Óskar Aðalsteinn Guðjónsson


Grjót og gróður


Skáldsaga



 

Prentstofan Ísrún
Ísafjörður, 1941
Copyright ©1941
All rights reserved

 


16.


 

Hvað var að ske?.

Þorlákur Þorláksson hafði fengið nýtt umhugsunarefni, sem olli honum mikilla heilabrota. Hann vildi gjarnan ganga á snið við það, berja það niður og láta sem ekkert væri, en það tókst ekki. Umhugsunarefnið rann honum aldrei úr huga. Mikill bjáni mátti hann vera; eins og þetta væri ekki eðlilegt, eins og hann hefði nokkurn tíma þurft að vona, að allt gengi eftir hans geðþótta. Var ekki vani, að leiðindi og andstreymi skylli á honum með stuttu millibili, eins og bárur á grýttri strönd.

Hvað var svo að ske?

Sonurinn, Kjartan Ingi, var farinn að nota hverja frístund til að liggja í bókum, og ekki nóg með það, heldur var hann genginn í lygafélag, gjammaði þar á fundum, reifst upp á kraft í pólitík, eins og honum væri borgað fyrir það, eins og fyrir hverja aðra heiðarlega vinnu.

Þorlákur Þorláksson hafði aldrei verið neinn bókamaður. Bækur gátu verið góðar fyrir þá, sem lifðu á svoleiðis pappírsiðnaði, en fyrir hina, sem unnu heiðarlega vinnu, fannst honum þær ekki vera neitt sérlega mannbætandi; þær gerðu menn lata og tilfyndna. Og pólitíkin, þar var aðal markmiðið að lofa og svíkja; flest pólitík var auðvitað ekki annað en fagrar blekkingaumbúðir. Þó viðurkenndi verkamaðurinn, að Gestur Jónsson hefði hingað til haldið uppi atvinnulífi bæjarins. Hann væri sá eini af þessum pólitísku fagurgölum, sem reynslan hefði sýnt, að treystandi væri á. Húsfaðirinn, Þorlákur, vissi ekki til þess, að Gestur Jónsson hefði verið með neinar sérstakar gyllingar. Ef til vill hafði hann stundum gefið fleiri og meiri vinnuloforð en hann gat efnt, en hvað var það í samanburði við öll þau ósköp af vitleysu og kjaftæði, sem þessir svokölluðu alþýðuleiðtogar voru alltaf að láta út úr sér? Fyrst og fremst rægðu þeir Gest Jónsson, mann, sem hafði komist prýðisvel áfram og hleypt fjöri og krafti í atvinnulífið. Já, þeir höfðu miskunnarlaust rægt hann, kallað hann þjóf og verkalýðsböðul, sem kúgaði og þrælkaði lýðinn. Sem verr fór, höfðu þessi ósköp haft áhrif, og það sérstaklega á yngra fólkið, og þá helzt, sem einhver vitglóra virtist búa í. Þetta hafði gefið alþýðuforkólfunum svokölluðu undir fótinn. Við það hafði þeim vaxið ásmegin, og aldrei höfðu þeir kjaftað af meira krafti en einmitt nú. Húsfaðirinn, Þorlákur, sagði það fyrir sig, að hann gat ekki verið þekktur fyrir að hlusta eftir slíku kjaftæði. Sósíalismi, það var víst einhver skólaspekin, og ekki fyrir verkamanninn að skilja svoleiðis. Sjálfsagt var það rétt, sem Gestur Jónsson hafði svo oftsinnis sagt, að þetta væri ekki annað en glamur, en þó slungið brag til að vinna hug fjöldans. Fæstir af forkólfunum væru annað en strákar, uppþemdir af ofstæki og valdagræðgi.

. . . Og þarna var Kjartan Ingi, sonurinn, sem Þorlákur Þorláksson hafði treyst svo vel, drengurinn, sem hann elskaði á sína vísu.

– Hvernig bækur eru þetta? spurði faðirinn með hálfgerðu þjósti?

– Þær eru um uppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar, anzaði sonurinn rólega. Hann hafði mikið, rautt hár, þykkt og óstrokið. Hann var beinastór og knálegur eins og faðirinn. Það var bjart yfir honum eins og móðurinni, en birtan var ævinlega köld. Hann hafði stálgrá augu, sem hvörfluðu aldrei.

– Hver seldi þér þessar skruddur? spurði faðirinn ennfremur.

– Sigurður Fjalldal, anzaði sonurinn.

Verkamaðurinn lét brúnirnar síga; honum var mjög þungt niðri fyrir, og hann sagði með fyrirlitningu.

– Sigurður Fjalldal, maður sem níðist á þeim, sem heldur líftórunni í þessu byggðarlagi! Kaupir þú bækur af þeim, sem segir Gest Jónsson lygara, falsara, þjóf og verkalýðsböðul? Ætlar þú virkilega að halda því fram, að hans bækur séu til uppbyggingar fyrir okkur, verkamennina?

– Já, ég held því fastlega fram, anzaði sonurinn.

– Þú veizt ekkert, hvað þú ert að þvæla, hreytti faðirinn fram úr sér. – Eða ertu svo vitlaus að halda, að þetta brölt ykkar og kjaftæði hafi nokkuð að segja? Það eina, sem þið gerið, er að vekja sundrung og rifrildi, og hefur slíkt löngum þótt löðurmannlegt athæfi.

– Það er óhjákvæmilegt að vekja sundrung. Okkar málstaður er gegnólíkur Gests Jónssonar og hans fylgifiska, anzaði sonurinn.

– Þið eruð hundar, en ekki menn. Af öfund og aumingjaskap bakbítið þið þá, sem eru ykkur fremri og meiri í öllu. En sannarlega mun ykkur ekki takast að ginna fólkið. Það sér í gegnum sauðagæruna ykkar. Það veit, að þið eruð ekki annað en ofstopafull fífl, sem ætlið ykkur að gleypa himin og jörð. Og það mun koma á daginn, að loddarabrögð ykkar munu fyrst og fremst draga ykkur sjálfa niður í svaðið.

– Það hefur ekkert upp á sig að gera of lítið úr okkur, verkalýðssinnum. Stóryrðin ein fá engu um þokað, sagði sonurinn jafnrólegur og áður.

– Það er víst sjálfsagt að bera djúpa virðingu fyrir ykkur, sagði faðirinn kaldhæðnislega. – Það leyfir sér víst enginn að segja annað, en að þið hafið unnið mikið og gott starf: æst nokkra fáráðlinga upp á móti yfirboðurum sínum og lögum landsins. En sem betur fer, er allt ykkar brölt eins og hver önnur vindbóla, sem allir hlæja að.

– Hvað eru landslögin? sagði sonurinn og brýndi röddina. – Mannasetningar, sem fyrst og fremst hafa verið gerðar fyrir hina fáu útvöldu. Hvað geta fulltrúar okkar verkamanna á löggjafarþingi þjóðarinnar? Lítið sem ekkert. En við munum komast í meirihluta. Verkalýðurinn mun finna sína menn, þá menn, sem hann getur treyst, til að fara með mál sín. Verkalýðurinn hefur fundið sitt vopn, samtakamáttinn og því vopni mun hann beita ákveðið í baráttu sinni.

Faðirinn hló kalt.

– Já, það ber ekki á öðru, en að þú kunnir þessa þvælu fullt eins vel og hinir postularnir, en slíkt þyrlar ekki ryki í augun á mér. Þú þarft ekki að halda, að ég verði blekktur með ómerkilegu blaðri. Ég þekki mennina. Þeir geta sagt allan skrattann, sem þeim dettur í hug, en undir niðri eru þeir eigingjarnir og sérdrægnir. Þeir vinna fyrst og fremst fyrir sig, en ekki aðra. Það er eins og hver annar barnaskapur og heimska að búast við nokkru verulegu af öðrum; maðurinn verður að krefjast alls af sjálfum sér. Sjálfs er höndin hollust, hefur einhver reyndur og réttsýnn maður sagt. En auðvitað ert þú upp úr því vaxinn að taka nokkurt mark á mér. Þér hefur víst fyrir löngu þótt tími til kominn að taka þér einhvern annan og meiri til eftirbreytni. Þú skalt bara halda áfram að vera sporhundur Sigurðar Fjalldals og þeirra kumpána. Það er þér heiður að vera á móti föður þínum. Og ekkert nema gott eitt um það að segja, að þú haldir þig nokkurs konar kóngsson, sem komi til með að erfa allt konungsríkið eftir daga gömlu konungshjónanna.

Sonurinn horfði með djúpu og særðu augnaráði á föðurinn, en birtan í andliti hans var köld sem ís. Hann sagði:

– Það þýðir því miður ekkert að tala um þetta við þig. Þér er víst ómögulegt að skilja, að kröfur okkar um frelsi og jafnrétti við aðra menn séu af heilbrigðum rótum runnar, og sá skilningsskortur stafar ef til vill af því, að þú veizt ekki, hvað er að vera raunverulega frjáls maður.

Faðirinn leit á son sinn hvössu augnaráði. Hann ætlaði að segja eitthvað, en hann hætti við það. Slík fásinna sem þessi var ekki svara verð. Hver leyfði sér að segja, að Þorlákur Þorláksson væri ekki fullkomlega frjáls maður? Enginn nema sonur hans. En aldrei skyldi faðirinn trúa, að hann hefði gert það af öðru en óvitaskap. Hann hafði verið tældur til þess. Hvað var nú orðið um von hans með Kjartan Inga? Hvar var knái strákurinn með rauða hárlubbann, strákurinn, sem hafði ævinlega staðið við hlið hans í einu og öllu? Honum hafði verið rænt frá honum. Veröldin var stundum harðhent. Þorlákur Þorláksson hafði ekki verið við þessu ráni búinn. Hann, þessi ósérhlífni, kaldlyndi verkamaður, átti sínar tilfinningar. Þær gátu orðið svo sterkar og stórfenglegar, að þjózka hans, kjarkur og áræði yrðu máttvana gagnvart þeim. Hann fann til skerandi sársauka fyrir brjóstinu. Það var eins og hann hefði verið lagður vopni. Hann heyrði sjálfan sig endurtaka hvað eftir annað:

– Lífið hefur ekki brúk fyrir tilfinningasemi.

En eggjunarorðin féllu máttvana til jarðar. Þorlákur hafði fyrir stuttu síðan staðið yfir moldum móður sinnar og þá átt fullt í fangi með að halda tilfinningunum sínum í skefjum. Og nú hafði Kjartani Inga verið rænt frá honum . . . Verkamanninum varð um megn að standa af sér þetta andstreymi. Það sveigði mótstöðuafl hans, eins og þegar stormur sveigir stráin.

Þorlákur hvíldi í örmum móður sinnar, jarðarinnar. Henni einni trúði hann fyrir veikleika sínum. Hann grét lengi við brjóst hennar. Tár hans fengu að streyma óhindruð og frjáls. Það var eitthvað ofstopafengið og helsárt í gráti hans, en eftir því sem hann grét lengur, var eins og honum hægðist – og einhver friðandi og vermandi tilfinning færi um brjóst hans. Hann lá lengi þögull, eftir að hafa grátið út, og tuggði nokkur gulhvít sinustrá. En brátt stóð hann á fætur og teygði úr sér, kreppti hnefana eins fast og aflið leyfði – og gretti sig. Þrjózkan og seiglan höfðu aftur sett mót á svip verkamannsins og tekið sér bústað í hjarta hans. Hann hló fyrirlitlega að viðkvæmni sinni og muldraði niður í bringuna:

– Það þýðir víst lítið að láta tilfinningasemina rassskella með sig norður og niður. Þá er alveg eins gott að fá sér spotta og hengja sig einhvers staðar upp.

 


17.


 

Lífið í kjallaranum . . .

Enginn vissi um sorgir þess og gleði nema það sjálft.

Húsmóðirin, Júlía, var lasin. Hún hafði haft óvenju mikið að starfa, en það hafði líka svo margt uggvænlegt verið að gerast í kringum hana. Gugga hafði ofkælzt í vaskinu. Stundum var það blóðlitað sem upp úr henni gekk. Og þó hafði Júlía prjónað henni þykka nærklukku, ermaskjól, ullarboli, vettlinga og sokka.

– Búðu þig nú vel, hafði hún alltaf sagt við dótturina, og telpan hafði alltaf búið sig vel, en það hafði ekki dugað. Júlía átti litlar vonir um heilsu hennar. – Það var sorglegt, eins og þessi telpa hafði verið efnileg.

Feðgarnir þvoðu yfir gólfin. Þeir borðuðu brauð og drukku kaffi um hádegið, en suðu sér fisk og elduðu graut á kvöldin. Húsmóðurinni fannst Kjarri og Láki svo þögulir hvor við annan. Það var nýtt fyrir hana að sjá þá svona. Þeir, sem alltaf höfðu verið svo samrýmdir. Hvað hafði komið fyrir? Hún spurði bara í huga sér. Um slíkt gat hún aldrei spurt upphátt. Ef til vill stóð þetta fálæti í sambandi við fundahöldin og bækurnar; já, kannske það? Hún vissi það ekki. Hún fann bara kuldann og tómlætið í samvistum þeirra. Kári var alltaf sami góði drengurinn. Pabbi hans hafði lofað honum að spara sér saman fyrir skóm.

– Þeir eru mjög fallegir, sagði Júlía.

Drengurinn fór í skóna. Það marraði í þeim, þegar hann gekk. Slíka gersemi hafði hann aldrei eignazt fyrr á ævi sinni. Honum fannst sér líða svo vel í fótunum. Svo fannst honum líka, að hann væri orðinn miklu meiri og fullorðinslegri.

– Þú mátt ekki vera á þeim úti, nema þegar þurrt er um, sagði húsmóðirin.

– Ég held bara, að ég tími því aldrei, sagði drengurinn og bjó um skóna í pappaöskjunni, sem hafði fylgt þeim úr búðinni.

Júlía var glöð; henni fannst bara svo sárt að geta ekki unnið störfin sín. Stundum reyndi hún að renna ofan af gólfi eða bæta flík, en hún gafst fljótlega upp á því.

– Láttu þér batna, kona. Svona lasleika skömm getur hefnt sín, ef maður fer ekki vel með sig. Það sannaðist á mömmu.

Húsmóðirin gat ekki annað en hlýtt.

Heimilið fékk dekkra yfirbragð. Enginn sá það betur en Júlía. Það var ekki eins vandvirknislega skúrað, skafið og skrúbbað. Nei, það var ekki gert af sömu hreinleikatilfinningunni og alúðinni og þegar hún gerði það sjálf. Það var líka unnið án djúprar hrifningar. Hún var sálin í heimilisstörfunum. Feðgarnir voru að mestu óvanir þessari vinnu.

En Júlía komst bráðlega á fætur. Hún var samt mjög óstyrk fyrst framan af. Það kom stundum svimi yfir höfuð hennar. Þá varð hún að styðja sig við það, sem næst var hendinni. Svo brosti hún og varð svo barnalega glöð; svima skömmin leið alltaf frá. Nú gat hún unnið fyrir heimilið sitt. Og hún sagði við Láka:

– Mér er batnað.

– Þú átt að liggja lengur, sagði hann. – Þú ert engin manneskja til að vinna ennþá.

– Mér er alveg batnað, sagði hún mjög glöð og studdi sig við þilið – bara svolítið. Hún gat aftur farið að vinda þvottinn; hún gat líka legið á hnjánum við að skúra gólfin. Þau fengu aftur sinn fallega hreinhvíta lit. Allt á heimilinu fékk aftur bjart og hreint yfirbragð. Heimilið gat engu frekar verið án hennar vinnu en húsföðurins. Faðirin og móðirin voru máttarstólpar fjölskyldunnar. Ef þeir biluðu, mundi heimilislífinu hrörna, og vel gat átt sér stað, að fjölskyldan yrði að hætta samvistum.

Húsfaðirinn var vel á verði núna. Það var einhver ókyrrð í loftinu, fannst honum. Einhverjir voru að hvísla því í kringum hann í vinnunni, að kaupið yrði lækkað – og að þeir, sem ekki vildu vinna með þessu lægra kaupi, fengju enga vinnu. Þorlákur Þorláksson hafði sína skoðun á þessum máli. Hann ynni áfram fyrir lægra kaup. Gestur Jónsson hafði ábyggilega fullar ástæður fyrir lækkuninni. Þorláki var víst sama um það, sem verkalýðssinnar gjömmuðu. Hann fór sínar götur.

– Þið um ykkar an, sagði hann, þegar einn hinna stéttvísu, eins og þeir kölluðu það, lét í eyru hans, að þeir hefðu fjöldann með sér. Það væru flestir orðnir verkalýðssinnar nú, ef ekki í verki, þá að minnsta kosti innra með sér.

 


Grjót og gróður 18. – 19.
Til baka