, þó að þær væru meira en góðar fyrir fulltíða fólk. Í stórmennsku sinni, sem auðvitað hafði ekki verið annað en heimska, hafði hann svo farið að líta í kringum sig eftir góðri íbúð. Þetta var um vor. Já, mikil ósköp; það var ekkert auðveldara en að fá prýðilega íbúð, ofanjarðar, tvær stofur og eldhús í nýbyggðu húsi. Þrefalt hærri leiga en í kjallaranum. Þá hafði dottið yfir Þorlák. – Mikið var, að hann kom til sjálfs sín. – En hann hafði nú samt ekki getað látið vera að spyrjast fyrir á fleiri stöðum. En í dag skildi hann ekki, hvað hann hafði í raun og veru meint með slíku ani út í bláinn. Loks hafði hann svo gefizt upp á þessu fyrir fullt og allt. Og hann hafði sagt við sjálfan sig:
– Ég hef engin efni á að leigja ofanjarðar, nema þá í einhverjum helvítis rimlahjöllum, sem gjökta og skjálfa, þegar einhver gjóla er. Það kann að vera, að loftið sé þar eitthvað skárra en í kjallaragarminum, en þar þarf ábyggilega tvöfalda kyndingu við það, sem ég kemst af með hér . . .
Þar með hafði endaleysan um bústaðaskiptin fengið rothöggið. Og ekki hafði verkamaðurinn enn séð, að börnunum hefði orðið mikið meint af andrúmsloftinu eða aðbúðinni í kjallaranum; sú getgáta hans dæmdist því fjarstæða . . .
Eftir því, sem fjölgaði á heimilinu, hafði hann endilega þótzt þurfa að bæta við sig einhverju af innanstokksmunum. Á uppboði var honum sleginn rúmgarmur fyrir skitirí, og í honum hafði eldri strákurinn og stelpan sofið fram yfir fermingu, og eldri strákurinn einn fram á þennan dag. En á þessu sama uppboði hafði Þorlákur slegið hendinni á móti ágætri kistu, og þó vanhagaði konuna algerlega um hirzlu undir fatarýjurnar. Honum var alveg sama um það. Hann ætlaði ekki að fylla húsið af ónýtu uppboðsskrani. Það var ásetningur hans, að láta smíða fyrir sig kommóðu, en auðvitað hafði það dregist von úr viti. Þá var ekki um annað að gera fyrir hann en að bæta við fleiri nöglum á bak við hengið. Húsmóðirin varð einhvern veginn að notast við það.
En loksins kom þá smíðisgripurinn. Það var ekki frítt við, að börnin rækju upp stór augu. Og Júlía var hrifin. Það hefði ekki þurft spánýja kommóðu, til þess að hún félli í stafi. Og víst hafði Þorlákur gaman af þessu. En gamanið stóð ekki lengi. Það leið ekki ýkja langur tími, þangað til hann komst að raun um, að hann hefði gengið of nærri pyngjunni. Það stóðu á honum ótal járn.
– Hvernig stendur á, að þú getur ekki borgað, maður? Ekki er atvinnuleysið núna!
Hvað átti hann að segja? Jú, hann sagðist hafa keypt kommóðu. Hann sagði bara eins og var. Bókhaldarinn illskaðist yfir því, að ekki hefði verið skrifaður einn einasti eyrir inn í viðskiptareikninginn fyrir síðustu viku. Hafði maðurinn efni á að sólunda peningunum sínum í annan eins hégóma og kommóðu? Hann yrði bara að gera svo vel að greiða inn í reikninginn vikulega; hann hlyti að skilja, að verzlun Gests Jónssonar hefði ekkert að gera með mann, sem léki sér að óskilasemi. Auðvitað hafði Þorlákur brugðist reiður við. Hvað varðaði bókhaldaranefnuna um það, hvað hann gerði við vinnulaunin sín? Og meðan Gestur Jónsson bannaði honum ekki að taka út, þá skyldi bókhaldarinn halda kjafti . . . En þótt Þorlákur þjösnaðist og héldi máli sínu fram til streitu, þá var hann undir niðri óánægður með stofudjásnið. Honum fannst hann hafa reist sér og sínum hálfgerðan hurðarás um öxl.
– Mér var skrattans nær að slá ekki hendinni á móti kistunni, muldraði hann . . . Verkamaðurinn hristi sig duglega. En ekki hafði hann látið sér segjast við þetta, heldur farið að grufla út í ýmislegt annað; þó hafði hann ævinlega haft vit á að halda slíku leyndu, eins og hann hefði alltaf innst inni fundið, að þetta væru eins og hverjar aðrar deleríur.
Eitt kvöldið hafði hann til að mynda tekið á sig rögg, labbað sig heim til skólastjórans og jagazt við hann um bækilinn. Víst hafði skólastjórinn játað, að bækillinn gæti orðið klókur á bókina. En í allri hreinskilni, – hvernig í ósköpunum sæi Þorlákur sér fært að kosta hann í skóla? Þorlákur hafði þá trúað skólastjóranum fyrir því, að bækillinn yrði aldrei liðtækur í almennilegri vinnu. Hann yrði að fást við eitthvað svipað dútl og skólastjórinn; annars yrði hann alla tíð ómagi og vesalingur; skólastjórinn hlyti að geta bent drenggarminum á einhverja leið. En skólastjórinn sagðist því miður ekki geta bent á neina leið. Þá hafði Þorlákur orðið reiður. En það átti bara alls ekki við að vera með stóryrði, þegar maður var að álpast út í bláinn. Og hvað hafði svo ekki verkamaðurinn sagt við bækilinn nokkrum misserum seinna?
– Þú átt að vinna eins og ég og mínir líkar; þú skalt ekki halda, að þér hafi verið ætlaður annar sess í lífinu. Það þarf peninga til að menntast . . . Ef til vill hafði húsfaðirinn oftast haft hin réttu sjónarmið á meðvitundinni, en stundum í einhverri flónsku skellt við þeim skollaeyrunum. Hann hafði sem sé ekki verið nógu hygginn til að beygja sig fyllilega undir ok raunveruleikans. En hann hafði samt fljótlega vaxið upp úr slíkum aumingjaskap.
Þorlákur Þorláksson hafði sett sér það takmark, að verða dugandi verkamaður.
– Á ég það nafn? spurði hann sjálfan sig. Jú, honum fannst það. Einhvern veginn hafði honum tekizt að krafsa sig áfram fram á þennan dag, án þess að hafa þurft að leita á náðir annarra, og enn hafði að minnsta kosti enginn drepizt úr hungri hjá honum. En hvað var hann að uppþemba sig? Ekki var öll nótt úti enn, sagði draugurinn. Bara hægur, litli karlinn, hver veit, nema það lækki í þér rostinn, áður en lýkur . . .
Verkamaðurinn var nú miðaldra maður, og þótt hann væri ekki farinn að láta svo mikið á sjá, þá var hann sér þess vel meðvitandi, að áður en varði, gæti brestur komið í skapgerð hans og drepið í honum kjarkinn, sem var hans bitrasta vopn í lífsbaráttunni. Slíkt hafði komið fyrir meiri menn en hann. Og svo maður sleppti nú öllum metnaði: Vissi hann nokkuð, hve lengi skrokkurinn héldi tryggð við þankann, sem í honum bjó? . . . Ennþá gat verkamaðurinn boðið sér hvað sem var: vökur, kulda, vosbúð. Hann lét ekki undan þreytunni, þótt hún brynni í vöðvum hans eins og eldur. Hann beit bara á jaxlinn og vann enn kröftuglegar en áður. Þetta var ein skorpa frá morgni til kvölds. Þorlákur hafði ekki enn orðið var við, að verkstjórinn liti til hans illu auga fyrir lélega frammistöðu. En menn, sem höfðu unnið með honum um margra ára skeið og ekki látið sitt eftir liggja frekar en hann, urðu nú oftsinnis að víkja fyrir öðrum yngri, sérstaklega þegar lítið var að gera. Augu verkstjórans voru frán. Þau létu víst fátt fara fram hjá sér, og það var ekki þeim að kenna, þótt mennirnir væru farnir að láta undan. Eini vegurinn fyrir þessa menn var að leita á náðir Gests Jónssonar. Hann veitti flestum einhverja úrlausn . . . Þorlákur Þorláksson dró andann djúpt og þandi út brjóstið. – Einhvern tíma hlýtur röðin að koma að mér, eins og öllum öðrum. Og aldrei gæti Gestur Jónsson veitt mér fulla uppreisn, því það er ekki á hans valdi að blása í neinn nýjum þrótti. Ég gæti trúað, að mér veittist erfitt að taka peninga fyrir þá vinnu, sem ég gæti ekki afkastað sómasamlega. En þetta mundu nú flestir kalla gikkshátt og sérvizku . . . Verkamaðurinn hló. Hann var glaður, hjartanlega glaður. Og það streymdi vermandi hlýja um allar taugar hans. Þorlákur Þorláksson var ennþá ódeigur. Og þótt áhyggjurnar boruðu sér oftsinnis inn í hjarta hans, þá tókst honum að bola þeim þaðan aftur með þrautseigjunni. Þær komu meira að segja sjaldnar nú heldur en fyrr á árum, og hann átti auðveldara með að kasta þeim frá sér.
– Áhyggjur eru hjartveiki, sagði verkamaðurinn. – Því að hana áhyggjur, meðan maður er ungur og getur unnið?
Komu áhyggjurnar sjaldnar aðeins af því, að Þorlákur Þorláksson hafði yfirleitt uppmálað þær fyrir sér sem hjartveiki? Nei, ástæðan var ekki sú. En hann fann mikið mannsefni í elzta syni sínum. Já, hann hafði meira að segja sagt það í annarra áheyrn, að strákurinn væri sér mikil hjálparhella.
Þorlákur Þorláksson var stoltur af að eiga Kjartan Inga fyrir son. Hann fann eitthvað úr sjálfum sér í þessum syni sínum, og hann elskaði hann á sína vísu.
– Jæja, Kjarri minn, eigum við að hafa þetta svona, eða lízt þér betur á það öðruvísi? var faðirinn vanur að spyrja soninn, ef hann var í vanda staddur. Já, hann bar traust til Kjartans Inga. Hann var ósérhlífinn, vinnusamur og ótilfyndinn.
– Hann lítur á lífið réttum augum, sagði faðirinn.
15.
Þrek Solveigar brast skyndilega.
Einn dag hneig þessi eljukona niður við balann. Hún var borin heim í kjallarann og lögð í rúm Valgerðar. Hin háaldraða móðir hafði dáið um vor fyrir tveim árum síðan. Þá hafði sendiboði almættisins komið. Solveig hafði sofið í rúmi móður sinnar að undanförnu. Húsfaðirinn hafði svo minnkað rúm Solveigar fyrir telpuna, Guggu.
Það var kyrrð og friður yfir sjúkrabeði móðurinnar.
– Hún má aldrei framar standa í þvottum og aldrei verða fyrir neinum verulegum skapbreytingum; hjartað er svo ósköp slappt, sagði læknirinn um leið og hann kvaddi.
Móðirin lá lengi rúmföst. Læknirinn kom daglega til hennar. Þorlákur spurði hann, hvort hann hefði nokkra von um, að Solveig kæmist á fætur.
– Já, vissulega, svaraði læknirinn.
Það eins og létti yfir svip húsföðurins.
– Bara að mér takist nú að láta henni líða vel hjá mér, sagði hann með sjálfum sér.
Júlía hafði innilega gleði af að hlynna að hinni veiku móður. Hún gerði það af allri þeirri samviskusemi og art, sem hún átti til. Þvotturinn var aldrei blakkur hjá henni, heldur skjannahvítur og bjartur. Húsmóðirin sá, að Solveig leit með velþóknun á fötin sín, þegar hún færði henni þau, nýþvegin og strokin. Júlía þráði stöðugt að halla sér upp að barmi móðurinnar og segja hlýlegt orð. En hvernig sem hún barðist við sjálfa sig, gat hún aldrei fengið sig til þess. Hún gat bara tárazt yfir þessu. Hlýju orðin höfðu víst orðið úti í einstæðingsskapnum – nema hvað hún átti eitthvað af þeim handa börnunum sínum.
Aldrei fann Solveig það betur en nú, hvaða mann tengdadóttir hennar hafði að geyma. Slíkrar alúðar umhyggju hafði hún ekki notið af nokkurri manneskju annarri. Handtök hennar fundust henni svo undur mjúk og viðkvæm. Stundum þurfti Júlía að beygja sig yfir rúmið; þá fann Solveig hjartslátt hennar í gegnum sængurfötin. Það yljaði móðurinni svo notarlega. Þetta var víst gott hjarta. Ævinlega skúraði húsmóðirin gólfið og lagaði til í herberginu meðan Solveig svaf. Þessu starfi hennar fylgdi enginn hávaði. Það raskaði heldur ekki svefnfriði veiku móðurinnar. Einn morguninn, þegar Solveig lauk upp augum sínum, leit hún á hvítskúrað gólfið. Það var svo undur hlýlegt, og nýstrokinn dúkur á borðinu; hvergi kusk eða ryk. Svo var einhver höfug ilman í andrúmsloftinu. Solveig áttaði sig brátt á þessu. Júlía hafði kveikt í birkihríslu; það gerði svo góða lykt.
Veiku móðurinni fannst allt svo bjart og fallegt í kringum sig. Þó var tár á kinn hennar, lítið glitrandi tár. Hún hafði víst alltaf misskilið Júlíu, og ef til vill snart það þær báðar jafndjúpt. Þjáningin hafði opnað móðurinni innsýn í hið dula eðli Júlíu. Solveig dró hana að sér og lofaði henni að hjúfra sig að mjúkum barminum. Henni fannst hún vera eitt af börnunum sínum.
– Mig langar svo til að vera góð við þig, sagði móðirin. – En það er nú svona, barnið mitt: Það er ýmislegt, sem villir manni sýn í veröldinni, svo maður á oft svo bágt með að vera góður.
Það var enginn skuggi lengur til á lífsbraut Júlíu. Hún lá oft vakandi á næturnar og hugsaði um það, hvort nokkur manneskja í veröldinni væri eins hamingjusöm og hún.
Það var í kringum sólstöðurnar, sem móðirin hafði fengið hið þunga áfall. Og það var ekki fyrr en með vorinu, sem hún gat farið að fylgja fötum. Þetta var milt og hlýtt vor, sem stráði gullkornum á fönnina í fjöllunum og gaf himninum hreinbláan lit. Þegar sólin skein glaðast, þá sagði Júlía við móðurina, að nú væri svo indælt úti; þær skyldu koma suður undir húsvegg. Og móðirin sat í sólskininu, og sólin vermdi hana. Samt var henni ævinlega kalt um hjartaræturnar. Það var svo margt, sem angraði hana.
. . . Ása hafði aldrei sent móður sinni línu. Þó var hún búin að vera gift í fjarlægu byggðarlagi um fimm ára skeið. Henni leið víst vel; að minnsta kosti hafði hún fengið óskir sínar uppfylltar. Solveig hafði heyrt, að hún væri gift efnamanni. En maðurinn hennar hafði verið staðinn að ódáðaverki. Hann hafði falsað víxla. Samt átti hann einhvern veginn að hafa komist hjá hegningu. Hvernig stóð á, að dóttir hennar gat verið með slíkum manni, virt hann, elskað og getið með honum börn? Ef til vill aumkaðist hún yfir hann og vildi standa við hlið hans í niðurlægingunni? Var hún svona góð? Móðirin nam staðar við þetta spursmál, og samstundis kviknaði ný spurning í huga hennar: Gat Ása verið góð, fyrst hún hafði gleymt móður sinni? Nei, fyrst hún mundi ekki eftir móður sinni, gat hún ekki hafa heyrt rödd guðs eða liðið þjáningar vegna breytni mannsins síns – eða fundið til niðurlægingar.
Móðirin reyndi að herða sig upp og vera glöð. Það var henni mjög erfitt. Hún átti svo lítið þrek. En það létti henni mikið, að hún fann hlýja strauma berast til sín frá öllum á heimilinu. Hún bar mikla umhyggju fyrir sonarbörnunum. Gugga var henni handgengnust af þeim öllum. Kári sat oft hjá ömmunni og talaði við hana. Kjartan Ingi var dálítið fjarlægur henni. Hann var dulur eins og móðir hans, en Solveig þekkti samt hinn góða hug hans. Hún hafði fundið hann í mörgu. Kjarri bugaði ýmsu að henni, og hún vissi, að hann gerði það af hlýju til hennar.
Móðirin fann vel, að þel hennar til sonarbarnanna var af einhverjum öðrum toga spunnið en sú ást, sem hún bar til sinna eigin barna. En hún gat ekki gert sér grein fyrir muninum . . . Hvað er nú vesalingurinn minn bæklaði að gera? Þessi spurning slá móðurina oftsinnis, og oft alveg óvænt. Drengurinn var stundum að heiman næturlangt. Solveig gat þá ekki sofið. Hún hrökk við af hverju smáhljóði, sem barst til eyrna hennar. Kannske var hann að koma? Nei, nú heyrðist ekkert nema andardráttur sofandi fólks. Solveig reis upp í rúmi sínu. Hún gat ekki legið kyrr.
Æ, hann var þó víst ekki að fara sér að voða? Henni fannst hann stundum svo undarlegur, þegar hann kom heim, læddist um, reikull í spori, engu líkara en að hann væri drukkinn. Það væri réttast, að hún klæddi sig og færi að gá að honum. Hann ætti ef til vill bágt með að komast heim. Svo gæti einhver gert honum illt. Móðirin steig fram úr rúminu og leitaði eftir fötunum sínum. En allt í einu settist hún á rúmstokkinn, sat grafkyrr. Hvað var hún að hugsa? Hann, sem var svo góður sonur! Þetta voru bara ljótar ímyndanir, sem hún yrði að uppræta úr huga sér. Móðirin lagðist fyrir í rúminu og breiddi ofan á sig. Áreynslan hafði eins og róað tilfinningar hennar. Hann hafði oftsinnis sagt við hana, að sér hefði aldrei liðið betur en nú. Hann hefði eignazt góða vini. Það þyrfti enginn að aumkast yfir sig eða hafa áhyggjur út af sér.
Hæ, hó! Bækillinn hafði fundið nýja veröld. Hann hafði byrjað að skynja hana við sígarettureykingar, en mjúkur konulíkami og ólgandi vín höfðu fullkomnað mynd hennar í sál hans . . . Sem betur fór, var vinstúlka hans ekki fyrir innan tvítugt, heldur þrítug og tveim árum betur, og hún var ekki falleg, heldur ólagleg, og ef til vill meira en ólagleg. Þau áttu saman. Menn kölluðu hann bækil, en sögðu, að hún væri ljót. Hún vann alla daga eins og forkur, kom til hans óþreytt að kvöldi og gaf honum allt, sem hún átti. Líkami hennar var mjúkur; það var í honum trylltur eldur, sem leiftraði og blossaði . . . Vinkonan var greiðug á peninga. Hún sagði, að hann mætti reykja svolítið, en hún vildi helzt, að hann hætti alveg að drekka; samt átaldi hún hann ekki, þó að hann neytti víns.
Nautnin mýkti hinar særðu tilfinningar bækilsins og friðaði hina þyrstu þrá hans út yfir það líf, sem hann átti við að búa. Sóleyju hafði hann vísað á bug, af því að hún hafði haft kjark til að orna sér við eldinn mikla, þann eld, sem hann í fávitaskap sínum og einfeldni hafði hatað. En nú óð hann þennan eld án þess að hika. Og eldurinn hafði hert hann. Hann skalf ekki lengur af blygðun, þótt hann horfði inn í mannsaugu. Nei, hann var ekki hræddur við neinn. Honum var sama um allt, nema þann djúpa unað, sem hann fékk notið í nautninni. Aldrei skyldi nokkrum manni takast að stela frá honum þeirri gleði. Einn maður hafði reynt það hvað eftir annað. En hann skyldi bara halda kjafti. Nú hafði bækillinn fulla einurð á að tala við manninn þann. Hann óttaðist ekki Þorlák Þorláksson. Hann hafði eignazt á hann vopn , sem beit. Hann hafði oftsinnis hótað honum að fara af heimili hans. Hann þyrfti alls ekki að vera upp á hann kominn með neitt. Honum kæmi móðir sín ekkert við, enda hlyti henni að líða bezt hjá Þorláki, þessum góða syni sínum.
. . . Og svo var það einn dag, að bækillinn lét ekki sitja við orðin tóm. Hann tók saman pjönkur sínar og fór.
Móðirin virtist taka þessu mjög rólega. Júlía hafði orð á því við Þorlák, að sér fyndist Solveig fölari en hún ætti að sér.
– Vill hún þá ekki leggja sig fyrir? spurði húsfaðirinn.
– Ég veit það ekki. Henni þykir víst bezt að vera á fótum. Húsmóðirin var mjög döpur.
– Það er auðvitað sjálfsagt, að hún hafi það eins og hún vill. Hún finnur bezt sjálf, hvað hún má bjóða sér, sagði Þorlákur.
Annar dagur eftir að bækillinn fór, var þriðji sunnudagur í júlí. Það var fuglasöngur niðri við ströndina, sól og angan í loftinu.
Gamla konan og tengdadóttirin sátu á grasigróinni flöt fyrir ofan bæinn.
– Ég ætla að leggja mig út af og hvíla mig, sagði Solveig. Hún hafði fengið svima yfir höfuðið.
– Líður þér eitthvað illa? spurði Júlía.
– Nei, barnið mitt; mér líður vel, sagði móðirin. Hún lá aftur á bak í grasinu og lét sólargeislana streyma í andlit sér. Hún lagði aftur augun, og henni fannst birta enn meir. Og þarna kom Valgerður, eins og hún var, meðan hún var ung. Hún rétti dótturinni hendur sínar.
– Vertu velkomin, sagði hún.
Solveig var svo undarlega styrk og glöð, þegar hún vaknaði. Júlía hálfhræddist það. Solveig bað hana að hlynna eins vel að drengnum sínum og hún hefði hlynnt að sér, ef hann kæmi aftur til þeirra.
Um kvöldið, þegar móðirin var háttuð, bað hún heimilisfólkið að koma inn að rúminu sínu.
– Ég er að deyja, sagði hún. Mig langar til að kveðja ykkur öll. Þið hafði verið mér svo góð.
Gugga grét lágt; annars var hljótt yfir dánarbeði móðurinnar. Og það var bjart yfir Solveigu í dauðanum – eins og alltaf.
Grjót og gróður 16. – 17.
Til baka