Óskar Aðalsteinn Guðjónsson


Grjót og gróður


Skáldsaga



 

Prentstofan Ísrún
Ísafjörður, 1941
Copyright ©1941
All rights reserved

 


18.


 

– Helvítis nepja er þetta.

Verkamaðurinn hreytti þessu út úr sér og barði sér duglega. Þetta var snemma morguns – og Þorlákur á leið til vinnu sinnar. Það voru nokkrar stúlkukindur og fáeinir karlmenn komnir á vinnustaðinn, stóðu fyrir utan fiskþvottaskúrinn og biðu þess, að verkstjórinn kæmi.

– Það ætlar að vora seint, sagði einn úr hópnum.

– Það þýðir nú lítið að fást um það, anzaði Þorlákur. – En við getum reynt að koma okkur inn; stúlkurnar drepast úr kulda af að híma svona.

– Við komumst líklegast varla inn um heilt. Ekki höfum við lyklavöldin, sagði ein af stúlkunum.

– Ég er með lykilinn, manneskja. Karlinn getur ekki komið fyrr en seinna. Hann bað mig að skjóta ykkur inn, sagði Þorlákur og lauk upp dyrunum.

Það var eiginlega jafnkalt og nöturlegt, þegar inn kom, því að skúrinn var mesti garmur, allur skakkur og skældur, og víða sást úr á milli borðamóta. Það komu skaflar á gólfið í stórhríðum, og í votviðrum streymdi vatnið alls staðar óhindrað inn. En fólkið komst brátt í sólskinsskap. Áreynslan gaf því vermandi hlýju. Stúlkurnar hlógu og skríktu. Þær voru fljótar að klæða sig í hlífðarfötin. Fiskþvottakerin voru nær því full af sjó. Dælukarlarnir hömuðust við verk sitt, svo að brátt flaut út úr hverju keri. Þannig vildu stúlkurnar hafa það. Og ekki stóð á þeim, sem báru fiskinn til stúlknanna. Hverjum skippundsbörunum á fætur öðrum var hrúgað að kerunum. Matsmaðurinn var hinn strangasti. Hann lét engan fisk fara fram hjá sér óséðan, og ef honum fannst einhver þeirra illa þveginn, var hann ófeiminn við að kasta honum til baka í þá, sem hafði þvegið hann . . . Vinnan var komin í fullan gang. Hver vann sitt starf eftir beztu getu. Stúlkurnar sungu, og ískaldur sjórinn slettist framan á þær og rann niður olíuborin hlífðarfötin.

Það átti svo að heita, að Þorlákur ætti að hafa yfirumsjón með vinnunni. Karlinn hafði sérstaklega beðið hann að hafa vakandi auga með strákunum og stelpunum. Og var það nema eðlilegt, eins og þetta þóttist vera mikið, síðan það lét narra sig í samtökin? Þorlákur vissi til þess, að það hafði oftsinnis að undanförnu verið að halda kjaftafundi í verkalýðsfélaginu, og nú síðast í gærkveldi. Hvern skrattann gat það eiginlega alltaf verið að þvæla? Jú, það var víst eitthvað að stinga saman nefjum um væntanlega kauplækkun. Eins og Gestur Jónsson færi ekki sínu fram, hvað svo sem það gjammaði! Ja, þvílík andskotans vitleysa! Verkamaðurinn var þungur á brún og böðlaðist áfram eins og kraftarnir leyfðu. En þegar á leið morguninn, fór hann að smá kíma. Hann var ekki vandur að vera með fýlu í vinnunni, því að í starfinu gleymdist honum ævinlega allt, sem honum þótti miður. Skröltið í dælunum, kátínan og málæðið í fólkinu, gusugangurinn, sem fylgdi hinum snöru handtökum stúlknanna við fiskþvottinn – já, öll hin óþvinguðu og ólgandi hljóð frá vinnunni og hinar glöðu raddir runnu saman í einn þægilegan klið fyrir eyrum verkamannsins og eins og juku á þá djúpu ánægju, sem hann naut í starfinu.

Undir hádegið komu verkstjórinn – og Gestur Jónsson í fylgd með honum. Framkvæmdastjórinn bað fólkið að hætta um stund vinnunni; hann þyrfti að tala við það nokkur orð.

Það varð brátt fullkomin kyrrð í fiskþvottaskúrnum. Gestur Jónsson fékk ævinlega gott hljóð, þegar hann þurfti að segja eitthvað. Af gamalli reynslu og langri viðkynningu þekkti fólkið, að sá maður talaði yfirleitt ekki meira en nauðsyn krafði.

Verkamaðurinn gaf framkvæmdastjóranum við og við auga og hlustaði með öðru eyranu á það, sem hann var að segja.

Gestur Jónsson fór sér að engu óðslega, en talaði hægt og yfirvegað og kom formálalaust að efninu, eins og hans var ævinlega vani. Hann sagði, að kauplækkunin kæmi til framkvæmda nú upp úr hádeginu. Eins og sjálfsagt flestir vissu, væru engir sölumöguleikar fyrirsjáanlegir. Samt sæi hann ekki ástæðu til að stöðva driftina að svo stöddu. Hann sagðist vona, að fólkið skildi þetta. Sjálfum þætti honum mjög fyrir þessu. Hann hefði semsagt viljað, að kaupið hefði getað haldizt óbreytt. Hann þyrfti alls ekki að kvarta undan því, að sitt fólk ynni illa. Hann hefði ævinlega verið mjög ánægður með afköst þess. Ef til vill væri hvergi annars staðar á landinu unnið eins vel og hér, að minnsta kosti ekki, svo, að hann vissi til. Það væri honum æðri menn, þeir, er lánuðu honum út á fiskinn, sem neyddu hann til að gera þessa óhjákvæmilegu ráðstöfun. En auðvitað yrði þessu breytt undir eins og úr rættist, og hann vildi vona, að það yrði sem allra fyrst. En ef það væru einhverjir, sem ekki gætu sætt sig við þetta, þá yrðu þeir að hætta að vinna nú þegar, og ekki víst, hvenær hann þyrfti á þeim að halda aftur.

Það varð þögn um stund. Svo sagði Gestur Jónsson:

– Það var ekki annað. Þið getið byrjað að vinna.

Það voru ekki nema átta eða níu, sem hófu aftur vinnu, og þó eins og hægt og hikandi . . . Þorlákur stóð enn verklaus. Hann sá, að allflestir gengu þegjandi frá störfum sínum, og þar á meðal drengirnir hans. Verkamaðurinn leit til framkvæmdastjórans. Það var sama róin yfir honum. Hann hafði víst verið við þessu búinn. Þetta var hár maður og glæsilegur með stór og hvöss augu, og var ljós á hörund. Það var eitthvað ákveðið og óbilgjarnt við alla framkomu hans.

– Við skulum drífa okkur í að bera til stúlknanna, Þorlákur; þær vantar fisk, sagði verkstjórinn.

Þorlákur hló storkandi, og hann var búinn að segja, áður en hann vissi af:

– Ég er ekkert upp á það kominn að vinna hjá ykkur. Þið getið víst ekki frekar notazt við mig en strákana mína. Og með þessi orð á vörunum gekk hann burt. Reiðin svall í honum. Honum fannst Gestur Jónsson hafa gert sér rangt til. En hvernig? Ja, því gat hann ekki almennilega komið fyrir sig. Hann sem hafði um tíma ætlað að sætta sig við lélegra kaup! Það hefði kannske orðið til þess, að hann hefði einhvern veginn getað dregið fram lífið, þar til betur áraði. En nú höfðu synir hans verið reknir heim úr vinnunni, eins og þeir væru einhver aðskotadýr eða flækingshundar. Og þetta hafði Gestur Jónsson gert, – maðurinn, sem Þorlákur Þorláksson hafði hvað eftir annað kosið til þings og í bæjarstjórn. Hann hafði treyst honum til að gera eitthvað af sanngirni eða viti. En auðvitað gekk Gestur Jónsson þá götu, sem honum líkaði bezt, en Þorlákur ætlaði bara ekki að fylgjast með honum annað en honum sýndist.

. . . Brátt settist tómleikinn að í sál verkamannsins. Honum fannst hann einhvern veginn ekki kannast við sjálfan sig í athafnaleysinu. Honum fannst vera þrengt að sér á alla vegu. Hann brann í skinninu eftir að reyna á krafta sína. Hvað skeði, ef hann héldi áfram að slæpast svona dag eftir dag? Hann hryllti við að hugsa þá hugsun til enda. Það er ekkert naprara til í veröldinni fyrir dugandi verkamann en að standa uppi atvinnulaus og horfa upp á það, að hafa ekkert fyrir sig og sína.

Verkamaðurinn gat ekki haft hemil á sér lengur. Það greip hann lamandi eirðarleysi. Honum fannst hann ekki geta verið neins staðar. Honum var alls staðar eins og ofaukið. Hann hafði ekkert að gera, þar sem hann var að þvælast. Stundum gekk hann inn á hlíð; þar var allt stokkfreðið og ekki hægt að hreyfa við steini. Oftsinnis nam hann staðar á bryggjunni og horfði á fleyturnar, sem höfðu kveðið við af háværum skellum og glaðværum málandanum í sjómönnunum, – og svo: hin iðandi mergð hinna gulu þorska; já fleyturnar, sem stafnanna á milli höfðu verið eitt þróttmikið líf, – þær lágu nú þarna flestar við tjóðurband, af því að enginn fékkst til að fara á sjó. Verkamaðurinn kom aldrei í fiskþvottaskúrinn, þar sem örfáar hræður unnu. Hann kom heldur ekki fram á bryggjuna, þegar verið var að losa þessar tvær fleytur, er Gesti Jónssyni hafði loksins tekizt að manna með einhverju handónýtu liði, sem ekki fékk ugga úr sjó. Nei, hann gat ekki gert svo lítið úr sér að sýna sig framan í því. Hann gæti aldrei tekið fullum sættum við Gest Jónsson. Það skyldi enginn þurfa að gamna sér yfir hunds- og undirlægjueðlinu í Þorláki Þorlákssyni.

Hugsanirnar ruddust fram í huga verkamannsins í stórfylkingum. Hann spurði sjálfan sig: Hvar ætluðu verkalýðssinnar að taka sitt lífsviðurværi? Þetta voru allt blásnauðir menn, sem ekki höfðu tök á að drífa neina atvinnugrein. Vissu þessir bjánar, út í hvað þeir voru að ana? Höfðu þeir gert sér grein fyrir, að þeir voru að stofna lífi sínu, barna sinna og kvenna í bráða hættu, fyrir andskotans fífldirfskuna og stórbokkaskapinn í sjálfum sér? Nei, þeir höfðu víst ekki tíma til að brjóta heilann um slíkt. En það kæmi að því; maginn segði til sín. Hvað þá? . . . Og Þorlákur Þorláksson – var hann ekki sjálfur einn bjáninn? Hafði hann ekki neitað að vinna? Hafði hann ekki látið tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur? Það sat víst sízt á honum að ámæla öðrum . . .  Verkamaðurinn hló tryllingslega. Hlátur hans líktist mest öskri. Hann hló lengi. En eftir að mesti ofsinn hafði runnið af honum, sagði hann:

– Er ég nú orðinn alveg vitlaus? Get ég ekki reynt að hafa dálitla stjórn á sjálfum mér? Hann hristi sig duglega og bölvaði í hljóði. Það var kyrrð yfir huga hans um stund. Hann beit á vörina og var þungur á brún. Það mátti lesa ýmiss veðrabrigði í svip hans, og ekki svo gott að sjá, af hvaða átt mundi blása . . . Verkamaðurinn kímdi. Svo mikið hafði hann frétt, að hingað til hafði Gestur Jónsson vísað öllum tilboðum verkalýðssinna á bug. Hann hafði átt að segja, að fram að þessu hefði hann ævinlega verið einfær um að ráða öllum málum sínum til lykta – og að hann óskaði ekki nú, frekar en áður, íhlutunar annarra . . .

Já, karlinn sá hafði nú ekki látið einn eða neinn vaða ofan í sig um dagana. Hann hafði ævinlega og alltaf staðið fastur á meiningu sinni. Þorlákur dáðist að slíkum mönnum. Hann vildi gjarnan líkjast þeim að einhverju leyti. En var málstaður Gests Jónssonar að öllu leyti heilbrigður? Svipur verkamannsins varð allt í einu þykkjufullur, og hugur hans fylltist enn á ný megnri gremju til framkvæmdastjórans. – Hann gat vel skilið, að Gesti Jónssyni væri líklegast nokkur óhagur í að borga áfram eftir gamla taxtanum, en hann hlyti þó að skilja, að fólkinu væri lítt mögulegt að draga fram lífið með lægra kaupi en það hafði haft hingað til. Það var komin kreppa, og engu líkara en að Gesti Jónssyni fyndist sjálfsagt að kasta henni með öllum hennar djöfullega þunga og pyndingum yfir á margsligaðar herðar verkalýðsins. Þó að Þorlákur væri enginn sósíalisti, gat hann vel viðurkennt, að Gestur Jónsson stæði bezt að vígi með að bera bróðurpartinn af þunga kreppunnar á sínum eigin herðum, og að það væri fyrir neðan virðingu hans að safna í fjárhirzlu sína á slíkum tímum sem þessum. Hér hafði hann auðgazt. Hér hafði hann komizt til mannvirðinga. Hér hafði hann sem sagt orðið að manni. Því þurfti hann endilega að níðast á fólkinu, þó að eitthvað lítillega reyndi á þolrifin? Var glæsileikinn bara utan á honum, en náði ekki til hjartans? Auðvitað var hann sjálfum sér næstur, maðurinn. Mannkindin var nú einu sinni fædd með þeirri hugsun. Og var það ekki fyrst og fremst skylda hvers manns að hugsa um sig og sína? Verkamaðurinn hafði aldrei mælt á móti þeirri skoðun, síður en svo. En honum fannst þetta ekki bæta málstað framkvæmdastjórans að neinu leyti. Gestur Jónsson hafði svo langsamlega hlotið stærstan skerf af vinnuarði verkafólksins. Og bar honum þá ekki skylda til að reynast fólkinu eftir því? Fólkið hafði treyst honum. En nú hafði Gestur Jónsson svikizt undan merkjum.

Var þetta meining Þorláks Þorlákssonar?

Það spruttu fram svitadropar á enni verkamannsins. Honum fannst hann vera að svíkja sjálfan sig. En það varð að hafa það. Honum var ómögulegt að réttlæta gerðir framkvæmdastjórans.

– Andskotinn hirði þá alla saman! hrópaði hann í bræði sinni. – Þeir geta átt sig sjálfir með alla sína vitleysu. Ég stend einn!

 


19.


 

Bjargarvana heimili.

Það hafði aldrei verið ömurlegra í kjallaranum en nú. Nokkrir blóðmörskeppir svömluðu í sláturstunnunni. Svo voru nokkrir haframélshnefar eftir í dælduðu blikkboxi. Allur annar matur var genginn til þurrðar.

En alltaf leggst mönnum eitthvað til. Kjartan Ingi færði Júlíu nýmeti í soðið.

– Ertu farinn að róa, strákur? spurði faðirinn.

– Já, við höfum fengið lánaðan bát. Ég átti að vita, hvort þú vildir ekki vera með?

Það dimmdi yfir svip föðurins. Hann sagði kalt:

– Er þetta boð ykkar nokkrum skilyrðum bundið?

– Nei, engum, anzaði sonurinn.

– Gott, sagði faðirinn. – Ég læt ekki af minni meiningu, karl minn.

– En meining þín er nú bara orðin réttari en hún hefur verið, sagði sonurinn og horfði sínum stálgráu augum ákveðið á föðurinn.

– Þú mátt gera þér hvaða hugmyndir um það, sem þú vilt, sagði faðirinn og sótti í sig veðrið. – En eitt get ég sagt þér: Þið rennið á rassgatið með alla ykkar mikilmennsku. Gestur Jónsson sveltir ykkur til hlýðni.

– Jæja, svo þú heldur, að honum takist það, sagði sonurinn storkandi og hnykkti til höfðinu. Hann þagði um stund. Hann var auðsýnilega að berjast við eitthvað hið innra með sér. Loks sagði hann: – Hvað segirðu um þetta, sem ég var að minnast á við þig áðan?

– Víst verð ég með. Ég vil vera alls staðar þar sem ég fæ að vinna fyrir mér á heiðarlegan hátt, sagði faðirinn.

. . . Þeir þögðu báðir.

 

. . . Yfirvöld kaupstaðarins höfðu komið með reikninga til verkamannsins. Það var ekki nema eðlilegt: gjöld hafði hann alltaf orðið að greiða, – og því ekki eins þetta árið? . . .  Húsfaðirinn klóraði sér á bak við eyrað. Hann hafði alltaf haft einhverja leið með gjöldin, en nú fann hann enga leið.

– Þau sögðust koma aftur á morgun, sagði Júlía.

– Þau hver? spurði Þorlákur.

– Yfirvöldin, anzaði hún.

– Ertu hrædd?

– Nei, svaraði Júlía.

– Hvað þá?

– Þau ætla víst að taka þetta litla, sem við eigum.

– Jæja, verði þeim að því . . .  Þorlákur sagði ekki meira, og húsmóðirin hætti að tala.

Hún var viss um, að Láki muni einhvern veginn sjá út úr vandræðunum. Hún vann sín störf af sama næmleik og alúðarhlýjunni og alltaf áður. Gólfin voru hvítskúruð; þó var engin sápa til á heimilinu, bara sandur úr flæðarmálinu.

Nýr dagur rann. Það var barið á kjallaradyrnar hjá Þorláki; og von bráðar gat að líta einkennilega tegund af mönnum, ólíka fólkinu, sem bjó í kjallaranum. Þeir voru tveir, heiðursmennirnir. Annar hvíthært gamalmenni í brúnum, þykkum frakka og með svartan flókahatt á höfði. Hann dró saman brúnirnar, setti skeifu á fláan munninn, rumdi og fletti í stórri bók, sem hann hafði tekið upp úr skjalatösku. Hann lét á sig gleraugun og tók þau af sér á ný, þannig upp aftur og aftur. Svo sagði hann:

– E-hem, Þorlákur Þorláksson, þér eigið ógreidd gjöld yðar til bæjarfélagsins. Getið þér nú greitt?

Húsfaðirinn horfði á gamalmennið geifla á sér munninn. Svo horfði hann á hina persónuna, sem inn hafði komið, þriggja álna mann, með gyllta hnappa og borða á fötunum. Hann minnti á jólatré í fínu húsi. Þetta var lögreglumaður. Hann hélt á skjalatöskunni og hneigði höfuðið til frekari áherzlu á því, sem gamalmennið sagði.

– Getið þér greitt? endurtók gamalmennið, og það var ergelsi í röddinni.

– Nei, ég á fullt í fangi með að fá eitthvað að éta, anzaði húsfaðirinn.

– Jæja, þá er ekki un annað að gera heldur en að skrifa upp hjá yður.

– Ha? spurði húsfaðirinn.

– Já, okkur hefir verið fyrirskipað að taka hjá yður lögtaki, ef þér stæðuð ekki í skilum og greidduð skuld yðar tafarlaust.

– Jæja, karlarnir, sagði húsfaðirinn og glotti kalt. – Mér er spurn, hvað ætlið þið að taka?

Gamalmennið barði í borðið, og lögreglumaðurinn setti í brúnirnar. Gamalmennið benti á fatahengið.

Húsfaðirinn dró það til hliðar. Undir því héngu karbættir fataleppar Valgerðar, sem fyrir löngu hafði kvatt þennan heim. Þeir héngu víst þarna sem minning þess, að hún hefði einhvern tíma verið til. Að minnsta kosti hafði Júlía ekki kunnað við að brenna þeim. Þarna voru líka skárri flíkurnar af föður hans sálaða. Það kom fyrir, að húsfaðirinn þurfti á þeim að halda.

– E-hem, sagði gamalmennið í ráðaleysi; það var að benda á rúmið hennar Guggu.

Gugga hafði orðið svo skelkuð, þegar yfirvöldin rákust inn, að hún hafði dregið sængina upp yfir höfuð sér. Hún þrýsti sér af öllum sínum kröftum niður í hálmdýnuna. Bara að guð hjálpaði henni til að komast inn í dýnuna; þá gætu yfirvöldin aldrei fundið hana. Hver vissi, nema þau væru komin til að sækja hana? Yfirvöldin hlytu að vera mjög vond. Það voru allir svo hræddir við þau. Gugga þorði ekki að láta á sér bæra.

– Þú hefur enga heimild til að hreyfa við rúmunum, sagði húsfaðirinn skipandi röddu.

– Það var nú heldur ekki meiningin, muldraði gamalmennið og skimaði í kringum sig, tók af sér gleraugun og lét þau á sig aftur. En von bráðar námu augu þess staðar við kommóðuna. Að vísu var mesta gyllingin horfin af henni, en þrátt fyrir það var hún samt eigulegasti hluturinn á heimilinu . . . Húsfaðirinn sá, hvað gamalmenninu leið.

– Þér lízt vel á djásnið, sagði hann og hló ánægjulega. – Þú gerðir mér stóran greiða, ef þú vildir hirða það fyrir mig upp í gjöldin. Slík gersemi á sannarlega ekki heima hér í kjallaranum.

– E-hem, sagði gamalmennið enn einu sinni. Svo skellti það aftur bókinni og lét hana niður í töskuna, hneppti að sér brúna þykka frakkanum og lét svarta flókahattinn á sitt hvíthærða höfuð. – Þér komið til okkar og greiðið við fyrsta tækifæri, sagði það og opnaði dyrnar. Svo hvarf það út – og lögreglumaðurinn á eftir.

Gugga leit upp undan sænginni og brosti. Hún vissi, að bráðum kæmi sumarið og sólskinið með birtu og yl yfir lífið.

Húsfaðirinn gekk í hægðum sínum eftir gólfinu. Júlía koma til hans.

– Láki, sagði hún, alveg eins og meðan þau voru bæði svo ung.

Hann strauk henni um vangann.

 


Grjót og gróður 20. – 21.
Til baka