20.
– Okkur verður send hjálp.
Húsfaðirinn heyrði Kára segja þetta við Kjartan Inga. Þetta var um nótt, og strákarnir voru að afklæða sig. Þeir höfðu verið á fundi. Þorlákur klemmdi aftur augun og hnipraði sig saman í rúminu. Hvað varðaði hann um það, sem strákarnir voru að þvæla? Hann dró andann djúpt og lá rólegur um stund, en svefninn vildi ekki taka hann í arma sína.
– Okkur verður send hjálp. Þessi orð yngri sonarins héldu fyrir honum vöku . . . Hvaðan gat komið hjálp – og hvernig? Það var verkamanninum hulin ráðgáta. Auðvitað var þetta tilhæfulaust gaspur út í bláinn, eitthvað upplogið til að hleypa æsingu í togstreituna, – til að koma öllu í uppnám. Báðir deiluaðilar voru fyrir löngu orðnir þreyttir á þessum pappírssamningaumleitunum; það hjakkaði alltaf í sama rassfarinu, hvort sem var; þetta glamur hinna stéttvísu um hjálp var sjálfsagt eitthvert örþrota hróp, – tilbúin grýla, en vart mundi slíkt hræða Gest Jónsson.
Húsfaðirinn bylti sér í rúminu.
– Okkur verður send hjálp! var kallað í huga hans. Honum var um megn að bæla orð þessi niður. Það var eins og hann tryði þeim, hversu oft sem hann reyndi til að kasta þeim burt úr huga sér sem blekkingu, – því að í raun og veru átti Þorlákur brennheita ósk í þessu máli, þótt hann viðurkenndi hana ekki nema stundum.
Allt í einu reis verkamaðurinn til hálfs upp í rúminu og hlustaði. Hann heyrði greinilega umgang frammi á ganginum. Hver gat verið að þvælast hingað inn um hánótt? Þorlákur vippaði sér fram út rúminu, fór í utanyfirbuxurnar, lét á sig skógarmana og beið þess, að barið yrði. En það heyrðist ekkert frekar. Hafði honum misheyrst? Það gat svo sem vel verið. En til vonar og vara kveikti hann á eldhústýrunni og gekk með hana fram á ganginn.
– Er nokkur hér? sagði hann.
Ekkert svar.
Hann gekk utar eftir ganginum. Og hvað sá hann? . . . Húsfaðirinn stóð og gapti. Bækillinn lá þarna í einu horninu og handlék byssu.
– Hvað viltu hingað um hánótt? spurði húsfaðirinn.
– Ekkert, anzaði bækillinn.
– Vertu ekki með neinar undanfærslur. Hvað ætlar þú að gera með byssuna þá arna?
Bækillinn hélt verkfærinu fast upp að sér og hvíslaði:
– Þér kemur það ekki við. Þú getur komið þér inn og haldið áfram að sofa. Við erum fyrir löngu skildir að skiptum.
Þorlákur hengdi týruna á nagla í þilinu. Svo gekk hann nær bæklinum og sagði með þunga í röddinni:
– Mér kemur sannarlega við, hvað þú ætlar þér að aðhafast hér í minni eigin íbúð.
Andlit bækilsins afmyndaðist, og augun leiftruðu.
– Byssan er hlaðin, hvíslaði hann.
– Hún er í þinni ábyrgð, sagði húsfaðirinn. – Og ef þú gerir ekki tafarlaust grein fyrir fyrirætlan þinni, þá læt ég lögregluna hirða þig.
Bækillinn hló lágt og meinfýsilega. Svo hvíslaði hann:
– Ég er búinn að aðvara þig.
Húsfaðirinn þagði. Í hinu daufa skini frá týrunni sá hann, að bækillinn var undarlega fölur, og að rauðir dílar mynduðust öðru hverju í andliti hans. Þessi vesalingur hafði auðsýnilega verið sárþjáður að undanförnu. Augu hans voru heit og ofsafengin, en hið bjarta leiftur þeirra var horfið. Að öllum líkindum var hann ekki fyllilega með sjálfum sér. Húsföðurnum fannst að minnsta kosti öruggast að hafa vaðið fyrir neðan sig. Hver vissi, hverju þessi aumingi kynni að finna upp á? Það voru aðeins nokkur fótmál á milli þeirra. Og Þorlákur steig einu skrefi nær bæklinum, rólegur og ákveðinn.
– Hvað viltu mér? hvíslaði vesalingurinn, heiftþrunginni röddu.
Húsfaðirinn steig annað skref.
– Áreiðanlega ekkert nema gott eitt, sagði hann, greip föstu taki um hinn granna handlegg bækilsins og tók af honum verkfærið.
– Þú lýgur! sagði bækillinn nístandi röddu. – Ég kom hingað til að deyja, en þú meinar mér það. Ég veit, að þér finnst það alltof gott fyrir mig. Ég hata þig. Þú ert níðingur. Þú hefur alltaf staðið í vegi fyrir mér. Þú hefur tekið frá mér alla gleði. Þú hefur pínt mig og kramið með háði þínu og lítilsvirðingu . . . Bækillinn lá flatur á köldu steingólfinu og grét sárt.
Húsfaðirinn kraup við hlið hans, orðlaus og hryggur. Hann lagði arm sinn yfir um brjóst bróður síns. Þar barðist sundurkramið hjarta.
– Láttu mig í friði, sagði bækillinn. Hann reyndi ekki til að hrinda Þorláki frá sér. Það kenndi heldur ekki reiði í rödd hans, bara tómleika. Ef til vill fann hann hlýju í viðmóti húsföðurins. Eftir langa þögn sagði Þorlákur:
– Hvað hefur komið fyrir þig, bróðir?
– Ég get engum sagt það, engum. Það er svo hroðalegt. Ég get ekki afborið það. Ég verð að deyja, stundi vesalingurinn. Hann þagði um stund. Svo hvíslaði hann með vaxandi ákefð:
– Jú, ég ætla að segja þér allt, allt. Þá kannske sannfærist þú um, að það er miskunnarverk að lofa mér að deyja. Ég laug því að sjálfum mér, að allt mitt ólán væri þér að kenna. Ég hef líka reynt að telja mér trú um, að dauði móður minnar væri mér óviðkomandi. En ég gat aldrei trúað fyllilega á lygina. Mér hefur aldrei tekizt að svæfa samvizku mína. Ég hef ævinlega borið heita þrá í brjósti eftir að verða dugandi maður, en aldrei eignazt manndáð til að fullnægja þeirri þrá. Ég hef lagt á flótta frá því bezta, sem í mér býr. Ég hef leitað mér fróunar í nautninni, en aldrei fundið þar nema stundarsvölun . . . Hann stundi þungt og sárt. Svo hélt hann áfram:
– Tveim mánuðum eftir að ég kom til vinkonu minnar, fæddi hún mér andvana barn, eins og þú hefur sjálfsagt frétt. Ég trylltist. Ég vissi ekki, hvað ég gerði. Ég jós yfir hana skömmum, meðan hún lá veik. Ég sagði, að hún hefði drepið barnið. Ég hafði lifað eins og maður síðustu vikurnar, sem hún gekk með. Ég vann heima, meðan hún vann út á við. Ég hafði gert mér svo bjartar vonir um barnið. Ég hafði fullvissað sjálfan mig um, að með því að verða faðir, byrjaði nýtt líf fyrir mér. Ég mundi elska barnið, verða góður og lifa eingöngu fyrir það. Já, ég hafði hugsað mér að vaka yfir því og vernda það . . . Ég reyndi lengi vel að telja mér trú um, að það, sem ég hafði sagt við vinkonu mína á sænginni, væri sannleikanum samkvæmt, en ég gat aldrei fengið mig til að trúa því. Ég vissi alltaf, að ég var morðinginn. Ég vissi, að hún hafði fætt fyrir tíma af of miklum þrældómi. Ég hafði ekki haft manndáð í mér til að hafa fyrir henni og barninu mínu. Þessi hryllilegi sannleikur særði mig alltaf dýpra og dýpra. Í örvinglan minni réðst ég oftsinnis á hana og barði hana. Stundum gat ég náð í hár hennar og dregið hana á því eftir gólfinu. Hún kveinkaði sér sjaldnast, skammaði mig aldrei, en reyndi oft að tala um fyrir mér með góðu. Við það espaðist ég enn meira og gekk lengra og lengra í misþyrmingum mínum. Oft sagði hún:
– Ég hef ekki brjóst á að reka þig frá mér. Þú átt svo bágt. Það hafa engir leitað skjóls hjá mér nema þú einn. Mig langar til að reynast þér vel . . .
Ég fann alltaf betur og betur, að hún aumkaðist yfir mig. Slíkt gat ég ekki afborið. Ég var oft tímunum saman í burtu frá henni og hótaði með sjálfum mér, að ég skyldi aldrei stíga fæti mínum inn til hennar framar, – en án vilja míns barst ég alltaf heim að dyrum hennar. Og hún tók ævinlega vel á móti mér, gerði mér allt það gott, sem hún gat. Ég þráði stöðugt að koma heim til mömmu, en mér fannst þú standa á milli okkar eins og ókleifur hamar. Fyrir augum mínum hefur þú barizt þeirri baráttu, sem ég var ekki nógu mikill maður til að takast á hendur. Ég öfundaði þig sannarlega. Ég lagði á þig hatur. Ég reyndi að telja mér trú um, að hvatningarorð þín væru sögð af illgirni, – til að draga mig sundur og saman í háði, eins og svo margir aðrir hafa gert . . . Bækillinn þagnaði um stund. Það var eins og hann brysti kjark til að halda lengur áfram. Hann bærði varirnar, án þess að segja nokkuð. En brátt byrjaði hann aftur að hvísla, en svo lágt, að húsfaðirinn átti örðugt með að heyra til hans:
– Vinkona mín er nú í annað sinn komin fast að barnsburði. Hún hefur verið í fiskþvotti hjá Gesti Jónssyni, síðan verkfallið hófst. En í dag fór hún ekki til vinnu sinnar. Hún sagði mér, að hún vænti sín þá og þegar. Ég sá hana breiða hreint á rúmið sitt og laga allt til í kringum sig eftir beztu getu. Hún sagðist vera sannfærð um, að barnið kæmi á réttum tíma. Og mér fannst það nú líka geta staðizt nokkurn veginn. Ég reyndi að vera góður við hana og sagði henni, að ég tryði því, að þetta færi allt saman vel. Hún yrði móðir, og ég yrði faðir, og þar með yrðum við hamingjusamar manneskjur. Ég laug. Ég var viss um, að barnið kæmi andvana. Já, ég veit, að það fæðist dáið. Guð gefur mér ekki barn. Hann veit, að ég er ekki verður svo stórrar gjafar. Ég er hættur að láta mig dreyma um hamingju. Fyrir mig er engin hamingja til í þessari veröld. Ég hef látið öll tækifæri ónotuð. Og nú er allt um seinan. Þú hlýtur þó að skilja, að ég á tilfinningar eins og önnur lifandi kvikindi. Mér er um megn að sjá annað barnið mitt liðið lík. Hvað sem hver segði, mundi ég vita, að ég væri ekki saklaus af dauða þess . . .
Bækillinn greip um höfuð sér og reri flötum beinum á gólfinu. Honum var um megn að gráta lengur. Hann gat varla náð andanum fyrir ekka. Kraftar hans voru alveg á þrotum. – Vertu sæll, bróðir; nú lofar þú mér að vera einum og deyja í friði. Engum er fært að hindra mig í ákvörðun minni. Allir, sem ég þekki, eiga að einhverju leyti sökótt við mig. Fyrir stuttu síðan ógnaði ég þér með hlaðinni byssu.
– Það er gleymt, sagði húsfaðirinn.
Bækillinn horfði lengi á bróður sinn í orðlausri undrun. Svo hvíslaði hann:
– Getur þú fyrirgefið?
Það mynduðust djúpar hrukkur á enni Þorláks. Eftir langa þögn sagði hann yfirvegandi:
– Mamma hugaði hlýtt til þín fram í andlátið. Ég gæti trúað, að hún gerði það enn. Hann strauk yfir enni bróður síns og spurði: – Líður þér betur núna?
– Hún tekur þá á móti mér, þegar ég kem? sagði bækillinn án þess að hafa heyrt spurningu bróður síns.
– Já, ef þú kemur, þegar þú átt að koma, sagði húsfaðirinn.
– Ég get ekki beðið með það lengur, stundi bækillinn.
Verkamaðurinn hnyklaði brúnirnar. Hann sagði af meiri móð en áður.
– Ef manni hefir orðið eitthvað á, þá er að reyna að bæta fyrir það, eftir því sem maður hefir vit og getu til; allt annað er óheilbrigt. Þú ert áreiðanlega ekki eins slæmur og þú heldur. Ég er viss um, að þetta fer allt saman vel. Það er bezt, að þú verðir hérna hjá okkur. Júlía fer og vitjar konunnar. En nú skulum við koma okkur inn. Það getur slegið að þér.
Bækillinn lá hreyfingarlaus og með lokuð augu. Hann var náfölur í andliti og sagði ekki orð. Uppgjöf hans var fullkomnuð.
Húsfaðirinn tók hann upp og bar hann inn. Það fór hálfgerður hrollur um Þorlák við að finna þennan vesaling í fangi sínu. Hann var svo léttur, orðinn upptærður af vanlíðan og kröm. Hinar djúpu hrukkur á enni verkamannsins urðu enn dýpri. – Það þola ekki allar jurtir sama jarðveginn, hugsaði hann.
Júlía klæddi sig strax og fór til konunnar. Hún kom von bráðar aftur.
Barnið er enn ófætt, sagði hún. Svo þagnaði hún um stund og brosti við bæklinum. Síðan sagði hún: – Henni líður vel. Hún er svo glöð yfir því, að þú skulir vera hjá okkur. Hún hélt kannske, að þú hefðir farið eitthvað annað.
Bækillinn leit tómlátlega á hjónin. Svo breiddi hann sængina upp yfir höfuð sér.
21.
Verkamaðurinn sneri andlitinu í goluna.
Stundum komu ískaldar vindstrokur, sem gáruðu sléttan hafflötinn. Það var dökkur illviðrisbakki í norðri. Hann hækkaði stöðugt – og þynntist, eftir því sem ofar dró. Efst var hann orðinn sundurslitinn í svartar flygsur, sem líktust mest dökkum ófreskjum á bláum himninum.
Stórt vöruflutningaskip skreið hægt inn fjörðinn. Svartar reykjarsúlur stigu upp frá því og eins og samlöðuðust hinum dimmu skýjum himinsins. Þorlákur gat skipinu auga, en brátt sneri hann við því baki og hélt heim á leið. Honum kom þetta skip ekkert við. Það yrðu líklegast einhverjir aðrir en hann, sem ynnu við það. Hann hafði áreiðanlega ekkert gott af komu þess hingað, – eða hélt hann kannske, að bláókunnugir menn sunnan af landi færu að senda fólkinu hérna hjálp, undir slíkum kringumstæðum sem þessum? Ætli flestir litu ekki svo á, að uppreisn sú, sem hér hafði verið gerð, ætti engan rétt á sér? Húsfaðirinn vissi það sannarlega ekki. Það var víst allt leyfilegt nú til dag.
Upp úr hádeginu gerði aftakaveður. Snjónum kyngdi niður. Öldurnar æddu í stórfylkingum upp á grýtta ströndina og hömuðust þar í heiftarbræði.
Maður og kona:
Þau sátu tómhent í kjallaranum.
Júlía var að bæta buxur. Húsfaðirinn horfði í andlit hennar. Honum fannst hann aldrei hafa séð það eins greinilega og í dag. Traust og von! Þetta tvennt var hrópað inn í hug hans út úr þessu andliti. Hann var sá grundvöllur, sem hún byggði á vonir sínar og traust. Hann hafði aldrei svikið hana eða heimilið, og það var orðið að trú hjá henni, að hann gerði það aldrei, en það höfðu aðrir svikizt undan merkjum – gagnvart honum . . . Allt í einu stóð Þorlákur upp, gekk út að glugganum og horfði á blindöskuhríðina hamast. Hin köldu ískorn lömdu svo miskunnarlaust á rúðunum, að þær emjuðu og veinuðu ámátlega . . . Nú fann verkamaðurinn það með öllum sínum tilfinningum, hvað mennirnir stóðu sundraðir. Sundrungin hafði þegar búið honum tíu daga atvinnuleysi og þungbært hugarstríð. Og ef til vill mundi henni takast að hrekja hann út á þá braut, sem flestir öreigar verða að ganga, þegar í nauðirnar rekur:
Þiggja! . . .
En mundi hann? . . .
Húsfaðirinn hvessti augun.
Telpan hans: Það var þá fyrst og fremst hennar vegna. Hún var aumingi, sem ekki mundi þola sultinn mikið lengur, þótt stundum væri aumkast yfir hana af ókunnugum og henni gefin mjólk . . . Andlit verkamannsins var eins og smækkuð mynd af grjótauðn, sem kaldur snjór vetrarins hefir breitt sig yfir hér og hvar. Júlía horfði á hann með hlýju brosi. Það eins og yljaði honum um hjartaræturnar, og jafnskjótt mátti í hinum myrku augum hans sjá örlítið skin af bjartri von, sem minnti svo mjög á gróandann, er vex í skjóli fjallanna.
– Okkur verður send hjálp, hafði yngri strákurinn sagt svo áfjáður.
En hvað var verkamaðurinn að brjóta heilann um annarra hjálp? Hann sá víst enga möguleika til að brjóta sér af sjálfsdáðum færa leið út úr ógöngunum, Samt hafði hann fyrir stuttu síðan gerzt svo fífldjarfur að taka vesaling inn á heimili sitt . . . Verkamaðurinn stóð þannig nokkur augnablik auglitis til auglitis við sinn eigin vanmátt, en ekki nema nokkur augnablik. Svo fór hann aftur að leita fyrir sér, – hvort hann fyndi ekki eitthvað til að grípa í á ólgusjó mannlífsins. En hann fann ekkert, bara sló einlæg vindhögg út í loftið: Maður í sjávarháska teygir hendur sínar með áfergju eftir bjarghring, sem er kastað til hans að utan. Ætlaði Þorlákur Þorláksson að gera slíkt hið sama? Á yfirborðinu afneitaði hann því.
Undir kvöld kom Kjartan Ingi rogandi með stóran matvælapoka á bakinu. Þetta kom Þorláki ekki á óvart. Júlíu brá sýnilega.
– Hvaðan kemur þú með mat? spurði faðirinn.
– Hann er frá Sambandi íslenzkra verkalýðsfélaga, anzaði sonurinn.
Faðirinn horfði á metföngin.
– Er þetta gefins? spurði hann.
– Nei, það er alls ekki gefins. Þessi hjálp er okkur send, til þess að við getum haldið áfram baráttu okkar. Við höfum sent Gesti Jónssyni úrslitakosti. Og ef hann þrjóskazst, munum við taka til okkar ráða. Hann hefir tvo daga til umhugsunar . . . Kjartan Ingi hætti að tala og var horfinn á dyr um leið og hann sleppti síðasta orðinu.
Reiðin svall í húsföðurnum.
– Það er naumast, að strákurinn tekur upp í sig. Það vantar ekki í hann andskotans gorgeirinn! Þorlákur var kominn fast að því að hrópa á eftir Kjartani Inga, skipa honum á burt með þetta, en það sljákkaði fljótlega í gamla manninum, því að undir niðri hafði hann alltaf óskað eftir þessari úrlausn.
– Kannski fer nú eitthvað að gerast, sem púður er í, hugsaði hann. – Þetta eru að minnsta kosti allt saman hraustir karlar og trúandi til alls.
Verkamaðurinn hló hlakkandi.
Grjót og gróður 22. – 23.
Til baka