1. Fóstra
Gamla konan bjó ein í snotru húsi spottakorn fyrir innan þorpið. Hún var orðin frekar heyrnarsljó og sjóndöpur og gaf sig lítið að fólkinu í þorpinu, en hélt sig mest innan dyra. Allan daginn var hún að snotra til í kringum sig. Svo átti hún nokkur hænsni, sem hún hugsaði um af mikilli prýði. Verst þótti henni að hafa engan til að tala við, því einhvern veginn hafði hún aldrei haft verulegt yndi af að spjalla við hænurnar.
Gamla konan var því oft dálítið einmana. En skömmu fyrir jólin í fyrra bættist henni nýr vinur og félagi. Upp frá þeim degi fann hún ekki lengur til einveru. Þessi nýi kunningi hennar var nokkurra mánaða gamall grís. Grísar-Manga hafði fært henni grísinn að gjöf og sagt henni að hafa hann í jólamatinn. En þegar til kom, hafði gamla konan ekki getað fengið af sér að farga grísnum. Grísinn hafði heldur ekki verið lengi á heimili hennar, þegar gamla konan tók eftir því, að hann hlustaði með stakri athygli á allt, sem hún sagði. Og hann var svo dæmalaust hýr á svipinn, og svörtu augun ljómuðu eins og demantar, og svo átti hann til að fitja svo kátlega upp á trýnið, að gamla konan gat ekki varizt hlátri. Og litli grísinn var hreint það þrifalegasta húsdýr, sem gamla konan hafði þekkt um ævina. Stían hans var undur hreinleg. Matartrogið var alltaf í sama horninu. En grísinn hafði valið sér annað horn til að sofa í, og í þriðja og fjórða horninu gerði hann þarfir sínar. Hálmurinn, sem hann svaf á, var jafnan tandurhreinn. Annars ataði litli grísinn sig oftar út en önnur húsdýr. En hann gerði það í þrifnaðarskini. Hann baðaði sig í sorpinu. Eftir baðið lét hann eðjuna þorna á skrokknum á sér, síðan hrökk hún af og tók með sér öll óhreinindi, sem safnast höfðu fyrir í húðinni. Og nú var grísinn fannahvítur, og þannig undi hann sér bezt.
Gamla konan leit á litla grísinn eins og mennskan mann og kallaði hann jafnan Gulla sinn, en einn sona hennar hafði einmitt borið það nafn. Skömmu fyrir vorið voru þau grísinn og gamla konan farin að tala saman rétt eins og hvert annað venjulegt fólk. Gömlu konunni kom það alls ekkert á óvart, að grísinn skyldi geta talað mannamál. Ónei, hann Gulli hennar var öllum fremri, og hann mundi eiga eftir að sýna það áður en langir tímar liðu.
Gamla konan gat stundum ekki á sér setið og gerði sér ferð inn í þorpið, eingöngu til þess að dásama Gulla sinn. Nágrannarnir vildu ekki styggja gömlu konuna, en létu sem þeir tækju allar kynjasögurnar trúanlegar, sem hún sagði af Gulla.
Svo var það einn góðviðrisdag um vorið. Bletturinn gömlu konunnar var orðinn grænn og fagur. Og gamla konan og Gulli sátu í ungu grasinu og horfðu út á þjóðveginn, sem lá inn í þorpið.
Til þessa hafði Gulli aldrei fengið að fara út fyrir girðinguna. En óneitanlega brann hann í skinninu eftir að sjá sig um í veröldinni. Hann vissi mæta vel, að úti í heiminum voru til börn, sem voru alveg nákvæmlega eins og hann. Það voru grísabörn. Og hann vissi líka mæta vel, að fyrir langa löngu hafði hann verið hjá grísa-mömmu og grísa-pabba og átti stóran systkinahóp. Bezt gæti hann trúað, að fólkið hans ætti heima einhvers staðar í þorpinu. Hann hafði stundum minnzt á þetta við gömlu konuna, einkum eftir að hlýna tók í veðri, en hún hafði eytt öllu slíku tali, eða þá að hún hafði ekki þótzt heyra neitt af því, sem Gulli sagði. Þetta gerði ekki annað en að auka á forvitni hans og löngun eftir að sjá sig um í heiminum og leita uppi sín nánustu skyldmenni. Og nú sat hann þarna í grasinu og lét sig dreyma um framtíðina. Gamla konan laut að honum og sagði:
– Þú ert eitthvað svo þögull, Gulli minn. Hvað ertu nú að hugsa?
En Gulli vildi ekki tala um hug sinn við gömlu konuna. Hann vissi að það mundi bara angra hana. Hann horfði stöðugt út á Þjóðveginn. Í nokkurri fjarlægð sá hann innstu húsin í þorpinu. Þaðan bárust kliðmjúkir og kátir hljómar.
– Hvaða söngur er þetta, fóstra mín? spurði hann.
– Það eru börnin í þorpinu að leika sér, anzaði hún.
Gulli þagði. Þá sagði gamla konan dálítið angurvær:
– Ertu alltaf að hugsa um að strjúka frá mér?
– Nei, fóstra mín.
– Ójú, þú vilt að ég hleypi þér úr um hliðið, sagði gamla konan stygg í máli. – En það verður nú bara ekkert af því, og það veiztu vel. Hér hefur þú allt, sem þú þarfnast. Ég sé þér fyrir öllu. Ég hef átt mörg börn. En öll mín börn eru fyrir löngu stokkin frá mér, og ég sé þau aldrei aftur.
– Ég ætla bar að sjá mig um, sagði Gulli.
– Já, þetta segið þið öll. Þið ætlið bara að sjá ykkur um. Einmitt það. En svo gleymið þið gömlu konunni. Og ég verð alein eftir. Viltu það?
– Nei, fóstra mín. Ég kem nærri strax aftur. Og ég skal segja þér frá öllu sem ég sé.
– Þvaður, sagði gamla konan. – Ég hef sagt þér, að ég skuli taka þig með mér til þorpsins seinna í sumar, og við það situr.
– En fóstra, það er svo langt þar til seinna í sumar. Og svo ætlar þú að hafa á mér band, en þannig vil ég ekki fara út í heiminn.
– Nei, auðvitað ekki, kálfurinn þinn, sagði gamla konan, og henni var nú orðið æði þungt í skapi. – Og hvers vegna ætti ég að hafa á þér band. Nei, mikil firn. En reyndu að skilja það, að þú kannt ekki fótum þínum forráð, svo bandið er nauðsynlegt.
Þá sagði Gulli:
– Ég hef séð börnin leika sér á þjóðveginum. Þau eru ekki bundin. Þau hoppa um frjáls og glöð.
Gamla konan fussaði.
– Þú þekkir ekki heiminn, sagði hún svo. – Farir þú einn til þorpsins er ekkert vísara en að þú komir limlestur til baka. Það er bíll í þorpinu. Hann gæti ekið yfir þig. Það eru líka til hrekkjóttir strákar í þorpinu. Þeir gætu átt til að leika þig grátt. Hugleiddu þetta, áður en þú hafnar mínum ráðum.
En Gulli hugleiddi þetta ekki. Hugur hans var fullur af ævintýraþrá og fögrum vonum. Hann átti bæði orku og þor til að ráða sér sjálfur. Dýrasti draumur hans var að sjá foreldra sína og systkini. Og hann ætlaði að dveljast hjá þeim og aldrei fara burt aftur, bara ef hann gæti orðið þeim að einhverju liði.
Í næsti kafla . . .
Í efnisyfirlit