Óskar Aðalsteinn

Ennþá gerast ævintýr

Saga handa litlum börnum

Með 20 myndum
eftir

Sigurð Guðjónsson

 

_______________________________


2. Surtur

_______________________________

Næsta dag var Gulli grís á stöðugu vakki við garðshliðið, þegar gamla konan var hvergi nærri. Hann neytti allrar hugkvæmni sinnar til að lyfta klinkunni, sem lokaði hliðgrindinni. Hann komst upp á það lag, að fara með trýnið undir klinkuna, en hafði ekki bein í nefinu til þess að lyfta henni nægilega mikið.

Gamla konan stóð hann ekki að verki, en hún tók fljótlega eftir því, þótt sjóndöpur væri, að nefið á honum hafði eitthvað aflagazt.

Þú hefur þó ekki lent í bardaga hér í garðinum mín, sagði hún.

– Af hverju heldurðu það? anzaði hann.

– Ég skal lofa þér að líta í spegilinn, sagði þá gamla konan. Svo náði hún í spegilinn og lét Gulla sjá framan í sig. Hún sýndi honum jafnan í spegilinn á sunnudögum, og þá varð henni oftast þetta sama að orði: – Sjáðu nú hvað þú ert orðinn fallegur, Gulli litli . . .

En nú sagði hún:

– Finnst þér þú vera frýnilegur?

Nú skildi Gulli fyrst, hvernig í öllu lá. En hann sagði ekki neitt. Satt að segja var hann kominn í mestu klípu. En hann kaus heldur að þegja en að koma upp um sig.

– Eitthvað er það, sagði gamla konan. Og þegar Gulli hélt áfram að þegja, bætti hún við. – Þú veizt einhverjar skammir upp á þig. Það leynir sér ekki. Og ef ég sé þig svona útleikinn oftar, þá sleppurðu ekki undan refsingu. Gulli lagðist nú fyrir í hvítum hálminum í stíunni sinni og ætlaði að hugsa ráð sitt. Það hafði verið afþiljuð svolítil kró fyrir hann í hænsnahúsinu. Hann heyrði að hænurnar möluðu saman í lágum rómi á prikunum sínum og þótti það ekki óskemmtilegt skvaldur. Hanarnir voru tveir, annar rauður, hinn svartur, og báru nafn eftir lit. Og nú byrjaði sá svarti að ólátast líkt og óður væri. Aumingja hænurnar flýðu dauðskelkaðar niður af prikunum sínum og út í garðinn. Surtur elti þær uppi og hamaðist sem mest hann mátti.

Þetta var ekki nýtt. Svona lét Surtur oftast. Hann var friðarspillir og skemmdarvargur, og hann hafði nær því gert Rauð að sama villidýrinu og hann var sjálfur.

Gulli kímdi í eigin barm, strax og hann heyrði rokurnar í Surti. Já, honum hafði flogið snjallræði í hug. Og nú þaut hann út að garðshliðinu og hamaðist á klinkunni af meira fjöri en nokkru sinni fyrr. Trýnið á honum þrútnaði og þandist út, svo ekki var sjón að sjá. Þegar hann hafði þreytt þennan leik um stund, þaut hann inn í miðjan hænsnahópinn og gerði þar ógurlegan usla.

Gamla konan var að vísu heyrnarsljó, þó fór ekki hjá því, að hún heyrði óminn af öllum þessum ófögnuði, enda kom hún brátt út í garðinn með kökukeflið á lofti og hrópaði í bræði sinni:

– Hafið ykkur hæg, skammirnar ykkar, eða ég skal mala í sundur hvert einasta bein í skrokknum á ykkur!

Þegar kyrrð var komin á og hænsnin höfðu dreift sér um garðinn, leit Gulli með frómum svip á gömlu konuna og sagði ósköp stillilega:

– Líttu nú á trýnið á mér.

– Já, það er sem ég segi, þú þarft víst ekki út á götuna til þess að limlesta þig, sagði gamla konan.

Gulli svaraði eftir stutta þögn:

– Þetta er eftir hann Surt þinn. Hann er farinn að fljúga á mig, hvenær sem honum gefst færi til þess. En það gerir ekkert til með mig. Það er verra með hænugreyin, hvernig hann lætur við þær. Hann gefur þeim ekki einu sinni frið til að verpa.

Gamla konan mýktist öll við þessi orð og fór að stumra yfir Gulla sínum. Hún hafði stór orð um.Surt og sagðist skyldi hugsa honum þegjandi þörfina, ef hann léti ekki af ótuktarskapnum. Að svo mæltu tók hún Gulla með sér heim í húsið, þvoði trýnið á honum upp úr bórvatni og bar á það græðismyrsl. Og nú vonaði hún að allt yrði gott aftur.

En Gulli hélt áfram að hamast á garðshliðinu, þegar gamla konan sá ekki til. Hann var fyrir löngu farinn að lyfta klinkunni meira en til hálfs. Satt að segja vantaði hann ekki nema herzlumuninn til að ná takmarkinu.

Gömlu konunni brá heldur en ekki í brún, þegar:Gulli varð bíldóttari í andliti með hverjum deginum sem leið. Og oft sagði hún sem svo við sjálfa sig:

– Ja, þessi börn. Það er meiri mæðan að stríða við þau. En þetta er það, sem maður óskar eftir.

Þar kom að lokum, að gamla konan afréð að sækja slátrarann.

Þá brá Gulla verulega. Honum hafði þótt afar leitt að þurfa að leika á fóstru. En hvað gat hann annað gert? Nú stundi hann upp mjög lúpulegur á svipinn:

– Þú ætlar þó ekki . . .

– Ætla ég ekki hvað? greip gamla konan fram í nokkuð þykkjuþung. – Láttu mig alveg um það. Það er vist ekki hætta á öðru en slátrarinn geti selt hann Surt fyrir offjár. Svo læt ég hann hafa elztu hænurnar mínar líka. Það er ekkert gagn að þeim lengur, og ekki eftir neinu að bíða að losa sig við þennan fénað.

– Hvað gerir slátrarinn við gömlu hænurnar? spurði Gulli varfærnislega.

Nú brosti gamla konan dálítið kuldalega og sagði:

– Hvað ætli hann geri við þær? Ætli hann höggvi þær ekki. Og svo selur hann þær í stóra kaupstaðinn sem kjúklingakjöt. Já, sláttarinn, það er nú karl, sem kann að lifa.

Gulli anzaði þessu engu. En hann setti sér að hugsa betur um þetta seinna.

[ Slátrarinn ]

Þú ættir sjálfur að vera gömul hæna í poka!

Svo kom slátrarinn, kraftalegur sláni með svartan og úfinn hárlubba. Hann tíndi saman gömlu hænurnar með snöggum handtökum og stakk þeim niður í poka, og Surtur fór sömu leiðina. Að svo búnu slengdi slátrarinn pokanum á bak sér og bað gömlu konuna vel að lifa. Þá sagði Gulli grís:

Þú ættir sjálfur að vera gömul hæna í poka!

Slátrarinn glennti augun upp á gömlu konuna og stamaði:

– Var . . . var svínið eitthvað að segja?

– Ójú, sagði gamla konan með fullri einurð og nokkurri glettni í rómnum. – Hann Gulli minn sagði, að þú værir bezt kominn eins og gömul hæna í poka. Og hana nú.

Slátrarinn var svo undrandi yfir þessum atburði að hann kom. ekki upp neinu orði. Hann gekk öfugur út úr garðinum með pokann á bakinu og skellti hliðinu hranalega á eftir sér.

Gamla konan leit kankvíslega á Gulla sinn og sagði:

– Nú er ekki Surtur lengur til að skaprauna þér. En það skyldi þó ekki vera að þú lumir á einhverju, sem þú vilt ekki segja mér?

– Ekki svo ég muni, sagði Gulli frómur á svipinn.

– Ekki það? sagði sú gamla og gekk til bæjar.

_______________________________

Í næsti kafla . . .
Í efnisyfirlit

_______________________________